2607 - Er grasið grænna hinum megin?

Á margan hátt stöndum við Jarðarbúar (eða a.m.k. Vesturlandabúar og í sívaxandi mæli aðrir) á þröskuldi nýrrar tækni. Tölvubyltingin er rétt að byrja. Fyrir einum mannsaldri voru tölvur næstum óþekkt fyrirbrigði. Á þeim næsta og sennilega miklu fyrr má búast við því að tölvur og samskipti þeirra á milli muni stjórna lífi flestra. Einhverjum mun þó takast að skjóta tölvum heimsins ref fyrir rass, en þeir verða ekki margir. Flestir verða meira og minna háðir þeim stórfyrirtækjum sem tekist hefur best upp í því að gera tölvurnar sér háðar. Auðæfi Bill Gates munu verða eins og krækiber í Helvíti samanborið við ríkidæmi Sykurbergja þeirra sem enn eiga eftir að láta ljós sitt skína. Tæknin og tölvurnar munu snúast sífellt hraðar og hraðar og þeir sem ekki fylgja þeim hraða munu verða útskúfaðir.

Við dauðlegir menn munum flestir snúa okkur að íþróttum og þess háttar eins og við höfum lengi gert. Auðvelt virðist vera að telja mönnum trú um að íþróttir og þó einkum boltaleikir allskonar skipti meira máli en flest annað. Í sífellt auknum mæli munu sjálfvirk tæki sjá um allt sem máli skiptir. Þetta er svosem ekkert nýtt og lengi hafa menn haft þessa trú. Áhersla manna á mat og hverskonar hollustu mun og aukast og flestir starfa við eitthvað sem því eða tölvum tengist.

Allir eru uppfullir af sögum um hve íslenskir kaupmenn séu miklir svindlarar. En er grasið nokkuð grænna hinum megin? Vissulega er matarverð hátt hér á landi. Sumt er samt ódýrara og einfaldara hér í frostinu. T.d. getur veðrið líka verið slæmt í útlandinu. Jafnvel kunna að leynast þar svindlarar og glæpamenn. Sennilega er ég orðinn of gamall til að flýja land. Mér var nefnilega sagt í fyrndinni að hér drypi smjör af hverju strái. Að vera svona „fjarri heimsins vígaslóð“ er nefnilega að sumu leyti ómetanlegt. Þó Jónar Ásgeirar og Ólafar Ólafssynir séu helst til margir hér um slóðir eru þeir ekki vitund hættulegir. Taka í mesta lagi frá okkur peninga (sem við erum kannski hætt að nota). Nú hef ég líklega sagt of mikið. Vinstri slagsíðan kann áreiðanlega ekki að meta þetta. Kannski er bara best að hætta.

Brúðkaup í Bretlandi eru spennandi fyrir þær sakir að þau snúast yfirleitt um það hverjum tekst að vera með sérkennilegasta og asnalegasta hattinn. Venjulega eru þau líka haldin í smáþorpi og þátttakendurnir þykjast vera að fela sig fyrir fjölmiðlum en vilja þó ekkert frekar en að þeir fylgist sem best með öllu.

Nú er búið að útbúa leikvöll fyrir kartöflusjúka Akurnesinga og við fórum þangað áðan og erum búin að mæla fyrir beðum o.þ.h. Eigum bara eftir að stinga útsæðinu niður. Og síðan tekur arfareytingin við. Vitum ekki ennþá hvernig útsæðið plumar sig og ekki heldur hvernig það dugar. Hér innanhúss er tómatræktun o.þ.h. komin á fullt.

Skil ekki almennilega hvernig mönnum sem sáu um sýninguna í Laugardalshöll núna um helgina datt í hug að nefna hana ensku nafni en ekki íslensku. Sem þó hefði verið vandalaust. Kannski er ég bara svona gamall og úreltur, en ég get ekki að þessu gert.

IMG 1634Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband