2813 - Siðleysi

Síðasta blogg mitt vakti svolitla athygli. A.m.k. fékk það fleiri heimsóknir en ég á venjulega að fagna. Ekki veit ég hvort það er JBH að þakka eða því að ég kallaði hann siðlausan. Hann er samt sá stjórnmálamaður sem ég tek, eða réttara sagt tók, meira mark á en flestum öðrum. Óþarfi með öllu er að réttlæta þar með allar hans gjörðir. Annars er því ekki að leyna að siðleysi getur hjálpað mjög til í þeirri endalausu baráttu sem pólitík að sjálfsögðu er. Ekki blandast mér t.d. hugur um að Davíð Oddsson, Sigmundur Davið og Donald Trump eru með einhverjum hætti siðlausir, eða a.m.k. er vel hægt að líta svo á.

Ég er nú svo takamarkaður að ég er ennþá að hugsa um þessa klukkuvitleysu, þó ég sé nýbúinn að setja upp blogg þar sem einmitt var talað um þetta. Man að í þau fáu skipti sem ég hef til Kanaríeyja komið hefur mér þótt það einn mesti kosturinn við þær eyjar, fyrir utan hitann og sólskinið, að þar þurfi maður ekki að vera að þessu sífellda klukkuhringli sem annars fylgir venjulega ferðalögum til annarra landa.

Um daginn var ég eitthvað að skrifa um uppáhaldslesefni mitt og minntist meðal annars á bakþanka Fréttablaðsins. Uppáhaldshöfunar mínir þar eru Gumundur Brynjólfsson og Óttar Guðmundsson. Einhverja Sirrý er mér dálítið uppsigað við. Kannski er vegna þess að hún snerti einhverja pólitíska taug í mér. Sif Sigmarsdóttir er líka áberandi góður penni. Geri ekki ráð fyrir að Óttar sé sonur Guðmundar þó það gæti alveg verið nafnsins vegna. Báðir virðast þeir vera nokkuð við aldur og eiga létt með að blogga. Það minnir mig á að einn af blaðamönnum DV, sem Ágúst Borgþór heitir er eiginlega einn af mentorum mínum í bloggvísindum. Var alltaf dálítið ósáttur við hvað hann gerði á sínum tíma lítið úr blogginu samanborið við alvarleg smásöguskrif, sem hann er óneitanlega superflinkur við.

Stóra Blöndals-brjóstamálið er talsvert á milli tannanna á fólki um þessar mundir. Allskonar umræður um klám og þessháttar eru líka ólíkt safameiri en Klaustur-umræður þær sem flestir eru búnir að fá leið á. Alþingi sem vinnustaður ætlar þó halda þessum umræðum vakandi og hefur reitt sjálfan Simma alvitra til reiði með því að skipa enn eina nefndina. Svo er víst Samfylkingin flækt í málið líka og óvíst hvernig þetta allt saman endar. Líklegt er þó að Gunnar Bragi og Bergþór eigi ekki afturkvæmt á þing.

Vísurnar eftir Jóhannes Laxdal og mig sjálfan hafa e.t.v. ekki haft beinlínis áhrif á vinsældir þess bloggs en samt eru þær nokkuð góðar. Einkum vísur Jóhannesar og sérstaklega þær allrasíðustu. Nú bíð ég bara eftir vísu hans um þetta blogg. Greinilega hefur það samt áhrif að tala um nafngreinda einstaklinga í blogginu.

IMG 7191Einhver mynd.


Bloggfærslur 23. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband