Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

3067 - Pfizer

Í dag er ég að hugsa um að fara í enga morgungöngu. Byrja þess í stað á næsta bloggi. Ævinlega er ég í besta bloggstuðinu eftir að ég hef nýlega sett upp blogg. Svo er nú.

Hafdís og Áslaug fóru til Reykjavíkur í gær og komu auviðað við í Costco og Ikea. Eru það ekki annars aðalbúðirnar í Reykjavík nú til dax? Ekki er að orðlengja það að þarna eyddu þær peningum eins og þeim væri borgað fyrir.

Gleraugnavesenið á mér hefur ekkert minnkað við augasteinaskiptin. Nú hafa sólgleraugu bæst við og að sjálfsögðu þarf ég að nota lesgleraugu þegar svo ber undir. Þessu hvorutveggja týni ég reglulega. Kannski hef ég verið búinn að skrifa um þetta áður. Við því er ekkert að gera. Ekki nenni ég að fara að lesa blaðrið úr sjálfum mér. Vona að allir skilji það.

Þó við hjónin séum bæði búin að fá Phizer bóluefnasprautu tvívegis ætla ég að reyna að sleppa því að kommenta á bóluefna og eldgosafréttir. Á þeim hljóta allir að vera búnir að fá leið. Furðulegt samt hvað blaðamenn endast. Annars væri sennilega algjör gúrka.

Bjarni kom hingað í dag til að hlaupa. Einnig kom hann með fáeinar bækur sem hann skildi eftir hér. Meðal annars bækurnar „Ísland í aldanna rás“ í tveimur bindum. (1900 – 1950 og 1951 – 1975). Einnig tvær listaverkabækur fyrir Áslaugu. Íslandsbækurnar eru afar fróðlegar og með miklu af frábærum myndum. Ekki vildi hann borða hér þó Charmaine væri að vinna.

IMG 4922Einhver mynd.


3066 - Krsti himmelfartsdag

Frá litlu er að segja núna, enda er klukkan svosem ekki orðin margt.

Samt er það svo að við hjónin ætlum í ferðalag, og gista í einar 10 nætur, í næsta máuði en Guð og kófið leyfa. Hef óbilandi trú á því að þessi faraldur eða drepsótt sem hefur leikið okkur grátt að undanförnu sé nú loksins á undanhaldi. Bjarni ætlar að ég held að taka þátt í Hengill-ultra hlaupinu. Þó fer hann sennilega ekki 150 kílómetra, þó sumir ætli víst að reyna sig við þá vegalengd.

Enn er ekkert lát á gluggaveðrinu. Sólin skín næstum því allan sólarhringinn. Hvílir sig bara smá. Úthald er þetta. Í gær hvíldi maður sig ítarlega, þó fór ég á verkstæðið hérna rétt hjá til að fullvissa mig um að ég gæti fengið bílinn yfirfarinn áður en haldið verður í ferðalagið mikla og væntanlega.

Mig er farið að langa til Færeyja. Þar er víst ekkert Covid-19 að sagt er. Þegar Covidinu lýkur er ég að hugsa um að breyta mér á ýmsan hátt. Læt samt lítið uppskátt því auðvitað getur þetta mistekist allt saman.

Það er þetta með myndirnar. Á margan hátt er það mesta verkið hverju sinni í sambandi við bloggið að myndskreyta það. Þó er ég að endurnýta myndir sem ég hef birt áður. Vona að aðrir séu jafngleymnir og ég. Man nefnilega ekkert eftir þessum myndum fyrr en ég sé þær.

Held ég hafi sagt frá því áður að einhvers konar vísur ásækja mig flesta daga. Í dag eru það þýðingar úr þýsku sem eru á sveimi í huga mér. Ég er að hugsa um að tilfæra þær hér. Þýska réttritunin er eflaust ekki nærri því rétt hjá mér og ég bið fyrirfram forláts á því.

Wer nicht liebt Weib, Wein und Gesang er bleibt Nar sein Leben lang.

Ich weiss nicht was soll es bedeuten dass Ich so traurig bin. Ein Marchen vor alten seiten es kommt mir nicht aus dem Sinn.

Sú fyrri hefur verið þýdd þannig:

Sá sem ekki elskar vín
óð né fagra svanna.
Verður alla ævi sín
andstyggð góðra manna.

Og sú seinni þannig:

Ég veit ekki af hverskonar völdum
svo viknandi ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.                                                   

Þarna hafa sennilega andans stórmenni komið nálægt og ekki gæti ég bætt þarna úr.

IMG 4955Einhver mynd.


3065 - Minniborgir.is

Hér um slóðir vakna menn greinilega snemma. Þegar ég kíkti á bloggið mitt í morguna fyrir klukkan átta höfðu einir tuttugu lítið inn til mín síðan ég bloggaði eftir andvökunótt um fjögurleytið. Andskotans læti eru þetta.

Annars er ég að endurnýjast blogglega séð. Farinn að skrífa meira og senda þau skrif út í eterinn. Vafasamt er þó hvort öll þau skrif eru til bóta. Sjáum til. Enn einn gluggaveðursdagurinn er nú upprunninn og enn er maður hissaður á þvi hvað allir eru kuldalega klæddir þrátt fyrir góðviðrið.

Er að hugsa um að gera þetta að einkonar dagbók. Þ.e.a.s. skrifa hér um ýmislegt sem gott er að geta flett uppá einhverntíma seinna. Í gær skrifaði ég eimitt þannig. Sagði meðal annars frá því að við fórum uppað Minniborg um helgina sem leið o.s.frv. Auðvitað hefði verið hægt að skrifa meira um það udflugt, en ég gerði það semsagt ekki. Fannst ekki taka því. Nú er ég hinsvegar kominn að aðra skoðun. Í stórfjölskyldunni voru að þessu sinni eftirfarandi: Ég og Áslaug. Hafdís og Jói. Bjarni, Charmaine og Tinna. Benni, Angela og Helena. Díana kom líka á eigin bíl og stoppaði stutt. Anton og Adda. Þá er held ég upptalið. Niður að Sólheimum held ég að allir hafi farið nema Díana, Anton og Adda. Þarna voru þrír heitir pottar (einn að vísu bilaður) þrjú kolagrill og eitt gasgrill. Allt var þetta óspart notað. Á sunnudagsmorguninn (eldsnemma eða fyrir kl. 7) fór ég t.d. í pottinn og hafði gott af.

Held að hingað á Moggabloggið komi fólk til að lesa fréttir og að lesa ýmislegt annað í leiðinni en ekkert endilega til að sækja íhlaldsstefnulínu fyrir sig og skyldulið sitt. Mikið er samt skrifað og skrafað um pólitík hér. Þessvega er ég að hugsa um að skrifa aðallega um hitt og þetta sem ekki eru pólitískar deilur um. Væntanlegar kosningar í haust eru samt athyglisverðar eins og kosningar eru jafnan. Fyrstu kosningarnar sem ég man eftir að hafa fylgst eitthvað að ráði með voru kosningarnar sem komu Emelíu sálugu til valda. Síðan hefur oft verið kosið og ýmsum veitt betur.

IMG 4956Einhver mynd.


3064 - Ehemm

Hvað er það sem er erfiðast við ellina? Ég er bráðum orðnn áttræður svo ég ætti að vita það. Í sem stystu máli er það að finna líkamlega getu og þol hverfa smám saman og koma ekki aftur. Þetta finnst mér eriðast, en ekki er víst að öllum finnist það. Árafjöldinn segir ekki mjög mikið. Samt er eðlegt að miða við hann. Þekki engan sem náð hefur áttræðisaldri samt án þess að hafa misst eitthvað af líkamlegri færni.

Um síðustu helgi vorum við stórfjölskyldan í góðu yfirlæti í smáhýsum við minniborgir.is. Fórum flestöll niður að Sólheimum á laugardeginum og vorum um kvöldið í matarveislu í sameiginlega rýminu. Hafdís átti afmæli. Við Áslaug komum við hjá Bjössa og Lísu og síðan Herði og Ingibjörgu á heimleiðinni. Þar stoppuðum við svolitla stund og þar komu við nokkrir úr stórfjölskyldu Ingibjargar. Svo fórum við heim á Akranes. Erum smám saman að reyna að segja skilið við kófið.

Gamlingjastríðið veldur miklu um það að ég endist ekki til að skrifa neitt að ráði á bloggið mitt. En til þess að einhverjir vilji lesa þetta, virðist það þurfa að vera allreglulegt. Með öðrum orðum: það þarf helst að skrifa á hverjum degi.

Fingrasetningin á tölvuna er svolítið að fara úr skorðum hjá mér, en samt held ég mig við hana. Þegar maður er einu sinni kominn yfir tveggja putta aðferðina er erfitt að hætta við fingrasetninguna. Horfi jafnóðum á það sem ég skrifa, en það gerði ég ekki einu sinni. Skrifelsið er mér í blóð borið. Ekki veit ég hvernig ég færi að ef engin værin ritvélin. Snarhöndin hjá mér er orðin hörmuleg. Var aldrei góð, en nú get ég varla skrifað nafnið mitt skammlaust.

Læt þetta duga að sinni. Vinsældir eru fólgnar í fjöldanum.

IMG 4970Einhver mynd.


3063 - Ýmsar hugleiðingar

Get ekki að því gert að mér finnst það veikleiki að þurfa alltaf að vera með einhvern hávaða í eyrunum. Hvort sem það er tónlist, upplestur, erindi eða eitthvað annað. Hljóðin úr umhverfinu eru miklu að mínu áliti miklu merkilegri. Kannski er þetta samt kostur. Með því venst fólk á hraða hugsun. En hvers virði er þessi hraða hugsun ef henni er alltaf stýrt af öðrum. Hljóðum úr umhverfinu er lika stýrt af öðrum. Jafnvel þögninni. Eins og hún getur nú verið gefandi. Lesefni stjórnar maður sjálfur hraðanum á. Kannski lesa ekki aðrir eins hægt og ég. Veit það ekki. Með því að lesa hratt, kemst maður yfir fleiri bækum á stuttum tíma. En hvers virði eru formúlubækur eins og sumar glæpasögurnar eru. Lífsreynslusögur geta hæglega verið mikils virði. Of mikið má þó af öllu gera. Líf annarra getur svosem verið merkilegt, en líf manns sjálfs hlýtur samt alltaf að vera merkilegast.

Með því að athuga 400 listann getur maður séð að sumir hafa gert tilraun til þess að verða vinsælir aftur hér á Moggablogginu. Það er samt ekki eins einfalt og sumir álíta. Vitanlega er enginn (kannski Páll samt) eins vinsæll þar og sumir álitsgjafar eru að því sem sagt er, en það er kannski ekki að marka því þessi ósköp eru öðrum þræði a.m.k. dulbúnar auglýsingar. Merkilegt annars hve Netið hefur sótt í sig veðrið á stuttum tíma. Áður fyrr var maður jafnvel álitinn svolítið skrýtinn vegna áhuga á þessu fyrirbrigði.

Ég reyni yfirleitt að skrifa um eitthvað sem aðrir skrifa ekki um. Stundum leiðir þetta mann útí allskyns vitleysu, en það má leiðrétta. Stundum ratast mér satt orð á munn eins og vani er með þá sem kjöftugir eru. Stundum skrifa ég reyndar um það sem efst er baugi í það og það skiptið, en því er allsekki að treysta.

Kannski er ég breyttur maður eftir þessa miklu þögn sem ég hef tamið mér á þessum síðustu og versta kóftímum. Hugsanlegt er að allir séu meira og minna breyttir eftir þessa miklu reynslu. Ég er ekki bara breyttur með þessa nýju augasteina, hjartsláttartruflanir og hækkandi aldur, heldur er ég kannski ekki eins mikilll einfari, sálrænt séð, eins og ég var. Ég geng heldur ekki nærri því eins hratt og ég gerði, eftir því sem síminn segir. Annars er ég meira og minna símafatlaður og vil helst ekki nota hann nema ég megi til. Kannski skrifa ég meira um þetta einhverntíma seinna. Það er að segja um símafötlunina.

IMG 4971Einhver mynd.


3062 - Hakkinen og Makkinen

Mér til mikillar skelfingar uppgötvaði ég að sagan sem ég setti saman og birti í bloggi númer 3060 var ekki í skjalinu „sögurtxt“, sem ég bjó til og geymi sögurnar sem ég setti saman í fyrra og skrifaði meira og minna í. Eina reglan sem ég setti mér í upphafi var að engin sagan yrði meira en ein blaðsíða. Sumir myndu eflaust segja að það væri bættur skaðinn þó þær týndust. Hef ekki haldið mikið uppá vísnaruglið sem ég hef sett saman gegnum tíðina og ekki eru sögurnar betri. Veit ekki hversvegna ég er að halda uppá þetta, en fyrst ég byrjaði er eins gott að halda áfram.

Mér finnst ég ekki þurfa að segja álit mitt á fréttum dagsins, enda geri ég ráð fyrir að flestum sér nokkurn vegin sama. Sumir virðast halda að nauðsynlegt sé að koma sínu sjónarmiði að í sambandi við hvað sem er. Einkum þó í stjórnmálum. Það er skiljanlegt að fyrrverandi flokksformenn og fyrrum ritstjórar láti svona. En það er til allmikils ætlast að gera ráð fyrir að pöpullinn bíði málþola eftir álitinu sem öllum er sama um. Þessvegna er það sem ég reyni að vera frumlegur í efnisvali og herma ekki eftir neinum. Stundum tekst mér þetta kannski.

Einu sinni var Hakkinen heimsmeistari í formúlu eitt akstri og Makkinen svonefnur á sama tíma heimsmeistari í rallakstri. Báðir voru að sjálfsögð finnskir enda er finnum ekki fisjað saman. Á þeim tíma var orðum svolítið hninað til í frægum talshætti sem talsvert var notaður í formúlunni: „To win a race you have to be finnish.“ í stað: „You have to finish.“ Þarna gátu menn leikið sér með enskuna. Oft er þetta hægt (og auðvelt) með íslenskuna.

Einhvern tíma þegar mönnum var mjög heitt í hamsi í pólitíkinni var sagt: „Það þýðir ekkert að efna og efna og lofa svo aldrei neinu.“ Þetta er í stuttu máli sagt einhver besta pólitíska ræða sem ég veit um.

Einhvern tíma ætla ég að reyna að skrifa um: Introvert, Asperger og Einhverfu. Mig minnir að ég hafi einhvertíma lofað að skrifa um Öfga hægrið og Óða vistrið. Kannski ég reyni það á næstunni.

IMG 4978Einhver mynd.


3061 - Bloggað með hraði

Kannski er ég að komast í þann gírinn að blogga mun oftar en ég hef gert að undanförnu. Vinsælast virðist vera að blogga á þessum stað um stjórnmál og þar að auki með sem ákveðnustum hætti. Þar er ég dálítið illa á vegi staddur því ég er yfirleitt sammála síðasta ræðumanni og sveiflast þannig milli flokka eins og strá í vindi. Allir hafa meira og minna rétt fyrir sér og einfaldast er að vera sömu skoðunar og sá sem maður er að horfa á, lesa eftir eða hlusta á í það og það skiptið. En hvernig á maður að haga sér ef maður skrifar? Einfalt er að leiða hitamál hjá sér eða fara um þau almennum orðum. Þetta er vel hægt að gera, en að lokum verður maður að kjósa og þá er um að gera að gera það rétt. Ég tók uppá því fyrir nokkru að kjósa Píratana og líklega held ég því áfram. Ég ólst nefnilega að nokkru leyti upp með mömmu hennar Birgittu og þegar Sjóræningjarnir komu fyrst fram var ég eiginlega á milli flokka, því ég á alltaf svo erfitt með að ákveða mig. Valkvíði heitir það víst.

En látum stjórnmálin eiga sig og tölum um eitthvað skemmtilegra. Eldgosið er að ég held ópólitískt með öllu þó það sé víst í Suðurlandskjördæmi. Ekki er það nú ónýtt að fá svona túristagos í lok veirufaraldursins. Annars verð ég sennilega að tala varlega hér því viðbrögðin við veiruskömminni eru eða virðast vera á góðri leið með að verða hápólitísk. Vel er samt hægt að fjalla um slíkt (þ.e. viðbrögðin við veirunni) á jákvæðan hátt, en jákvæðir virðast flestir vilja vera.

Sú krafa allra eða a.m.k. flestra um að vera jákvæður umfram allt er samt dálítið vafasöm. Vel er hægt að vera neikvæður á jákvæðan hátt eða svoleiðis. Það vil ég umfram allt vera. Neikvæðnin verður samt jákvæðninni stundum yfirsterkari og ekkert er við því að gera. Framfarir verða engar ef ekki er bent á vitleysurnar.

Eitt af því sem við bloggarar verðum að gera okkur grein fyrir er að „attention span“ fólks fer sífellt minnkandi. Þessvegana er um að gera að hafa bloggin sem styst. Þetta er auðvelt að gera ef fjallað er um pólitík. Langhundar þar eru leiðinlegir.

IMG 4983Einhver mynd.


3060 - Jæja!! sagði hann þegar hann vaknaði, svo sagði hann ekki meira þann daginn

Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef verið latur við bloggskrif undanfarið. Ég er meira og minna að segja skilið við flesta fjölmiðla. Mér leiðast þeir. Það er helst að ég hlusti á fréttir og reyndar stundum fleira en það í útvarpi og sjónvarpi. Fréttablaðið fletti ég oft í gegnum, les samt fremur lítið þar. Flakk um lendur Internetsins hugnast mér oft sæmilega. Fésbók lit ég næstum aldrei í og bloggið hefur orðið talsvert útundan hjá mér. Bækur af ýmsu tagi safnast af einhverjum ástæðum að mér og sumar þeirra les ég. Les samt mest í Kyndlinum minum. Af bloggveitum að vera fellur mér einna best við Moggabloggið. Ég veit hverju er að búast við hjá mörgum þar og gott er að vera þar. Til dæmis kom mér það mjög á óvart að ég skuli enn vera Stórhaus þar og meðal 50 efstu þar um slóðir ennþá, þó ég skrifi afar sjaldan.

Fésbók og síminnn hefur mjög sterk tök á fólki. Einu sinni var það sjónvarpið,
Helst var ekki hægt að gera neitt nema á fimmtudögum. Sennilega hefur þetta
verið svipað þegar útvarpið byrjaði. Þá skilst mér að hafi verið hlustað með mikilli andagt. Þó ég sé nú farinn að eldast man ég ekki eftir því persónulega.

Fyrir nokkru tók ég uppá þeim óskunda  að semja smásögur og birta þær í blogginu minu. (það var Jens Guð sem gaf með hugmyndina) Hugmyndin var að lengja bloggin hjá mér svolítið. Samdi eina slíka rétt áðan og læt hann flakka, en ómerkileg er hún. Ætti sennilega að vera jákvæðari og segja hana snilldarverk. En svona er hún:

 

Það var nú svoleiðis með hann Jón á Engi að hann svaf eiginlega ekki neitt. Um túnasláttinn tók hann söguhetjuna í „Sjálfstæðu Fólki“ sér til fyrirmyndar og lagðist ofan á sátuna eða galtann sem um var að ræða og gætti þess að vera sem næst brúninni. Hann var varla búinn að loka augunum þegar hann bylti sér og datt niður og glaðvaknaði við það. Milli Túnaslátta notaði hann aðra aðferð. Þegar hann lagðist upp í rúm á eftir öllum öðrum glaðvaknai hann um leið og hann lagðist útaf. Það var helst að hann festi blund yfir sjónvarpinu, ef fréttirnar voru nógu leiðinlegar. Sem betur fer voru þær það oft, annars hefði Jón ekkert getað sofið. Að fréttunum loknum fékk Jón sér oftast kaffi og flóaða mjólk, ásamt þvi að hann bruddi svefntöflur ótæpilega. Læknistuskan var samt eitthvað á móti því að hann notaði svona mikið af svefntöflum.

Einu sinni um miðja nótt, þegar Jón var andvaka eins og venjulega tók hann eftir að ófreskja nokkur nálgaðist bæinn eftir nýræktinni. Honum leist fremur illa á óvættina en verra þótti honum að sjá að trakað væri á nýræktinni. Svo hann fór út og gekk á móti draugnum og hundskammaði hann. Uppvakninurinn varð skíthræddur við Jón bónda enda var hann á brókinni einni klæða og ekki frýnilegur. Fór hann þessvegna undan í flæmingi og fór eftir gömlu túni á bakvið Jón. En áleiðis að bænum hélt hann og lét ekkert stöðva sig.

Þegar afturgangan kom að bæjadyrunum fór hún rakleiðis inn og flýtti sér mjög. Þegar Jón bóndi kom að bæjardyrunum skömmu seinna fór hann snimmhendis inn í bæjargöngin og lokaði bæjardyrunum sem best hann gat á eftir sér. Því hann ætlaði svo sannarlega að taka í lurginn á draugsa, en þegar hann kom í baðstofuna var draugurinn á leiðinni út um ljórann. Því hafði Jón ekki reiknað með og gat með engu móti farið á eftir honum.

Ekki virtist afturgangan hafa gert neinn óskunda í baðstofunni, en búið var að kveikja á sjónvarpinu og stilla það á nýlega hryllingsmynd sem líklega hefur verið ætlunin að horfa á. Jón mundi ekki eftir því að hafa verið búinn að kveikja á sjónvarpinu, en ákvað samt að horfa á þessa hryllingsmynd sem búið var að velja. Hann varð svo skelkaður við það sem skeðí á hvíta tjaldinu að hann fór beina leið í rúmið og breiddi yfir höfuð.

Sofnaði síðan og bar ekki á þessum lasleika hans eftir þetta.  

IMG 5006Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband