Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

2691 - Lífið er ekki sanngjarnt

Lífið er ekki sanngjarnt og ellin er áhyggjur. Þegar við erum loksins búin að læra eitthvað nokkurnvegin til hlítar, þá erum við eiginlega orðin óþörf. Eðlilegt má það kannski kalla, en ekki verður það neitt betra fyrir það. Auðvitað getum við ekki gert allt það sem við gátum áður fyrr. Þegar aldurinn færist yfir okkur verðum við stirðari og hreyfingar okkar hægari. Samt erum við ekki óalandi og óferjandi. Sum okkar kunna ýmislegt fyrir sér. Ýmislegt vitum við til dæmis. Kannski ekki jafnmikið og Gúgli frændi. Þó hann sé fljótur þá eigum við til að vera fljótari. Okkur er hálfilla við að vera meðhöndluð sem börn. Þeir sem litlu eða engu ráða eru okkur oft hagstæðir. T.d. vill afgreiðslufólk í búðum yfirleitt allt fyrir okkur gera. Kannski er það til að losna við okkur sem fyrst. Þannig má samt helst ekki hugsa.

Neikvæðni er jákvæð. Jákvæðni er meðvirkni. Hægt er að snúa útúr öllu. Yfirleitt er lítið að marka fréttatilkynningar. Venjulega er þeim ætlað að fela eitthvað. Ráðherrar segja sjaldan af sér og segja sjaldan satt. Oft má saltkjöt liggja. Umboðsmaður alþingis er hræddur við Sigríði dómsmála, kannski dóttir hans Helga Skúlasonar leikara sé skárri. Vinsældir alþingis eru sáralitlar. Af hverju skyldi það vera? Kannski ætlumst við til of mikils af því.

Er Trump orðinn alveg trompaður? 25% tollur finnst mér áhóflega hár tollur. Ef ég á að segja á hvað þetta minnir mig, þá væri það helst það að á mínum sokkabandsárum þegar ég vann hjá Hannesi Þorsteinssyni og Co. þá var 80% tollur á klósettum. Þá var sú stefna (um 1960) við lýði að leggja háan toll á alla munaðarvöru. Af hverju klósett féllu undir þá skilgreiningu skildi ég aldrei.

Ég er að sumu leyti orðinn háður því að blogga. Það er eins og hvert annað eiturlyf. Annars virðist vera endalaus vafi á því hvað sé eiturlyf og hvað ekki. Fyrir þónokkru steinhætti ég að reykja. Fyrst hætti ég þegar ekki þurfti lengur að fá lyfseðil fyrir nikótíntyggjói. Líklega hefur það verið svona um 1990. Svo gekk ég í stubbafélagið, því mér þótti það blóðugt að þurfa að borga stórfé fyrir þessa óhollustu. Að lokum tókst mér þó að hætta endanlega og mig minnir að það hafi ekki verið sérstaklega erfitt.

Einu sinni tók ég stóran gúlsopa af 75% vodka. Það þótti mér vel sterkt. Sennilega hefur það verið í sparnaðarskyni. Þetta var nefnilega smyglgóss ef ég man rétt. Áfengi hefur aldrei verið mér mikið vandamál. Matur er það frekar, enda er ég orðinn óhóflega feitur. Tölum samt ekki meira um það. Auk þess getur matur verið ýmist hollur eða óhollur.

Ekki sýnist mér það vera gáfuleg notkun á frjósömu landi að nota það fyrir grasrækt eingöngu svo kjötætur geti fengið sitt. Dýrt er það áreiðanlega. Mannskepnan getur hæglega látið sér nægja grænmeti og ávexti, en sumir eiga svo mikla peninga að þeir eru í vandræðum með þá.

IMG 8308Einhver mynd.


2690 - Bitcoin

Leikmannsþankar um bitcoin. Hvað er bitcoin? Þetta er ansi góð spurning. Flestir segja þetta ef þeir eiga í vandræðum með að svara spurningunni. Það er nokkuð gott ráð að hrósa fyrirspyrjandanum meðan málið er íhugað eða fundin leið til þess að komast hjá því að svara. Mér finnst bitcoin og aðrar slíkar myntir vera eitthvað sem ekkert raunverulegt stendur á bakvið. Hvað aðrar alþjóðlegar myntir varðar, virðist það vera að flestir geri ráð fyrir að auðlegð viðkomandi þjóða standi á bakvið myntina. Það er ekki bara svo, að því sé trúað að raunveruleg verðmæti standi að baki myntarinnar, heldur er því líka trúað að flöktið verði ekki alltof mikið. Að baki bitcoin stendur ekkert nema trú þeirra sem eiga þá mynt. Gengisflöktið hefur hingað til verið mikið og á sama hátt og búast má við að gengið hækki þegar ekki er lengur hægt að búa til fleiri bitcoin-krónur, má alveg eins búast við að það lækki niður í núll. Meira hef ég eiginlega ekki að segja um þetta mál í bili. Að mörgu leyti er þetta meira-fífls-kenningin í öllu sínu veldi.

Þessa klausu setti ég á fésbókina um daginn og einhverjir hafa e.t.v. lesið hana þar. Samt finnst mér ástæða til að hafa hana hér.

Eiginlega er margt hægt að segja um bitcoin. Mér finnst það flest bera vott um svindl og svínarí. Aðra stundina getur manni fundist að maður sé forríkur en hina stundina að maður sé fátækari en flestir aðrir. Best er að láta þessar krónur alveg eiga sig. Auðvitað er hægt að segja að peningar yfirleitt byggist á trú. Það leysir samt ekki þann vanda sem sumir hugsanlega standa frammi fyrir: Á ég að kaupa bitcoin núna (ef það er einhvers staðar til sölu) eða á ég að bíða með það. Hugsanlega hækkar gengið og græði ég þá ekki?

Nú er kominn sunnudagur. Bjarni tók þátt í deildakeppninni í skák, sem lauk um helgina og litlu munaði að þeim (UMSB) tækist að komast upp. Gengur bara betur næst. Kannski hafa ívið fleiri fylgst með söngvakeppninni í gærkvöldi en með Chess Results. Samt tók ég hið síðarnefnda framyfir. Veit ekki einu sinni úrslitin í Eurovision, enda skipta þau litlu máli.

Þegar ég læt svo lítið að blogga svolítið rýkur lesendafjöldinn upp, sem eðlilegt er. Aldrei verður hann samt svo mikill að til vandræða horfi og því er ég feginn. Síst af öllu vænti ég þess að einhverjir taki mark á þessu bulli mínu.

Nú er úti það sem mamma kallaði „þurrakulda“. Engin hálka. Enginn snjór. Lítill sem enginn vindur. Dálítið frost samt. Mesti kosturinn við Akranes er að þar er næstum aldrei snjór. Svolítill vindur kannski, en ekki mikið til baga.

IMG 8310Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband