Færsluflokkur: Bloggar

2838 - "Er þetta hægt, Matthías?"

Stundum verða fræg og margtilvitnuð tilsvör til á annan hátt en flestir gera ráð fyrir. Þannig er því t.d. varið með setninguna: „Ýsa var það, heillin!“ Til er heil þjóðsaga um tilurð þessarar setningar og líklega er hún í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Ég ætla samt ekki að lýsa nákvæmlega hvernig sú saga er, enda held ég að flestallir kannist við hana.

Sagt er að saga þessi sem ég ætla að segja hér hafi gerst á Ísafirði. Sýslumaður var að yfirheyra stúlkukind í barnsfaðernismáli. Hún lýsir nákvæmlega hvernig barnið hefði komið undir og segir að samfarir þær sem leiddu til barnsburðarins hefðu farið fram í bát nokkrum sem sýslumaður þekkti vel. Meðal annars lýsti hún því í smáatriðum í hvernig stellingum þau barnsfaðirinn hefðu verið við samfarirnar.

Sýslumaður fylgist með frásögn hennar af miklum áhuga og eftirtekt. Skyndilega víkur hann samt máli sínu til skrifara síns og segir stundarhátt:

„Er þetta hægt, Matthías?“ Ekki fer sögum af því hverju Matthías svaraði, en þetta þótti ágæt saga og mátulega klámfengin á síðustu öld.

Auðvitað ætti ég frekar að vera að fjalla um verkfallsmál eða heimspólitík en að vera að endursegja sögur úr Íslenskri Fyndni. Reyndar veit ég ekki hvort þessi er ættuð þaðan, en hún gæti vel verið það. Hugsanlega er ég ekki einn um það að hafa áhuga á því sem Donald Trump gerir eða gerir ekki samkvæmt frásögnum pressunnar. Ekki dettur mér í hug að trúa öllu sem ég heyri og þarf ég ekki Trump til.

Innanbúðarmaður í Hvíta húsinu er ég heldur allsekki, en jafnan virðist mér að dagblöð og sjónvarpsfréttafólk þar vestra hafi eftir slíkum allar þær vammir og skammir um Trump greyið sem þangað rata. Kannski er þagað yfir sumu sem ástæða væri til að gera frétt um. Annars virðist mér Trump vera náskyldur Sigmundi Davíð að því leyti að hann á greinilega erfitt með að hreyfa sig án þess að setja heimsmet.

Nú þykist ég vera búinn að afgreiða Trump, Sigmund Davíð og Íslenska Fyndni að ógleymdum Matthíasi sjálfum í þessu bloggi og get þess vegna snúið mér að öðru.

Eitt er það sem ég hef hingað til ekkert minnst á í þessu bloggi er fésbókin. Facebook, Google, Amazon, Microsoft og Apple virðast ráða mun meiru en flestar ríkisstjórnir. Sameiginlegt með þeim öllum er að yfirburðir þeirra grundvallast á Internetinu. Einu sinni voru bandaríksku bílafyrirtækin eins og Ford og Chevrolet álitin nokkuð stór, en það er liðin tíð. Kvikmyndafyrirtækin í Hollywood þóttu líka valdamikil í eina tíð.

Hér á Akranesi eru krakkarnir byrjaðir að kríta á gangstígana, svo vorið hlýtur að vera á næsta leiti. Vonandi verður veðurlagið svona áfram. Ég er búinn að fá nóg af snjó og hálku. Daginn er líka greinilega tekið að lengja. Það væri alveg í lagi að sleppa páskahretinu að þessu sinni.

IMG 7015Einhver mynd.


2837 - Ebóla og mislingar

Hugsanlegur mislingafaraldur hér á landi er ekki alvarleg heilsuógn. Bólusetningar og menntun alls almennings veldur því. Auk þess eru mislingar, þó hættulegir séu, ekki eins hættulegir og sumar aðrar pestir geta verið. Margar pestir eru einkum hættulegar fyrst í stað meðan bóluefni hefur ekki fundist eða er ekki framleitt í nógu miklu magni.

Í Kongó í Afríku er t.d. núna verið að glíma við ebólu-faraldur, en slíka pest höfum við hingað til ekki þurft að óttast að neinu leyti og þurfum áreiðanlega ekki heldur núna. Bóluefni er þar til staðar, smitleiðir kunnar og allar líkur á því að heilbrigðisstarfsmenn muni ná að kæfa þann faraldur í fæðingu.

Þó við Íslendingar þurfum ekki að óttast veikindi að neinu marki eru óneitanlega ýmis merki sem benda til þess að vorkoman verði okkur ekki eins mikill ánægjuauki og oft áður. Verkföll, loðnubrestur og versnandi hagur að mörgu leyti veldur því. Túristum fer líklega einnig eitthvað fækkandi og ýmsar blikur eru á lofti.

Svartsýni er þó ekki til bóta á neitt hátt. Óhófleg bjartsýni er það heldur ekki. Best er að búast við því versta en vona þó hið besta. Þessi speki er ekki á nokkurn hátt ný, en ítrekuð hér til að lengja þetta blogg svolítið.

Eiginlega er samt alveg óþarfi að blogga næstum daglega. Þó finnst mér að ég megi ekki láta þessa fáeinu lesendur mína bíða eftir bloggi frá mér alltof lengi. Mér hefur fundist að í þessum bloggum mínum sé ég alltof hátíðlegur og þykist vita meira en aðrir. Svo er þó ekki. Að mörgu leyti er ég haldinn efasemdum af öllu tagi. Stundum finnst mér ég vita næstum allt, sem er þess virði að vita, en stundum alltof lítið. Sennilega er þetta bara eðlilegt. Oft reyni ég að forðast að láta ljós mitt skína. Það er þó ekki alltaf auðvelt. 

Tvennt er það þó sem ég held að mér takist yfirleitt sæmilega í þessu bloggi mínu. Það fyrra er að vaða úr einu í annað. Ég á t.d. erfitt með að skilja hve margir hafa greinlega þörf fyrir að teygja lopann óhóflega. Ef hægt er að segja sína meiningu í fáum orðum finnst mér sjálfsagt að gera það. Munur er þarna á töluðu máli og rituðu. Ekki held ég að fólk verði yfirleitt jafnfljótt leitt á töluðu máli  og rituðu. Þessvegna er það sennilega sem podköst (eða hlaðvörp) allskonar eru svona vinsæl.

Seinna atriðið, sem ég var næstum búinn að gleyma, er einmitt það að hafa bloggin ekki of löng. Því er sennilega best að hætta núna.

IMG 7030Einhver mynd.


2836 - Bubbi Mortens

Nú er ég nýbúinn að setja upp blogg. Oft er það svo að mér dettur mesta snilldin í hug þegar ég er nýbúinn að ausa henni yfir heimsbyggðina. Svo er þó ekki núna. Mér dettur bara ekkert í hug. En þetta kemur, eins og þar stendur. Nú er farið að birta þó klukkan sé ekki orðin nema átta. Ætli vorið sé ekki á næsta leiti.

Meira um forsætisráðherrann okkar. Sú mynd er fræg, a.m.k. hér á Íslandi, þar sem Kata horfir upp í loftið á meðan Trump lætur finna fyrir sér. Ætli það sé ekki frá einhverjum nýlegum NATO-fundi. Þetta uppíloftgláp hennar er í þann veginn að fá alveg nýja merkingu. Fer samt ekki nánar útí það hér og nú.

Hreyfing er nú meðal ríkja í USA í þá átt að láta heildaratkvæðamagn ráða í forsetakosningum og skylda ríki til að greiða þeim atkvæði sín sem flest atkvæði fá í heildina. Með því einfalda ráði mætti koma í veg fyrir að sú erfiða og seinvirka leið yrði farin að kveða á um þetta með viðauka við stjórnarskrána. Auðvitað eru það demókratar sem standa fyrir þessu og repúblikanar eru á móti. Ekki er samt gert ráð fyrir að þetta takist fyrir kosningarnar 2020, en formælendur þessa gera sér vonir um að það takist fyrir 2024.

Afturhaldsmenn allra landa virðast hafa sameinast. Hér á Íslandi er Bubbi Mortens aðeins að pikka í ráðamenn og afhaldsseggi þá sem eru að fara með orðstí alþingis niður í svaðið. Lesið bara greinina hans í Fréttablaði dagsins. Hún heitir: „Þruman er að boða okkur stríð“.

Auðvitað er ég alls ekki sammála Bubba Mortens um allt sem hann heldur fram, en hann virðist þó ekki vera hræddur við neitt og þar að auki geta tekið rökum. T.d. sá ég einhversstaðar grein sem bendir til þess að hann sé hættur að hata Pírata.

T.d. er ég alls ekki á sama máli og hann um laxveiðar. Það er samt önnur saga en í sambandi við hana bendir hann á Vestfirði. Einkennilegt þykir mér það sem haldið er fram um bólusetningar í forystugrein Fréttablaðsins. Þar er sagt að á Vestfjörðum sé aðeins um að ræða 83 prósent þátttöku í mislingabólusetningu þegar þarf a.m.k. 90 til 95 prósent þátttöku til að vernda aðra og komast hjá faraldri.

Vissulega finnst mér gaman að kveðast á við Jóhannes Laxdal Baldvinsson, en stundum er það svo að rímið og stuðlarnir yrkja fyrir mann vísuna. Ég á við að það sé ekki endilega svo að maður meini bókstaflega að fullu hvert orð sem í vísunni stendur. Stundum er ég líka pínulítið ósáttur við stuðlasetninguna hjá honum, en það er ekkert víst að ég hafi út háum söðli þar að detta sjálfur.

Oft fer þetta eftir áherslum sem maður ræður ekki nærri alltaf við og svo geta hugmyndir manna í þessu efni verið mismunandi. Annars held ég að flestir hafi einhverntíma gert vísur og þegar kveðist var á í gamla daga var alveg eins gert ráð fyrir að menn semdu sjálfir næstum per samstundis vísurnar. Steini Briem sem eitt sinn kvaðst á við mig hér heitir Oliver Twist núna og ég gerði þá vitleysu að segjast vilja sjá fésbókarinnleggin hans. Það er ég þó búinn að leiðrétta.

IMG 7039Einhver mynd.


2835 - Er dugnaður dyggð?

Það er einhver fjöldi sem les reglulega bloggin mín. Hvernig sem á því stendur. Áður held ég að ég hafi sagt frá því að ég verð fyrir hálfgerðum vonbrigðum ef ég skrifa blogg og set það upp og fyrsta daginn á eftir reynast gestir samkvæmt Moggabloggstalningu ekki a.m.k. talsvert á annað hundraðið. Stundum verða gestirnir talsvert mörg hundruð en aldrei skipta þeir þúsundum. Sem betur fer liggur mér við að segja þó segja megi að spakmælið „mikill vill  meira“ eigi sæmilega við þarna. Yfirleitt eru kommentin samt ekki ýkja mörg, en nú orðið oftast einhver. Vissulega hef ég bloggað mjög lengi og bloggin mín þekkjast alltaf á númerunum. Lítill vandi er fyrir þá sem kunna sæmilega á Google að leita að ýmsum hlutum í bloggunum mínum. Ekki nenni ég því.

Heyrði ávæning af athyglisverðu útvarpsefni um daginn. Þar minnir mig að spurt hafi verið hvort dugnaður væri dyggð. Um það má að mörgu leyti efast. Þjóðskipulagið á Vesturlöndum og reyndar miklu víðar er samt sem áður einkum grundvallað á þessari spurningu. Letin er kannski alveg eins eftirsóknarverð ef grannt er skoðað. Nú um stundir virðist ekki vera mikill vandi að framfleyta fólki og þessvegna má alveg spyrja hvort ekki sé eins gott fyrir ríkisvaldið að borga öllum lágmarkslaun fyrir það eitt að vera til. Ríkið þykist hvort eð er eiga þegnana. En hvernig verður ríkið til? Það gæti svosem verið næsta spurning.

A.m.k. hér á Íslandi komast menn í þá aðstöðu að fá greitt fyrir að vera til eftir að hafa þrælað fyrir ríkið og þá ríku í vissan árafjölda. Vitanlega má deila um upphæð borgaralauna og eftirlauna og annað þessháttar og ekki ætla ég að halda fram neinum algildum sannleika þar.

Kannski eru þetta of heimspekilegar spurningar til þess að vera settar fram í vesælu bloggi, en mér dettur ekkert annað í hug. Ætlaði samt að segja frá því hér að ég þykist vera brot af sérfræðingi þegar kemur að Trump bandaríkjaforseta. Eikum er mér umhugað um samband hans eða sambandsleysi við fjölmiðla þar vestan hafs. Yfirleitt gagnrýna þeir hann harkalegar en stundum er ástæða til. Les oftast það sem helstu fjölmiðlar þar vestra hafa um Trump að segja. Virðist sem Washington Post fari stundum offari í andúð sinni á honum en að New York Times vilji gjarnan vera yfir aðra hafið. Um íslenska fjölmiðla ræði ég ekki.

Þetta er að verða nóg að þessu sinni. Gleymdi að geta þess áðan að nú þegar ég er farinn að blogga næstum daglega er það m.a. til þess að gestatalningarlistinn hækki svolítið. Samt er ég hugsanlega ekki eins vinsældaháður og sumir aðrir sem hvað Moggabloggsæði snertir eru á svipuðu stigi og ég.

IMG 7040Einhver mynd.


2834 - Trump og Kata

Takið eftir að þið lásuð það fyrst hér og gleymið því ekki. Trump mun tapa í forsetakosningunum á næsta ári og líklegasti andstæðingur hans þar er demókratinn Joseph Robinette Biden Jr. fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

Þessi spádómur byggist annarsvegar á vissu um það að erfiðleikar Donalds Trump muni fara vaxandi á næstu mánuðum. Þingið mun neyða hann til að beita neitunarvaldi sínu í fyrsta skipti á lagafrumvarp sem ógildir yfirlýsingu hans um neyðarástandið á landamærunum við Mexikó. Það mun gerast á næstu vikum.

Samtímis eða jafnvel fyrr mun Mueller skila skýrslu sinni og dómsmálin gegn honum hrannast upp. Jafnvel neyðist hann til að gera skattskýrslu sína opinbera, en gegn því hefur hann lengi barist. Margt hefur Trump samt gert sæmilega vel og satt að segja hefur hann verið ótrúlega heppinn. Allt tekur samt enda og fyrirsjáanlegt er að bandarískir kjósendur munu ekki styðja þennan oflátung lengur.

Spádómurinn um Biden er um margt óvissari. Auðvitað kemur það honum til góða að hafa verið varaforseti. Stuðningur Obama, ef hann fæst, getur líka komið honum mjög vel því völd og áhrif Obama innan demókrataflokksins eru ennþá talsverð. Erfitt er samt að sjá fyrir allt sem gerast kann á næsta ári innan demókrataflokksins, en forkosningar þar hefjast snemma á næsta ári. Þegar eru allmargir búnir að tilkynna um framboð sitt, en Biden ekki.

Erfitt er að fjalla um innanlandspólitík án þess að minnast á verkföll og verkalýðsbaráttu. Samt ætla ég að reyna.

Ekki er annað að sjá en þreytu sé talsvert farið að gæta hjá Katrínu Jakobs. Enda er það engin furða. Ekki er að sjá að hún komi neinum málum fram. Ekki dugir að hrópa hátt um óskyld mál og skipta um þau daglega eins og hún hefur gert að undanförnu. Satt að segja virðist sem henni hafi verið bannað að tala um sum mál. Annars er íslensk pólitík um margt jafnvel skrýnari en sú bandaríska og er þá mikið sagt.

Ekki veit ég fremur en aðrir hvar þingrofsheimildin liggur. Hugsanlegt er jafnvel að Guðni forseti taki ekkert mark á slíkri vitleysu. Hver veit nema það sé ímyndun valdalausra forsætisráðherra að hún sé hjá þeim. Allavega fór Sigmundur flatt á því gagnvart Ólafi kóngi. Læt ég svo útrætt um íslensk stjórnmál.

Mikið er fimbulfambað um samfélagsmiðla þessa dagana. Auðvitað er það ekkert annað en veikleiki hjá skólastjórnendum að hafa látið nemendur komast upp með að hafa og nota jafnvel snjallsíma í kennslustundum. Vitanlega er auðveldara um þetta að tala en í að komast. Ekki get ég samt vorkennt kennurum sem hafa misst allt snjalltækjavald í bekkjum sínum. Þeim hefði verið nær að taka fastar á þessu í upphafi. Auðvitað getur kennari sett allskyns reglur og ætlast til þess að þeim sé hlýtt.

IMG 7058Einhver mynd.


2833 - Þverpokar

2833 – Þverpokar

Það er nú svolítið billegt þykir mér að setja bara örsögu sem þessvegna getur verið örstutt og kalla hana blogginnlegg. Þessa samdi ég í beinu framhaldi af sögunni af Jóni á Hóli og sækýrinni, en mér finnst ansi þunnur þrettándi að kalla þetta blogg. Samt má reyna:

 

  • Hvað eru þverpokar?
  • Það er svona pokar sem eru þversum.
  • En hvað er þversum?
  • Það er, skal ég segja þér. Andstæðan við langsum.
  • En hvað er þá langsum?
  • Eitthvað sem er að endilöngu.
  • Hvað er að endilöngu?
  • Það er endanna á milli.
  • Hvað er endanna á milli?
  • Æ, hættu nú þessum spurningum.
  • Af hverju?
  • Af því bara.
  • Bara hvað?
  • Bara einhvern vegin.
  • Nú, eru þá þverpokar endalausir?
  • Það sagði ég ekki.
  • En, meintirðu það kannski?
  • Eiginlega ekki.
  • Hvað er að reiða vitið í þverpokum?
  • Að vera voða gáfaður.
  • Er það eins og að reiða á reiðhjóli?
  • Já, einmitt.
  • Ég mundi aldrei reiða neinn þversum á mínu hjóli.
  • En langsum?
  • Veit það ekki. Veit bara að ég er voða gáfaður.

 

 

IMG 7060Einhver mynd.

 


2832 - Sækýrin

Nú hefur mér loksins tekist að semja eitt stykki örsögu og fylgir hún hér með:

Sækýr eru merkilegar skepnur. Einu sinni þegar Jón á Hóli var að koma heim frá gegningum sá hann eina slíka. Hún var grá að lit eins og sagt er að þessar skepnur séu jafnan. Strax fór Jón að reyna að sprengja blöðruna sem var framan á nösunum á henni. Hann hafði nefnilega heyrt að með því mót mætti koma í veg fyrir að hún leitaði í sjóinn aftur.

Ef allt gengi síðan að óskum gæti hann kannski komið henni fyrir á auða básnum við hliðina á hinum tveimur beljunum sem hann átti. Samkvæmt sögusögnum voru sækýr mestu kostagripir.

Fyrr en varði tókst honum að komast milli kýrinnar og sjávarins og þá var mikið unnið. Kýrin var nefnilega ekkert ákaflega fljót í förum og Jóni bónda tókst eftir talsvert stímabrak að sprengja blöðruna.

Kýrin varð þá ljúf eins og lamb og leyfði honum að leiða sig inn í fjósið. Þegar þangað kom flýtti Jón sér að koma henni fyrir á auða básnum.

Hann tók nú í hendina á sjálfum sér og óskaði sér til hamingju með afrekið.

Því miður er saga þessi ekki lengri en fróðlegt hefði verið að vita hvernig kýrin reyndist. En hvernig sem leitað er í lausum blöðum frá Sighvati á Stóru-Móum hefur mér ekki tekist að finna niðurlag þessarar sögu. Og er það skaði.

- - - - - - - - - - - -

Pólitíkin er skrýtin tík. Eins og ástandið í þjóðfélaginu blasir við mér núna er ekki annað að sjá en Klausturvitleysan ætli að sigra. Ekkert hefur orðið úr háværum mótmælum feminista og annarra útaf þeim dónaskap sem hafður var í frammi á Klausturbarnum sællar eða vansællar minningar. Margir höfðu þá hátt um nauðsyn þess að hinir og þessir segðu af sér þingmennsku.

Ekkert hefur orðið úr því og verður sennilega ekki úr þessu. Sigmundur Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru þeir einu sem græða á þessu upphlaupi. Katrín litla tapar sennilega mestu. Hún er orðin alger ómerkingur orða sinna. Kannski BB hreki hana bara úr ríkisstjórninni og taka Simma í staðinn. Ekki kæmi mér það á óvart. Líka er hægt að búast við kosningum að áliðnu sumri. Mestu ræður þar hverning verkfallsmál skipast. Ég er ekki sérlega bjartsýnn á að þjóðarhagur verði hafður þar í fyrirrúmi.

Ég gæti haldið áfram að bollaleggja um þess skrýtnu tík, en sennilega þýðir það ekki neitt. Ólíklegt er að ríkisstjórnin taki sönsum og líklegast er að hún atist eitthvað áfram. Vorið og sumarir gæti liðið áður en hún gerir sér grein fyriri vanmætti sínum og sigri vinstri aflanna.

IMG 7075Einhver mynd.


2831 - Þrælahald

Hvernig er þetta eiginlega með íslensku ánægjuvogina. Allir virðast vera bestir. Hvort sem það eru Byko, Sjóvá, Nettó eða Brúttó, jafnvel Róló og Nóló gengur vel þar. Kannski er það einmitt leyndardómurinn. Bara að vera nógu jákvæður. Allir geta unnið og allir eru bestir. Um að gera.

Verkföllin gætu breiðst út. Hver veit nema þau séu næsta tískubóla. Hver hermir eftir öðrum. Sums staðar rífast menn samt um eitthvað annað. En er ekki „eitthvað annað“ einmitt betra en ólukkans verkföllin. Þetta gæti alveg endað með verkbönnun eða einhverju álíka.

Annars finnst mér að verkföllin snúist ekki aðallega um krónur og aura heldur eitthvað mun mikilvægara. Kannski bara um sjálfan grundvöll réttarríkisins. Sú spilling og yfirgangur valdsins sem tíðkast hefur lengi hér á landi hlýtur að fara að breytast. Samanborið við milljónaþjóðirnar erum við eins og hvert annað ættarmót í undirbúningi. Satt að segja erum við Íslendingar svo fáir að við ættum alveg að geta losað okkur við sérgæðin sem víðast annarsstaðar eru greinilega undirstaða spillingarinnar.

Spillingin sem byrjar með valdinu, yfirganginum og sérgæðunum er óhjákvæmileg hjá fjölmennum þjóðum. Vissulega er reynt að hamla gegn henni, en hvergi gengur það vel. Litlar og fámennar þjóðir eins og við Íslendingar ættum að eiga auðveldara með að berjast gegn henni en flestar aðrar þjóðir. Jafnvel höfum við Íslendingar stundum látið eins of við trúum því sjálf að spilling sé hér minni en víðast hvar annarsstaðar. Svo er þó ekki. Hún er bara á svolítið öðru formi en víðast er.

Yfirvöldin eru alveg jafn yfirgangssöm og þau berjast alveg jafnhart fyrir því að halda völdunum. Bara á svolítið annan hátt. Þrjóskast lengur við að segja af sér t.d. Einnig er menntahrokinn landlægur hér. Kannski er það svipað annarsstaðar, ég bara þekki það ekki, því ég er svo ómenntaður. Það er nú eitt. Áður og fyrr þá voru utanfarir eingöngu á snærum þeirra ríku og valdamiklu. Svo er ekki lengur. Vinda þurfti samt bráðan bug að því að koma Wowair á hausinn því þar með var komið í veg fyrir að pöpullinn legðist í ferðalög. Látum vera þó túrhestar glápi á landann, það sakar ekki mikið. Verst hvað auðvelt er að tala við aðra. Hvernig er það annars. „Standa þeir sem eiga símafyrirtækin sig ekki í stykkinu?“

Já, það er allsstaðar hægt að finna sökudólga, ef sú er stefnan. Verum bara feitir þrælar, það er hampaminnst. Kannski hrökkvar einhverjir eigulegir molar af borðum þeirra ríku og voldugu. Best að vera tilbúinn.

Þetta er nú eiginlega bara fimbulfamb hjá mér. Svona gæti ég haldið áfram endalaust. Samsærissögur eru brauð og leikar hinna fátæku og snauðu. Allir geta búið til þessháttar. Um að gera að æfa sig í því. Falsfréttir eru sannleikur nútímans. Samsæri eru allt um kring. Ef ekki til þess að drepa þig, þá til þess að ræna frá þér því sem þú hefur nurlað saman á langri ævi. Göngum bara í sjóinn. Það er mesta vitið.

IMG 7088Einhver mynd.


2830 - Þetta er lokaður fésbókarhópur um verkföll

Er nokkuð það til sem er opnara en lokaður fésbókarhópur? Ég held ekki. Einhverjir virðast samt halda að svo sé. A.m.k. er sífellt verið að birta einhverjar yfirlýsingar í slíkum hópum og furða sig svo á því að allir viti af þessu.

Auðvitað eru vinnudeilurnar mál málanna hérlendis þessa dagana. Mér finnst svona deilur vera hálfmarklausar ef litið er samtímis á heimsmálin. Vitanlega erum við Íslendingar afskaplega smáir og fáir í þeim skilningi að við verðum í stórum dráttum að haga okkur eins og ætlast er til af hinu óskilgreinda alþjóðasamfélagi. Í þeim skilningi verður allt smátt hér á þessari litlu eyju okkar. Mér finnst mestu máli skipta fyrir okkur Íslendinga í hvaða átt mál þróast hér á landi.

Sú þróun sem hefur verið hér á landi undanfarið er öll í áttina til USA fremur en til Norðurlandanna. Þetta finnst mér a.m.k. og undanskil ég ekki verkalýðsmál. Heppilegara tel ég að við snúum okkur í vaxandi mæli til ESB landanna og Norðurlandanna alveg sérstaklega. Vissulega er það svo að öfga-þjóðernisstefna á víða miklu fylgi að fagna bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Sérstaklega þó í Bandaríkjunum.

Í sambandi við verkfallsmálin vil ég taka fram að mér finnst verkalýðsforkólfar óskapast of mikið yfir því hvað aðrir hafi í kaup. Mér finnst miklu nær að einbeita sér að því að reyna að fá laun þeirra sem lítið bera úr býtum hækkuð.

Bankastjórar eða þeir sem ákveða launin fyrir þá þurfa að gera sér grein fyrir því að með því að hækka launin eru þeir að lýsa því yfir að þeim komi ekkert við þó aðrir hafi það skítt. Einu sinni var óskapast mikið yfir því að læknar og flugmenn hefðu of há laun. Þær raddir hafa hljóðnað að mestu núna, en í staðinn er talað um bankastjóra.

Ef þeir hafa of há laun ættu verkalýðsforingjar að geta notað það sem röksemd fyrir því að hækka laun sinna umbjóðenda. Bankastjórar mega fyrir mér hafa 10 eða 20 millur á mánuði. Kannski getur það orðið til þess að laun annarra hækki. Ef ekki þá verður bara svo að vera. Best væri auðvitað að þeir ákvæðu sjálfir sín laun eins og þingmenn gerðu um árabil. Óþarfi að vorkenna þeim það. Sjáið bara forsetann. Hann er látinn vera af því hann er með Svarta Pétur og eykur í sífellu vinsældir sínar. Eiginlega ættu opinberir starfsmenn ekki að hafa verkfallsrétt. Væri ekki spennandi ef þingmenn færu í verkfall? Vonandi kemur að því.

BB segist vera hissa á kröfum launþega. Hann er þá sennilega eini Íslendingurinn sem ekki hefur vitað af því lengi, að til stæði að fara í verkfallsaðgerðir. Annars er augljóst að valdastéttin í landinu hefur yfir þúsund sinnum fleiri aðferðum að ráða til að auka tekjur sínar en verkalýðurinn. T.d. gætu veitingamenn sem best gengið úr SA og samið um hærri laun.

IMG 7093Einhver mynd.


2829 - Ferðastiklur feðginanna

Ennþá eimir svolítið eftir af klaka hér á bílastæðinu fyrir utan. Snjór er eiginlega alveg horfinn. Þegar „asahlákan“ er búin að ljúka sér af, sem væntanlega verður núna um helgina ætlast ég eiginlega til þess að vorið sé á næsta leiti. Auðvitað gæti komið páskahret og allskyns veðurkárínur, en ég ætla samt að vona að svo verði ekki. Klakabreiðurnar eru hálfleiðinlegar. Hinsvegar er maður orðinn vanur suddanum.

Verkalýðurinn er orðinn hálfórólegur núna. Og það er engin furða. Katrín forsætis virðist hafa svikið flest sem hún þóttist standa fyrir. Sagðist vera á móti hvalveiðum, Ekki vilja þetta og ekki hitt, en allt virðist vera breytt núna. Skjólið af BB og Sigurði getur farið hvenær sem er. Þeir eru að vísu stórir og stæðilegir en kannski ekki svo stórir, að þeir geti hlíft henni við dómi sögunnar.

Víðtæk verkföll virðast alveg vera inni í myndinni. Þó talsvert nýnæmi væri í útbreiddum verkföllum er ekki hægt að mæla með þeim. Maður veit aldrei á hverjum þau bitna mest. Alveg síðan Steingrímur Jóhann vildi frekar vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill (eða a.m.k. minni) fiskur í stórri tjörn hefur mér óneitanlega verið svolítið í nöp við vinstri græna. Já, þetta gerðist þegar Samfylkingin var stofnuð.

Af hverju er það talið fínt að vera í götóttum gallabuxum? Eða að láta klofbótina í nefndu fati strjúkast við götuna? Skil þetta ekki. Enda hef ég aldrei skilið tísku. Tískusveiflur eru mér að mestu lokuð bók. Þó man ég að á sínum tíma, í upphafi rokkbylgjunnar, þurftu allir að vera í hvítri peysu og svörtum gallabuxum með hvítum saumum. Nei, tískan, sem einu sinni var með setu, er ekki fyrir mig.

Nú er ég nýkominn úr gönguferðinni og þó lognið hafi þurft að flýta sér svolítið er það þakkarvert hjá máttarvöldunum að það er orðið alveg snjólaust. A.m.k. hér á Akranesi. Nú er bara að bíða eftir vorinu eins og tíðkast hefur frá aldaöðli.

Þættir þeir í sjónvarpi allra landsmanna sem þau feðginin Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson eru skrifuð fyrir eru athyglisverðir í meira lagi. Þessir þættir eru nefndir ferðastiklur. Einkum er það myndatakan sem er eftirtektarverð. Þar hlýtur góðum drónum að vera beitt af mikilli kunnáttu. Myndavélar eru líka góðar. Í fréttablaði dagsins er hinsvegar grein eftir Gunnar V. Andrésson um fólkið á Guðmundarstöðum í Vopnafirði og þar gerir hann heldur lítið úr sögu Ómars um búskaparhætti fólksins þar. Vissulega voru þeir gamaldags, en er ekki stundum ágætt að sækjast ekki alltaf eftir því nýjasta?

IMG 7105Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband