Færsluflokkur: Bloggar

2878 - Ofbeldi internetsins

Um daginn var ég í mesta sakleysi að horfa á menningarþáttinn á eftir Kastljósinu í sjónvarpinu Þá sá ég altíeinu, og alveg að ástæðulausu, mynd af sjálfum mér. Þetta var stutt innslag og greinilega tekið af Youtube, en þangað hefur verið látið mikið af efni sem Hölli tók í Borgarnesi á sínum tíma.

Þetta fékk mig til að hugsa um störf sagnfræðinga framtíðarinnar og allt það efni sem internetið hefur að geyma. Tölvur framtíðarinnar koma til með að vita miklu meira um okkur en við sjálf. Sumu getum við hugsanlega haldið leyndu, en sennilega gera fáir sér grein fyrir því að allt efni sem sett er á Netið eða tölvum trúað fyrir verður þar um alla eilífð og aðgengilegt öllum. Í framtíðinni gæti klósetthegðun okkar og jafnvel hugsun orðið aðgegnileg öllum sem áhuga hafa. Um kynferðislegar athafnir ræði ég ekki.

Sennilega er Internetið meiri bylting en nokkur getur gert sér í hugarlund. Allt í einu geta allir varpað hugsun sinni um alheim allan. Tölvubyltingin er á margan hátt gagntækari en allar þær byltingar sem áður hafa séð dagsins ljós. Þó erum við bara við upphaf hennar. Kannski rætast einhverjar þeirra vísindaskáldsagna sem skrifaðar hafa verið, en eflaust verður framtíðin alltöðruvísi en við höfum ímyndað okkur.

Ein minnisstæðasta dystópía sem ég hef lesið fjallaði um lítinn hóp fólks í Bandaríkjunum sem ferðaðist fótgangandi í norðurátt og gat bara gengið á nóttinni því sólin á daginn var svo heit að hún drap allt kvikt. Gluggar voru stórhættulegir. Kjallarar bestir. Rottur mikið sælgæti.

Tvennt er það sem ég hef lítinn sem engan áhuga fyrir. Það eru matargerð og tónlist. Þetta eru þó þau efni sem tröllríða öllu. Allir miðlar eru uppfullir af þessu og smáatriðum sem tengjast því. Snobbið sem þessu fylgir er geigvænlegt. Sjálf heimshlýnunin bliknar við hliðina. Vonir okkar sem eldri erum er að sú kynslóð sem tekur við af okkur verði betri á allan hátt. Við megum síst af öllu hræða krakkana of mikið. Fjölgun mannkyns veldur þó miklum skaða á náttúrunni.

Nú er ég semsagt andvaka og því eyði ég tímanum í tilgangslausar skriftir. Satt að segja öfunda ég þá sem geta sífellt spýtt frá sér skrýtum örsögum í tugatali eins og Jens Guð. Kannski ætti ég að reyna það. Mér finnst samt erfitt að yfirgefa staðreyndirnar með öllu. Oft geta þær samt verið alveg sérlega lygilegar.

IMG 6658Einhver mynd.


2877 - Bahama

Enn er ég með hugann við Bahama eyjar. Það land hefur nokkurn vegin svipaðan íbúafjölda og Ísland. Þegar fellibylurinn Dorian fór þar yfir fyrir rúmri viku voru það meiri náttúruhamfarir en við Íslendingar getum í fljótu bragði ímyndað okkur. Samkvæmt opinberum tölum nú í morgun hafa 50 til 100 látið lífið í þessum hörmungum. Það gætu samt alveg verið allmörg þúsund. Sennilega hafa á milli 70 og 80 þúsund manns misst heimili sín. Samt hefur varla verið minnst á þetta í fréttum hér á Íslandi og Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að flóttamenn þaðan skuli reknir í burtu hafi þeir ekki pappíra sína í lagi. (Bahama eyjar eru skammt frá Florida.)

Þó ég hafi einhverntíma í fyrndinni verið sæmilega góður í landafræði, er ég það sennilega ekki lengur. Man vel eftir því að Ingibjörg systir var einhvern tíma að skrifast á við einhvern í Kuwait og lenti í rifrildi við Siggu á stöðinni (sameinað pósthús og símstöð), en hún vildi ekki viðurkenna að þetta land væri til.

Sennilega er ég ekki einn um það að þegar talað er um Abu Dhabi, Dubai, Doha, UAE, Qatar, Bahrain o.s.frv. fer allt að snúast í hringi í heilanum á mér og ég veit ekki hvað er í hverju. Til að skilja Mið-Austurlönd þarf samt að þekkja þetta allt og eftir að hafa lesið bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar er ég að byrja að botna í þessu. Það er semsagt ekki nóg að vita nokkurvegin hvar Saudi-Arabía, Sameinuðu arabisku furstadæmin og Yemen eru.

Um að gera að hafa bloggin í styttri kantinum. Kannski fleiri lesi þau þá. Svo er líka hægt að blogga oft á dag. Aðalkosturinn við bloggið umfram fésbókina er að þar getur maður haldið orðinu endalaust. Hraðinn er semsagt ekki sá sami og kjaftavaðallinn hugsanlega minni.

IMG 6663Einhver mynd.


2876 - Mið-Austurlönd

Fyrir þá sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum er ekki neitt spennandi við það að velta fyrir sér hver verði í framboði fyrir repúblikana við forsetakosningarnar á næsta ári. Auðvitað verður það Trump. Hinsvegar er um auðugri garð að gresja ef litið er til demókrata. Þó má segja að það séu einkum þrír sem hafa skorið sig úr þar hingað til. Það eru: Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og öldungardeildarþingmaður, Elizabeth Warren öldunardeildarþingmaður og lagaprófessor ásamt Bernie gamla Sanders sem tókst á við Clinton sællar minningar árið 2016.

Biden þorði ekki að berjast við Hillary þá og eftir því sem haldið er fram í einhverjum miðlum langaði hann til þess og var e.t.v. að hugsa um Warren sem varaforsetaefni. Ég á von á því að baráttan komi til með að standa á milli Biden og Warren og þó ég hafi fyrir nokkru spáð Biden sigri, er ég meira og meira farinn að hallast að sigri Warren. Segja má þó að hún standi meira til vinstri en Biden sem er fulltrúi miðjunnar í flokknum. Kannski eru bandaríkjamenn ekki tilbúnir til þeirrar vinstri stefnu sem Warren er fulltrúi fyrir. Sú stefna yrði samt sögð ansi hægrisinnuð hérna á Íslandi. Lítill vafi er þó talinn á því að unga fólkið muni vilja frjálslyndi á borð við það sem tíðkast í Evrópu.

Auðvitað mundi ég kjósa demókrata ef ég væri bandaríkjamaður, þó allar kosningar þar séu alfarið á valdi peningaaflanna. Þess vegna er ég viss um að fráleitt eru allir mér sammála um þessa skoðun. Bandaríkjamönnum hefur tekist furðanlega að halda í tveggja flokka kerfið. Vissulega hefur það kerfi ýmsa kosti, en jafnframt talsverða galla. Sú öfgapólitík sem þar ríður húsum er að miklu leyti tilkomin vegna þessa óeðlilega kerfis. Guðstrúin og kapítalisminn spillir þar fyrir ýmsu.

Hef undanfarið verið að lesa bókina um Mið-Austurlönd eftir Magnús Þorkel Bernharðsson. Margt athyglisvert kemur fram í þeirri bók. Ég er samt ekki nærri búinn með hana. Þar er meðal annars rætt ítarlega um Palestínuvandamálið. Vissulega er Magnús hlynntur Palestínumönnum, enda hafa síonistar farið mjög halloka að undanförnu í áróðurstríðinu, sem ég leyfi mér að kalla svo. Pólitískt landslag er mjög að breytast um þessar mundir. Lítið þýðir að tala um hægri og vinstri. Mun árangursríkara er að tala um flóttamenn og hælisleitendur. Nú eða feminista og feðraveldi. Ágreiningsefni má alltaf finna.

Ljótustu orð í íslensku eru kannski þjóðernishyggja og heimsvaldastefna. Meðal annars þessvegna má segja að sjálfstæðisbarátta Katalóníumanna eigi sér stað á vitlausum tíma. Við íslendingar fengum okkar sjálfstæði árið 1918, hvað sem kjötfars og súpur segja. Þetta gerðist í lok fyrri heimsstyrjaldar en segja má að vandræðin í Mið-Austurlöndum hefjist einmitt um það leyti. Það var svo í lok seinni heimsstyrjaldarinnar sem við stofnuðum lýðveldi hér á landi með stuðningi USA.

IMG 6688Einhver mynd.


2875 - Dorian

Trump er kannski ekki sá alversti af bandarískum forsetum, en hann er örugglega meðal þeirra verstu. Í bandarískum fjölmiðlum er aðalmálið Trump um þessar mundir og hvað hann og bandarískar veðurstofur hafi sagt og spáð um fellibylinn Dorian. Íslenskir fjölmiðlar draga einkum dám af bandarískum og þýða eða reyna að þýða mest krassandi fréttir þaðan. Oft eru þær hundgamlar og að engu hafandi. Einu sinni voru „fréttir“ af þessu tagi einkum fluttar í mánaðarlega útgefnum sorpritum.

Fellibylurinn Dorian hefur valdið miklu tjóni á Bahamaeyjum. Samt hefur afar lítið verið fjallað um hann í íslenskum fjölmiðlum. Ruv-ið er bara eins og það er og flytur næstum einungis amerískar fréttir. Þegar Pence-fíflið kom hingað um daginn var ekki hægt að koma neinum öðrum fréttum að, þar á bæ. Þó hann hafi bæði logið og reynt að blekkja, fylgdi RUV ekki einu sinni bandarískum fréttum hvað hann snerti. Þar var mest gert úr því að hann og fylgdarliðið hafi gist á hóteli sem Trump átti, þó það væri langt frá Dublin. Já, stríð Trumps við fjölmiðlana tekur á sig ýmsar myndir. Enginn hafði nokkurn áhuga á því sem Pence sagði, enda er aldrei tekið neitt mark á honum. A.m.k. gera stóru Bandarísku fjölmiðlarir það ekki.

Eyðileggingin af völdum fellibylsins Dorians á Bahamaeyjum er alveg gífurleg og kannski kemst sú eyðilegging í fréttirnar á RUV í næstu viku eða svo. Málið er mér kannski skyldara en ella vegna þess að önnur tengdadóttir mín er þaðan. Um Indland gegnir alltöðru máli.

Indverjar sendu eldflaug á loft í júlí síðastliðnum með geimstöð og tunglfar innanborðs og núna um daginn reyndu þeir að lenda tunglfarinu mjúklega á tunglinu, en mistókst það. Ísraelar reyndu það sama fyrir skemmstu, en mistókst einnig. Á sínum tíma mistókust margar ómannaðar geimferðir Bandaríkjamanna. Mannaðar geimferðir eru ekki í mikilli tísku núna þó töluvert sé umliðið síðan Bandaríkjamenn sprönguðu um á tunglinu. Allavega er það ekki mikið í fréttum þó ýmislegt gerist á því sviði. Áhugavert er að fylgjast með ýmsu í sambandi við stjörnufræði og geimferðir. Einkum nú að undanförnu.

Horfði í gærkvöldi á nýjan spurningaþátt á RUV. Ekki er hægt að neita því að hann virðist vera allhraður og skemmtilegur, þó líka sé hægt að halda því fram, að hann sé heldur ómerkilegur. Vel tókst til að skeyta saman vinsæla leiki eins og Hangman og fleiri, án þess að mikið bæri á því.

Hver segir að bloggskrif þurfi að vera af ákveðinni lengd? Ég er mest að hugsa um að láta þetta duga í bili. Ekki virðist mikill áhugi á svona almennum skrifum eins og ég stunda.

IMG 6689Einhver mynd.


2874 - Introvert

Vissulega er viskiptastríð Kína og Bandaríkjanna að harðna. Allir munu tapa á því stríði. Bandaríkin þó örugglega meiru en Kínverjar. Það er af þeirri einföldu meginástæðu að þeir hafa meiri stjórn á sínu fólki einmitt í krafti kommúnismans. Vestrænar þjóðir eru u.þ.b. að tapa viðskiptastríði sínu við Rússland og þessvegna er ekki ástæða til að fara einnig í samskonar eða svipað stríð við Kína. Á þá að láta Kínverja bara vaða yfir okkur? Svo er allsekki, okkur vantar sárlega skárri forseta yfir öflugasta viðskiptaveldi hins vestræan heims, en Trump ræfilinn. Hann veður bara áfram og hugsar mest um eigin hag. Kannski endrum og eins um hag Repúblikanaflokksins, en um vestrænt lýðræði og mannréttindi er honum skítsama. Annars ætti ég kannski ekki að vera að úttala mig um alheimsstjórnmál, en ég get bara ekki hamið mig þegar Trump gerir mestu vitleysurnar.

Sennilega er ég introvert eins og það er kallað á fræðimannajargoni. Mér finnst ég oft hugsa eftir alltöðrum brautum, ef svo má segja, en annað fólk. Með öðrum orðum: ég er ekkert skrítinn haldur bara allir hinir. En hvað er að vera introvert? Samkvæmt mínum skilningi er það að vera einrænn og sjáfum sér nógur. Samt er ekki hægt að komast hjá því að álykta að það sé samband manns við aðrar manneskjur, sem mestu máli skiptir í lífinu. „Enginn er eyland“ er stundum sagt og sennilega er mikill sannleikur fólginn í því. Annars er þetta efni sem er margflókið og erfitt að komast að nokkurri niðurstöðu.

Það er ekki þannig að mér sé að detta þetta í hug núna á gamals aldri. Hingað til hef ég þó afar lítið skrifað um þetta. Kannski er ég bara að verða skrítnari núna en ég hef áður verið. Hvernig er það hægt? Kynni einhver að segja. Mér finnst álit annarra afar litlu máli skipta. Samt sem áður kemur þetta afskiptaleysi mitt oft þannig út að ég sé að eðlisfari feiminnn. Það held ég samt að sé ekki rétt. Ég þoli samt illa margmenni og finnst annað fólk oftast standa mér að baki í flestum efnum. Svo getur þó varla verið því ekki hef ég náð neinum árangri sem talandi er um í neinu efni.

Mér leiðast skáldsögur og þó sérstaklega krimmar. Í fornöld hefði þetta verið kallað lygisögur eða Fornaldarsögur Norðurlanda. Það er ekki laust við að einhver fótur sé fyrir ýmsu í Íslendingasögunum. Sturlunga er hins vegar fræðirit. Eða a.m.k. hugsuð þannig af höfundunum, sem sennilega eru fjölmargir. Annars ætti ég ekki að vera að spekúlera í þessu því ég er enginn Íslenskufræðingur. Komst ekki einu sinni í Menntaskóla á sínum tíma. Kristnisögu og ýmis forn guðræknileg rit hef ég allsekki lesið enda ekki ginnkeyptur fyrir svoleiðis löguðu.

Bækur, fræðilegs eðlis, eru oftast þeim annmörkum háðar að venjulega er þar aðeins um að ræða það sem einum (eða í mesta lagi fáeinum) finnst merkilegt. Fjölmargir kunna að vera allt annarrar skoðunar. Mér finnst ég hafa áhuga á fjölmörgu, en öðrum finnst sennilega að ég hafi áhuga á fremur fáu. Sennilega er það vegna þess að ég hef ekki snefil af áhuga á tónlist eða matargerð af neinu tagi og er þar að auki er ég fremur andsnúinn fésbókinni.

IMG 6693Einhver mynd.


2873 - Skák og mát

Er ekki frá því að ég sé sífellt að blogga sjaldnar og sjaldnar. Hvernig ætli standi á því? Veit það ekki, en hitt veit ég að bla. bla. bla. Þetta var einu sinni afar vinsæl aðferð til að skipta um umræðuefni. Oft er það nauðsynlegt. Um að gera að halda orðinu. Ekki gefa öðrum of mikinn sjens. Einn af aðalkostunum við samfélagsmiðlana er að þar er hægt að halda orðinu endalaust. Hér má gjarna segja franskbrauðsbrandarann þó það sé óneitanlega farið að slá svolítið í hann. Einmitt útaf þessu er fésbókin líkari kaffibolla-kjaftæði en bloggið.

Ef hægt er að segja að fésbókin sé kaffibolla-kjaftæði þá er bloggið líka einskonar predikun. Einu sinni las maður með athygli öll þau blogg sem maður frétti af. Því lengri sem þau voru þeim mun betra. Nú finnst mér að blogg megi ekki vera of löng. Attention spanið fer víst sífellt minnkandi hjá flestum.

Nú er ég farinn að fjölyrða um uppáhaldsefnið mitt. Þ.e.a.s. muninn á bloggi og fésbók. Sagði ég ekki einmitt í síðasta bloggi að Sturlungaöldin væri mitt uppáhaldstímabil. Auðvitað þekki ég fjölmörg önnur. Af eigin reynslu þekki ég sveitaballasjarmann og fyrstu árin eftir Heimsstyrjldina síðari. Já, ég er svona gamall. Sagnfræði og bókmenntir eru mitt uppáhald. Í sambandi við tónlist og matseld er ég alveg blankur. Þessi síðastnefndu svið virðast samt vera afar vinsæl nútildags. Ætti ég kannski að segja nútildax. Þá er eiginlega komið að mínu þriðja áhugamáli en það er íslenska í öllum sínum fjölbreytttu og marsgskonar myndum.

Eitt áhugamál mitt er ónefndt ennþá, en það er skák. Að vísu get ég afar lítið núorðið en í eina tíð var ég með vel yfir 1500 stig. Komst aldrei hærra enda hefði ég þá þurft að sleppa einhverju öðru. Einu sinni vissi ég líka ýmislegt um tölvur. Las meira að segja kennslubók í DOS eftir Jörgen Pind í rúminu á kvöldin.

Það er þetta með áhugamálin. Þau koma og fara. Einu sinni hélt ég að ég væri efni í skáld, eða a.m.k. rihöfund. Þær grillur er ég fyrir löngu laus við. Kvikmyndum og poppi hef ég aldrei haft sérstakan áhuga fyrir. Þá eru nú íþróttirnar skárri. Man m.a. vel eftir Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, þar sem Villi sprækur stökk sitt fræga stökk. Hann stökk líka feiknahátt í hástökki án atrennu. Það sá ég á Bifröst.

Skrítið að heyra aldei frá öllum þeim sem lesa þetta blogg. Þeir eru að vísu ekkert sérlega margir. En samt. Þeir sem einhverntíma hafa skrifað athugasemdir við þessar hugdettur mínar eru samstundis fastir lesendur í mínum huga. Hverfa ekki þaðan fyrr en eftir dúk og disk.

IMG 6744Einhver mynd.


2872 - Sturlungaöldin

Að fá litaða ljósaperu fyrir 8 þúsund krónur er náttúrulega gjafverð og fyllsta ástæða til að auglýsa það á stórri baksíðuauglýsingu í Fréttablaðinu. Reyndar er engin furða þó Nova séu dálítið dýrseldir, fyrst þeir þurfa svona dýrar auglýsingar. Í ljósi þess að maður sem rekinn var fyrir afglöp í starfi fékk 150 milljónir króna í sárabætur, er þetta kannski ekkert sérlega mikið. Kannski hef ég bara dregist svona mikið aftur úr fyrir aldurs sakir. Mér finnst það samt ekki.

Ofanritaða klásúlu setti ég á fésbókina því mér ofbauð þessi auglýsing, en kannski verður þetta með öllu úrelt á morgun og komið eitthvað nýtt til að hneykslast á. Hvað veit ég? Á maður ekki helst af öllu að vera jákvæður gagnvart hverju sem er. Ef ég fengi, þó ekki væri nema 6-7 þúsund krónur fyrir hverja ljósaperu í íbúðinni væri ég alveg til í að sitja í myrkri þangað til ég kæmist í verslun sem seldi ódýrari perur. Síðastliðinn mánudag skrifaði ég þetta.

Bretar létu plata sig til að ganga úr ESB og nú sjá þeir eftir því. Ekki finnst mér gæfulegt fyrir þá að gera það án samnings. Sennilega fallast þeir að lokum á það sem Theresa May var búin að semja um. Kannski geta Bretar svosem farið út ESB og það án samnings. Þeir eru líka stórþjóð sem auveldlega getur leyft sér ýmislegt. Ef hérlendir andstæðingar orkupakka númer 3 eru í rauninni á móti veru okkar í EES eins og margir halda fram, er ég enganvegin á því að við ættum að fella hann. Auk þess sem vera okkar í því samstarfi hefur auðveldað okkur mjög allan útflutning og þarmeð bætt stórlega lífskjör okkar, hefur sú aðild fært okkur margar leiðréttingar á lagakerfi okkar. Þar að auki er ég þeirrar skoðunar að við eigum fleira að sækja til Evrópuþjóða en til Bandaríkjanna.

Eiginlega byrjaði Sturlunga-aldar áhugi minn á því að ég las og eignaðist einhverntíma í fyrndinni Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Í skóla var reynt að troða ýmsu um Sturlungaöldina í okkur, en mér fannst þetta allt saman ósköp ruglinglegt, þó vissulega væri það áhugavert. Aldrei las ég Sturlungu sjálfa, en hafði þó talsverðan áhuga á þessu tímbili Íslandssögunnar. Það var svo ekki fyrr en ég skoðaði Sögu-Atlasinn sem ég fór svolítið að skilja þessi ósköp.

Á þessari öld las ég svo skáldsögur Einars Kárasonar um Sturlungaöldina og nú má segja að ég sé heltekinn af þessu tímabili. Fyrstu sögurnar „Óvinafagnað“ og „Ofsa“ las ég fyrst en núna nýlega „Skálmöld“ og „Skáld“ í bók með öllum sögunum sem mér hefur skilist að sé nýkomin út og ég fékk lánaða á bókasafninu hér á Akranesi. Er um þessar mundir að lesa „Sturlunga sögu“ á vef rafbókasafnsins.

„Viðskiptabaðið“ (takið eftir að ég segi baðið en ekki blaðið) er sennilega með misheppðustu falsfréttum sem ég hef séð. Hef samt ekki verið að leita að þeim. Sem betur fer er ég að eðlisfari fremur tortrygginn. Sagt er að einhverjir hafi fallið fyrir þessari bitcoin-tröllasögu, en þeir geta nú varla verið margir. Á Netinu er til vefur sem heitir „falsfréttir.is“ og eflaust er hægt að trúa því sem þar er sagt. Þeir eða þær eða þau gætu samt misst af einhverju og eflaust er gott að vera sæmilega tortrygginn, sérstaklega gagnvart fésbókinni, sem ég hef nú fremur lítið álit á.

IMG 6746Einhver mynd.


2871 - Óvelkomni maðurinn

Baráttan um klikkin. Enginn vafi er í mínum huga á að peningaplokkið hefur heltekið internetið. Fjölmiðlar eru skoðanamyndandi. Heimilisföng og ýmsar upplýsingar um fólk ganga kaupum og sölum. Fólk ímyndar sér að það sé yfir þessa baráttu hafið, en staðreyndin er sú að allir eru þátttakendur í þessum leik. Gagnaverum mun fjölga og allskyns þjónusta við tölvur mun bara vaxa á næstu árum. Allar framkvæmdir og aðgerðir mannfólksins munu í vaxandi mæli taka mið af þörfum tölvuheimsins og stóru alþjóðafyrirtækjanna. Ekki spái ég því að tölvur og gervigreind muni beinlínis taka völdin á næstunni. Þróunin er samt greinileg í þá átt. Lengi mun mannkynið halda að það hafi völdin eftir að það hefur í raun misst þau.

Fjölmiðlar standa framarlega í þessari baráttu. Þeir dreifa bæði upplýsingum og skoðunum. Hafa þannig mikil áhrif á stjórnmálaþróun alla. Öll fjölmiðlun mun á næstunni flytjast á internetið. Pappírsprentun mun að mestu leggjast af. Bækur verða æ sjaldgæfari og minimalisminn og megrunaræðið mun leggjast sífellt þyngra á fólk. Margt má auðvitað um matinn segja. Þar stendur mannkynið langt að baki vélunum.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er á skaðlegan hátt hægt að segja að byssulöggjöf öll sé flokkspólitískt mál. Völd og áhrif NRA (National Rifle Association) eru geysimikil eins og allir vita. Meðan Republikanar halda völdum í efri deildinni (Senatinu) og forsetinn kemur úr þeirra röðum er ekki við neinum umbótum á byssulöggjöfinni að búast. Demókratar virðast á hinn bóginn a.m.k. vilja gera árásarvopn hverskonar ólögleg. „Byssur drepa ekki fólk, menn gera það“ segja stuðningsmenn óbreyttrar byssulöggjafar jafnan og kenna útbreiðslu ofbeldisfullra tölvuleikja oft um „mass shootings“.

Sennilega hefur Moggabloggið á sér hægri stimpil. Að svo miklu leyti sem hægt er að tengja íhaldssemi og hægri stefnu saman er það kannski rétt. Vinstri stefna er af hægri sinnuðu fólki gjarnan talin óraunsæ með öllu. Hvernig dýr og flóttafólk er meðhöndlað og réttindi þess munu í framtíðinni einkum skera úr um stjórnmálalega stefnu. Ekki virðist lengur rétt að skipta flokkkum eftir hægri og vinstri, miklum eða litlum ríkisafskiptum eða alþjóðahyggju vs. einangrunarstefu heldur eftir afstöðu til flóttamanna og hælisleitanda. Peningaleg afkoma mun þó áfram skipta miklu máli hjá flestum, þó annað sé hugsanlega látið í veðri vaka.

Lengi hef ég verið heldur á móti glæpasögum (krimmum) Arnald hef ég lesið talsvert og hann er nokkurð góður. Flateyjargátuna las ég á sínum tíma og fannst höfundur hennar allgóður. Yrsu hef ég mjög takmarkað álit á og einnig á flestum öðrum íslendskum höfundum í þessari grein. Nýlega las ég bók sem heitir „Óvelkomni maðurinn“. Þetta er glæpasaga sem ég las spjaldanna á milli, en það geri ég sjaldan. Held hún sé eftir Jónínu Leósdóttur og sennilega er þar á ferðinni einhver besti krimmahöfundur landsins.

IMG 6750Einhver mynd.


2870 - Mass shootings

Held að það sé alveg rétt að ástæðan fyrir því að Sigmundur Davíð og Davíð Oddsson fallast svona í faðma núna sé sú að báðir séu á mótir EES-samningnum. Að vísu var Doddsson forsætis þegar hann var gerður en hann er eins og Simmi að hann tekur jafnan þá afstöðu sem hann heldur að komi honum best hverju sinni. Það sem flestir sjá sem kosti við þann samning sjá þeir sem ókosti. Aumingja mennirnir. Samt held ég að þeir ættu að fá að hafa sínar skoðanir í friði. Verst að þeir reyna að troða þessum skoðunum uppá aðra.

„Mass shootings“ eru mjög í tísku um þessar mundir í henni Ameríku. Þ.e.a.s. í Bandaríkjunum. Sagt er (og sennilega er það alveg rétt) að af öllum „gun deaths“ í USA séu þau sem orsakast af „mass shootings“ (þar sem 4 eða fleiri særast eða deyja) u.þ.b. 1%. Mörgun finnst þessi tala ótrúlega lág. Í „gun deaths“ eru sennilega innifaldir dauðdagar sem orsakast af slysaskotum, sjálfsmorðum og af völdum lögreglunnar. „Mass shootings“ fá þó mikla fjölmiðlaumfjöllun og eflaust er það oftast svo að sárasaklaust fólk verður fyrir þessum ósköpum. Líklega finnst flestum sem ekki þurfa að búa við þessa ógn að rétta svarið við þessu sé ekki að vopna sem flesta. T.d. kennara í skólum og varðmenn við alla opinbera staði og verslanir. Einhvern vegin verður þó að bregðast við þessu. Sök fjölmiðla er hugsanlega einhver.

Sennilega lesa fáir blogg þessa dagana. Af hverju eru næstum allar fjölmennar útihátíðir um verslunarmannahelgina? Það er löngu úrelt klisja að það séu næstum allir aðrir en þeir sem vinna í búðum í fríi á frídegi verslunarmanna. Samt er það svo. Kannski tekur fésbókin sjálf sér frí á þessum degi. Efast samt um það. Lognið og góðviðrið hér að Suðvesturhorninu er orðið meira en elstu menn muna. Það er þetta með elstu mennina sem ég set svolítið spurningarmerki við. Sennilega fer ég að teljast til þeirra. Samt finnst mér einsog alltaf hafi verið gott veður þegar ég var lítill. Snjórinn reyndar með mesta móti á veturna þá, en sleppum því. Veðuráhugi fólks er mikill, en veðurminni lítið. Best að spyrja Sigurð Þór eða Trausta. Tala nú ekki um að lesa boggin þeirra og fésbókarinnleggin.

Mikið hefur nú enn á ný verið talað um Klausturmál. Öll sú umfjöllun leiðir e.t.v. ásamt öðru til hugarfarsbreytingar, en ekki er að sjá að hún valdi breytingu á kosningahegðun fólks. Annars er alltaf varasamt að heimfæra skoðanakannanir á kosningaúrslit. Samt er talsvert að marka skoðanakannanir sem gerðar eru nálægt kosningum. Um það eru mörg dæmi. Með því að spila á slíkar kannanir tekst politíkusum stundum að hafa áhrif á kjósendur og auka þannig völd sín til skamms tíma.

Best er samt að láta kosningar og dómstóla (lítið spillta) ráða framúr flestum ágreiningsmálum. Hótanir og hernaður hafa oft öfug áhrif. Þar sem spilling er mikil verður stundum að koma til erlend íhlutun og ber að fagna henni en ekki fordæma.

IMG 6798Einhver mynd.


2869 - Þriðji orkupakkinn

Í mínum huga eru Íslendingasögurnar bara þrjár: Njála, Laxdæla og Eyrbyggja. Flestir mundu þó telja Hrafnkötlu, Egilssögu og Grettissögu þarna með. Þessar sögur eru samdar sem bókmenntaverk. Allt annað finnst mér vera samtíningur og sitthvað. Auðvitað eru fáir á sama máli og ég um þetta. Sem betur fer hef ég lítið vit á þessu og ég var einn af þeim sem var næstum alveg farinn að trúa Bergsveini Birgissyni þegar hann í sínum langa formála beitti allri sinni kunnáttu og færni til þess að telja saklausum lesendum sínum trú um að fundist hefði ein Íslendingasaga til viðbótar og fjallaði hún um „svarta víkinginn“ sem hann nefndi svo.

Eina bloggið sem ég les næstum daglega eru bakþankar Fréttablaðsins. Stundum er ég sammála því sem þar er sagt, en sundum með öllu ósammála. Aðalkostur þess bloggs er að það eru hinir og þessir sem skrifa það. Öfugt við forystugreinar blaðsins er það ekki alltaf ýkja hátíðlegt. Stundum er það beinlíkis skemmtilegt, en það eru forystugreinarnar aldrei. Tveir Guðmundar eru mínir uppáhaldsbloggarar um þessar mundir. Steingrímsson og Brynjólfsson báðir skrifa þeir öðru hvoru í Fréttablaðið. Ég viðurkenni þó að oftast er Mogginn efnismeiri en Fréttablaðið, en hann er líka ekki ókeypis.

Tveimur vísum man ég eftir sem fjalla um presta. Sú fyrri er svona.
Séra Magnús settist uppá Skjóna
sá var ekki líkur neinum dóna.
Hann var glaður.
hátt agtaður
Höfðingsmaður.
Honum ber að þjóna.

Hin er þannig.
Mér er sem ég sjái hann Kossút
með svipu í hendi reka hross út.
Sína gerir hann svipu upp vega
séra Stefán á Mosfelli-lega.

Enga hugmynd hef ég um eftir hverja þessar vísur eru. Enda finnst mér það lítlu máli skipta. Báðar eru vísurnar samt góðar og falla mér fremur vel í geð. Unglingum dagsins finnst sjálfsagt lítið til þeirra koma en það segir afar lítið um gæði vísnanna.

Ekki er ég Miðflokksmaður og seint mundi ég styðja Sigmund Davíð í öllum hans vitleysum. Ekki er ég heldur neinn stjórnkerfisfræðingur. Hinsvegar finnst mér Sigmundur og samflokksmenn hans hafa dálítið fyrir sér í sambandi við O3. Ekki gengur að hægt sé að smeygja ýmsu sem hefur lagagildi framhjá forsetanum með því að segja bara að það séu þingsályktanir en ekki lög og honum komi það ekkert við. Sá held ég að hafi ekki verið skilningur þeirra sem samþykktu núverandi stjórnarskrá. Samt er ég alveg viss um að Guðni forseti mundi ekki senda O3 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt eru þær of fáar og þar að auki ekki neitt sem skyldar alþingi til að taka mark á þeim, enda gerist það ekki. A.m.k. ekki alltaf. Stundum eru þær líka svo klaufalega orðaðar að leggja má margskonar skilning í þær. Já, ég er að tala um nýju stjórnarskrána til dæmis. Minn skilningur er sá að alþingisfólk séu þjónar almennings en ekki öfugt.

Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband