2674 - Kvennó

Eitt af því allra mikilvægasta sem ellin kennir manni, er að ofgera sér ekki. Maður vill kannski og ætlar að gera allan fjandann, en svo verður kannski minna úr aðgerðum. Best er að hvíla sig sem rækilegast og gera jafnvel minna en þeir sem næst manni standa ætlast til.

Fésbókin er furðuleg
og feikilega spennó.
þar arka þeir sinn æviveg
sem ekki fóru í Kvennó.

Þetta bjó ég til um daginn og setti, að mig minnir á Boðnarmjöð á fésbókinni. Jólakveðjurnar þar og í útvarpinu eru alla að drepa. Allt þetta umstang um fésbókina pirrar mig. Líklega er það fyrst og fremst vegna þess að ég skil hana allsekki. Að sumu leyti finnst mér betra að tala um hana sem persónu. Afskiptasemin þar er á pari við besservisseraháttinn hjá henni blessaðri.

Fór um daginn í heimsókn til fóta-aðgerðafræðings. Það var á ýmsan hátt athyglisverð upplifum. Held ég hafi aldrei gert slíkt áður. Hafa fæturnir áhrif á heilann? Það er heila spurningin. Eða kannski heilaspurningin. Endalaust er hægt að leika sér að orðum. Sumir gera það alveg svikalaust.

Andvökur eru svosem ekki allra. Stundum eru þær þó nauðsylegar til þess að koma jafnvægi á hugarstarfsemina. T.d. á ég stundum í mestu vandræðum með að tjá mig í tali. Skrif eiga betur við mig. Sumir tjá sig í ljósmyndum eða öðrum listum, jafnvel tónlist, en hana skil ég reyndar allsekki.

Einhverntíma setti ég þetta saman og þótti nokkuð gott:

Nú eru jólin að gagna í garð
gaman er núna að lifa.
Af einhverjum lítt kunnum ástæðum varð
enginn mér fyrri að skrifa.
Þetta sem kalla má svolítinn sálm
sumum þó finnist það vera tómt fálm.

Auðvitað er þetta ekkert sérlega jólalegt, en ég hef það mér til afsökunar að ekki eru alveg komin Jól (með stórum staf) þegar þetta er skrifað

Auk þess legg ég til að kjararáði verði falið að ákveða launakjör fanga og bætur öryrkja. Ellimóðu vesalingarnir, sem hljóta að vera nauðalíkir mér, geta átt sig. Geri mér alveg ljóst að þetta er ekkert frumlegt, en einskonar gagnrýni á störf kjararáðs er mjög í tísku um þessar mundir.

IMG 0307Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband