2728 - Jón Valur Jensson

Nú er Jón Valur Jensson farinn að athugasemdast svolítið á blogginu mínu. Gaman að því. Á margan hátt er fésbókin sá staður þar sem menn rotta sig saman og fjósamennskan (öðru nafni heimspekin) er allsráðandi. Þorsteinn Siglaugsson var fyrir nokkru fastur liður hérna á blogginu mínu. Og svo hefur fornleifafræðingurinn Villi í Köben stundum litið hingað inn. Allt er þetta að ógleymdum Steina karlinum Briem sem veldur því að ég er sífellt að setja saman vísur núorðið, en það hef ég ekki gert lengi og getan er ekki mikil.

Þó skömm sé frá að segja þá les ég blogg þessara manna alltof sjaldan. Held að Steini Briem bloggi aldrei, núorðið, Jón Valur er sískrifandi og heldur úti mörgum bloggum. Aðrir eru líkari mér og blogga svona öðru hvoru. Engir nema ég veit ég til að númeri bloggin sín. Það er mín sérstaða. Sérstakur, sérsinna og sérvitur vil ég gjarnan vera.

Flestir þeirra sem hér eru nefndir, nema þá helst ég og Steini Briem skrifa gjarnan eins og einhverjir sérfræðingar. Ég er því miður ekki sérfræðingur í neinu, en veit þó ýmislegt. Nenni ekki að safna tölum og staðreyndum til að styðja mál mitt, en hef þó skoðanir á mörgu.

Allgóður þykist ég vera í réttritun og kannski er það þessvegna sem ég skrifa svona mikið. Aftur á móti er ég afleitur í greinarmerkjasetninu. Sömuleiðis er ég nokkuð óklár á hvenær skrifa skal eitthvað í einu orði eða tveimur. Þetta skiptir oftastnær nánast engu máli. Samt get ég alveg viðurkennt að kommur geta stundum skipt máli og t.d. er úranauðgun alls ekki það sama og úra nauðgun.

Sannkallað fótboltaæði hefur nú gripið þjóðina og má gera ráð fyrir að gnístran tanna verði mikil ef Íslendingar tapa öllum leikjunum í sínum riðli. Svo getur hæglega farið og ekki er líklegt að upp úr riðlinum verði komist. Von flestra er þó sennilega sú að leikur í 16-liða úrslitum fáist. Slíkt yrði mikill sigur fyrir litla Ísland. Ég mun líklega láta þessa himstrakeppni að mestu framhjá mér fara, en þó mun ég fylgjast með leikjunum í sjónvarpi og fréttum frá þessum ósköpum.

Veðrið fer sískánandi og líklega er sumarið bara komið. Ekki er ég víst sá fyrsti sem þetta segi, því annar hver maður, og kannski mun fleiri, heyrist mér að tali annað hvort um fótbolta eða sumarið. Þ.e.a.s. veðrið.

Nú hef ég ekkert minnst á Trump í þessu bloggi. Mikið virðist samt vera að gerast í íslenskum stjórnmálum. Erfitt er fyrir alþingi að hætta og Katrín forsætis segist vilja hætta við útgerðarfrumvarpið ef menn verði þá til friðs. Spurning er hvort þingmenn verða það og hvort Katrín kemst upp með þetta fyrir Super-Bjarna.

IMG 8110Einhver mynd.


Bloggfærslur 7. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband