2696 - Nei, ég er ekki dauður

Nei, ég er ekki dauður, en kannski ég breyti um verklagsreglur eins og mikið er í tísku núna um þessar mundir. Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert bloggað að undanförnu er sú að ég hef verið í rúma viku í sumarhúsi við Húsafell. Þegar ég blogga eru það talsvert margir sem lesa það sem ég hef að segja. Líka hef ég tapað öllum bréfskákunum mínum því þegar ég fer í frí þá fer ég í frí.

Nú er ég semsagt búinn að vera í hálfan mánuð á Kanarí (í janúar) og rúma viku í/á Húsfelli og sennilega er að vora. Einhvern vegin verða menn að þreyja Þorrann og Góuna. Það er t.d. snjólaust og frostlaust hér á Akranesi núna og kannski kemur ekkert páskahret að þessu sinni.

Í bústaðnum las ég tvær bækur sem mér þótti nokkuð athyglisverðar. Sú fyrri er eftir Helga M. Sigurðsson og heitir að mig minnir: „Frumleg hreinskilni. Um Þórberg Þórðarson og mannlífið á mölinni í upphafi aldar“. Þessi bók er gefið út árið 1992 og fjallar eins og nafnið bendir til um Þórberg Þórðarson. Hann er að mörgu leyti uppáhaldsrithöfundur minn og af einhverjum ástæðum hefur þessi bók farið algerlega framhjá mér á sínum tíma.

Hin bókin sem ég las í bústaðnum var heimspekiritið: „Tilraun um heiminn“ eftir Þorstein Gylfason. Sumt í þeirri bók höfðaði alls ekki til mín, en mér þótti samt margt mjög athylisvert þar. Einkum það sem hann sagði um lýðræði og kosningafræði. Sumt af því hef ég reyndar heyrt áður og reynt að tileinka mér.

Áðan fór ég út að ganga. Þá gerði ég eftirfarandi vísu:

Fésbókin er faraldur,
finnast ekki meiri.
Skelfilegur skaðvaldur,
skaðar sífellt fleiri.

Annars er ekki grín að þessu gerandi. Sumir geta sennilega ekki á hálfum (eða heilum) sér tekið útaf því að þessi eina huggun þeirra lendir í vandræðum. Mér er reyndar alveg sama um fésbókarfjandann.

Ekki get ég látið hér við sitja, eftir allan þennan tíma. Samt er ég nú eiginlega þurrausinn í þetta sinn.

Þurrausinn í þetta sinn
þannig byrjar vísa.
Held ég fast um hausinn minn.
Hef ei neinu að lýsa.

IMG 0111Einhver mynd.


Bloggfærslur 22. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband