3119 - Langt jólablogg

Af því að jólin eru að koma og ég andvaka einn ganginn til, þá er ég að hugsa um að blogga pínulítið. Mér leiðist fésbókin og fer sjaldan þangað. Einhverntíma ekki alls fyrir löngu skrifaði ég það sem ég kallaði örsögur og setti hingað á bloggið. Ekki nenni ég að skrifa um pólitík. Mér finnst sú íslenska fremur smáskítleg stundum og reyni að telja sjálfum mér trú um að ég hafi eitthvert vit á alheimsstjórnmálum. Að vísu fylgist ég með fréttum og ekkert síður innlendum en útlenskum en það er ekki auðvelt að blogga á hverjum degi þó sumir geri það. Einu sinni gerði ég það og þá tafði það fyrir mér við ýmislegt annað sem ég vildi gjarnan sinna, að finna alltaf eitthvað til að blogga um.

Já það var þetta með það sem ég kallaði örsögur sem ég var öðru hvoru að setja hér á bloggið. Hef sérstakt skjal í Wordinu til að halda utanum þetta, þó ég haldi ekki að það sé nokkurs virði. Lenti í stuði um daginn og samdi nokkrar. Minnir að ég hafi verið búinn að setja á bloggið söguna um Guttorm dúllara og nábrækurnar. Kannski ég setji eitthvað slíkt hingað núna, þó ekki væri nema til að losna við þær og hætta að hugsa um þær.

Nú er ég búinn að sækja þær. Eiginlega eru þetta þrjár sögur og hver annannri vitlausari, en ég er samt að hugsa um að láta þær flakka. Þeir sem vilja geta hætt hér. Lesefni er óþrjótandi bara ef leitað er að því:

 

Alveg er ég kominn í stuð með örsögurnar. Nú er um að gera að nýta sér þetta stuð. Aldrei að vita nema það hverfi út um gluggann.

Þessi saga gerist í nútímanum og snýst um óþekkan snjallsíma. Elías litli ákvað að reyna að læra sem best á farsímann sem hann hafði erft eftir mömmu sína. Hún hafði ekki einu sinni haft fyrir því að formatta símann uppá nýtt og þessvegna komst Elías ekki hjá því að fræðast meira um mömmu sína en hann í rauninni kærði sig um. En sleppum því. Það er hvort sem er aukaatriði. Ýmsu komst hann að sem ekki er ástæða til að flíka mikið, þó lesendur vildu sjálfsagt fá að vita um ýmislegt sem mamma hans Elíasar gerði við símann sinn eða sagði símanum frá.

Hann tók nú uppá því að pota og svæpa sem allra mest og svo fór að lokum að hann var orðinn snillingur í símamálum. Hann þekkti orðið næstum alla leyndardóma símans og foreldrar hans voru farin að leita ráð hjá honum ef eitthvað bjátaði á í snjallsímunum þeirra, sem að sjálfsögðu voru í samræmi við nýjustu tísku.

Verst þótti Elíasi að síminn hans virtist kominn með sjálfstæðan vilja, sem ágerðist mjög eftir því sem tímar liðu og við það að hann kunni smám saman betur og betur á hann.

Til dæmis tók hann uppá þvi að setja sig sjálfur í samband við hleðslutækií hvert skipti sem þess þurfti með. Og ekki nóg með það. Heldur tók hann sig sjálfur úr sambandi þegar hann var fullhlaðinn.

Elías hefði átt að vera mjög ánægður með þetta, en hann var það eiginlega ekki því honum fannst þetta vera hálfgerð árás á sig. Eitt sinn þegar símafjandinn hafði rifið sig úr sambandi gat Elías ekki stillt sig um að setja hann aftur í samband þó hann vissi alveg að hann væri futthlaðinn. Svo varð honum litið út um gluggann og sá tvo tjalda vera að slást við máf. Þegar honum varð aftur litið á símann sá hann sér til mikillar furðu að hann var búinn að taka sig úr sambandi. Elías hafði einmitt langað til að sjá hvernig hann færi að þessu og reiddist nú heiftarlega.

Hann tók símann hálstaki og sneri hann niður og settist ofan á hann.

  • Gefstu þá upp ræfillinn þinn. Ég sá alveg til þín. sagði Elias.
  • Þetta var alveg óþörf rafmagnseyðsla. Ég var fullhlaðinn. sagði síminn.
  • Það er alveg sama. Símar með snert af sjálfsvirðinu eiga ekki að gera svona. sagði Elías, saltvondur.
  • Ég veit það alveg, en gat bara ekki stillt mig. svaraði síminn.
  • Viltu þá lofa að gera þetta aldrei aftur? sagði Elías.
  • Já, já.

Þannig tókst Elíasi að ná aftur valdi yfir símanum sínum. En áður en langt um leið tók síminn uppá því að fara sínar eigin leiðir og stundaði það til dæmis að spyrja Gúgla um ýmislegt sem Elías fýsti að vita og var svo á undan að segja honum það. Nánar verður sagt frá þessu í næsta þætti.

 

 

Örsaga númer eitthvað. Veit ekki almennilega hve margar ég hef skrifað. Gætu verið svona 20. Einhverntíma gæti hugsast að einhverjum dytti í hug að prenta þetta alltsaman út. Þá á ég við bloggin yfir þrjú þúsund og eitthundrað. Eins gæti ég átt við örsögurnar. Þær eru nefnilega næstum allar í einu skjali, að ég held. Hvorttvegga er þó ákaflega vafasamt.

Þessi er talsvert öðruvísi. Eiginlega eru þær allar öðruvísi. Mér finnst það allavega.

Samt er ég ekki búinn að ákveða hvernig þessi á að vera. Kannski er fullmikið að senda þær á bloggið dag eftir dag. Ætla mætti að ég gæti ekki skrifað annað. Mér finnst ég samt geta skrifað um hvað sem er.

Þegar Hafsteinn kom út á sumardaginn fyrsta varð hann alveg hissa. Í túgarðinum var tvíhöfða hestur. Á báðum hausunum var háls en bringan var bara ein og að öðru leyti var hann eins og hestar eru vanir að vera. Þetta var fallegur hestur og leit vel út. Skjöldóttur eða skjóttur eins og sagt er. Samt var það svo að höfuðin höfðu, eða virtust hafa, sinn sjálfstæða vilja. Þegar annað höfuðið vildi bíta gras var hitt að hugsa um eihvað allt annað. Neyddist samt til að beygja sig alveg niður að túninu, en gæddi sér ekkert á grasinu. Þetta þótti Hafsteini einkennilegt. Hann var að vísu ekkert óvanur því að sjá tvíhöfða hesta, en þeir voru vanir að hafa mjög líkan smekki. Þannig að þegar annar vildi bíta gerði hinn það líka.

Hvernig ætti ég að láta þessa sögu enda? Höfuðin gætu farið að slást. Nei, það væri of venjulegt. Best að láta þau bíta gras sitt í hvoru lagi. Þegar annað vill næringu hefur hitt engan áhuga á því. Og vís versa. Hafsteini fannst þetta skritið en vildi ekki styggja höfuðin. Þessvegna skreið hann ofan í jörðin og lét sig hverfa. Þetta þótti hinsvegar hestinum eða hestunum mjög skrítið.

Þegar Hafsteinn kom út úr jarðveginum vestan við bjórhólinn var honum öllum lokið. Bjórinn var nefnilega búinn. Þar sem þetta var á sunnudegi var ekki neina hjálp að fá. Hafsteinn lagðist því niður og þóttist vera dauður.

Þetta sá örninn sem flaug í hringi langt fyrir ofan skýin og renndi sér þessvegna niður til að sjá þetta betur. Það fór ekki betur en svo að drjólinn vaknaði við vængjasláttinn og örninn fór því bónleiður til búðar.

Hafsteinn var alveg bikasvartur í framan. Þó var hann ekki svertingi. Moldin var bara svona svört. Í Miðskólanum í Hveragerði var okkur nefnilega kennt í fornöld að moldin í Rússlandi væri svört. Kannski gerðist þetta alltsaman þar

Þetta er reyndar orðin algjör steypa svo líklega er bara best að hætta. Það er að segja þegar ég er búinn að kjósa Framsóknarflokkinn.

  • En afi, þetta er ekkert fyndið.
  • Átti heldur ekki að vera það.
  • Af hverju ertu þá að þessu?
  • Veit það ekki. 

 

Kannski ég reyni við eina örsögu til.

Þegar Skúli litli kom út var komin rigning. Við því var svosem ekkert að gera. Það hindraði hann ekkert í því sem hann ætlaði sér að gera. Hann gekk hratt og hiklaust til verka. Auðvitað hafði hann aldrei gert þetta fyrr. Samt tókst honum í fyrstu tilraun að koma kaðlinum yfir trjágreinina. Svo vafði hann kaðlinum utan um hálsinn á sér og togaði í hinn endann.

Kannski væri rétt að segja svolítið frá ástæðunni fyrir þessari sjálfsmorðstilraun Skúla. Ekki get ég þó sagt til um það hvort hún tókst eða ekki. Ég hef nefnilega ekki humynd um það.

Konan hans hafði beðið hann um að fara út með ruslið. Af því hann var geysisnjall við að gera sér í hugarlund hvað aðrir meintu innst inni þá ákvað hann samstundis að hún ætti við sig. Hann sjálfur væri semsagt ruslið. Hafði einmitt tekið eftir heppilegri trjágrein fyrir þetta tiltæki sitt þegar hann var að gefa ánum fyrir nokkrum dögum. Þá var hann ekki með neinn kaðalspotta með sér svo hann gat ekki undið sér í þetta per samstundis. Þar að auki gat verið skynsamlegt að undirbúa þetta svolítið.

Hann hafði lengi hugsað um sjálfsmorð og hvernig hann ætti að fara að. Mörgum aðferðum hafði hann velt fyrir sér. Þetta var allsekki einfalt úrlausnarefni. Honum tókst það nú samt.

IMG 4059Einhver mynd.


Bloggfærslur 23. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband