Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021
28.2.2021 | 11:16
3055 - Bakteríuveiðar
Það þýðir ekki annað en blogga eitthvað ef maður ætlast til að einhverjir lesi bloggið manns. Einu sinni ætlaði ég að verða aðal-ellibloggari landsins en það gengur víst ekki. Þó eru ekki margir, að minnsta kosti hér á Moggablogginu, sem hafa í gegnum tíðina bloggað meira en ég. Áður en Gúgli kom til sögunnar besservissaðist ég heilmikið en þeir sem þannig eru virðast vera svo margir að það er ekki neitt merkilegt. Þar að auki er ég nokkuð góður í réttritun, og þessvegna var það sem ég byrjaði að blogga. Samt er ég áberandi illa að mér í greinarmerkjafræði. Kommusetningar eru mér til dæmis að mestu leyti lokuð bók. Nú er ég að hugsa um að skrifa eitthvað um þær bækur sem ég er að lesa hverju sinni.
Bókin sem ég er að lesa núna heitir bakteríuveiðar og er eftir Paul de Kruif (1890 1971) og gefin út árið 1935. (á frummálinu 1926). Þýðandi er Bogi Ólafsson og hún er gefið út af hinu Íslenska Þjóðvinafélagi. Ég held að þessi bók heiti Microbe Hunters á frummálinu. Þetta er ákaflega spennandi og vel skrifuð bók og ég er svona hálfnaður með hana og búinn að lesa um Leeuwenhoek, Spallanzani, Pasteur, Koch, Roix og Behring og óhætt er að segja að hún hefur allsekki valdið mér vonbrigðum þó gömul sé. Einu sinni var ég með fordóma fyrir gömlum bókum en það er alveg óþarfi ef um er að ræða bækur af þessu tagi. Þessi bók hlýtur að hafa verið vinsæl á sinni tíð.
Hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort einhverfa, asperger, introvert og jafnvel ADHD séu ekki náskyldir sjúkdómar. Veit að asperger og einhverfa eru það en er í meiri vafa um hitt. Jafnvel mætti bæta lesblindu í þennan hóp, en þá fer að verða dálítið þröngt þar. Á sennilega eftir að minnast á þetta seinna. Er núna að lesa bók á ensku um Asperger heilkennið (höfundurinn var og er haldinn því.) Þar að auki hefur Þorsteinn Antonsson skilgreint sjálfan sig þannig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2021 | 17:24
3054 - Trump að hverfa
Veit ekki af hverju það er sem ég blogga svona sjaldan núorðið. Einhver hlýtur ástæðan að vera. Ekki er það útaf kófinu. Ég þrífst beinlínis af því að þurfa ekki að eiga mikið saman við aðra að sælda. Löngu hættur öllu kossaflensi, handaböndum og þessháttar. Hef ekki einu sinni fengið kvef síðan Covid-19 skall á. Sú áskelling hefur á margan hátt orðið mér til mikillar blessunar. Auðvitað eiga sumir um sárt að binda vegna kófsins. Svo er mér sagt og allir fjölmiðlar eru uppfullir af þessu. Þegar fyrsta bylgjan skall á var maður jafnvel hálfhræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa. En ekki lengur. Gott ef þetta eru ekki orðnir vinir mínir. Þegar ég fer út í mína morgungöngu snerti ég þá berhentur eins og ekkert sé. Annars ætlaði ég ekkert að blogga um þetta. Bara vera með í þessum leik, sem bloggið óneitanlega er. Sem betur fer er hann ekki erfiður.
Nú er kominn tími til að þykjast vera voða gáfaður. Þúsundáraríkið er ekkert nær núna en það var á dögum Hitlers. Kannski var/er Trump bara Hitler endurfæddur og gat/getur ekkert gert að því þó hann væri/sé svona. Já, ég held áfram að tala um Trump hvað sem herra Siglaugsson segir. Kannski hætti ég því samt einhverntíma.
Ég á eiginlega alveg eins von á því að McConnell verði settur af sem leiðtogi Repúblikana í öldungadeild bandaríkjaþings og einhver Trump-sauðurinn kosinn í staðinn. Áhrifa Trumps mun gæta eitthvað áfram. Ákærendur hans úr fulltrúadeildinni sögðu upphaflega að þeir þyrftu ekki að kalla til vitni núna því eitthundrað þeirra að minnsta kosti væru í salnum sem réttarhöldin fóru fram í.
Eina ástæðan fyrir þvi að ekki var staðið við að kalla til vitni í málinu gegn Trump var að tefja ekki um of fyrir Biden forseta með því og einnig var ekki við því að búast að öldungadeildarþingmenn breyttu atkvæði sínu við það. Með þvi að tefja málið nægilega mikið til að gera hann að fyrrverandi forseta var búið að gefa þeim repúblikönum sem það vildu afsökun til að hengja sig í formsatriði. Mjög fáir efuðust um sekt hans.
Einhverntíma ætla ég að skrifa langt blogg um öfga-hægrið og óða-vinstrið, en satt að segja leiðist mér pólitík og mér finnst alþingismenn svotil aldrei vera nægilega hreinskilnir. Sumir þeirra eru beinlínis óttalega vitlausir. En förum ekki nánar útí það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2021 | 15:16
3053 - Andskynsemi
Það er orðið ansi langt síðan ég hef bloggað. Þó er ég allsekki hættur. Það er samt ótttaleg vitleysa að vera að þessu ef maður hefur ekkert að segja.
Jón Atli er rektor Háskóla Íslands og talaði um daginn eitthvað um andskynsemi. Er þetta kannski bara skrauthvörf fyrir andskotans vitleysa. Einhver Rósa á Alþingi vill láta banna fólki með lögum að efast um að Helförin hafi átt sér stað nákvæmlega eins og haldið hefur verið fram. Hún hefur að ég held flutt um það frumvarp á Alþingi. Mér finnst afsakanlegt fyrir Þjóðverja að láta svona. Þeim er málið skylt. Veit ekki hvernig þessu er háttað í nágrannalöndum okkar, en bann af þessu tagi getur hæglega torveldað málfrelsi. Auðvelt er að segja að hatursorðræða eigi aldrei rétt á sér. Skilgreiningu gæti þó vantað á því hvað er hatursorðræða. Þó stundum sé erfitt með andmæli ættu allir að mega segja það sem þeim sýnist. Sé það gert á kurteislegan hátt og staðið við það ef því er mótmælt. Það eru jafnvel þónokkuð margir sem efast um að allt sem sagt er um loftslagsvá sé sannleikanum samkvæmt. Helförin og loftslagið eru orðin eins of hver önnur trúarbrögð. Auðvelt er að styðja þá sem maður er sammála, en ef fáránlegum skoðunum er haldið fram ætti fremur að mótmæla þeim með rökum en að banna þær. Einhverri konu á bandríkjaþingi var vikið úr nefndum nýlega sakir fáránlegra skoðana. Ekki var henni sparkað af þingi né sérstök lög sett til að banna henni þetta. Bandaríkjamenn eru líka orðlagðir fyrir frelsi og mannréttindi. Þessvegna var Trump .....bla, bla, bla. Sennilega hefur Þorsteinn Siglaugsson rétt fyrir sér þegar hann segir að ég eigi erfitt með að losna við Trump úr hausnum á mér.
Yfirleitt er auðvelt að hafa allt á hornum sér og vera fúll á móti. Ekki hvetur það þó til breytinga. Fáar hugmyndir komast nokkru sinni til framkvæmda. Þó er ekki ástæða til að amast við þeim. Dystópíu bækur eru miklu algengari en útópíu bækur. Markverðri þjóðfélagsgagnrýni má oft koma til skila í ævintýralegri dystópíu. Það gerði til dæmis Jónatan Swift á sinum tíma með sögunum af Gulliver. Enginn þarf að efast um að til dæmis 1984 og Veröld ný og góð séu ganrýnar bækur. Dystópískar jafnvel. Ekki er rétt að amast við allri gagnrýni þó hún fari stundum út yfir allan þjófabálk.
Nú er snjórinn loksins kominn hérna á Akranesi. Vonandi verður hann fljótur að fara. Gamalmennum eins og mér er nefilega meinilla við slabb og hálku. Einhverjir voru að mig minnir að óskapast um daginn vegna rigningarleysis. Ekki hann ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.2.2021 | 16:04
3052 - Langt er víst síðan ég bloggaði síðast
Hættur samt að tala um Trump. Nóg annað er til að tala um. Ég er nú svo sjálfmiðaður, auk þess að vera gamall, að í stað þess að fjargviðrast útaf Trump, er ég að hugsa um að tala einkum um sjálfan mig. Mér telst til að ég sé kominn með tvo nýja augasteina. Kannski eru þeir úr plasti, en ógrátandi má víst helst ekki minnast á plast. Ekki vildi ég nú samt plastlaus vera (ég meina augasteinalaus) því þá sæi ég ekki neitt. Um þetta má fjölyrða á ýmsan hátt. Sumt er ég farinn að sjá í nýju ljósi. Meðal annars er ekki betur að sjá en ég sé dottinn af 50-listanum. Kannski þetta blogg komi mér á hann aftur. Ekki er að sjá annað en einhverjir vilji gjarnan lesa þetta þrugl úr mér. Steina Briem ætti a.m.k. að líða betur.
Talsverð breyting er það óneitanlega að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af því hvað Donald Trump tekur sér fyrir hendur. Nóg er nú samt af vandamálum. Að mörgu leyti og jafnvel flestu er ástæða til að hafa meiri áhyggjur af aðdáendum hans en andstæðingum. Stuðningsmenn hans þurfa nú að finna sér nýtt átrúnaðargoð í stað hans eftir að hann hverfur með skít og skömm úr þessu háa embætti sem hann var í. Ef til vill var ástæða til að lögsækja hann ekki. Nauðsynlegt er samt að koma í veg fyrir að hann láti mikið fyrir sér fara í framtíðinni í repúblikanaflokknum. Ekki er við því að búast að hann hverfi af sjónarsviðinu með hægð. Óvinir (eða vinir) hans meðal fjölmiðlafólks munu eflaust sjá um það.
Ekki er auðvelt að sjá hann fyrir sér í þeim virðingarmikla klúbbi sem fyrrverandi bandríkjaforsetar eru í. Ekki er einu sinni víst að hann hefði neitt kært sig um það. Vonandi verður honum seint hleypt þangað inn.
Félagslegu miðlarnir eru að verða alltof sterkir. Það virtist vera aðalariðið í fréttum núna um daginn að Twitter hafði lokað á Donald Trump. Eiginlega hefði það átt að skipta litlu máli. Svipað eða það sama var um Facebook að segja. Nú eru það Youtube og Tik Tok sem Rússar kvarta undan. Segja að með þeim og áskrifendum þeirra sé verið að styðja Navalny í deilu sinni við Putín. Á meðan glotta Kínverjar og Huawei eykur hlutdeild sína í ýmsu. Líklega eru alþjóðlegu stórfyrirtækin sífellt að auka völd sín. Eru þau samt mikil fyrir og þessi fyrirtæki flytja sig á milli landa eftir þörfum.
Moggabloggið gerir það ekki og er afskaplega lítið í raun og veru. Að blogga þar er eiginlega að styðja litla manninn. Lenti áðan beint af Moggabloggssíðunni á einhverri kínverksri síðu, sem auðvitað var auðvelt að þýða yfir á ensku. Geri yfirleitt lítinn greinarmun á því hvort netsíður eru á ensku eða íslensku. Kínverskan er samt eins og hver önnur franska fyrir mér. Íslenskan ætti að vera heilagri fyrir mér en enskan og kannski er hún það í reynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)