1177 - Arnarker

Þegar ég skrifaði um Tintron-ferðina um daginn komu fleiri hellaferðir upp í hugann. Ég var nefnilega einu sinni með hálfgerða helladellu. Hjá Benna var hún algerð held ég. Hann átti bókina Hraunhellar á Íslandi og þekkti út í hörgul það sem skrifað hafði verið um einstaka hella. 

Það hefur verið einhverntíma nálægt 1990 sem okkur hugkvæmdist að fara í ferðalag í hellinn Arnarker sem er í Leitarhrauni skammt austan við Selvogsheiði og ekki langt frá bænum Hlíðarenda í Ölfusi. Eflaust hefur Benni verið með í ferðinni þangað og Bjarni einnig. Hafdís var það líka og að sjálfsögðu Bjössi bróðir. Sennilega hafa fleiri verið með í ferðinni en ég get ekki munað það og engin er ljósmyndin til að styðjast við.

Bjössa hafði verið sagt hvar hellinn væri að finna en enginn í leiðangrinum hafði komið í hann áður. Þegar þetta var sást hvergi slóði og enginn var stiginn niður í hellinn eins og nú er.

Ekki er að orðlengja það að hellinn fundum við fljótlega og var það líklega talsvert afrek. Við okkur blasti skyndilega í móanum jarðfall mikið. Hrunið hafði úr loftinu á hellinum og var ekki annað að sjá en hann lægi bæði upp í Ölfus og útí Selvog. Bjössi dró nú fram kaðla sína og jummara og gengum við frá öllu sem tryggilegast og hófum við svo að renna okkur niður. Það gekk vel og eftir nokkra stund stóðum við öll á botni jarðfallsins eftir að hafa sigið mjúklega talsvert margar mannhæðir niður á við.

Hófst þá hellakönnunin sjálf. Fyrst fórum við í suðvestur og hafði okkur verið sagt að þar mætti komast þónokkuð langt með hægu móti en síðan vandaðist málið. Það reyndist rétt vera og komumst við ekki ýkja langt inn eftir hellinum þar (kannski 4-500 metra) þrátt fyrir góðan vilja. Snerum við þá við og héldum í hina áttina. Þar varð fljótlega fyrir okkur svell allstórt og grýlukertamyndanir margar og sérkennilegar. Ekki komumst við þó nema mjög stutt í þá áttina og urðum frá að hverfa.

Nú var uppferðin ein eftir og gekk hún ótrúlega vel. Þetta var nokkru fyrir Tintronferðina og hafði ég nógan kraft í uppferðina og tókst meira að segja ágætlega að vega mig uppá brúnina. Forugur varð ég þó allmjög því ekki varð komist hjá freklegri snertingu við fósturjörðina.

IMG 3497Laufblað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var með myndavél og á nokkrar myndir. Kem með þær við tækifæri.

Hafdís Rósa 22.10.2010 kl. 08:09

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hafdís. Flott er.

Sæmundur Bjarnason, 22.10.2010 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband