2693 - Hið þrískipta vald

Að sumu leyti er þetta blogg mitt að verða að einskonar dagbók. Einkum ef mér tekst að skrifa daglega einsog ég hef gert að undanförnu.

Man eftir því að uppi á Stöð 2 stofnuðum við strákarnir eða karlarnir þar eitt sinn einskonar leyniklúbb sem stelpurnar eða konurnar voru mjög forvitnar um. Vildu vita miklu meira um þennan merkilega klúbb. Fundir í þessum klúbbi voru haldir öðru hvoru. Aðallega þegar tekist hafði að fá einhverja heildsöluna til að halda einskonar vörukynningu. Áfengi var sérlega vinsælt hvað þetta snertir – kannski voru fundirnir alltaf þannig. Tvær reglur voru í þessum klúbbi en ekkert fleira leynilegt. Allir fundargestir urðu að vera berfættir á annarri löppinni (þeirri vinstri – minnir mig – annars var kannski alveg sama um hvora löppina var að ræða.) og svo átti alltaf að ávarpa aðra með föðurnafni. Allir karlmenn gátu gerst félagar en kvenfólk ekki. Meðlimir voru kallaðir fætlingar og vel mátti yfirleitt sjá skó- og sokkahrúguna fyrir utan fundarstaðinn. Að sjálfsögðu var það gert til að auka forvitni kvenpeningsins.

Á tímum „Me-Too“ byltingarinnar má eiginlega ekki taka svona til orða. Auðvitað vorum við með þessu að gera okkur seka um ótrúlega mikla karlrembu og ég bið hérmeð afsökunar á því þó seint sé.

Ég er þeirrar skoðunar að niðurlæging íslenskunnar hafi hafist í upphafi tölvubyltingarinnar. Ætli það hafi ekki verið í byrjun níunda áratugarins eða svo. Jafnvel nítjánhundruð sjötíu og eitthvað, sem svokallaðar „heimilistölvur“ urðu nokkuð algengar. Þá var svokölluð „tölvuhræðsla“ raunverulegt vandamál. BBS-in svokölluðu voru þá við lýði og afar fáir þekktu tilvist Internesins. Ekki mátti gangrýna eða segja þeim til, sem létu svo lítið að skrifa á veraldarvefinn eða BBS-in. Þeir voru ekki margir. Vinur er sá er til vamms segir, var ókunnugt spakmæli í þá tíð. Uppúr þessu hættu kennarar að kenna íslensku og fóru að efast um allt í staðinn. T.d. um tilvist Guðs almáttugs. Sumir kenndu útlensku. Einkum var hætt að beygja íslensk orð. Jafnvel orðið „beygja“ var hálfgert bannorð þá, því það gátu ekki allir skrifað það „rétt“. Kannski má rekja upphaf þessa máls til þeirrar áráttu póststjórnarinnar að vilja endilega hafa heimilisföng á umslögum óbeygð. Að vissu leyti mátti þó rökstyðja þann fjára.

Í gær hlýddi ég á umræður um vantraust á núverandi dómsmálaráðherra. Ekki hlustaði ég á allt það raus sem fram fór í þingsal. Mín skoðun á þessu máli er sú að þegar búið er að flysja burtu öll stóryrði og tilraunir til pólitísks keilusláttar standi í rauninni ekki annar ágreiningur eftir en um það hvað alþingismenn vissu eða máttu vita á einhverjum ákveðnum tímapunkti.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð skildist mér að eitt helsta verkefni Katrínar Jakobsdóttur  væri að vinna að því að auka traust almennings á alþingi og stjórnvöldum. Þetta finnst mér að henni hafi mistekist. Bjarni Benediktsson er að mínu áliti sterki maðurinn í ríkisstjórninni. Þó má efast um að það sé honum til framdráttar að traustið sé lítið. Hingað til hefur almenningur hinsvegar haft talsvert traust á dómstólum landsins. Kannski útúr neyð. Nú er eins og eigi að eyðileggja það líka.

IMG 8294Einhver mynd.


Bloggfærslur 7. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband