2818 - Bakki kostaði ríkið 4,2 milljarða

Nú er víst kominn febrúar, svo óhætt ætti að vera að fara að hlakka til vorsins. Ekki er þó beinlínis hægt að segja að það sé á næstu grösum, enda engin grös sjáanleg núna hvað sem kann að leynast undir snjónum. Já, það er snjór núna yfir öllu þó það sé ekki mjög algengt hér á Akranesi. Verið er að kvarta yfir hörkufrosti í henni Reykjavík en hér er frostið ekki nema fáeinar gráður. Margir keppast við að dásama snjóinn, en ég geri það ekki.

Frekar vil ég myrkrið, frostleysið og rigninguna. Kann heldur ekkert á skíðum og hér eru hvort eð er engar skíðabrekkur í nánd. Þrátt fyrir að oft sé talað um öfgar í veðurfari held ég að oftar hafi verið farið á skauta o.þ.h. hér áður fyrr. Þó ég sé orðinn nokkuð gamall og það megi sjálfsagt sjá á göngulaginu óttast ég allsekki hálku meðan frost er. En þegar frostleysið kemur aftur má eflaust búast við hálku og slabbi í einhvern tíma og þá er okkur gamalmennunum hætt.

Superbowl er víst á sunnudaginn og mér skilst að Los Angeles Rams og New England Patriots muni þá keppa í Atlanta. Ekki hef ég mikinn áhuga á þeim leik en um úrslitin mun ég sennilega forvitnast daginn eftir. Kannski kemst ég ekki hjá því að fá að vita hvor sigrar og hvernig, en mér er svosem alveg sama. Held að Bandaríkjamenn hafi meiri áhuga á þessu en mörgu öðru.

Fórum í bæinn í gær, til að passa Helenu. Eða var það kannski hún sem passaði okkur? Áslaug keyrði í Hafnarfjörð, en ég til baka. Svolítill skafrenningur var á leiðinni en svosem ekki til trafala. Þó fórum við kannski lítið eitt hægar en venjulega.

Það var þann 17. janúar s.l., sem Bjarni sonur okkar lenti í bílslysi, en slapp næstum ómeiddur úr því. Hann var um ellefuleytið um kvöldið að koma úr vinnunni hingað niður á Akranes til að sækja Tinnu dóttur sína, sem verður unglingur á þessu ári. Er semsagt bara 9 ára núna. Hann keyrði útaf veginum vegna hálku og bíllinn fór þónokkrar veltur og skemmdist mikið og er sennilega ónýtur með öllu.

Bakki kostaði ríkið 4,2 milljarða. Æpir mbl.is í stórri fyrirsögn. Getur verið að Bjarni Benediksson sé með þessu að gagnrýna Steingrím Jóhann Sigfússon? Já, ég er að persónugera þetta svolítið. Bjarni Benediksson hlýtur að tala í nafni Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið eiginlega líka. Húsvíkingar og reyndar allir íbúar Norð-Austurlands hljóta að þakka Steingrími J. öðrum fremur fyrir kísilverksmiðjuna á Bakka. Er þá ekki hægt að líta svo á að Sjálfstæðisflokkurinn sé að kenna vinstri-grænum um það að ríkið hafi eytt í „óþarfa“ 4,2 milljörðum? Svo getur hugsast, og jafnvel meira en það að sumra áliti, að ríkið tapi fyrir rest einhverju á Vaðlaheiðargöngunum. Ég er svosem ekki að segja að íbúarnir þarna eigi þetta ekki skilið. En samanborðið við aðra landshluta eru þetta talsverðar upphæðir hjá fámennri þjóð.

IMG 7163Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Steigurlæti og staðföst trú
Steingríms er að þakka
Kverúlantar komast nú
á Kópasker og Bakka

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.2.2019 kl. 14:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steingrímur er staðfast hjú
stálbræðslna og kola.
Á Húsvíkingum hefur trú
og hættir brátt að vola.

Sæmundur Bjarnason, 2.2.2019 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband