3131 - Facebook og Ukraina

Auðvitað veit ég ekki, frekar en aðrir, hvað Pútín og þeir sem styðja hann sem ákafast, hugsa. En ég held að hann geri sér alveg grein fyrir því að hernaður hans í Ukrainu er ákaflega óvinsæll um heim allan. Rússland er annars flokks stórveldi sem nú er í fjörbrotunum. Það er einkum þessvegna sem Pútín og Rússland eru hættuleg. Þau stórveldi sem munu bítast af sem mestum krafti í því kalda stríði sem nú er að hefjast eru að sjálfsögðu Bandaríkin og Kína.

Kína stendur Bandaríkjunum að líkindum svolítið að baki hernaðarlega ennþá. En það mun ekki standa lengi. Kína mun líklega halda fremur með Rússum en Ukrainumönnum í yfirstandandi stríði og tengjast Rússum í vaxandi mæli viðskiptalega og ef ESB (sem á margan hátt er einnig annars flokks stórveldi) mun halla sér að USA, eins og flest bendir til, eru komin tvö super-stórveldi sem munu kljást á mörgum sviðum í því kalda stríði sem væntanlegt er.

Það eru þá helst Japan og Suður-Kórea, ásamt Taiwan og Austurlöndum nær, sem einkum má gera ráð fyrir að bitist verði um á síðari hluta þessarar aldar. Það er að segja ef mannkynið verður ekki búið að tortíma sjálfu sér í heildsölu áður.

Undanfarið hef ég gagnrýnt fésbókina mjög og farið að langmestu leyti í frí frá henni. Þetta hef ég gert þó ég geri mér fulla grein fyrir vinsældum hennar og að margir af notendum hennar geri sér alveg grein fyrir áróðri hennar og takmörkunum. Þó Moggabloggið og Morgunblaðið sé mjög langt frá því að vera gallalaust og að Páll Vilhjálmsson sé eins og hann er (ég fékk mjög margar heimsóknir þegar ég skrifaði um hann um daginn) dettur mér ekki í hug að gerast áskrifandi að blaðinu sjálfu. Læt mér mbl.is nægja, en viðurkenni samt með sjálfum mér að Morgunblaðið er langbesta fréttablaðið á landinu. Vísir og DV eru einfaldlega ekki marktæk og Fréttablaðið er ósköp takmarkað þrátt fyrir að það sé ókeypis.

Internetið í heild er svipuðu marki brennt og fésbókin. Það þarf stórlega að vara sig á því og unglingum getur það beinlínis verið hættulegt. Stríðið um sálir mannanna fer einkum fram á Netinu.

Ég nenni bókstaflega ekki að blogga daglega og er alveg sama (að mestu leyti) þó fáir lesi þetta blogg. Þó er það frekar lesið ef það er stutt.

IMG 3983Einhver mynd.


Bloggfærslur 12. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband