2860 - Kanarí og Japan (af hverju Japan?)

2860 –  Kanarí og Japan (af hverju Japan?)

Fylgist afar vel með öllum hryllingssögunum um lúsmýið en hef sem betur fer ekki orðið var við það ennþá á þessum breiddargráðum. Læt ykkur góðir lesendur samt vita þegar ég sannspyr að það sé komið hingað á Akranes. Ef dæma má eftir því sem sagt er á fésbókarsíðu Akurnesinga eru þó allar líkur á að það sé komið hingað. Annaðhvort er ég svo hátt uppi (4. hæð) eða ég er ekki nógu eftirsóknarverður fyrir þessi stórhættulegu villidýr. Þau hafa semsagt ekki bitið mig ennþá. Hugsanlegt er líka að lúsmýflugurnar hafi haft svo mikið að gera útaf Norðurálsmótinu að þær hafi ekki haft tíma til að bíta mig. Þetta þarf alltsaman að rannsaka miklu betur.

Eftir mikið japl og jaml og fuður er búið að ákveða (eða svona næstumþví) að við förum til Kanaríeyja (nánar tiltekið til Tenerife) næsta haust. Þetta var svolítið erfið ákvörðun því ferðaskrifstofan hélt því fram öðru hvoru a.m.k. að uppselt væri í ferðina sem við vildum fara í. Svo er líka á það að líta að ekki er mjög langt um liðið síðan við komum úr mikilli og ævintýralegri Ítalíuferð. Þó ég hafi gert henni lítil (eða næstum engin) skil hér á blogginu mínu, er því ekki að neita að hún var eftirminnileg í mörgu tilliti. Samt er ég að hugsa um að hlífa væntanlegum lesendum við nánari lýsingum á því ferðalagi.

Ef ég ætti að gera grein fyrir öllu sem fyrir mig kemur hér að blogginu er ekki sjálfsagt að jafnmargir mundu lesa þau ósköp. Er ég þá að stefna að því að sem flestir lesi það sem ég skrifa hér? Það hef ég hingaðtil ekki verið tilbúinn til að viðurkenna. Auvitað er það samt svo að skemmtilegra er að skrifa það sem margir lesa, en það sem fáir eða engir nenna að lesa. Hvað er það þá sem fær mig til að fullyrða þetta. Mér finnst bara að líf mitt sé um þessar mundir sérlega óspennandi. Hefur það ekki alltaf verið það?

Blessuð rigningin er loksins komin aftur. Annars er mér hálfilla við alla rigningu og súld, því mér finnst vera fullmikið af slíku hér á Akranesi. Líklega er það svipað annarsstaðar ekki veit ég um það. Sú riging fellur a.m.k. ekki á mig. Kannski á bændur, þeir vilja alltaf hafa passlega mikið af öllu og virðast alltaf vera óánægðir. Kannski þeir ættu að hætta að framleiða allt þetta rolluket. Gott ef gróður landsins verður ekki fyrir barðinu á dilkunum. Hvað veit ég?

Eiginlega ætti ég að hætta núna. En það er svo erfitt að hætta þegar maður er kominn á ferð. Endalaust gæti ég haldið áfram að þusa, en einhversstaðar verður að hætta. Hví ekki hér?

Einhver mynd.IMG 6848


Bloggfærslur 26. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband