999 - Ölfusá

Þegar farið er yfir Þjórsá nútildags verður maður varla var við það. Svo hefur ekki alltaf verið. Man vel eftir því þegar ég sá í fyrsta skipti það sem nú er kallað gamla brúin yfir Þjórsá. Þá var það nýja brúin á Þjórsá og ég hef væntanlega verið að fara með mömmu austur í Þykkvabæ. Velti fyrir mér hvort virkilega ætti að keyra eftir bogunum en svo var auðvitað ekki. 

Sagði um daginn stuttlega frá bók með greinum eftir Helga Ívarsson í Hólum. Hún heitir „Sagnabrot Helga í Hólum," og ég fékk hana lánaða á Bókasafni Kópavogs. Ein frásögn úr þeirri bók er mér af einhverjum ástæðum minnisstæðari en aðrar. Hún er svona: (ath. Þetta er skrifað árið 2008)

„Þó nú sé komið nokkuð á aðra öld frá því að sunnlensku stórárnar voru brúaðar, Ölfusá 1891 og Þjórsá 1895, vakir enn í huga mínum frásögn þátttakanda í ferjuflutningi sem ég heyrði í æsku. Læt ég hana fljóta með þótt hún sé miklu nær í tímanum en það sem er ritað hér að framan. Þegar ég var um tvítugt fyrir 60 árum heyrði ég á frásögn konu sem þá var áttræð en hún sagði frá því er hún var unglingur, þátttakandi í lestarferð sem fór yfir stórá á ferju, sennilega Ölfusá. Henni var minnisstæðast að ferjumaður og karlar þeir sem með lestinni voru þurftu að róa ferjuskipinu en hestarnir voru látnir synda á eftir. Því kom í hennar hlut að halda í taum á hesti sem synti næst skipi. Kveið hún því mjög því hún var smá vexti og létt og bar enn það vaxtarlag er hún sagði frá áttræð. Hélt hún að annaðhvort missti hún tauminn úr höndum sér og hestinn þar með út í ána eða þá hitt að hesturinn drægi hana fyrir borð svo létt sem hún var. Varð það úrræði hennar að hún lagðist á bakið ofan í skipið og spyrnti báðum fótum í þóftu sem var í afturstafni. Þetta dugði og allt fór vel en hún mundi þetta í sextíu ár og ég síðan í önnur sextíu og kem því nú á þetta blað. Þetta hefur gerst litlu fyrr en Ölfusá var brúuð."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur.

Nú stefnir í tímamót eða talnamót hjá þér því á morgun tekur nýtt þúsund við.

Það verða kannski deilur um það hvort ný talning að þúsund eigi að hefjast frá morgundeginum eða næsta degi.

Ég vil nota þetta tilefni til að þakka Sæmilegt blogg.

 

Kveðja

Guðmundur Bjarnason 23.4.2010 kl. 07:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Guðmundur.

Sæmundur Bjarnason, 23.4.2010 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband