1154 - Kosið um Landsdómsfyrirköllun

Jafnvel er búist við atkvæðagreiðslu um landsdómsfyrirköllun á Alþingi í dag. Margir bíða úrslita í þessari atkvæðagreiðslu með talsverðri eftirvæntingu. Ég á von á að ef af henni verður muni hún ekki verða minnisstæð. Þó er erfitt að vera á annarri skoðun en að hún geti endanlega skorið úr um framtíðaráhrif og vald Alþingis Íslendinga. Líklegast er að ef tillagan verður felld verði áhrif Alþingis nánast engin í fyrirsjáanlegri framtíð og Samfylkingin gæti líka farið mjög illa útúr þessu. Mun líklegra er að Íhald og Framsókn haldi sínu.

Hvar liggja mínir hæfileikar? Einhvers staðar eru þeir og hljóta að vera. Eru það blogg skrifuð undir Sæmundarhætti? Líklegt er það. Annars væru þau varla nefnd eftir mér. Er ég þá ekki líka manna best fallinn til að skýra þennan vandaða blogghátt? Jú, að sjálfsögðu. Sæmundarháttur í bloggi er að blogga á svipaðan hátt og ég geri. Mest um blogg og sjálfan mig en þó svolítið um annað stöku sinnum. Gæta skal þess að móðga engan og helst má ekki minnast á hrun, stjórnmál og þessháttar málefni.

Fyrir mér eru blogg bókmenntagrein og ég tel sjálfum mér trú um að ég sé ákaflega flinkur bloggari. Það er ekkert sérlega erfitt. Mér finnst gaman að blogga. Einkum og sér í lagi vegna þess að ég þykist svo góður í því. Það er líka gaman að hrósa sjálfum sér. Aðrir gera það ekki. Það er þeirra vandamál.

Endalaust má bollaleggja um málfar. Sjálfur skrifa ég oft að eitthvað sé líklegt. Er það þá eins og lík, eða hvað? Látum ekki enska lækið trufla okkur þó búið sé að troða því kyrfilega í fésbókarlingóið eða jargonið sem allir kunna orðið hrafl í.

Já, ég er búinn að vera mikið í því að hrósa sjálfum mér hér á blogginu að undanförnu. Er jafnvel að hugsa um að taka Pálssoninn á þetta. Eins og sumir muna sem lengi hafa fylgst með bloggskrifum stundaði Stefán Pálsson það eitt sinn að fullyrða við hvert tækifæri sem bauðst (og þau voru allmörg í þeirri fréttaþurrð sem þá ríkti) að hann væri besti bloggari landsins. Á endanum voru sumir blaðamenn og jafnvel fleiri farnir að trúa þessu. Það er jafnvel ekki örgrannt um að það eimi eftir af þessu enn.

Því fer fjarri að Stefán sé besti bloggarinn á landinu né hafi nokkurntíma verið það. (Og eflaust ég ekki heldur). Það sem ég finn honum einkum til foráttu fyrir utan magnaðan besservisserahátt er hve ósýnt honum er um að viðurkenna nokkurntíma eigin mistök. Ef slíkt er borið uppá hann (sem er nokkuð oft) fer hann bara að tala um eitthvað annað. Þetta gera fleiri. T.d. eiga þingmenn flestir (og forystumenn flokka alveg sérstaklega) mjög erfitt með að viðurkenna eigin skeikulleika.

Málfar er mér oft ofar í huga en ég vil viðurkenna. Á það til að rífast hástöfum við sjónvarpið þegar ég þykist verða var við augljósar málvillur þar. Auðvitað þýðir það ekki neitt en stundum næ ég að skrifa slíkt hjá mér. Ég er þó ekki nærri eins duglegur við að safna ambögum og Eiður Guðnason. Sverrir Páll Erlendsson (en ekki Erlendur Sveinn Hermannsson eins og ég hélt fyrst að hann héti) kennari á Akureyri var líka duglegur við þetta og mig minnir að hann sé á Gúglreader-listanum mínum. Þarf samt að athuga það betur. Kannski er hann bara hættur þessu.

IMG 3205Blóm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Nú hefurðu aldeilis sofið yfir þig Sæmi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.9.2010 kl. 08:26

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Jóhannes. Þetta með tímasetninguna á upplódi er viðkvæmt atriði. Ég var bara orðinn svo syfjaður fyrir miðnætti í gærkvöldi að ég gat ekki beðið. Ef ég hefði sett þetta upp fyrir miðnætti heði allt verið ónýtt. Auðvitað er sumt í blogginu úrelt en það verður að hafa það.

Sæmundur Bjarnason, 29.9.2010 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband