Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

2651 - Hryðjuverk

Sumum finnst það eflaust pínulítið skrýtið að ég skuli aldrei skrifa neitt um hryðjuverk eða hryðjuverkahættu. Þó skrifa ég heilmikið um aðrar fréttir. Blaðamenn skrifa mikið um þessi mál og m.a. finnst mér ekki á það bætandi. Þetta er næstum eins og aukakosningar hjá þeim. Að mestu leyti eru þetta sömu skrifin aftur og aftur. Byssulöggjöfin í Bandaríkjunum kemur oft við sögu en ég hef lítið heyrt um það hverjum öll þessi skrif koma einkum til góða. Augljóst er samt að þau koma einkum yfirvöldum til góða. Flestir hljóta að geta verið sammála um það. Með þessu er þeim gert kleift að leiða í lög allkyns takmarkanir á frelsi einstaklinganna.

Eiginlega þurfa þau til réttlætingar á hvers kyns eftirliti og njósnum ekki annað en að minnast á hryðjuverkaógnina. Og allt er fyrirgefið. Nú þegar hefur þeim (yfirvöldunum) tekist að ná næstum fullkomnu valdi yfir hverskyns flugstarfsemi og áður en langt um líður ná þau eflaust valdi á ýmsu öðru. Frelsi okkar smáborgaranna fer sífellt minnkandi nú á öld eftirlitsmyndavélanna og við erum bara ánægð með það. „Hvort viltu heldur vera ánægt svín eða óánægður Sókrates?“ Var einu sinni sagt. Nútímamenn skilja ekki svona þvætting. Í Bandaríkjunum a.m.k. eru flestir ánægðir ef þeir fá að eiga sína byssu í friði. Tala nú ekki um ef þeir hafa líka leyfi til að nota hana.

Bandaríkjamenn vita að ef raunverulegt TSHTF (The Shit Hits The Fan) á sér stað er afar lítið á yfirvöldum að græða. Aftur á móti virðast t.d. Íslendingar og margir aðrir álíta að yfirvöld geti greitt úr hverskyns vanda. Eða þá að þeim er alveg skítsama. Það er reyndar mikilu líklegra og í sjálfu sér skynsamlegt. Það er nefnilega lítið hægt að gera ef alvarleg uppákoma verður. Kannski það verði bara betra að drepast fljótt, en að tóra sem lengst.

Af hverju er Sjálfstæðismönnum svona illa við Pírata? Mig grunar að það sé vegna þess að Birgitta er svona hávaxin. Er hún það ekki annars? Bjarni er nú langur sjálfur. En Sjálfstæðismenn er flestir litlir. Sumir pínulitlir. Annars hefur stærðin ekkert með stjórnmálaskoðanir að gera. Ætli þessi meinbægni hjá Sjálfstæðismönnum stafi ekki af áherslu Pírata á að hafa allt gegnsætt og uppi á borðum sé þess nokkur kostur. Sennilega er það líklegra en að það sé sjálft pírata-orðið sem pirri þá svona mikið. Og vitað er að Sjálfstæðirmenn telja sig þurfa margt að fela. Ef virkilega þarf að fela eitthvað er betra að hafa þá utan stjórnar.

IMG 0910Einhver mynd.


2650 - Enn og aftur sitthvað um Tromparann

Ekki lagast kosningasjá hins venjulega manns þessa dagana fremur venju. Flokkum fjölgar sem aldrei fyrr og þeir lofa svosem öllu fögru, ekki vantar það. Gott ef þeir sem ópólitískastir eru kjósi ekki bara Sjálfstæðisflokkinn eins og vanalega. Sennilega er stærð hans ásamt fornri frægð og bitlingum hans sterkustu vopn. Allir sem láta í sér heyra virðast a.m.k. vera á móti honum. Það finnst mér a.m.k. Engum finnst taka því að rísa upp á afturlappirnar og tilkynna að þeir séu hættir við að kjósa Humanistaflokkinn. Eiginlega leiðist mér allt þetta kosningastúss, en þó er það í aðra röndina svolítið spennandi. Vitanlega hafa úrslitin einhver áhrif á líf manns, en mér finnst þau áhrif vera stórlega ofmetin. Þetta fer allt einhvern vegin. Eins og maðurinn sagði.

Væntanlegar kosningar tröllríða öllu. Stundum dettur mér í hug að blaða og fréttamenn séu þeir einu sem virkilega njóta þess að hafa kosningar sem oftast. Fréttirnar skrifa sig nefnilega næstum því sjálfar og vel má endurnýta kosningaefni því það les þetta hvort eð er ekki nokkur maður. Annars er á það að líta að sjálfskipuðum blaðamönnum hefur fjölgað gríðarlega að undanförnu og bera félagslegu miðlarnir þess glöggt vitni að margir vilja tilheyra þeim flokki. Einkennilegt er að fáir skuli hafa veitt því athygli að með því að vera á móti sem flestu fást flest atkvæðin. Þessu hafa stærstu flokkarnir þó gert sér grein fyrir og vera má að hin neikvæðu loforðin verði ofan á að loknum þessum kosningum. Læt ég svo lokið þessu kosningaspjalli mínu.

Annars er það helst í erlendum fréttum þessa dagana að Kínverjar kunna að vera í þann veginn að snúast gegn Norður-Kóreumönnum. Líklega eru þeir orðnir hundleiðir á látunum í litla stráknum. Svo eru réttarhöld nýhafin í Malasíu útaf morði á hálfbróður einræðisherrans og meðal annars hefur hvað eftir annað þurft að fresta knattspyrnuleik í undankeppni heimsmeistaramótsins milli þessara þjóða því samband þeirra, sem var sæmilegt áður, hefur versnað mikið að undanförnu.

Man vel eftir réttarhöldunum yfir O.J Simpson á sínum tíma. Þau voru efst á baugi í fréttum í langan tíma. Þar var hann sýknaður, en lenti samt í fangelsi seinna meir og svo mikið leynist enn í honum af fornri frægð að nauðsynlegt þótti um daginn að láta hann lausan úr því fangelsi leynilega um nótt, eftir að fangelsisyfirvöld höfðu logið til um lausn hans.

Lítil sem engin hætta er á að Tromparinn reyni að hrófla við frú Clinton, nema þá í orðum. Alls ekki mun hann þora að ákæra hana eins og hann hafði hátt um í kosningabaráttunni. Á allan hátt er greinilegt að Donald þessi Trump sem sagt er að hafi sigrað í forsetakosningunum í Bandaríkjunum síðastliðið haust er langmestur í munninum. Stendur sjaldan við stóru orðin. Orðhákur er hann mikill eins og berlega kom fram í hinni langdregnu og leiðinlegu kosningabaráttu.

IMG 0928Einhver mynd


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband