2796 - Klausturpósturinn

Hef ekki hlustað á upptökurnar frá Klausturbarnum, sem allir eru að tala um þessa dagana. Hef látið mér nægja frásagnir dagblaða, fésbókar og annarra fjölmiðla. Flestir eða allir virðast sammála um að ummælin sem þar voru viðhöfð séu óverjandi með öllu. Ekki á ég samt von á að sexmenningarnir muni allir segja af sér þingmennsku. Kannski einn eða tveir og síðan muni þetta fárviðri gleymast smátt og smátt. Allsekki vil ég þó viðurkenna að svona orðbragð tíðkist víða. Kannski talar Trump svona og hugsanlega einhverjir aðrir. Virðing alþingis bíður sjálfsagt hnekki við þetta.

Það er búið að fjölyrða svo mikið um þetta Klausturmál að ég hef eiginlega engu við það að bæta. Margt annað er mikilvægara. Ég sé ekki betur en Katrín sé að festa sig svolítið á sessi sem forsætisráðherra hér á Íslandi á sama tíma og mér finnst vera að fjara aðeins undan Trump Bandaríkjaforseta. Annars er ég að hugsa um að forðast eftir megni pólitík í þessu blogginnleggi mínu. Það er satt að segja leiðindatík.

„Vísir leggur jafnframt til fasta auglýsingaborða sem vísa á Heimsljós og tryggja 15-20 þúsund birtingar á dag.“ Þessa klausu rakst ég á einhvernstaðar á Netinu. Líklega á Vísi.is í frásögn af samningi við Utanríkisráðuneytið um birtingar á efni þaðan. Semsagt það er verið að selja klikkin og ekki einu sinni reynt að fara leynt með það. Best að vara sig svolítið á þessum ófyrirleitnu sölumönnum.

Já, ég nota ennþá plast. Hvernig ætti að vera hægt að venja alla af plastnotkun bara svona hviss bang eins og ekkert sé. Sé ekki betur en stjórnvöld og félagasamtök hafi með öllu vanrækt að venja okkur Íslendinga á að flokka rusl. Auðvitað er ekki auðvelt að venja gamla hunda einsog mig á slíkt, en það má reyna. Svo eru ýmsir að reyna að telja manni trú um að plast sé bara stundum plast. Sumt úr þeirri olíufjölskyldu eyðist sjálfkrafa í náttúrunni segja þeir, annað ekki. Semsagt að til sé vont plast og gott plast. Kannski er munurinn bara sá að góða plastið eyðist á tíu þúsund árum en það vonda á hundrað þúsund árum. Hinsvegar er vel hægt að venja okkur af því að fleygja allskyns drasli í klósettið.

Súluritið mitt hjá Moggablogginu er ansi toppótt. Stundum eru heimsóknin nokkuð margar 2-4 hundruð (ekki hundruðir) og stundum sárafáar. Mér finnst  heimsóknir a.m.k. vera nokkuð margar þegar þær eru farnar að skipta allmörgum hundruðum. Það er samt engin regla á því hve ört ég skrifa. Alfarið fer það eftir nenningu hjá mér og hún er ekki alltaf mikil.

Kannski þetta blogg hjá mér ætti að vera ögn persónulegra. Um þessar mundir sef ég í splunkunýju rafmagnsrúmi, sem hægt er að stjórna með fjarstýringu. Búið er að vera fremur erfitt að koma því gamla fyrir kattarnef, en nú er það komið á stað sem það getur væntalega verið í friði í nokkra daga.

Hér á Akranesi er svolítil snjóföl yfir öllu. Það hefur snjóað aðeins í gærkvöldi eða nótt. Undanfarið hefur samt verið með öllu snjólaust hér og oftast einhver hiti. Kannski er frost núna.

IMG 7475Einhver mynd.


Bloggfærslur 4. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband