2837 - Ebóla og mislingar

Hugsanlegur mislingafaraldur hér á landi er ekki alvarleg heilsuógn. Bólusetningar og menntun alls almennings veldur því. Auk þess eru mislingar, þó hættulegir séu, ekki eins hættulegir og sumar aðrar pestir geta verið. Margar pestir eru einkum hættulegar fyrst í stað meðan bóluefni hefur ekki fundist eða er ekki framleitt í nógu miklu magni.

Í Kongó í Afríku er t.d. núna verið að glíma við ebólu-faraldur, en slíka pest höfum við hingað til ekki þurft að óttast að neinu leyti og þurfum áreiðanlega ekki heldur núna. Bóluefni er þar til staðar, smitleiðir kunnar og allar líkur á því að heilbrigðisstarfsmenn muni ná að kæfa þann faraldur í fæðingu.

Þó við Íslendingar þurfum ekki að óttast veikindi að neinu marki eru óneitanlega ýmis merki sem benda til þess að vorkoman verði okkur ekki eins mikill ánægjuauki og oft áður. Verkföll, loðnubrestur og versnandi hagur að mörgu leyti veldur því. Túristum fer líklega einnig eitthvað fækkandi og ýmsar blikur eru á lofti.

Svartsýni er þó ekki til bóta á neitt hátt. Óhófleg bjartsýni er það heldur ekki. Best er að búast við því versta en vona þó hið besta. Þessi speki er ekki á nokkurn hátt ný, en ítrekuð hér til að lengja þetta blogg svolítið.

Eiginlega er samt alveg óþarfi að blogga næstum daglega. Þó finnst mér að ég megi ekki láta þessa fáeinu lesendur mína bíða eftir bloggi frá mér alltof lengi. Mér hefur fundist að í þessum bloggum mínum sé ég alltof hátíðlegur og þykist vita meira en aðrir. Svo er þó ekki. Að mörgu leyti er ég haldinn efasemdum af öllu tagi. Stundum finnst mér ég vita næstum allt, sem er þess virði að vita, en stundum alltof lítið. Sennilega er þetta bara eðlilegt. Oft reyni ég að forðast að láta ljós mitt skína. Það er þó ekki alltaf auðvelt. 

Tvennt er það þó sem ég held að mér takist yfirleitt sæmilega í þessu bloggi mínu. Það fyrra er að vaða úr einu í annað. Ég á t.d. erfitt með að skilja hve margir hafa greinlega þörf fyrir að teygja lopann óhóflega. Ef hægt er að segja sína meiningu í fáum orðum finnst mér sjálfsagt að gera það. Munur er þarna á töluðu máli og rituðu. Ekki held ég að fólk verði yfirleitt jafnfljótt leitt á töluðu máli  og rituðu. Þessvegna er það sennilega sem podköst (eða hlaðvörp) allskonar eru svona vinsæl.

Seinna atriðið, sem ég var næstum búinn að gleyma, er einmitt það að hafa bloggin ekki of löng. Því er sennilega best að hætta núna.

IMG 7030Einhver mynd.


Bloggfærslur 8. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband