2681 - Ráðist gegn reikningsaðferðum

Hef verið að athuga að undanförnu hve margir halda áfram nútildax að blogga hér á Moggablogginu. Þeir eru furðumargir. Það finnst mér merkilegt. Kannski hentar fésbókin þeim ekki. Kannski skrifa þeir heilmikið þar einnig. Ég hef bara ekki athugað það. Þetta er samt með merkilegri rannsóknarverkefnum sem ég hef fengist við undarfarna daga. Tvennt finnst mér athyglisverðast. Þeir sem vinsælastir eru þar blogga mjög oft. Jafnvel oft á dag. Og þeir sem nýlega hafa byrjað að blogga þar nota flestir bloggið eins og sennilega hefur verið ætlast til í upphafi. Þ.e.a.s. með því að gera athugasemdir við það sem skrifað er á mbl.is.

Get ekki að því gert að mér finnst þessir votlendissjóðir og þessháttar sem verið er að stofna út um allar trissur vera óþarflega neikvæðir. Jafnvel að þeir séu einkum að ráðast gegn því hvernig hnatthlýnun er reiknuð út. Mér finnst að „endurheimt votlendis“ sem oft er talað um eigi ekki að vera forgangsmál úr því sem komið er. Vel getur samt verið að mýrarflákar séu æskilegir frá einhverjum sjónarmiðum. Aðallega held ég að það séu samt fuglar sem hugsa þannig. Ef þeir hugsa þá nokkuð um þessa hluti. Mér vitanlega er alls óvíst að þeir komi aftur. Stígvélaframleiðendur munu þó eflaust gleðjast ef takast mætti að auka verulega við mýrar á landinu. Annars nenni ég ekki að velta þessum hlutum neitt afskaplega mikið fyrir mér. Finnst samt einhvern vegin að það mætti draga úr hnatthlýnun með jákvæðari aðferðum en þeim að hamra sífellt á því hvað menn hafi verið vitlausir hér áður fyrr.

Þó snjórinn sé yfirleitt bölvaður er ekki hægt að neita því að í frosti og snjóföl eru göngustígar ekki nærri eins hálir og stundum ella. Auðvitað er samt best að þeir séu þurrir og snjólausir en það er sennilega til of mikils mælst á svona norðlægum slóðum. Snjólétt er samt hér á Akranesi. Ekki get ég neitað því. Krakkar, fréttastofur og kannski einhverjir skíðamenn líka, vilja samt hafa sem mestan snjó. Erfitt er að gera öllum til hæfis bæði fyrir veðurguði og aðra. Þurrir gangstígar og lítil hálka er samt það sem ég óska mér helst. Hitastigið skiptir minna máli.

Eitt af því sem Katrín Jakobsdóttir talaði um við ríkisstjórnarmyndunina var að umræðuhefðin á Alþingi Íslendinga þyrfti að batna og unnið yrði að því að svo yrði gert. Ég hlustaði á upphaf þingfundar í dag og get ekki séð að hún hafi batnað rassgat. Enn er það svo að þingmenn virðast flestir líta á þingstörfin sem send eru út yfir saklausan almenning sem einskonar kappræður sem snúist aðallega um það að gera lítið úr andstæðingum sínum. Tvö lið takast þarna á og þjóðarhagur skiptir litlu máli. Herfangið „ræðustóll“ skiptir öllu.

IMG 0363Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband