2660 - Delerað um allan fjandann

Þegar líður að kosningum verður sífellt erfiðara að komast hjá því að leiða hugann að þeim. Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn svona stór? Vinsælt er hjá andstæðingum hans að setja það í samband við gáfnafar stuðningsmannanna. Það held ég að sé alls ekki rétt og að samskonar spurningum sé vel hægt að velta fyrir sér í sambandi við Vinstri Græna og jafnvel fleiri. A.m.k. núna. Málefnin skipta ekki sköpum hjá öllum. Þó er hægt að gera ráð fyrir að þau hafi mismunandi áhrif á allskyns hópa. Stærð hópanna skiptir þá miklu máli. Vaninn gerir það líka. A.m.k. hjá þeim sem eldri eru.

Upphaflega spurningin hjá mér var sú að ég vildi vita af hverju Sjálfstæðisflokkurinn væri svona stór. Svar mitt við þeirri spurningu er á þá leið að þrátt fyrir allt og vegna vanans held ég að kjósendur hans álíti að flokkurinn sé skárri en flestir aðrir og þessvegna sé rétt að halda áfram að kjósa hann. Þetta held ég að sé stærsta ástæðan fyrir þessum ósköpum. Þar að auki er allra hluta vegna betra að vera í sigurliðinu og skv. skoðanakönnunum verður sá flokkur stærstur á þingi og heldur kannski völdum sínum.

Kannski verða breytingarnar alls ekki svo miklar í komandi kosningum. Litlu flokkarnir eiga samkvæmt skoðanakönnunum í verulegum erfiðleikum og ástæðan fyrir því að Björt Framtíð þurrkast sennilega út núna er líklega sú að kjósendur hennar hafa mögulega haldið að þeir væru að kjósa til vinstri í síðustu kosningum og eru núna að leiðrétta það.

Hvernig finnst ykkur alskeggið á David Letterman? Einu sinni var hann ofboðslega frægur. En ekki lengur. Fyndinn var hann og hafði sérstakan þátt í amríska sjónvarpinu á hverju kvöldi. Eitthvað yfir sex þúsund þáttum stjórnaði hann í það heila. Held að hann hafi tekið við af einhverjum sem var með daglegan þátt og farið framúr honum fyrir rest. Sennilega byrjaði hann ekki að safna skeggi fyrr en hann var hættur sem þáttarstjórnandi.

„Sjaldan lýgur almannarómur“, var einu sinni sagt og gott ef það þótti ekki nokkur sannleikur fólginn í því. Nú á tímum fésbókarinnar og við sífellda fækkun leyndarmála, er alls ekki víst að þetta eigi við í sama mæli og áður. A.m.k. vilja stjórnmálamenn eflaust alls ekki fallast á þetta. Þar eru líka hagsmunirnir greinilegir. Þegar blandast saman peningar og þessi svokallaði almannarómur, getur orðið til banvæn blanda sem mönnum eins og mér finnst hagstæðast að hafa sem minnst áhrif á og afskipti af. Tala nú ekki um ef pólitík blandast í allt saman.

„Svona eiga sýslumenn að vera“, var líka einu sinni sagt. Sennilega átti það að vera jákvætt en samt er ekki víst að það eigi við í dag. Mér finnst þessir sýslumenn yfirleitt vera til óþurftar þó einu sinni hafi þeir ásamt prestum verið þeir fulltrúar ríkisvaldsins sem flestir báru óttablandna virðinu fyrir. Ef þeir eru ekki að úthluta 53 milljónum krónum til misyndismanna sem helst vilja svindla sem mest á opinberum aðilum (semsagt okkur) eða seta lögbönn hist og her þá eru þeir að gefa undirmönnum sínum ordrur um að falsa gerninga sem þeir eiga að passa. Þetta segi ég afþví ég er nýbúinn að fá endurnýjað ökuskírteini hjá sýslumanninum hér á Akranesi og ekki getur hann tekið það til baka. Þessvegna er mér nefnilega óhætt að tala illa um þá.

Skelfing les ég vitlaust stundum. Mér sýndist ég sjá einhversstaðar í dagblaðsfyrirsögn að SA gagnrýndi harðlega sólkerfið. SA stendur væntanlega fyrir samtök atvinnulífsins og vafalaust eru þau ekki að gagnrýna sólkerfið heldur líklega eitthvað annað kerfi. T.d. skólakerfið.

IMG 0716Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ertu að gefa í skyn að Sýsli hafi falsað ökuskírteinið þitt Sæmundur?

Þorsteinn Siglaugsson, 27.10.2017 kl. 19:43

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, allsekki. Hinsvegar falsaði sýslumannsembættið á Selfossi skjöl sem ég hef mikið skrifað um, þó langt sé um liðið. Þetta heitir Ásgautsstaðamálið og ég get frætt þig um það ef áhugi er fyrir hendi. Hann var ekki hjá þeim sem átti að sjá um þetta. Saksóknari vildi ekki sinna þessu. Þó var það kært og ekkert fundið að ákærunni. Auðvelt er að sanna þetta.

Sæmundur Bjarnason, 27.10.2017 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband