3079 - Við erum fyrir

Það eru næstum allir hættir að lesa bloggið mitt enda er það hundleiðinlegt. Engin furða þó lesendum fari fækkandi. Ekki hef ég status sem áhrifavaldur. Til þess þarf víst miklu fleiri lesendur.

„Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“. Fáir frasar eru jafnmisnotaðir í pólitískum tilgangi og þessi. Við sem eldri erum vitum þetta ósköp vel. Samt kjósum við þessa vitleysinga aftur og aftur til þess að fara með mál okkar og annarra. Horfum bara á þetta raunsætt. Við erum fyrir. Allir vita það og okkar hlutverki er lokið. Ef hent er í okkur nógu miklu af peningum og þess gætt að hafa heilsugæsluna og þessháttar ekki alltof dýra megum við svona heildstætt séð eiga okkur.

Náttúran hefur búið þannig um hnútana að um leið og við höfum komið afkomendum okkar sæmilega til manns er okkar hlutverki lokið. Ég er ekki að efast um góðan hug allra þeirra einstaklinga sem koma að umönnun okkar. Afkomendur okkar reyna flestir af fremsta megni að aðstoða okkur við að lifa sem lengst. Tilgangurinn er samt enginn nema að fjölga ævidögunum. Sem í sjálfu sér er ágætt, en leysir engan vanda.

Lítum bara á Bretadrottningu. Sonur hennar er kominn vel yfir sjötugt og búinn að bíða lengi eftir því að taka við. Ekki má segja henni að hætta þessari vitleysu því ekki er víst að hann yrði neitt skárri. Sennilega yrði hann bara verri og sonur hans yrði að bíða ellinnar til þess að geta tekið við. Hver er tilgangurinn?

Ástæðan fyrir því að ég geri Breta að umtalsefni hér er sú að við Íslendingar lítum greinilega á Breta og þá sérstaklega Englendinga sem einhvers konar fyrirmyndir. Enski fótboltinn nýtur mikillar virðigar hér, þó hann sé fremur lélegur. Af einhverjum ástæðum eru samt miklir peningar þar og í afreksíþróttum yfirleitt. Sérstaklega boltaíþróttum eins hundleiðinlegar og þær eru nú í rauninni. Hér á Íslandi er það að minnsta kosti þannig. Nei, þá er nú skárra að vera með öllu ábyrgðarlaus. Eins og við gamlingjarnir viljum gjarnan vera.

Einskonar dagbók á þetta víst að vera. Um helgina síðustu tók Bjarni þátt í utanvegahlaupinu „Hengill ultra“ Honun tókst ekki að ljúka sínu 50 kílómetra hlaupi. Enda var vitlaust veður og hann datt og slasaðist á hendi sem hann bar auðvitað fyrir sig. Fór úr liði og brotnaði víst á einum fingri. Þetta var greinilega erfitt hlaup. Sjálfur fór ég ásamt Áslaugu, Hafdísi og Bjössa uppað Sleggjubeinsskarði til að hvetja Bjarna og leist satt að segja ekkert á veðrið. Áður fórum við að Varmármótum og þar var veðrið alveg skaplegt.

Scan73Einhver mynd.


Bloggfærslur 8. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband