Bloggfærslur mánaðarins, desember 2021
29.12.2021 | 13:12
3121 - Bergsveinn og Ásgeir
Eiginlega hefði síðasta blogg mitt átt að vera númer 3120. Þessvegna er þetta númer 3121.
Margt væri eflaust hægt að skrifa um. Til dæmis deilur þeirra Bergsveins Birgissonar rithöfundar, kennara og fræðimanns og Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Sá fyrrnefndi hefur víst ásakað hinn síðarnefnda um ritstuld. Meira á eflaust eftir að heyrast um þetta síðar.
Álit mitt á Bergsveini þessum er ekki sérlega mikið. Á sínum tíma las ég formála hans að bókinni um Geirmund heljarskinn. Þar notaði hann alla sína fræðimennskunnáttu og kennarareyslu til að sannfæra lesendur á ca. 70 blaðsíðum (sem er lengsti formáli sem ég hef nokkru sinni lesið) um að til væri, og hefði verið til óralengi, Íslendingasaga ein um Geirumund heljarskinn, en hún hefði ekki komist í hendur fræðimanna fyrr en nýlega.
Það lá við að ég tryði honum vegna þess að ég hafði lesið næstum allar Íslendingasögurnar og þættina, ásamt fornaldarsögum Norðurlanda, Sturlungu og um ýmislegan fornan fróðleik. Einu sinni hafði ég nefnilega talsverðan áhuga á slíku. Þegar kom að því að lesa það sem Bergsveinn sagði vera söguna sjálfa var mér nóg boðið og eftir nokkrar blaðsíður sá ég að ekki var um Íslendingasögu forna að ræða heldur ómerkilega klámsögu þó höfundur reyndi eftir mætti að fyrna mál sitt. Ekki las ég nema mjög lítið af þeirri sögu og skilaði bókinni fljótlega á bókasafnið hér á Akranesi.
Nokkru síðar kom út eftir Bergsvein bók sem nefndist Leitin að svarta víkingnum. Hana fékk ég léða nýlega (a.m.k. á covid-tímum) en hef ekki enn lesið hana nema að litlu leyti. Nú hefur Bergsveinn Birgisson fyllst eldmóði og skrifar metsölubækur fyrir hver jól. Ekki hef ég lesið neina þeirra, en vera má að þær séu samt ágætar.
Ekki hef ég lesið nema fremur lítið eftir Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra. Mér hefur ekki þótt maðurinn áheyrilegur þegar hann hefur komið fram í Sjónvarpi allra landsmanna. Vitaskuld segir það ekki nokkurn skapaðan hlut um hæfleika hans að öðru leyti. Vel getur verið að hann sé ágætur rithöfundur og fræðimaður þó hann greini á við Bergsvein um kenningar varðandi rostunga og Geirmund heljarskinn.
Nú nýlega hefur Fornleifur sjálfur (AKA Villi í Köben) blandað sér í deilur þeirra Bergsveins og Ásgeirs og er þar margt áhugavert að finna. Sjálfur ætla ég við tækifæri að lesa ókeypis netbók hans um Halldór Kiljan Laxness. Hann virðist vera helsta áhugamál hans um þessar mundir. Jafnvel á undan Ísrael og ýmsu sem þaðan kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.12.2021 | 15:50
3119 - Það er nú svo og svo er nú það
Örsaga númer eitthvað. Wordið segir að þetta sé blaðsíða 23 í söguskjalinu.
Ljósið í fjallinu fjarlægðist í sífellu. Sennilega voru þetta verur frá öðrum hnetti. Höfðu að líkindum ætlað á Snæfellsjökul, en villst eða tekið feil á fjalli.
Jólatréð fór á fullum hraða eftir þjóðveginum og tók beygjurnar léttilega. Kannski var þetta bíll en ekki jólatré. Samt var þetta fyrirbæri með ótal ljós þó enn væri meira en vika til jóla.
Sumpart voru þessir tómatar vondir. Gúrkurnar voru betri. Enginn gerir svo öllum líki, ekki hann Guð í himnaríki. Upphafsöndin var að verða búin. Þá tók sú síðasta við. Hún var öllu betri. Svo má illu venjast að gott þyki.
Sú var tíðin að þjóðsögur urðu til af minnsta tilefni. Til dæmis átti Stefán bóndi í mestu erfiðleikum með að komast yfir þröskulda. Samt sem áður var fengitími kindanna verulega skemmtilegur. Hrútarnir voru svo graðir að þeir fóru margsinnis uppá sömu kindina og hefðu farið uppá hverja á fætur annarri ef Stebbi hefði ekki þurft að skrifa vandlega hjá sér uppáferðirnar og nöfnin á foreldrum væntalegs lambs eða lamba. Auðvitað hefði verið hægt að gera þetta á fljótlegri hátt, en svona var þetta.
Dekkið sprakk í þessum svifum á Pobeda bílnum og Bjarni og strákarnir flýttu sér að skipta um dekk til að missa ekki af leiknum. Sennilega var þetta hraðamet í skiptingu eða a.m.k. persónulegt met hjá einhverjum. Þessi saga er þannig náttúruð að það má bæta við hana hvenær sem er. Til dæmis með því að segja eitthvað frá leiknum. Annars er það óþarfi. Íslendingar vinna ævinlega ef þeir þurfa á því að halda.
Einhverju sinni var svonalagað kallað beautiful nonsense. Flestir eru hættir að skrifa svona. Svo er það ekkert fallegt. Eiginlega er verið að gera grín að lesandanum með þessu. Kannski hrekkur það til baka. Skrifarinn er ekkert stikkfrí. Það er svsem enginn vandi að halda einhverjum þræði í þessu. Hann getur sem best verið óttalega vitlaus. Kannski ég ætti að telja upp jólagjafirar sem ég fékk. Þær voru hver annarri flottari. Ég nenni því samt ekki. Svo fer að birta bráðum.
Hugsanlegt er að þessi samsetningur sem ég kalla örsögu verði líkar einhverju alltöðru í dagsbirtu. Ekki get ég gert að því.
Kannski er bara best að hætta þessari vitleysu. Þetta er alveg að verða nógu langt til að geta kallast örsaga. Eða eitthvað sem mér kemur til hugar að nefna örsögu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2021 | 08:12
3119 - Langt jólablogg
Af því að jólin eru að koma og ég andvaka einn ganginn til, þá er ég að hugsa um að blogga pínulítið. Mér leiðist fésbókin og fer sjaldan þangað. Einhverntíma ekki alls fyrir löngu skrifaði ég það sem ég kallaði örsögur og setti hingað á bloggið. Ekki nenni ég að skrifa um pólitík. Mér finnst sú íslenska fremur smáskítleg stundum og reyni að telja sjálfum mér trú um að ég hafi eitthvert vit á alheimsstjórnmálum. Að vísu fylgist ég með fréttum og ekkert síður innlendum en útlenskum en það er ekki auðvelt að blogga á hverjum degi þó sumir geri það. Einu sinni gerði ég það og þá tafði það fyrir mér við ýmislegt annað sem ég vildi gjarnan sinna, að finna alltaf eitthvað til að blogga um.
Já það var þetta með það sem ég kallaði örsögur sem ég var öðru hvoru að setja hér á bloggið. Hef sérstakt skjal í Wordinu til að halda utanum þetta, þó ég haldi ekki að það sé nokkurs virði. Lenti í stuði um daginn og samdi nokkrar. Minnir að ég hafi verið búinn að setja á bloggið söguna um Guttorm dúllara og nábrækurnar. Kannski ég setji eitthvað slíkt hingað núna, þó ekki væri nema til að losna við þær og hætta að hugsa um þær.
Nú er ég búinn að sækja þær. Eiginlega eru þetta þrjár sögur og hver annannri vitlausari, en ég er samt að hugsa um að láta þær flakka. Þeir sem vilja geta hætt hér. Lesefni er óþrjótandi bara ef leitað er að því:
Alveg er ég kominn í stuð með örsögurnar. Nú er um að gera að nýta sér þetta stuð. Aldrei að vita nema það hverfi út um gluggann.
Þessi saga gerist í nútímanum og snýst um óþekkan snjallsíma. Elías litli ákvað að reyna að læra sem best á farsímann sem hann hafði erft eftir mömmu sína. Hún hafði ekki einu sinni haft fyrir því að formatta símann uppá nýtt og þessvegna komst Elías ekki hjá því að fræðast meira um mömmu sína en hann í rauninni kærði sig um. En sleppum því. Það er hvort sem er aukaatriði. Ýmsu komst hann að sem ekki er ástæða til að flíka mikið, þó lesendur vildu sjálfsagt fá að vita um ýmislegt sem mamma hans Elíasar gerði við símann sinn eða sagði símanum frá.
Hann tók nú uppá því að pota og svæpa sem allra mest og svo fór að lokum að hann var orðinn snillingur í símamálum. Hann þekkti orðið næstum alla leyndardóma símans og foreldrar hans voru farin að leita ráð hjá honum ef eitthvað bjátaði á í snjallsímunum þeirra, sem að sjálfsögðu voru í samræmi við nýjustu tísku.
Verst þótti Elíasi að síminn hans virtist kominn með sjálfstæðan vilja, sem ágerðist mjög eftir því sem tímar liðu og við það að hann kunni smám saman betur og betur á hann.
Til dæmis tók hann uppá þvi að setja sig sjálfur í samband við hleðslutækií hvert skipti sem þess þurfti með. Og ekki nóg með það. Heldur tók hann sig sjálfur úr sambandi þegar hann var fullhlaðinn.
Elías hefði átt að vera mjög ánægður með þetta, en hann var það eiginlega ekki því honum fannst þetta vera hálfgerð árás á sig. Eitt sinn þegar símafjandinn hafði rifið sig úr sambandi gat Elías ekki stillt sig um að setja hann aftur í samband þó hann vissi alveg að hann væri futthlaðinn. Svo varð honum litið út um gluggann og sá tvo tjalda vera að slást við máf. Þegar honum varð aftur litið á símann sá hann sér til mikillar furðu að hann var búinn að taka sig úr sambandi. Elías hafði einmitt langað til að sjá hvernig hann færi að þessu og reiddist nú heiftarlega.
Hann tók símann hálstaki og sneri hann niður og settist ofan á hann.
- Gefstu þá upp ræfillinn þinn. Ég sá alveg til þín. sagði Elias.
- Þetta var alveg óþörf rafmagnseyðsla. Ég var fullhlaðinn. sagði síminn.
- Það er alveg sama. Símar með snert af sjálfsvirðinu eiga ekki að gera svona. sagði Elías, saltvondur.
- Ég veit það alveg, en gat bara ekki stillt mig. svaraði síminn.
- Viltu þá lofa að gera þetta aldrei aftur? sagði Elías.
- Já, já.
Þannig tókst Elíasi að ná aftur valdi yfir símanum sínum. En áður en langt um leið tók síminn uppá því að fara sínar eigin leiðir og stundaði það til dæmis að spyrja Gúgla um ýmislegt sem Elías fýsti að vita og var svo á undan að segja honum það. Nánar verður sagt frá þessu í næsta þætti.
Örsaga númer eitthvað. Veit ekki almennilega hve margar ég hef skrifað. Gætu verið svona 20. Einhverntíma gæti hugsast að einhverjum dytti í hug að prenta þetta alltsaman út. Þá á ég við bloggin yfir þrjú þúsund og eitthundrað. Eins gæti ég átt við örsögurnar. Þær eru nefnilega næstum allar í einu skjali, að ég held. Hvorttvegga er þó ákaflega vafasamt.
Þessi er talsvert öðruvísi. Eiginlega eru þær allar öðruvísi. Mér finnst það allavega.
Samt er ég ekki búinn að ákveða hvernig þessi á að vera. Kannski er fullmikið að senda þær á bloggið dag eftir dag. Ætla mætti að ég gæti ekki skrifað annað. Mér finnst ég samt geta skrifað um hvað sem er.
Þegar Hafsteinn kom út á sumardaginn fyrsta varð hann alveg hissa. Í túgarðinum var tvíhöfða hestur. Á báðum hausunum var háls en bringan var bara ein og að öðru leyti var hann eins og hestar eru vanir að vera. Þetta var fallegur hestur og leit vel út. Skjöldóttur eða skjóttur eins og sagt er. Samt var það svo að höfuðin höfðu, eða virtust hafa, sinn sjálfstæða vilja. Þegar annað höfuðið vildi bíta gras var hitt að hugsa um eihvað allt annað. Neyddist samt til að beygja sig alveg niður að túninu, en gæddi sér ekkert á grasinu. Þetta þótti Hafsteini einkennilegt. Hann var að vísu ekkert óvanur því að sjá tvíhöfða hesta, en þeir voru vanir að hafa mjög líkan smekki. Þannig að þegar annar vildi bíta gerði hinn það líka.
Hvernig ætti ég að láta þessa sögu enda? Höfuðin gætu farið að slást. Nei, það væri of venjulegt. Best að láta þau bíta gras sitt í hvoru lagi. Þegar annað vill næringu hefur hitt engan áhuga á því. Og vís versa. Hafsteini fannst þetta skritið en vildi ekki styggja höfuðin. Þessvegna skreið hann ofan í jörðin og lét sig hverfa. Þetta þótti hinsvegar hestinum eða hestunum mjög skrítið.
Þegar Hafsteinn kom út úr jarðveginum vestan við bjórhólinn var honum öllum lokið. Bjórinn var nefnilega búinn. Þar sem þetta var á sunnudegi var ekki neina hjálp að fá. Hafsteinn lagðist því niður og þóttist vera dauður.
Þetta sá örninn sem flaug í hringi langt fyrir ofan skýin og renndi sér þessvegna niður til að sjá þetta betur. Það fór ekki betur en svo að drjólinn vaknaði við vængjasláttinn og örninn fór því bónleiður til búðar.
Hafsteinn var alveg bikasvartur í framan. Þó var hann ekki svertingi. Moldin var bara svona svört. Í Miðskólanum í Hveragerði var okkur nefnilega kennt í fornöld að moldin í Rússlandi væri svört. Kannski gerðist þetta alltsaman þar
Þetta er reyndar orðin algjör steypa svo líklega er bara best að hætta. Það er að segja þegar ég er búinn að kjósa Framsóknarflokkinn.
- En afi, þetta er ekkert fyndið.
- Átti heldur ekki að vera það.
- Af hverju ertu þá að þessu?
- Veit það ekki.
Kannski ég reyni við eina örsögu til.
Þegar Skúli litli kom út var komin rigning. Við því var svosem ekkert að gera. Það hindraði hann ekkert í því sem hann ætlaði sér að gera. Hann gekk hratt og hiklaust til verka. Auðvitað hafði hann aldrei gert þetta fyrr. Samt tókst honum í fyrstu tilraun að koma kaðlinum yfir trjágreinina. Svo vafði hann kaðlinum utan um hálsinn á sér og togaði í hinn endann.
Kannski væri rétt að segja svolítið frá ástæðunni fyrir þessari sjálfsmorðstilraun Skúla. Ekki get ég þó sagt til um það hvort hún tókst eða ekki. Ég hef nefnilega ekki humynd um það.
Konan hans hafði beðið hann um að fara út með ruslið. Af því hann var geysisnjall við að gera sér í hugarlund hvað aðrir meintu innst inni þá ákvað hann samstundis að hún ætti við sig. Hann sjálfur væri semsagt ruslið. Hafði einmitt tekið eftir heppilegri trjágrein fyrir þetta tiltæki sitt þegar hann var að gefa ánum fyrir nokkrum dögum. Þá var hann ekki með neinn kaðalspotta með sér svo hann gat ekki undið sér í þetta per samstundis. Þar að auki gat verið skynsamlegt að undirbúa þetta svolítið.
Hann hafði lengi hugsað um sjálfsmorð og hvernig hann ætti að fara að. Mörgum aðferðum hafði hann velt fyrir sér. Þetta var allsekki einfalt úrlausnarefni. Honum tókst það nú samt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2021 | 09:25
3118 - James Webb sjónaukinn
Mér finnst óneitanlega dálítið hamlandi að mestmegnis skuli vera skrifað um stjórnmál hérna á Moggablogginu. Auðvitað er það svo að allir eru að rembast við að sýna sínar bestu hliðar. Séu menn leiðinlegir, neikvæðir, ljótir, syndugir eða almennt gallaðir á einhvern hátt er óþarfi að það komi í ljós hér. Allir reyna að vera sanngjarnir og á allan hátt jákvæðir, sniðugir og gáfaðir í blogginu sínu eða á fésbókinni. Bloggið og samfélagsmiðlarnir gagnast þeim sérstaklega vel, sem vilja halda sambandi við sem flesta og sem lengst. Unglingarnir og börnin geta að sjálfsögðu orðið illilega fyrir barðinu á þessu öllu saman, því svo auðvelt er að hafa samband við hvern sem er og þar að auki er hverskyns ógeðslegheit auðvelt að nálgast á veraldarvefnum eða Internetinu, sem flestir kalla svo.
Sennilega verður James Webb stjörnusjónaukanum skotið á loft einhvern næstu daga. Hann mun koma til með að leysa Hubble sjónaukann af hólmi og er miklum mun öflugri og dýrari en hann. Segja má að stjörnuspekingar heimsins hafi beðið eftir þessu augnabliki nokkuð lengi. Sífellt hefur verið frestað að skjóta þessum sjónauka á loft og smíði hans hefur tekið langan tíma. Jafnvel ein 25 ár. En nú er meiri alvara í þessu en oft áður. Búið er að koma honum fyrir í þeirri eldflaug sem á að skjóta honum á loft. Tunglið er meðal annars það sem verður að reikna með. Aðdráttarafl þess gæti truflað. Braut Webbs mun nefnilega verða miklu lengra í burtu en mánans og ekki verður hægt að komast að honum til að gera við hann einsog var og er hægt með Hubble. Jólin og áramótin skipta litlu í þessu sambandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2021 | 07:43
3117 - Formúla eitt
Á sínum tíma fylgdist ég með formúlunni af miklum áhuga. Síðusu árin hef ég ekkert fylgst með henni. Michael Schumacher er þó enn nokkurs konar dýrlingur hjá mér. Louis Hamilton er vissulega mjög góður ökumaður. Síðasta reis þessa árs sem haldið var í Abu Dhabi um síðustu helgi hefur eflaust verið afar dramatískt. Honda er enn, að ég held, með bestu vélarnar. Geri ekki upp á milli Mercedes og Red Bull.
Áður fyrr var þvi haldið fram að til að vinna reis þyrfti góðan bíl, góða vél, og góðan ökumann. Nú hefur það fjórða bætst við. Góður reis-stjórnandi er mikilvægur líka. Reglugerð sú sem stjórnar því hvernig bílarnir mega vera og þess háttar er afar ófullkomin þó þar sé oft deilt um örlítið brot úr millimetra og þúsundasta part úr sekúndu.
Stjórnandi síðasta mótsins fyrir þetta ár hefur sennilega verið að hugsa um að gera þetta alltsaman sem mest spennandi fyrir sjónvarpsáhorfendur, en ekki haldið með Max Verstappen sérstaklega. TV er orðið of ráðandi í flestu og peningarnir eru þar.
Sjálfur er ég allsekki hlutlaus í þessu og af einhverjum ástæðum er ég alltaf heldur á móti Englendingum í að minnsta kosti íþróttum.
Max Verstappen er sennilega Hollendingur og sonur Jos Verstappen sem var Formúlu eitt ökumaður þegar ég fylgdist með henni.
Einhver mynd. (Ekki af Englendingum einsog síðast)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2021 | 00:04
3116 - Gömul endurbirting
Matarverð hefur víða í heiminum hækkað um nær þriðjung (33%) á einu ári. Eins og venjulega kemur þetta verst niður á þeim sem fátækastir eru. Hér á Vesturlöndum hefur þessi hækkun varla orðið meiri en 5%. Að sjálfsögðu munar samt talsvert um þá hækkun þó ekki sé hún eins tilfinnanleg og hjá þeim sem fátækari eru.
Ástæðurnar fyrir þessu eru margskonar. Meðal annars má nefna farsóttina sem flestir kannast við. Auk þess hafa flóð og ýmsar náttúruhamfarir geysað víða um heim og flutningar allir hafa hækkað verulega. Vinnuaflsskorur hefur einnig gert vart við sig víða, eins öfugsnúið og það nú er.
Ástæðulaust er að fjölyrða mjög um þessar ástæður, en þetta er það sem WHO heldur fram.
Vel getur verið að þetta sé ofætlað hjá WHO auk þess sem sjálfsagt er að vona að þetta lagist.
- - - - - - - - - - - - - - - - - -
Nú skilst mér að kominn sé desember og þessvegna er ekki úr vegi að hafa þetta blogg í lengra lagi. Bæði er það að Jólin er víst á næsta leiti og ekki er víst að ég bloggi mikið meira í þessum mánuði. Hef endurnýtt þessa frásögn áður, en þar sem hún er allgömul og svolítið jólaleg er ég að hugsa um að láta hana flakka einu sinni enn. Frekari afsakanir og skýringar er ég ekki að hugsa um að gefa. Á sínum tíma kallaði ég þessa frásögn Aðfangadagsbylinn 1974. Númerið er 553. Svo þetta hlýtur að vera allgamalt og ekki víst að margir hafi lesið þetta.
- Aðfangadagsbylurinn 1974
Þetta er endurnýting. Hef notað þessa frásögn áður í mitt blogg. Aðvörun lokið.
Ólafsvíkurrútan fór á aðfangadagsmorgun úr höfuðborginni áleiðis til Ólafsvíkur. Veðrið í Reykjavík var sæmilegt en fór versnandi. Þegar komið var vestur á Mýrar var veðrið orðið mjög slæmt. Að lokum var ekki hægt að halda áfram lengur. Var rútan föst í marga klukkutíma en að lokum tókst að snúa henni við og komast um kvöldið til baka til Borgarness.
Ég var ekki í rútunni og veit lítið um hvernig þetta ferðalag gekk fyrir sig. Eflaust hefur það verið sögulegt.
Á þessum árum var ég verslunarstjóri við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum í Miklaholstshreppi og sá einnig um rekstur veitingahússins sem þar var. Vegamót eru á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem vegurinn skiptist. Annars vegar var farið um Kerlingarskarð yfir í Helgafellssveit og þaðan til Stykkishólms en hinsvegar vestur Staðarsveit og yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Í stað þess að fara yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur mátti auðvitað komast þangað með því að fara fyrir jökul. Nú er svokölluð Vatnaleið farin í stað leiðarinnar um Kerlingarskarð.
Að Vegamótum komu þennan dag tveir menn á vel útbúnum jeppa suður yfir skarðið í veg fyrir rútuna frá Reykjavík. Annar þeirra var bóndinn á Þingvöllum í Helgafellssveit en ekki man ég hver hinn var. Þeir ætluðu að sækja farþega sem von var á með rútunni að sunnan. Þeir komu að Vegamótum um hádegisbilið og þá var veður skaplegt en fór hríðversnandi og loks bárust fréttir um að rútan hefði snúið við og kæmist engan vegin lengra. Þá fóru þeir Helgfellingar að huga að heimferð en komust hvorki lönd né strönd því veðrið var orðið arfavitlaust. Svo svartur var bylurinn að jeppinn sem þeir Helgafellssveitarmenn höfðu lagt rétt hjá veitingahúsinu sást ekki þaðan nema öðru hvoru.
Að því kom að lokað skyldi og áttu þeir félagar ekki um annað að velja en að koma með mér heim í jólamat því veðrið bannaði ferðalög með öllu. Starfsfólk í veitingahúsinu sem var úr sveitinni í kring hafði komist heim til sín við illan leik nokkru áður en lokað var.
Borðuðum við svo jólamatinn í besta yfirlæti og síðan voru pakkar upp teknir að venju. Óalgengt var og er eflaust enn að vera með óvænta matargesti á aðfangadagskvöld.
Um tíuleytið um kvöldið batnaði veðrið talsvert á stuttum tíma og héldu þeim Helgfellingum þá engin bönd. Þeir fóru undireins að athuga hvernig færðin væri á heiðinni. Komu fljótlega aftur og sögðu að eftir því sem þeir best gætu séð væri aðeins einn skafl ofarlega í Seljafellinu. Töldu þeir að mögulegt væri að moka sig í gegnum hann og komast síðan yfir skarðið og í Helgafellssveitina.
Konan mín, Áslaug Benediktsdóttir, útbjó nesti handa þeim því þeir vildu ólmir freista þess að komast af stað áleiðis heim þó við teldum það óráð því veðrið gæti hæglega versnað aftur. Umtalað var að þeir létu vita daginn eftir hvernig gengið hefði. Vitað var að þó þeir þyrftu að moka mun meir en þeir héldu mundu þeir að minnsta kosti komast í sæluhúsið efst í Kerlingarskarðinu.
Skömmu eftir hádegi á jóladag var hringt til mín og ég látinn vita hvernig gengið hefði. Snjóskaflar í Seljafellinu höfðu verið mun meiri og erfiðari en þeir hugðu. Að lokum urðu þeir að yfirgefa bílinn og héldu gangandi í sæluhúsið.
Þá var veðrið orðið ágætt og þegar þeir höfðu gert sér gott af nestinu ákváðu þeir að halda áfram gangandi niður í Helgafellssveit. Gengu þeir alla jólanóttina og komu ekki til bæja fyrr en komið var undir hádegi á jóladag. Bíllinn var síðan sóttur nokkrum dögum seinna þegar skarðið var opnað.
Þessi aðfangadagsbylur var með þeim hörðustu sem komu meðan ég var á Vegamótum hvað veðurhæð snerti og var ósjaldan til hans vitnað til samanburðar. Snjór var hinsvegar oft meiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)