Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020
29.7.2020 | 08:11
2985 - Vangaveltur
Með hnitmiðaðri líkamsrækt má koma í veg fyrir hrönun líkamans. Ef vinnan þjálfar flesta vöðva líkamans þarf kannski lítið á því að halda. Þetta með líkamsræktina er hugsanlegt að flestir viti og þetta sé síst af öllu frumlegt og nýtt. Þó er það aldrei að vita. Fólk sem ekki veit þetta t.d. gæti vel vitað ýmislegt sem besservisserar eins og ég hafa ekki hugmynd um. Aldrei er hægt að vita með vissu hvað næsti maður veit eða hugsar. Stundum segja þeir minnst sem vita mest. Þó er allsekki hægt að ganga úr frá því. Sem betur fer er lífið talsvert flókið. Tæknin er ekki komin á það stig að tölvur geti lesið hugsanir fólks, hvað sem verður einhverntíma í framtíðinni. Nóg er samt að þær virðast vel geta fylgst með öllu sem við gerum eða segjum.
Eiginlega ætlaði ég að leggja á minnið mánuðina sem kórónuveiran herjaði á okkur. Ekki man ég þetta svo glöggt en finnst samt að mars, april og maí hafi verið undirlagðir af þessum ósköpum. Júní og júli hafi verið að mestu eðlilegir, en hinsvegar sæki hugsanlega í gamla farið aftur núna í ágúst. Að sumu leyti fyllist ég einhverri tegund af Þórðargleði yfir því að veðurspáin skuli vera slæm núna fyrir Verslunarmannahelgina. Áslaug ætlar held ég að opna málverkasýninguna þrátt fyrir allt núna um næstu helgi. Allir fjölmiðlar eru fullir af því að hér á Akranesi sé komin upp hópsmitun, en af einhverjum ástæðum get ég ekki fallist á það. Seinni bylgja farsóttarinnar er af mörgum talin vera að hefjast núna en ég er ekki þeirrar skoðunar samt sem áður.
Að allar fréttir og alltsaman skuli vera á þennan hátt undirlagðar af kórónuveirufréttum finnst mér vera til marks um að við Íslendingar séum að ná betri tökum á þessari veiruskömm en flestir aðrir. Maður ætti eiginlega að reyna að skrifa um eitthvað annað. En það er erfitt. Efnahagslegar afleiðingar þessa faraldurs eru seinni tíma mál, en munu samt verða mjög alvarlegar.
Ekki virðist það bera þann árangur að fleiri lesi bloggið mitt en áður, að ég skrifi meira um sjálfan mig og að þetta verði á þann hátt dagbókarlegra. Mér er reyndar alveg sama. Vinsældir eru ekki það sem ég sækist eftir. Finnst ekki að ég ætti að takmarka það hverjir geta lesið þetta. Allir eiga að geta það. Finnst mér allavega. Sjálfur les ég og skoða allan fjárann, læka samt fátt á fésbókinni þó ég skoði margt þar. Að mörgu leyti er ég fastur í fortíðinni, enda gamall nokkuð. Skyldu nokkrir lesa þetta eftir að ég er kominn undir græna torfu? Ég efast um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.7.2020 | 14:15
2984 - Intermittent fasting II
Minnir að ég hafi sagt í blogginu sem ég setti upp um daginn að ég væri ekki sérfræðingur í neinu. Eiginlega er ég samt orðinn sérfræðingur í Intermittent fasting. Það hef ég praktíserað nokkurnveginn frá síðusutu áramótum. Hef semsagt ekki látið smámuni eins og Covid-19 veiruna trufla mig í þessari lífsstílsbreytingu minni. (Kannski er vissara að taka fram að með því að kalla Covid-19 smámuni er ég að reyna að vera fyndinn.) Þangað til fyrir skömmu vildi ég ekki einu sinni fallast á að þetta væri megrunarkúr. Allan tímann hefur megrun samt verið meðvirkandi ástæða fyrir því að ég tók þetta upp.
Þetta hefur auk þess að hafa breytt lífsviðhorfi mínu og heilbrigði á ýmsa lund valdið því að ég hef að verulegu leyti losnað við ístruna, sem ég var búinn að koma mér upp. Fyrst í stað fannst mér erfitt að hætta með öllu á borða á kvöldin. Smátt og smátt varð það auðveldara og auðveldara og ég fór að verða grútsyjaður snemma á kvöldin. Fer oftast að sofa um ellefuleytið núorðið. Reyndar hafði það aldrei verið neitt sérstakt vandamál hjá mér að sofna á kvöldin. Frekar að ég væri andvaka á nóttinni og yrði ekki syfjaður aftur nema með því helst að fá mér eitthvað.
Mælanleg þyngd mín hefur mest orðið 127,5 kíló. Núna er ég samkvæmt nýjustu mælingu 108,6 kíló (það kann þó að hrökkva til baka) og stefni að því að fara undir 100 kíló ef ég mögulega get. Síðast þegar ég reyndi að megra mig (ætli það hafi ekki verið árið 2015 eða svo fór ég niður í 102,5 kg þegar ég gafst upp.) Viðurkenni alveg að það er ansi langur tími til hádegis ef ég vakna snemma. Stundum er það jafnvel um fimmleytið, sem ég vakna. Ef ég vakna um fjögurleytið eða fyrr, kalla ég það að verða andvaka, en ef það er eftir eða um fimm kalla ég það að vakna snemma.
Já, ég gleymdi alveg að segja frá því að ég stunda svokallað 16:8 Intermittent fasting. Þ.e.a.s. frá því um átta á kvöldin og til hádegis daginn eftir borða ég allsekki neitt. Fæ mér þó kaffi, vatn, te og kjötsoð á þessu tímabili eins og mig minnir að ég hafi sagt frá. Þessi aðferð til megrunar á nokkuð vel við mig. Aðallega held ég að það sé vegna þess að ekki þarf að vera að telja kalóríur og spekúlera í því hvað megi éta og hvað ekki. Á þessu 8 tíma bili á hverjum sólarhring borða ég nefnilega hvað sem er og í eins miklu magni og mig langar til. Fyrst í stað fannst mér eins og ég þyrfti að éta mikið, vegna alls þess matar sem ég hafði neitað mér um, en smám saman hefur það rjátlast af mér.
Margt má um þessa aðferð segja. Um hana hafa verið skrifaðar margar bækur. Engar þeirra hef ég lesið og tel mig ekki þurfa á því að halda. Ekki hef ég rekist á neina bók um þetta á íslensku. Þær kunna þó að vera til. Fésbókargrúppa held ég þó að sé til um þetta, en einsog flestallir lesendur mínir hljóta að vita þá er ég talsvert andsnúinn því fyrirbrigði sem kallast Fésbók eða Facebook.
Skelfing er þetta sjálfmiðað blogg. En ef lýsa á þessari aðferð er eiginlega ekki hægt að komast hjá því. Með þessu verður bloggið mitt kannski vettvangur fyrirspurna um þessa föstuaðferð, en það er allt í lagi. Kannski eru einmitt einhverjir af lesendum mínum forvitnir um ýmsar hliðar á þessum megrunarkúr ef hægt er að kalla þetta svo virðulegu nafni. Ég mun áreiðanlega reyna að svara fyrirspurnum um þetta ef ég hugsanlega fæ einhverjar og tel mig færan um að svara þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2020 | 07:23
2983 - Fastir liðir eins og venjulega
Sko, það er orðið nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast. Kannski það sé best að skrifa (blogga) smá núna. Veit bara ekki hvað ég ætti að skrifa um. Það er minn Akkillesar-hæll. Ég veit svo lítið og er ekki sérfræðingur í neinu. Það væri þá helst að ég væri það (sérfræðingur) í að skrifa einhverja endemisdellu og endursegja fréttir. Merkilegt hvað margir lesa þetta þó. Kannski var það svo að þegar ég var yngri hafi ég haft einhverjar rithöfundargrillur. Það er samt löngu liðin tíð. Að ég skuli vera svona fastur í Moggablogginu er undarlegt í meira lagi. Þegar næstum allir aðrir eru komnir í árans Fésbókina. Halldór Jónsson ráðlagði mér fyrir nokkru að hafa bloggin mín bara nógu stutt, ef ég vildi öðlast einhverjar vinsældir. Þetta varð til þess að ég fór að lesa bloggin hans. Hann skrifar mikið um pólitíksk málefni og er mjög hægrisinnaður. Auk þess vitnar hann stöðugt í allskyns pólitíska langhunda. T.d. er aðdáun hans á Davíð Oddssyni og Trump Bandaríkjaforseta mikil. Ég aftur á móti legg þá nokkuð að jöfnu á neikvæðan hátt, nema hvað Davíð er greinilega betur gefinn en Trump.
Einhver sagði að á Moggablogginu væru bara sannfærðir últrahægrimenn og stórskrítnir karakterar. Ætli það hafi ekki verið Björn Birgisson í Grindavík sem sagði þetta. Hann lætur margt flakka og er talsvert lesinn. Kannski sagði hann það ekki nákvæmlega með þessum orðum, en meiningin var greinileg. Mér finnst aftur á móti að það séu stórskrítir karakterar sem eru sískrifandi á Fésbókina. Annars eru skrif af öllu tagi að komast úr tísku. Það eru myndirnar sem blífa. Helst að það séu hreyfimyndir eða réttara sagt vídeó- eða kvikmyndir.
Hef undanfarið verið að lesa bókina um Trump eftir frænku hans sem ólst upp með honum. Amazon bauð uppá kynningu á þessari frægu bók fyrir stuttu síðan. Ég skellti mér strax á þá ókeypis kynningu sem boðið var uppá í Kyndlinum mínum, sem satt að segja er talsvert aldraður orðinn af tölvu að vera. Ekki vildi ég samt eyða peningum í þessa bók, enda á ég erfitt með það. Dýr var hún samt ekki. Annars eru Trump og Kórónuveiran að verða eins og samvaxnir tvíburar í hugum flestra Íslendinga. Ætti ég kannski að bæta held ég aftan við þessa setningu?
Af hverju skyldi það vera, sem lesendur mbl.is vilja umfram allt lesa um pólitík og persónuleg málefni. Ekki veit ég það svo ofboðslega gjarnan, en grunar að það sé að mestu eða a.m.k. miklu leyti ósjálfrátt. Hef t.d. tekið eftir því að ef ég fer á mbl.is í tölvunni minni, þá er ég undireins kominn annhvort á það sem Marta Smarta skrifar um fræga fólkið, giftingar, kynlíf og svoleiðis eða að öðrum kosti farinn að lesa um íþróttir. Furðulegt hvað auðvelt virðist að verða frægur þar fyrir tuðruspark og þessháttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
17.7.2020 | 09:15
2982 - Veðrið í dag
Mér skilst að Will Ferrell sé heimsfrægur um allt Ísland. Ekki bara á Húsavík þó einhverjir kunni að halda það. Það breytir því ekki að ég hafði aldrei heyrt á hann minnst fyrr en hann asnaðist til Íslands og varð samstundis Íslandsvinur númer eitt. Nú vill Húsvíkurhreppur kaupa varamannaskýli íþróttafélagsins á staðnum, en það lék víst eitt af aðalhlutverkunum í evróvisionmynd sem fjallaði mest um Húsavík og var tekin þar að því er ég held.
Ætti ég kannski að setja þetta á fésbókina? Ég er nefnilega nýbúinn að senda frá mér blogg á Moggabloggið.
Þessa klásúlu setti ég semsagt á fésbókina í gær (fimmtudag). Fannst hún vera nokkuð góð hjá mér. Þekki þennan Ferrell ekki nokkurn skapaðan hlut. Kannski mundi hann móðgast ef hann frétti af þessu. Ekki er það líklegt. Annars er mér alveg sama.
Þegar ég kom í fyrsta skipti á Djúpalónssand (ætli það hafi ekki verið svona laust eftir 1970) var allt fullt af ryðguðu járnadrasli í fjörunni þar. Sennilega hefur það verið síðan í stríðinu. Hljóp meira að segja yfir í Dritvík en fannst samt Djúpalónssandur merkilegri. Hef heyrt að mikið hafi gengið á þarna úti fyrir í stríðinu. Í fjörunni var líka mjög mikið af vel slípuðum og mjúkum steinvölum. Eiginlega held ég að fjaran hafi verið mynduð af svona steinum. Minnist þess ekki að hafa séð samskonar steina annars staðar. Einnig voru þar aflraunasteinar og íveruhellar. Um svipað leyti skoðaði ég líka ásamt öðrum Gullfoss, Geysi, Þingvelli, Jökulsárlón við Sólheimasand og fleiri skoðunarverða staði á Suðurlandi og víðar. Þá voru sko ekki túristarnir að flækjast fyrir. Voru alls ekki búnir að uppgötva Ísland.
Einhverju hef ég misst af. Nú eiga víst allir að öskra sem mest. Ekkert hef ég heyrt minnst á þetta í fréttum. Máttarvöldin hafa sennilega heyrt af þessu og koma með óvenjulegt óveður á miðju sumri. Samt fór ég nú út áðan og þegar ég var kominn næstum heim aftur braust sólin fram úr skýjunum eins og til að biðjast afsökunar á þessum látum. Læt þett duga um veðrið.
Einhverja á víst að reyna að blíðka með því að hætta við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Eiginlega finnst mér hún tilheyra Versluarmannahelginni. Kannski verður hætt við hana líka. Bjarni sonur minn ætlar ef til vill í Reykjavíkurmaraþonið, ef ekki verður hætt við það. Sumir hafa hætt við að lifa. Kenna má veirunni um allt sem aflaga fer. Mikil er ábyrgð Þórólfs. Kannski eru Kata og Bjarni að sauma að honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.7.2020 | 06:49
2981 - Kynjun tungumálsins
Kynjun tungumálisins getur verið með margvíslegum hætti. Fyrir skemmstu var ég að lesa frétt á mbl.is. Þar stóð: Þau sem hafa keypt sér miða. Þarna var verið að tala um Þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum. Ég er nú svo gamall og myglaður að mér hefði fundist eðlilegra að þarna hefði staðið: Þeir sem hafa. Konur eru nefnilega menn, eins og oft er sagt. Blaðamaðurinn hefur þó líklega bara verið að forðast að styggja feminista, því það er alveg rétt hjá þeim að allt getur haft áhrif. Ef hann hefði skrifað: Þær sem hafa, hefði það frekar misskilist, þó auðvitað gæti hann hafa haft orðið manneskjur í huga.
Svokallaður Banksy er gott dæmi um snobbið í listaheiminum. Hirði ekki um að gera nánari grein fyrir honum. Sennilega kannast flestir við verk hans. Nýlega var gerð stórkostleg frétt úr því að hreingerninngarfólk hafi fjarlægt listaverk eftir hann og greinilega haldið að um venjulegt veggjakrot væri að ræða. Sem það auðvitað var. Vissulega á snobb alls ekki við um nema lítið brot af listafólki. Þessi Banksy er sennilega undarlegt samkrull af listamanni og veggjakrotara. Auk þess hefur hann greinilega gott lag á fjölmiðlum. Alltaf vilja þeir, sem þar starfa, láta á sér bera og skrifa fréttir sem margir vilja lesa. Það er ekki nema von. Athygli fjöldans er oft auðvelt að breyta í pólitík. Svokallaðir álitsgjafar eru af svipuðum meiði. Margir þeirra eru að láta allskyns fyrirtæki nota sig til auglýsinga. Vitanlega þurfa þeir einhverjar tekjur. Oft hefur þeim tekist að vekja nægilega athygli á sér áður á fésbókinni eða öðrum félagslegum miðlum með ýmsum hætti. Kannski er ég að reyna að vekja athygli á mér sem gamalmennabloggara. Til slíks er Moggabloggið einmitt heppilegt.
Hugleiðingar mínar um heimsmálin og Trump forseta hugnast kannski einhverjum. Það eru samt fáir sem gera athugasemdir hér samanborið við þau hundruð sem stundum kíkja hér inn og lesa hugsanlega bloggið mitt. Slík verður að rækta. Það hefur Jens Guð gert aðdáunarlega vel. Visserbesserar eins og Villi í Köben eiga í erfiðleikum núna á þessum Google-tímum. Samt hefur hann stóran lesendahóp hér. Ég er gamall besservisser sjálfur, en reyni samt á þessum Google og Veiru-tímum að blogga um aðskiljanlegustu hluti. Kannski hef ég mest vit á skák og bókmenntum. Forðast samt að blogga mikið um slíkt. Ekki veit ég hversvegna. Stjórnmál þykja mér oft heldur þunnur þrettándi en skrifa samt mikið um þau. Endursögn á einhverju sem ég hef lesið eru þau stundum, jafnvel oft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.7.2020 | 07:28
2980 - Fráflæðisvandi og fleira
Nýtt kalt stríð er greinilega í uppsiglingu. Að þessu sinni er það ekki á milli Sovétríkjanna og USA heldur er Kína komið í stað Sovétríkjanna. Pútín Rússlandsforseti er í hlutverki púkans á fjósbitanum, sem álítur það sinn hag að þessir fjendur eyði sem mestu í allskyns vopn og verjur, og til þess að hafa sem mest áhrif á aðrar þjóðir. Trump skiptir ekki miklu máli í þessu sambandi nema kannski fyrir heimsku sakir. Bandaríkjamenn vilja gjarnan að Evrópuríkin sjái sem mest um sig sjálf. Englendingar vilja vera memm USA. Johnson er kannski ekki eins skyni skroppinn og Trump ræfillinn, þó Englendinar séu langt frá því að vera það heimsveldi sem þeir eitt sinn voru. Þetta eru hugleiðingar mínar um heimsmálin í dag.
Þessi intermittent fasting sem ég er búinn að vera í að mestu leyti í síðan um síðustu áramót gengur bara nokkuð vel og mér finnst ég hafa breyst talsvert við það. Ég fer líka í svona klukkutíma langa gönguferð flesta morgna. Kannski er skynsamlegt að blogga sem mest um sjálfan sig. Aðrir gera það ekki. Þessi blogg mín fá við það heilmikinn dagbókarsvip. Hver veit nema það sé einmitt af hinu góða. Þeir sem þó lesa þessi ósköp munu eflaust halda því áfram þó ég bloggi mest um sjálfan mig.
Um daginn kláraði ég að lesa bókina The Chomolungma diaries eftir Mark Horrell. Þetta er allnákvæm dagbók um göngu á Everest að norðanverðu eða frá Tibet. Venjulega er á gengið á fjallið að sunnarverðu eða frá Nepal. Þetta er bók sem ég fékk ókeypis í Kyndilinn minn frá Amazon. Sannar frásagnir af löngum og erfiðum ferðum eiga vel við mig. Mér leiðast krimmar. Þetta er nokkuð góð bók og engin ástæða til að efast um að nokkurn vegin satt og rétt sé sagt frá. Everest er alveg sérstakur bókaflokkur og ekki er hægt að fara í grafgötur með það að Mark Horrell er greinilega einn fremsti frásegjari af slíkum ferðum.
Nú er ég kominn á einn af þessum frægu biðlistum. Ég fór til augnlæknis um daginn og nú stendur til að skipta um augasteina í mér. Bíð semsagt eftir því að komast að hjá Landsspítalanum. Sem betur fer kvelst ég ekki neitt og finnst ég sjá alveg sæmilega. Það er að segja ef ég er með réttu gleraugun. Gallinn er sá að ég gleymi oft að skipta um þau. Ömurlegra hlutskipti en að verða fráflæðisvandamál á Landsspítalanum get ég varla hugsað mér.
Um daginn gerði ég vísu um deiluna milli Smára McCarthy og Kára Stefánssonar. Vísan var útaf fyrir sig ekkert merkileg og ég man ekkert hvernig hún var. Man samt að ég notaði orðin Smári og Kári fyrir aðalrímorð í henni og að þetta var ferskeytla. Ég var a.m.k. nógu ánægður með hana til þess að ég ætlaði að setja hana á Boðnarmjöð. En það gekk ekki því fésbókarræfillinn vildi ekki leyfa mér að nota nöfn sem rímorð og kom alltaf með einhverjar ógáfulegar og sjálfvirkar tillögur að öðrum og ítarlegri nöfnum en ég vildi nota. Að endingu gafst ég alveg upp á þessu. Auðvitað hefði ég sennilega getað tekið þessa sjálfvirkni af ef ég hefði kunnað nógu vel á Fésbókarforritið. Einhvernvegin finnst mér þó að Fésbókarfræði sé ekki mín deild.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.7.2020 | 05:59
2979 - Enn um helvítið hann Trump
Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef bloggað. Nú er ég andvaka og ágætur tími til þess. Kórónuhræðslan hefur stórlega minnkað hjá mér. Ég er t.d. miklu minna hræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa en ég var. Hvað mig snertir er lífið óðum að færast í sama horf og áður. Stórfjölskyldan hefur heldur ekki orðið fyrir neinum meiri háttar áföllum vegna veirufjandans, en kannski er of snemmt að fagna sigri í því efni. Við fáum okkur sennilega nýjan bíl eftir helgina. Þá er eftir að selja Fókusinn. Svalalokun erum við líka að hugsa um að fá okkur.
Ekki get ég með öllu hætt að hugsa um Trump og heimspólitíkina. Sennilega er ég í grunninn svolítið íhaldssamur, þó ég álíti mig vinstrisinnaðan. Auðvitað er Trump stórskrítinn. Allt öðruvísi forseti en bæði Bandaríkjamenn og aðrir eru vanir. Í heildina tekið eru Bandaríkjamenn ekkert stórlega öðruvísi en annað fólk. Þeir vilja fara eftir lögum, leggja mikla áherslu á mannréttindi og persónufrelsi. Þar standa þeir framarlega. Vantrú almennings á stjórnvöldum og einkum því elítukerfi, sem óneitanlega þrífst í kringum Alríkisstjórnina í Washington, er mikil. Þessvegna voru þeir á sínum tíma (2016) tilbúnir til að kjósa Trump þrátt fyrir alla hans galla. Af hverju í ósköpunum kusu þeir þá þennan ömurlega og spillta auðmann? Ástæðan er einkum sú að þeir fundu að hann var óvenjulegur og barðist á móti stofnanaveldinu. Pressan hefur með örfáum undantekninum verið á móti honum. Segja má að hann hafi sveigt Repúblikanaflokkinn að sínum eigin öfgum. Með þeim hefur hann vonandi tryggt sér sögulegan ósigur í kosningunum í haust. Ætlun hans hefur eflaust verið að tryggja sér endurkjör með blómlegu efnahagslífi, en kórónuveiran hefur svo sannarlega komið í veg fyrir það. Með óbreyttri Trump-stefnu munu Bandaríkjamenn, sem greinilega hafa ákveðið að snúa sér fremur að öðrum heimshlutum en Evrópu, upplifa vaxandi einangrunarstefnu og minnkandi áhrif þrátt fyrir yfirburða hernaðarmátt.
Að minnast á þrennt að minnsta kosti í hverju bloggi er minn stíll. Ástæðulaust með öllu er að blogga daglega. Í síðustu viku var Helena (sem er að verða átta ára) hjá okkur alveg frá sunnudegi til föstudags og stóð sig með afbrigðum vel. Einskonar sumarbúðir hjá henni og í framtíðinni verður það minna átak fyrir hana að vera án foreldranna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.7.2020 | 14:20
2978 - Trump og Biden
Sá um daginn hina frægu kynningar-videómynd sem KSÍ hefur látið gera og sýnir landvættina og ýmislegt fleira. Margir hafa hneykslast mjög á þessari mynd. Mér finnst hún frekar léleg. Má ekki bara láta þar við sitja? Eiginlega er ekkert meira um það að segja. Hún er bara léleg og illa gerð. Sumir hafa haft í hótunum við Knattspyrnusambandið útaf þessari mynd, en ég hugsa að hún gleymist fljótt. Montið og stríðsæsingurinn eru vissulega í aðalhlutverki í myndinni, ásamt landvættunum svonefndu. Þetta ótrúlega mont og æsingur er einmitt það sem Íslendingar eru yfirleitt góðir í. Á hátíðlegum stundum er þetta oft kallað samstaða. Ekki er mikið nýnæmi í því. Svona er fótboltinn bara. Með eða án uppþvottabursta.
Í vaxandi mæli er það svo að engir alvöruframbjóðendur í Bandarísku forsetakosningunum eru á leiðinni. Þannig er að verða greinilegt að stefnir í einvígi milli Trump og Biden. Evrópumenn allflestir styðja Biden. Það er varla neitt leyndarmál. Evrópumenn vilja að sjálfsögðu að arfleifðin frá síðustu Heimsstyrjöld haldi sér. Bandaríkin viðurkenni að Evrópuríkin og þessvegna EU séu áfram mikilvægustu bandamenn þeirra. Kína er í vaxandi mæli að gera sig gildandi á heimsmælikvarða og þessvegna má með sanni segja að Brexit og framkoma Trumps í garð Evrópu séu mikilvægir póstar í baráttunni um völd í heiminum.
Á vissan hátt má skipta öllum stjórnmálamönnum og stjórnmálastefnum í opingáttarmenn og einangrunarsinna. Vissulega er þessi skipting ómarkviss, en þó má alveg styðjast við hana ekki síður en vinstri og hægri. Hægri og vinstri stefna virðist aðallega fara eftir því hve mikilvæg ríkisafskipti eigi að vera. Evrópa hefur í gegnum aldirnar farið í gegnum margskonar hreinsunarelda.
Sú stefna sem virðist vera ofaná hér í Evrópu um þessar mundir er hægt að skilgreina sem vinstri stefnu eða opingáttarstefnu. Andstæðingarnir eru þá hægrisinnaðir einangrunarsinnar. Afneitarar eru svo sérstakur þjóðflokkur sem ekki eru að fullu sammála öllu sem sagt er um loftslagsmál. Sumir eru meira að segja grænni en aðrir. Öll þessi skipting er aðallega til bölvunar. Hún ýtir undir við og hinir sjónarmiðið sem sífellt veldur allskyns togstreitu. Já, ég gleymdi alveg að minnast á trúmálin. Eftir þeim skiptist fólk mjög í hópa og þó að ein trú sé ríkjandi á sumum svæðum, eru trúarbrögðin mis-eftirgefanleg á ýmsum og ólíkum sviðum. Sum af þessum mismundandi sjónarmiðum hafa einmitt á margan hátt aðgreint mannkynið frá dýrunum og valdið yfirburðum þeirra.
Trump er sennilega orðinn skíthræddur. Ekki við að tapa fyrir Biden, heldur við þessi fasistasvín sem vaða um grenjandi og misþyrma styttum. Nýjasta fyrirsögnin var um að ráðist hefði verið á styttu af Cristopher Columbus. Ætli okkur Íslendingur verði ekki kennt um það. Ekki kæmi það mér á óvart.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)