2821 - Dönsk strá og pálmar

Um daginn skrifaði ég um Íslendingabrag Jóns Ólafssonar. Danahatur eins og það birtist þar var kannski algengt á þeim tíma og jafnvel lengur. Í þá átt bendir t.d. Íslandssaga sú sem Hriflu-Jónas skrifaði og kennd var í skólum lengi vel og ég og fleiri af minni kynslóð voru gegnsýrð af. Sú bók einkenndist af óvild í garð Dana. Síðar meir finnst mér að sagnfræðingar hafi hneigst til mun meiri óvildar í garð innlendra stóreignamanna og afsakana í garð Dana. Sennilega er sannleikurinn þarna mitt á milli. Staðreynd er að stórveldisdraumar Dana á fyrri öldum leiddu oft til þess að dönsk stjórnvöld litu á Ísland og Íslendinga sem einskonar skiptimynt í friðarsamningum. Kannski var danskur almenningur almennt hlynntari Íslendingum en stundum er látið í veðri vaka. Líklega hafði hann samt sem áður engan eða lítinn áhuga á Íslandi og vissi jafnvel ekki að það væri til.

Pálmatré hefur verið skipulagt að hafa einhversstaðar. Ég man ekki hvar. Umtöluð eru þau samt og ég hef einkum það að segja um þau að viðhaldið á þeim og hólkunum í kringum þau, getur orðið meira og dýrara en gert er ráð fyrir. Sé hita, vökvun og gegnsæi plastins eða glersins haldið í góðu horfi um langa framtíð, sé ég ekkert í veginum með að þau geti lifað. Jafnvel er ekki útilokað að eitthvað af þeim draumum sem aðstandendur þeirra hafa um nánasta umhverfi þeirra geti ræst ef nógu vel er hugsað um þau. Um verðið hef ég ekkert sérstakt að segja. Ef viðmiðanir eru réttar og sanngjarnar er ekkert víst að það sé svo hrikalega hátt. Verktakar borga, að hluta er sagt, og ekki vorkenni ég þeim það. Fáir eða engir byggja hús sín sjálfir núorðið eins og áður tíðkaðist. Nú eru það fyrirtæki (kverktakar) sem um slíkt sjá.

Erfitt er að skrifa um alþjóðleg málefni án þess að minnast á Venezúela. Forseti og helsti ráðamaður þar er Nikulás nokkur Maduro sem er arftaki kommúnistans Hugo Chaves. Ýmislegt er þar að og verðbólga mikil ásamt skorti á ýmsu. Reynt er að fá Maduro til að leggja niður völd með góðu en ekki er útlit fyrir að það takist. Eins og víða annars staðar er það í raun herinn sem flestu ræður. Hingað til hefur hann staðið með Maduro en ekki er víst að svo verði til langframa. Ekki er líklegt að Bandaríkjamenn ráðist þar inn þó Trump vilji það kannski. Alþjóðlegi fréttamannahópurinn er sennilega að flytja sig frá Sýrlandi til Venezúela um þessar mundir. Margir búast við borgarastyrjöld þar og líklegt er að fleiri flækist í þau mál. Deilurnar eru a.m.k. magnaðar.

Veðrið er sérlega fagurt núna. Dálítið frost að vísu en sólskin og nánast logn. Að sjálfsögðu er snjór yfir öllu og birtan mikil. Spáð er versnandi veðri og satt að segja óttast ég að svell og hálka kunni að myndast á næstu dögum. Ekki er fyrir það að synja að pálmatré og strandlíf heilli Íslendinga núna og frá því sjónarmiði er réttast að líta á fyrirhugaðar pálma-hugmyndir. Að mestu er nú hætt að tala um bragga og dönsk strá og í staðinn hafa tekið við pálmar, sem hugsanlega eru danskir líka. Er það virkilega svo að allt sem slæmt er komi frá Danmörku?

Jón Baldvin Hannibalsson berst nú um á hæl og hnakka og þykist enginn karlpungur vera. Því er þó ekki að neita að oft er það svo að þar sem reykur er mikill, leynist eldur undir.

IMG 7149Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Aldrei bjó í blýsins hólk
þó betur til þess þekki
því lesið hef ég Fátækt fólk
þó flestir hafi það ekki.

Sem vilja inní Vogum hólk
í vitleysunnar nafni,
en grafa úr Víkurgarði fólk
og geyma það inni á safni.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2019 kl. 20:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vogastrandarvitleysan
verður ekki toppuð.
Endalaus er ólukkan
ef ekki verður stoppuð.

Sæmundur Bjarnason, 4.2.2019 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband