1152 - Ljóðablogg

Eru bloggin að lengjast hjá mér? Já, en það er útaf sögunum. Á ég kannski að sleppa þeim? Mér þykir einmitt svo gaman að svoleiðis vitleysu. Framhaldssagan um hundinn síkáta gæti einmitt orðið að ódauðlegu bókmenntaverki með tímanum. Reyndar hafa færri áhuga á henni en dagbók borgarstjórans í Kardemommubæ.

Framvegis er ég að hugsa um að taka Jens á þetta. Það er að svara öllum athugasemdum sem ég fæ. Helst jafnóðum eða sem fyrst. Gott ef ég hef ekki sér svar fyrir hverja athugasemd. Óþarfi að vera að spara plássið.

Óskar Þorkelsson kvartaði undan of löngu bloggi. Ekki vil ég styggja hann. Datt samt í hug áðan að bæta við einum föstum lið í bloggið mitt. Sá á að heita: „Vefsetur dagsins". Sá nefnilega áðan eitt sem eflaust á erindi þangað. Það heitir harlenging.is (linkur) og er raunverulega til.

Líklega vantar Ingibjörgu Sólrúnu hörkuna og ófyrirleitnina sem Davíð Oddsson hefur og hafði. Ástæðan fyrir látunum í henni núna er eflaust sú að henni finnst sér ógnað. Sennilega hefur hún misst að mestu áhrif sín í Samfylkingunni en Davíð heldur sínu kverkataki á Sjálfstæðisflokknum. Ef kærumálin frá Atlanefndinni koma til atkvæða á Alþingi er alls ekki ljóst hvernig það allt saman fer. Kannski líst Jóhönnu illa á þá kattasmölun sem fram þarf að fara hjá Samfylkingunni svo hlutirnir gangi upp og mun því reyna að komast hjá atkvæðagreiðslu.

Hér er afspyrnugott nýort atómljóð sem heitir:

Súld

Það er kominn síðari hluti september.
Hlýtt samt.
Ánamaðkarnir hraða sér eftir malbikinu
á votum gangstígunum.
Laufin eru ekki enn fallin af trjánum.
Sums staðar eru samt gulnuð laufblöð á stígum og túnum.
Göturnar eru blautar.
Bílarnir hraða sér í burtu.
Grasið er grænna en það hefur nokkru sinni verið.
(sérstaklega hinum megin)
Sólin er í felum og himinninn grár.
Suðurloftið er bjart.
Litirnir eru allt öðru vísi en í sólskini.
Fáir eru á ferli.
Hundarnir skíta víst inni.

Nei, sennilega hef ég ekki neina sérhæfileika á þessu sviði. Samt er síðasta ljóðlínan nokkuð góð hjá mér. Bíð nú með öndina í hálsinum eftir að fótboltavertíðinni ljúki með sigri Breiðabliks. „Hvaða önd er það?" „Hef enga hugmynd." En haustvertíðarlok hljóta að vera á næsta leiti. Þá er hægt að fara að snúa sér að alvöruíþróttum eins og félagsvist, bingó og þess háttar.

Svo haldið sé áfram með framhaldssöguna þá er hundhelvítið farið að sofa. Búið að útvega rónanum brennivín og hætt við öll sjálfsmorðsáform. Sé illa framá að hægt sé að gera neðanmálssöguna spennandi með þessu áframhaldi. Verð að láta Snata lenda í einhverju krassandi.

Einu sinni hitti hann Balka og Stralka eða eitthvað þannig hétu þeir. Þá voru þeir nýkomnir úr geimferð og varla hægt að tala við þá fyrir monti. Nei annars, þetta er víst vitleysa hjá mér. Ætli þeir hafi ekki bara drepist í geimnum og öllum verið sama.

Reyni betur. Ljótasti hundur í heimi kom eitt sinn í heimsókn. Sá var nú ljótur. Svotil alveg hárlaus, önnurhver tönn brotin, annað eyrað horfið og allt eftir því. Konan mín teiknaði samt mynd af honum en myndavélin neitaði öllum vendingum.

IMG 3214Sóley sólu fegri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hræsnin sem í ljós er leidd
að lögmál eðlis engu lúti
og rúmsæng fyrir hunda reidd
en rónar látnir hírast úti

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.9.2010 kl. 11:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laxdal yrkir ljóð um hunda.
Löngum eru mál hans fá.
Þangað allir skulu skunda.
Skelfilegt að hlýða á.

Sæmundur Bjarnason, 27.9.2010 kl. 13:41

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Er eðlilegt að yrkja um dog?
Ekki skal ég dæma
En þetta er hálfgert hundablog
hjá höfðingjanum, Sæma.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.9.2010 kl. 15:07

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta er hálfgert hundablogg.
Höfðinginn það segir.
Allur reis hann upp við dogg
og ákaft sig nú hneigir.

Sæmundur Bjarnason, 27.9.2010 kl. 16:07

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

bara einn kaffibolli í þetta sinn ;)

Óskar Þorkelsson, 27.9.2010 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband