2678 - Hvað boðar nýárs blessuð sól?

 

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Hvað borðar nýárs blessuð sól? Hún boðar náttúrunnar jól. Já, skáldin hafa sagt flest það sem segja þarf. Mér fannst ræða forsetans áðan ekkert sérstök. Eiginlega bara samansafn af fögrum orðum. Bar keim af því sem stjórnmálamenn eru sífellt að segja og allir eru hættir að taka mark á. Katrín Jakobsdóttir er sá stjórnmálamaður íslenskur, sem flestir einblína á þessa stundina. Rís hún undir því? Um það má efast.

Í gær var gamlársdagur og þó ég sé gamall orðinn þá finnst mér húllumhæið og sprengingarnar vera í meira lagi á þeim degi. Um morguninn fór ég í mína venjulegu morgungöngu. Snemma mundi einhver segja. Mér fannst það ekki. Þó var ekkert farið að birta. Klukkan samt orðin hálfátta eða meira. Reyndar var þetta fyrsta morgunganga mín síðan um jól. Enda hef ég verið hálfslappur, jafnvel veikur síðan þá. Tíðindalaust var á þessari göngu enda ætlaði ég ekkert að skrifa um hana.

Einn er sá maður sem ég virði talsvert. Þ.e.a.s. það sem hann skrifar. Það er Karl Th. Birgisson ritstjóri Herðubreiðar. Einn er líka sá maður sem ég ber heldur litla virðingu fyrir að þessu leyti, þó hann þykist yfirleitt  vera rökfastur í meira lagi. Sá heitir Jón Steinar Gunnlaugsson. Karl Th. Birgisson fjallar einmitt um hann í grein á Herðubreið sem ég las nýlega.

Að mínum dómi er það helsti ljóður á ráði Karls Th. Birgissonar að hann vill stundum fá greitt fyrir greinar sínar á Herðubreið. Ég er gamall Internethundur og hef vanist því að allt sé ókeypis sem almennilegt er þar. Svo langt geng ég í þessari minni sérvisku, að ég les helst ekki aðrar bækur en þær sem ég fæ ókeypis á kyndlinum mínum. Samt er ég orðinn svo gamall að ég fæ allar þær bækur sem ég kæri mig um á bókasafninu án þess að borga fyrir það. Get líka lesið ýmislegt á Stundinni þó þar sé ætlast til að fá greitt fyrir skrifin.

Auðvitað skil ég það mætavel að Karl Th. vilji fá greitt fyrir það sem hann gerir. Held samt að hann geti fengið greitt fyrir ýmislegt annað en það sem hann skrifar á Internetið. Það er líka ókeypis allt annað sem á Herðubreið er, þannig að mér finnst þetta óþarfi hinn mesti.

Á komandi ári ætla ég að halda áfram að blogga hvort sem lesendum líkar betur eða verr. Óneitanlega lifi ég talsvert fyrir fyrirsagnir í bandarískum blöðum. Heimsmálin eru mér talsvert hugleikin og Trump bandaríkjaforseti þar með. Útgáfa Moggans mun halda áfram og þessvegna mun ég halda áfram að blogga þar þrátt fyrir þau íhaldssömu viðhorf sem þar ríkja. Önnur nýársheit mun ég sennilega ekki gera. Þó er líklegt að þeir tímar sem við lifum núna verði seinna meir álitnir merkilegir. Ekkert stöðvar tímans þunga nið. Sagði skáldið.

IMG 0264Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmundur. Ég hef sömu sögu að segja og þú, því ég var eiginlega alveg heilsunnar mest lágstemmd á milli jóla og nýárs. Og kann ekki að útskýra né réttlæta það vanhæfniástand mitt.

Þann fyrsta janúar klukkan 14.00, dröslaði ég fýlupúkanum sjálfri mér út úr húsi, og í messu í kirkjunni sem er bara fáum skrefum frá heimili mínu. Mér leið fjandi illa þegar ég fór að heiman, en mér leið töluvert mikið betur þegar ég kom heim aftur.

Ég hlustaði á kvenprestinn í messunni, og ber persónulega mikla virðingu fyrir þeirri ágætu konu. Svo hlustaði ég á sögu annarrar konu sem sagði mjög góða sögu í kirkjunni. Ég er ekki öfganna trúuð á eitt eða neitt umfram annað. 

En þessi kirkjuferð mín var svo sannarlega góð byrjun á nýju ári. 

Það má með sanni segja að nýárs-sólin mín hafi verið tendruð af tveimur góðum konum ásamt öðrum hjálpurum í Hafnarfjarðarkirkju 1 janúar 2018.

Ég þakka fyrir þessa góðu og hjartanærandi byrjun á nýárs blessaðri sól. Ég gat ekki tendrað nýárs blessaða sól í mínu hjarta, án utanaðkomandi hjálpar.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 5.1.2018 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband