1150 - Blogg um blogg

Þrennt er það sem vinsælast er í bloggheimum (Moggabloggsheimum) Fyrst er að telja það sem vinsælast er en það er að blogga nógu oft á hverjum degi og tengja blogginn jafnan við vinsælar og mjöglesnar fréttir á mbl.is. Þetta gefst oft allvel en fáir nenna að standa í þessu lengi.

Trúmál kalla ævinlega á vissar vinsældir. Margir hafa unun af því að athugasemdast við svoleiðis blogg. Vinsældirnar geta þó brugðist því það er aðallega viss hópur ( og kannski ekki svo ýkja stór) sem eltir svona blogg.

Það er líka vinsælt að blogga um hrunið. Best er að þykjast vera hagfræðingur eða eitthvað þessháttar og taka stórt uppí sig. Tala mikið um hvað aðrir séu vitlausir og hve auðvelt hafi verið fyrir snillinga eins og þá sjálfa að sjá alla hluti fyrir sem hrunið snerta. Þetta er alltaf jafnvinsælt því fjöldi fólks bíður eftir sannleikanum stóra um þetta mál. Gott ef ekki er von á Messíasi.

Hér er til dæmis ágætt dæmi um hrunblogg:

Bílar geta verið t.d. bifreiðar eða sjálfrennireiðar. Skruggukerrur, kaggar, fóstureyðingartæki, druslur, statussymból og margt fleira. „Viltu færa þessa druslu þarna," heyrði ég kallað hér fyrir utan rétt áðan. Eigandanum hefur sennilega sárnað. Enginn vill eiga bíldruslu. Eru bíldruslur annars ekki orðnar stórum færri í umferðinni uppá síðkastið en áður var?

Stærri hús, betri bílar, malbikaðir vegir, fleiri kaffihús og matsölustaðir eru allt saman ávöxtur fjárfestingarfyllirísins sem hratt bankahruninu af stað. Og nú verðum við að borga fyrir þetta alltsaman hvort sem okkur líkar betur eða verr. Auðvitað líkar okkur það aðallega verr því útrásarvíkingarnir voru þurftafrekir í öllu sínu gulláti og komu jafnvel stolnum peningum haganlega fyrir í hinum fjölbreytilegustu skattaskjólum. Svo er að minnsta kosti sagt.

Sorgarbloggin voru líka einu sinni vinsæl en þær vinsældir hafa dvínað dálítið í seinni tíð. Gott ef þau eru ekki komin úr tísku. Þeir sem í erfiðleikum eiga og glíma við illvíga sjúkdóma ættu samt ekki að láta þessa aðferð alveg afskiptalausa.

Og smámálfarshorn eru ómissandi í vinsældasókninni. Hér er til dæmis smáklausa úr hægrimannaboðskap frá AMX: „Hugsjónir og hugmyndir sjálfstæðisstefnunnar eiga því undir vök að verjast."

Undir vök þær verjast best
og vökvun þurfa enga.
Af þeim sökum svíkja flest
og sjaldan ná að menga.

Já, það er gaman að blogga um blogg þó Gísli hlaupari kalli það ómerkilega iðju. Hvers vegna skyldi maður ekki blogga um blogg? Hvað er merkilegra en blogg? Er ekki sjálfsagt að blogga um það sem merkilegast er?

Það er skrýtinn skolli
að skjálfa af kuldahrolli,
en verða þó að vita
veröld fulla af hita.

Einu sinni orti ég
afar góða vísu.
En þegar kom að botninum
lenti ég í óttalegri krísu.

Var að enda við að setja saman eina flippaða sögu. Hún er svona:

Þegar Guð kíkti niður um gatið í skýjunum sá hann hvar róninn var í þann mund að taka hundinn upp á skottinu. „Þetta gengur ekki. Ég verð að gera eitthvað í þessu," hugsaði Guð með sér. Kallaði í Þór og bað hann að senda eldingu í rassinn á rónanum. Þá varð til vísan fræga:

Farðu í rass og rófu
ríddu grárri tófu.

Af einhverjum ástæðum man ég ekki botninn en það gerir ekkert til. Gott ef það mundi ekki skemma söguna ef ég hefði hann á takteinum. Nú, ég var semsagt staddur þar sem Guð kallaði á Þór. Í þessu er náttúrlega mótsögn en það vill svo til að Guð er Ásatrúar. Tölum samt ekki meira um það. Snúum okkur að hundinum sem var næstum tekinn upp á skottinu. Auðvitað leið honum ekki vel útaf þessu öllu saman. Það var samt ekki um annað að gera en að láta sem ekkert væri. Hann beit saman skoltunum og bölvaði í hljóði.

Róninn sem fékk rafmagnið í rassinn heitir Rögnvaldur Rögnvaldsson og er búinn að vera fullur í tvo mánuði. Ástæðan fyrir því að hann ætlaði að taka Snata upp á rófunni var sú að hann hlýddi honum ekki þegar hann sagði honum að fara og ná í flösku fyrir sig. Horfði bara á hann með spurnaraugum og lét eins og hann skildi ekki neitt.

Þetta gæti svosem verið ágætis byrjun á sögu. Hægt er að halda áfram með frásögnina af rónanum eða halda sig við hundinn. Auðvitað má líka halda áfram með hugmyndina um Guð (með stórum staf) sem kallar á Þór þegar hann þarf á hjálp að halda. Nenni samt ekki að fara útí guðspekilegar pælingar svo líklega vel ég annaðhvort hundinn eða rónann. Einn möguleiki enn er að hætta bara núna og hafa söguna ekki lengri. Held ég taki þá leið útúr þessari vitleysu.

IMG 3233Sannkölluð víðsýni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Máttu skrifa svona um róna, Sæmundur?  Eru ekki rónar minnihlutahópur sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér? Þar fyrir utan lýsa þessi orð bara fordómun þínum í garð róna. skammskamm.  

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.9.2010 kl. 03:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hafði eiginlega meiri áhyggjur af því hvort ég mætti skrifa svona um Guð almáttugan. Róninn getur þó borið hönd fyrir höfuð sér og svo má deila um hvort þeir eru minnihlutahópur!!

Svo vil ég líka helst skrifa eins og mér sýnist en ekki eins og sjálfskipuðum eftirlitsmönnum sýnist. Þannig var það samt í Sovétríkjunum sálugu að sagt er!!

Sæmundur Bjarnason, 25.9.2010 kl. 03:48

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Með nýjum fjölmiðlalögum verður frelsið takmarkað Sæmundur. Femínistar með sinn pólitíska rétttrúnað ráða hér umræðunni.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.9.2010 kl. 04:25

4 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég verð að viðurkenna að ég var einn af þeim, tja, sjálfsumglöðu "þetta áttirðu að geta séð fyrir" tegund af bloggurum. Ég var svo heppinn að selja allt mitt og flytja af landi brott áður en hrunið skall á af fullum þunga. En mér til varnar vil ég segja það að ég lifði eftir mögnuðum orðum föður míns "ekki skrifa upp á neitt sem þú getur ekki borgað" og trúði því í einfeldni minni að með því að benda á þennan einfalda sannleik þá myndi fólkið segja "já, auðvitað, þú hefur rétt fyrir þér".

Onei.

Eftir á að hyggja hefði ég mátt vera penari við að koma þessari skoðun minni á framfæri, ekki síst á þessum viðkvæmu tímum í lífi fólks. Ég sá hrunið ekki fyrir en ég sá mitt hrun fyrir og náði að afstýra því í tíma. Málið er að það er margt fólk sem að fór alls ekkert illa útúr hruninu en er að borga brúsann ásamt öðrum Íslendingum.

Í dag á ég hús sem að ég skulda ekki mikið af, vinnu þar sem ég þérna ágætlega og yndislega fjölskyldu. Ég þarf ekki meira en ég er til í að berjast með fólkinu sem missti sitt til að fá betra líf.

Ég vona að það jafni aðeins út hjá mér fyrri hroka.

Heimir Tómasson, 25.9.2010 kl. 04:52

5 identicon

Haltu þínu striki, Sæmi karl. Þú ert í hópi allra skynsömustu bloggara. Og verði þér úthýst af Mogganum, skal ég veita þér athvarf. Þar færðu að vísu mun færri athugasemdir, en þeim mun vitlegri. Það er stór kostur. - Og rónum veitum við alltaf dálitla úrlausn hér eftir sem hingað til.

Jón Daníelsson 25.9.2010 kl. 05:00

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Jóhannes það er ýmislegt að óttast við þessa pólitísku rétthugsun. Ekki dugir að beita afli. Kosturinn við þetta fólk er að flest tekur það rökum. Hugsar kannski einkennilega en sé því sýnt fram á vitleysurnar gefur það sig oft.

Heimir. Já ég veit að margir hafa sloppið sæmilega, ýmist fyrir eigin tilverknað eða fyrir heppni. Blóðugast er að það fái ekki notið þessa nema að litlu leyti. Ef reynt er að dreifa byrðunum sem jafnast er samt lítið við því að gera.

Takk Jón. Ég á samt ekki von á að styggja Moggabloggsguðina mikið. Ég kann orðið allvel á þá og gæti mín.

Sæmundur Bjarnason, 25.9.2010 kl. 07:10

7 identicon

Hópurinn sem skrifar um trúmál stækkar með hverjum degi, þegar ég byrjaði á þessu þá var hann ekki stór; Flestir voru bara ríkiskirkjuhausar og svo ruglukollar úr hinum ýmsu söfnuðum.

Þetta verður topp málaflokkurinn á næstu árum, fólk er að sjá í gegnum svikamylluna og leitar leiða til að koma þessu liði af spenum og innviðum samfélaga.

Þetta er helsta mannréttindamál mannkyns... ogt það erfiðasta, því trúhausar keyrast áfram af púra græðgi og hræðslu.

DoctorE 25.9.2010 kl. 09:35

8 identicon

Sjáið td hvernig JVJ notar sömu taktík og nasistar notuðu á gyðinga

Eftirfarandi í fréttinni má staldra við: "Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að samkynhneigðir eru líklegri en gagnkynhneigðir til að vera í stjórnunarstöðum og eru þar að auki betur menntaðir." Þetta er í fullu samræmi við það, sem ég skrifaði (að sjálfsögðu upplýstur af heimildum) í fyrri greininni, sem hér var vísað til, þannig:

  • "En eitt sem gerir þennan hóp meira áberandi en ella er sú staðreynd, að þetta fólk er yfirleitt betur stætt en almennt gerist; samkynhneigðir í Bandaríkjunum voru með 58% hærri tekjur en almennt meðaltal 1990 og sem einstaklingar með þrefaldar meðaltekjur einstaklinga, auk þess að hafa 3 árum lengri menntun að baki. Margir þeirra eru hæfileikamenn í ýmsum stéttum, m.a. í hópi leikara, listamanna, rithöfunda og fjölmiðlamanna ..."
http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/1098895/



Eins og sjá má þá er þetta beint frá hugmyndafræði nasista, þar sem gyðingar voru ríkir og menntaður.. blah



Einnig hengir JVJ sig í fjölda samkynhneigðra.. þeir eru færri en áætlað var.. og því er í lagi að gera eitt og annað.





DoctorE 25.9.2010 kl. 09:39

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Aldrei hef ég verið svo illa staddur að eiga undir vök að verjast. Hefur aðeins komið fyrir að ég hef átt í vök að verjast.

Sigurður Hreiðar, 25.9.2010 kl. 14:11

10 identicon

Eymingja Jón Valur. Jafnvel þegar hann er að reyna að tala eins fallega um homma og hann getur þá er hann samt sakaður um nasistaáróður.

Ef einhver hefur átt undir vök að verjast þá er það hann.

Hoppandi 25.9.2010 kl. 14:46

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Spurning hvort hægt sé að verjast yfir vökum.

Hrannar Baldursson, 25.9.2010 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband