2609 - Pythagoras

„Mikil er trú þín, kona“. Var einhverju sinni sagt. Nú ætlar Trump sjálfur að koma á friði í Miðausturlöndum með vinstri hendinni. Ekki hef ég trú á að það takist. Samt er ekki bannað að vona. Annars eru andstæðingar Trumps þegar farnir að ásaka hann (ef til vill með réttu) um að vera með þessu flandri að flýja vandræðin heima fyrir. Gott ef hann er ekki önnum kafinn við að safna glóðum elds að höfði sér. Nú er Trumpkaflanum lokið hjá mér.

Og þá tekur Pythagoras við. Pythagorasarreglan er yfileitt fyrsta (og jafnvel eina) formúlan sem skólakrakkar þurfa að læra. Sagt er að Pythagoras hafi fengið þessa formúlu að láni frá Kínverjum en um það veit ég ekkert. Hún er samt kennd við hann.

Þó sumum skólakrökkum hafi gengið hálfilla að tileinka sér Pythagorasregluna þá er hún ósköp einföld og auðskilin. Iðnaðarmenn allflestir þurfa að læra hana til þess að geta fundið út rétt horn eða nákvæmlega 90 gráður. Kannski kalla þeir hana og hugsa um hana sem 3-4-5 regluna enda vill svo heppilega til að ef þær tölur eru notaðar er auðvelt að finna rétt horn.

Í sinni einföldustu mynd er reglan þannig: Í rétthyrndum þríhyrningi gefur það sömu töluna ef langhliðin er sett i annað veldi og ef skammhliðarnar báðar eru hafðar í öðru veldi og lagðar saman. Pythagorasi fannst þetta að sjálfsögðu afar einfalt og vildi helst hafa allt í náttúrunnar ríki jafneinfalt. Arkimedes var aftur á móti á annarri skoðun og vildi ekki binda sig við þessa þrískiptingu alls. Hegel með sínar tesur antitesur og syntesur hefur e.t.v. verið undir áhrifum frá Pythagorasi. Þetta síðasta er frá mér sjálfum komið og kannski tóm vitleysa.

Um þetta alltsaman var einu sinni gerð vísa. Við Miðskólann í Hveragerði var það haft fyrir satt að hún væri eftir Hvergerðing:

Ef spurningin skyldi skella á mér
skeð gæti verið ég teldi.
Langhlið í öðru jafnt skammhliða skver
og skammhlið í öðru veldi.

Sagt er að yfir 2000 milljónir manna skoði Fésbókina í hverjum mánuði. Nýlega kynnti Sykurbergur sjálfur og aðstoðarfólk hans nýtt app sem hengt er á Fésbókina til að senda videómyndir úr símanum sínum beint á Fésbókina. Sjálfsmorð í beinni eru að verða vinsæl meðal amerískra unglinga að sumra sögn.

Ríkisstjórnarflokkarnir vilja umfram allt binda hendur þingsins sem alltaf lætur illa þegar fjárlög eru til umræðu. Þessvegna er það sem fjárhagsáætlun til 5 ára er kynnt núna. Stjórnarandstöðunni finnst það vera skylda sín að vera sem mest á móti þessu og talar og talar. Stjórnarþingmenn þegja hins vegar þunnu hljóði. Liðsskiptingin sem er við lýði á alþingi Íslendinga er versti dragbítur á alla starfsemi þess. Ríkisstjórnin hrifsar sífellt til sín meiri og meiri völd. Alþingi á samt að ráða ýmsu. T.d. fjárveitingum öllum. Mér finnst samt að ráðuneytin og ráðuneytisstjórarnir ráði flestu. En Guðni vill engu ráða.

IMG 1626Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband