Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016
30.7.2016 | 22:08
2499 - Verslunarmannahelgin
Hverjir græða á útihátíðum? Nú, auðvitað þeir sem halda þær. Litlu máli skiptir hvort lögreglan stígur dansinn með fjölmiðlunum eða ekki. Þeir sem halda hátíðina og örva menn sem mest þeir mega til áfengisneyslu hljóta að bera einhverja ábyrgð á þeim nauðgunum og öðrum afbrotum sem framin eru. Þetta á ekkert síður við um þjóðhátíðina svokölluðu í Vestmannaeyjum um verslunarmannhelgina en aðrar útisamkomur. Í orði kveðnu eru allir á móti ofbeldi, en samt sem áður eiga sem allra flestir að vera vel fullir því þá eyða þeir mestu.
Undarlegt er að hlusta á fréttir þessa dagana. Allir fordæma sjúkrahúsið sem einhverjir Hollendingar hugsuðu sér að reisa í Mosfellsbæ. Fáir virðast gera sér grein fyrir að sennilega er ekkert að marka þetta. Sá sem gerði einhverskonar samning við bæjarstjórann þar fór sennilega illa með pappír, en vafasamt er að hann hafi gert nokkuð annað af sér. Engin ástæða er til að ætla að einhverntíma rísi sjúkrahús þarna.
Veðrið er óvenju gott núna. Venjulega er það allsekki svona gott um verslunarmannahelgina. Lítið er um að vera hérna á Akranesi eins og sennilega víðast hvar í þéttbýli á landinu. Allir vilja fara í ferðalög um þessa helgi og skemmta sér sem mest. Skemmtunin er kannski svolítið grá og blaut hjá sumum, en um það þýðir ekki að fást. Dagskipunin er að skemmta sér sem mest. Helst undir drep. Já, ég er kominn á þann aldur að mér finnst skipulagðar útiskemmtanir ekki spennandi. Vel má þó sleikja sólskinið þar ekki síður en annars staðar. Gróðri hefur víðast hvar farið stórlega fram. Tré og runnar eru út um allt þó sauðkindin hafi með nagdýrshætti sínum tafið þá framrás eftir mætti.
Ekki er hægt að segja svo skilið við verslunarmannhelgina að ekki sé minnst á umferðina. Viðvarnir lögreglu og annarra eru hvað fastasti liðurinn í verslunarmannafuglabjarginu. Fréttir í sjónvarpi og útvarpi snúast að mestu um það hve mörgum hafi verið nauðgað á tilteknum útihátíðum, hve mikið af fíkniefnum hafi verið gert upptækt og hvernig umferðin hafi gengið. Alltaf sami söngurinn. Ekki einu sinni með tilbrigðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2016 | 11:03
2498 - Jónas og fleiri
Aðalgallinn við Jónas besserwisser er að hann er alltaf svo neikvæður. Allt er að fara í hund og kött hjá honum. Svo eru þessar blogg-greinar hjá honum eingöngu framhald af hinni hundleiðinlegu pólitísku orðræðu sem ég ímynda mér að sé alla að drepa. Auðvitað er hann samt manna best til þess fallinn að kommenta á þessar fréttir. Ég veit bara að hann býr yfir svo mörgu öðru að mér finnst hann ætti að hætta þessari sífelldu neikvæðni. Að sjálfsögðu er heimurinn samt ekkert sérlega skemmtilegur en hann ætti að prófa að segja frá einhverju öðru í þessum stuttu greinum sínum.
Ómar Ragnarsson, sá fjölfróði skemmtikraftur, fjölmiðlamaður og altmuligmand bloggar manna mest og hefur frá mörgu að segja. Hann er samt sá óskeikuli besserwisser sem oft fælir aðra samskonar frá sér, en heillar marga uppúr skónum. Oft þarf hann að leiðrétta og bæta við fréttir hjá viðurkenndum fjölmiðlum.
Jens Guð er afburða bloggari og flækist víða um Internetið, safnar skrítnum og eftirminnilegum sögum. Semur þær jafnvel sjálfur ef svo ber undir.
Í þeim aldursflokki sem ég tilheyri eru ekki margir aðrir sem ég fylgist reglulega með. Sumt sem þessir úrvalsbloggarar skrifa fer samt framhjá mér, en ég reyni þó að heimsækja bloggin þeirra öðru hvoru.
Og sumir, t.d. ég, eru sífellt að flækjast á fésbókinni, án þess að hafa náð almennilegum tökum á henni. Eiginlega væri gamalmennum eins og mér heppilegast að halda sig við bloggið. Fésbókin er þó að verða skelfilega gamaldags. Er virkilega ekki neitt nýrra að taka við?
Stundum uppgötva ég skyndilega að ég hef ekki séð, eða brugðist við á eðlilegan hátt, sumum tilkynningum sem mér hafa borist á fésbókinni. Eiginlega er það miklum tilviljunum háð hvort og þá hvernig maður bregst við ýmsu því sem þar kemur fyrir. Ein tilkynning leiðir kannski til þess að maður fer að gera eitthvað annað og gleymir að þær voru fleiri. Litaskiptin á milli þeirra tilkynninga sem maður hefur lesið og skoðað og hinna eru nefnilega ekki nógu greinileg. Oft eru sjálfgefnu og upprunalegu stillingarnar þær bestu. Kannski er hægt að stilla þetta betur einhvers staðar, en ég forðast allt slíkt eins og heitan eldinn. Sennilega er þetta með viðbrögðin, sem ég sagði frá í upphafi þessarar málsgreinar, svipað hjá öðrum. Mér finnst þetta aftur á móti hálfleiðinlegt því ég er með þeim ósköpum gerður að vilja endilega hafa allt í röð og reglu. Sennilega er allsekki svo, frá öðrum séð, en ég vil geta séð systemið í öllu.
Munurinn á því sem kallað er lífeyristrygging og lífeyrissjóðirnir standa fyrir og því sem kallað hefur verið séreignarsparnaður er sá, að það sem lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja okkur er fólgið í samtryggingu. Þannig að það er sama hve gömul við verðum, okkur er tryggður lífeyrir út lífið. Auðvitað getur hann í mörgum tilfellum verið lægri en séreignarsparnaðurinn sem aðeins er ákveðin upphæð, sem hækkar eða lækkar í samræmi við ástandið á markaðnum. Þegar sú upphæð er hinsvegar uppurin mega þeir sem aðeins hafa slíkar tekjur lifa á því sem úti frýs. Auðvitað er þetta bara minn skilningur á flóknu fyrirbæri og kannski ekki í samræmi við skilning annarra. Íslenskt þjóðfélag hefur samt vel efni á því að allir komist bærilega af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2016 | 20:19
2497 - Hillary og Donald
Flestir þurfa á útiveru að halda. Hún er holl og nauðsynleg. Sumir þurfa einhverja afsökun fyrir því að fara út. Golfið er vinsælt. Veiðimennskan einnig. Og nú á allra síðustu tímum Pókemon Go. Gaman er stundum að hlusta á golfara og veiðimenn lýsa því fjálglega yfir að það skemmtilegasta við veiðimennskuna eða golfhringina sé útiveran og náttúran. Hversvegna ekki að láta þessar afsakanir eiga sig. Það er alveg nóg að elska náttúruna og það er miklu heilbrigðara að láta dýr merkurinnar og litlar hvítar kúlur eiga sig alveg við að njóta samvista við hana. Aðalspurningin er sú hvort gera eigi það í einrúmi eða með öðrum.
Hingað til hef ég ekki sett mannsnafnið Örnólfur í samband við það að ganga örna sinna. Kannski er það samt ekki alveg fráleitt eftir að skilti sem banna losun hægða á ákveðnum stöðum fóru að láta á sér kræla. Einhvern vegin get ég ekki hugsað mér að ganga örna minn úti á víðavangi en auðvitað er svo margt sinnið sem skinnið í þessu efni eins og öðrum. Alltaf finnst mér samt svolítið óviðkunnanlegt að sjá myndir af löngum biðröðum við almenningsklósett.
Eiginlega er ég alveg sammála Donald Trump um það að ansi margt er að fara í hundana í Bandarikjunum. Ég er þó ekki sammála honum um það, að hann sé rétti maðurinn til að lagfæra það. Satt að segja er ég sannfærður um að ástandið muni versna mikið þar, ef hann verður forseti. Það er samt hugsanlegt að hann sigri Hillary Clinton því hún er fremur óvinsæl hjá ýmsum hópum þar. Og þá á ég auðvitað ekki við stjórnmálamenn úr repúblikanaflokknum sem flestir hata hana eins og þeim ber. Að sumu leyti er hún ekki sérlega vel til þess fallin að verða fyrsti kvenkyns forsetinn í Bandaríkjunum, en hún er samt mun skárri en Trump. Nú hafa þau bæði hlotið útnefningu flokka sinna og annaðhvort verður það Hillary Clinton eða Donald Trump sem verður næsti forseti Bandaríkjanna. Ég hef gaman af að spá, þó sjaldan sé að marka þá spádóma. Mín spá er sú að Hillary taki áberandi forskot í skoðanakönnunum nú á næstunni og ef henni tekst að halda því muni hún sigra Trump með yfirburðum. Ef ekki, er alveg hægt að búast við að Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna. Vonandi að þá verði hann betri forseti en margir virðast búast við núna.
Allir geta tekið myndir. Og flestir gera það nú orðið svikalaust. En geta allir skrifað skammlausan texta? Sennilega er svo. En í vaxandi mæli eru menn að hasast upp á því. Af hverju skyldi það vera? Jú, það er svo auðvelt að taka myndir og jafnvel videómyndir. Græjurnar sem til þess þarf eru sífellt að verða ódýrari og ódýrari. Auðvitað eru það framfarir. Lestur og skrift eru samt þeir undirstöðuþættir sem ekkert getur komið í staðinn fyrir. Skilningur á því virðist á undanhaldi hjá börnum nútímans. Samt er engin ástæða til að æðrast. Unga fólkið í dag er mun hraustara og hæfileikaríkara en áður var. Sumum þeirra gengur samt erfiðlega að ná tökum á undirstöðunni. Skólarnir sem sífellt eru að batna eru samt ekki eins góðir og þeir gætu verið. Þetta finnst mörgu eldra fólki og fullorðnu og kannski er það með réttu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2016 | 08:01
2496 - Pókemon Go
Pókemon Go er sagt vera upplagður leikur fyrir sófakartöflur. Neyðir þær jafnvel til að fara út undir bert loft. Hugsa sér. Jafnvel halda sumir því fram að hann sé betri og ódýrari en golf sem margir anti-golfarar segja aðeins vera afsökun eða tilgang til langra gönguferða. Iðkendur Pókemon Go þurfa þó að eiga snjallsíma, hefur mér skilist, til að geta tekið þátt í leiknum. Margir eiga slíka síma hvort eð er, svo enginn aukakostnaður fylgir þáttöku þar. Keppnisandi verður að vera eitthver í leiknum til að hann haldi vinsældum sínum. Kannski er hann til staðar, en ég hef því miður ekki skilið leikinn til fulls ennþá. Hvað þá tekið þátt í honum.
Hingað til hefur þjóðkirkjan verið ákaflega þögul um flóttamannavandamálið. Eiginlega hefur hún bara fylgt stjórnvöldum eins og hún hefur löngum gert. Hægri elítan sem stjórnar landinu um þessar mundir hefur átt sér öflugan bandamann í þjóðkirkjunni. Ekki eru allir prestar ánægðir með þetta og jafnvel ekki biskupinn sjálfur. Já, ég veit ósköp vel að vinstri og hægri í stjórnmálum er að mörgu leyti úrelt þing. Samt sem áður má gera ráð fyrir að samkvæmt skilgreiningu margra séu sumir prestar talsvert vinstri sinnaðir og hafa lengi verið. Biskupinn er þó erfitt að skilja og kannski hafa þeir prestar, sem stóðu fyrir uppákomunni í Laugarneskirkju á dögunum, gert honum mikinn óleik.
Tekjur fyrirtækja sem fást við ferðamennsku hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum. Ekki er samt hægt að ætlast til að þau bæti aðstöðu við fjölmenna og vinsæla ferðamannastaði nema óbeint. Ekki veit ég gjörla hvernig skattheimtu á þessi fyrirtæki er háttað, en augljóst virðist að réttlátara sé að auka hana á þau fremur en almenning. Verðlag allt er hátt, bæði fyrir ferðamenn og aðra, en varasamt er að spenna bogann of hátt í því efni. Við Íslendingar erum óvanir ferðamönnum í miklum mæli en áreiðanlega má auka ferðamannastrauminn frá því sem nú er, ef skipulag allt er sæmilega gott.
Andskotinn hafi það að jafnaðarvællinn í mér er mig sjálfan lifandi að drepa. Mikið vildi ég að ég væri dálítið umdeildur eins og sagt er. Það er ekki nóg að segjast vera guðlaus og vera þar að auki á móti sjálfstæðisflokknum. Það gerir engan umdeildan. Aldrei, eða a.m.k. mjög sjaldan fæ ég hótunarbréf. Einhverjir lesa samt þennan jafnaðarvæl og fyrir það er ég auðvitað þakklátur, en stundum verður mér hugsað til þess að þeir mættu gjarnan vera fleiri. Ég hef nefnilega svo fjári gaman af að skrifa. Kannski væri það tóm bölvun að lesendum fjölgaði mikið, því þá mundi ég kannski skrifa ennþá oftar og útþynntari fjanda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2016 | 22:41
2495 - Íslandsmet og fleira
Frá því var sagt nýlega að Íslandsmetið í 100 metra hlaupi hafi verið slegið og sá sem það gerði hafi hlaupið vegalengdina á 10,52 sekúndum. Ég man svo langt að Hilmar Þorbjörnsson lögreglumaður, sem ferðaðist til Ástralíu ásamt Vilhjálmi Einarssyni árið 1956 á Ólympíuleikana sem þá voru haldnir þar, hljóp eitt sinn 100 metrana á 10,3 sekúndum. Að vísu var þar um handtímatöku að ræða og ekki tekið tillit til tíma þess sem hljóðið frá byssu ræsisins var að ferðast að endamarkinu. Vel getur verið að rafmagnstímataka sé nákvæmari og rétt sé að 10,52 sekúndur sé nýtt Íslandsmet. Til grundvallar því hljóta að vera til rannsóknir. Mér þótti bara rétt að minnast á þetta.
Sömuleiðis var frá því sagt í fréttum nýlega án athugasemda að boltinn sem notaður var í frægum sigri Íslendinga á Englendinum á nýafstöðnu Evrópumeistaramóti í knattspyrnu muni verða í framtíðinni til sýnis á þjóðminjasafninu. Allflestir vita þó að nútildags eru notaðir margir boltar í hverjum leik. Áður var það ekki svo og oft fengu þátttakendur í leiknum smáfrí ef boltanum var sparkað nógu langt í burtu. Hér á Akranesi hef ég fyrir satt að boltinn hafi stundum farið útá sjó.
Ekki er ég viss um að hryðjuverkum og allskyns hermdarverkum hafi farið fjölgandi síðustu mánuði þó svo sé að skilja á fjölmiðlum flestum. Minni fjölmiðlamanna nær oft skammt. Ekki þar fyrir að hryðjuverk þau sem framin hafa verið að undanförnu eru að sjálfsögðu fordæmanleg og munurinn á þeim og morðárásum á saklausa borgara á átaka- eða stríðssvæðum er oftast sá að þau koma algjörlega á óvart og eru framin af morðóðum vesalingum en ekki hermönnum. Stríðsaðgerðir eru þó í sjálfu sér ekkert réttlætanlegri en hermdarverk þó miklu erfiðara sé oftast að koma í veg fyrir þær.
Stutt blogg eru oftast áhrifameiri en löng. Sú er að minnsta kosti mín skoðun sem kannski stafar af því að ég nenni ekki að hafa bloggin löng. Legg meira uppúr því að hafa þau mörg. Sennilega er ég sá eini sem ævinlega númera bloggin mín. Það hef ég gert allt frá því að ég byrjaði hér á Moggablogginu. Guðirnir sem hér um slóðir stjórna öllu halda því fram að það hafi verið í lok ársins 2006. Vel getur það verðið rétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2016 | 09:34
2494 - Hugleiðingar um hitt og þetta
Ásdís einhver Ólafsdóttir skrifaði nýlega grein í Kjarnann og ekki var á greininni að skilja annað en allir sem ekki væru nákvæmlega á sömu skoðun og hún um ímynduð kirkjugrið í Laugarneskirkju og sumt annað hlytu bara að vera bölvaðir rasistar. Man ekki hvað hún kallaði greinina, en eitthvað var það um rasisma eða kynþáttahyggju. Ekki er ég viss um að allir and-rasistar séu henni sammála um þetta. Annars nenni ég ekki að vera að skattyrðast við þessa konu sem ég veit svosem engin deili á.
Er ekki helgasta hlutverk stjórnmálamanna að tryggja sem jöfnust lífskjör? Það hefði ég haldið. Samt sem áður er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn tekur meðvitaða afstöðu með þeim sem vilja auka ójöfnuð í landinu. Falleg nöfn er reynt að finna á þessa stefnu, ekki vantar það. Oft er til dæmis talað um hjól atvinnulífsins og að þau verði að snúast á hæfilegur hraða svo hægt sé að standa undir velferðinni. Samt hefur mörgum öðrum þjóðum tekist að auka jöfnuð án þess að hægja að nokkru ráði á hjólum atvinnulífsins.
Oft er líka talað um lækkun skatta þegar byrðar þeirra sem lökust hafa kjörin eru auknar. Vissulega getur verið í sumum tilfellum um að ræða lækkaða skatta á þá sem mestar hafa tekjurnar fyrir. Varla eykur það jöfnuð í þjóðfélaginu. Stundum virðist jafnvel sem hugsunin sé sú að þeir sem ekki kunna á kerfið geti bara étið það sem úti frýs.
Annars er það ekki þjóðfélagsgagnrýni og pólitík, sem ég hef mestan áhuga fyrir. Allt sem skrifað er um bækur og hvers konar fjölmiðlun hvort sem það er að finna í fjölmiðlum eða annars staðar eru mínar ær og kýr. Verst er að með aldrinum hef ég tapað verulega lestrarhraða og auk þess er framboð af slíku alltaf að aukast. Höfundarréttarmál voru mér eitt sinn mjög hugleikin, en nú eru aðrir teknir við.
Ég er þó svosem sískrifandi þó mér gangi misjafnlega að koma því frá mér. Stundum hreinlega gleymi ég því sem ég hafði þó skrifað. T.d. er það sem hér á undan fer skrifað fyrir nokkrum dögum, en núna sé ég að það er nokkuð langt síðan ég hef sett eitthvert efni á bloggið mitt. Kannski ég setji bara þetta og bæti engu við. Það er hvort eð er sífellt að styttast það sem ég skrifa, en einhverjir lesa þetta samt.
Hugsanlega er ég ekki nógu sjálfmiðaður í þessum bloggskrifum mínum og þykist alltaf vera með heimspólitíkina á oddinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2016 | 11:52
2493 - Um trúmál o.fl.
Eitthvert blað, sennilega í henni Ameríku, hélt því fram nýlega að Donald Trump hafi sagt að múslimar hafi drepið Jesú. Satt að segja er mér alveg drullusama eins og krakkarnir segja. En ég geri mér grein fyrir því að svo er því allsekki farið með alla.
Allt frá því að ég las á sínum tíma Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson, sem líklega hefur verið á táningsárum mínum eða fyrr, hef ég haft megnustu andúð á hvers kyns trúmálaþvargi og er sannfærður um að það leiði yfirleitt ekki til neins. Niðurstöðu er engin leið að fá og hver étur venjulega úr sínum poka.
Þegar ég var í fermingarundirbúningi man ég að séra Helgi Sveinsson fór með okkur í Kotstrandarkirkju eitt sinn til æfinga. Ég hef alltaf verið fyrir útúrsnúninga og orðhengilshátt og þegar séra Helgi, sá geðprýðismaður, spurði okkur hvað orðið kirkja merkti en á því gætu verið fleiri en ein merking, sagði ég í mesta sakleysi að auðvitað gæti verið um sagnorðið að ræða. Séranum mislíkaði þetta svar mitt mjög og hótaði að reka mig út. Svo fór þó ekki en auðvitað veit ég núna um þessa merkingu sem hann var að fiska eftir.
Erfitt er ennþá að sleppa því alveg að tala um fótbolta enda held ég að úrslitaleikurinn í Evrópukeppninni fari fram í dag. Var áðan að lesa (mig minnir á BBC-vefnum) grein eftir sérfræðing í boltasparki, sem hefur lengi fylgst af áhuga með öllum meiriháttar knattspyrnumótum, að leikirnir milli Wales og Belgíu annarsvegar og hinsvegar milli Íslands og Englands séu tvímælalaust eftirminnilegustu leikirnir frá þessu Evrópumóti. Auðvitað er hann ekki óhlutdrægur en ég hugsa að hann hafi talsvert vit á þessu. Hann sagði einnig að Frakkarnir væru með besta liðið og breytingin úr 16 liða keppni í 24 liða hafi mistekist en verði samt líklega ekki hætt úr þessu.
Kannski skýrast línur eitthvað í íslenskri stjórnmálastarfsemi á komandi sumarþingi. Þó held ég að svo verði ekki. Kosningar, hvort sem þær verða í haust eða næsta vor, gætu orðið sögulegar en verða það sennilega ekki. Til þess eru tök fjórflokksins og stuðningsmanna hans of mikil í íslensku þjóðlífi.
Breytingar á hugsunarhætti fólks eru samt sem áður ákaflega gagntækar frá því á árunum fyrst eftir styrjöldina miklu. Nú þegar minningin um þær hörmungar sem þá áttu sér stað er svolítið farin að dofna er ástæða til að gjalda varhug við þjóðrembu hverskonar og innilokunaráráttu. Satt að segja örlar nokkuð á skaðlegum áhrifum slíkra hugsana í stjórnmálum dagsins bæði hérlendis og erlendis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2016 | 09:31
2492 - Ekkert (eða lítið) um fótbolta
Alveg er útilokað fyrir okkur ellilífeyrisþegana að láta okkur detta í hug að fara í Bláa Lónið. Það virðist ekki vera nema fyrir forríka ferðamenn að fara þangað. Sömuleiðis svíður okkur mjög að horfa á fulla ruslagáma af ágætis ávöxtum og allskyns matvöru. Aldrei förum við í bíó eða neitt þessháttar og af því við erum tvö, þurfum ekki á neinni læknishjálp að ráði að halda og eigum þar að auki sæmilega íbúðareign sem ekki kallar á brjálæðislegar afborganir af lánum skrimtum við á þeirri hungurlús sem lífeyrissjóðir, ríkissjóður og aðrir sjóðir henda í okkur mánaðarlega.
En ekkert má klikka. Utanlandsferðir til Parísar og annan lúxus þurfum við ekki að hugsa um. Að eiga fyrir útförinni var eitt sinn aðalmarkmið pöpulsins. Kannski er sá tími að koma aftur. Einu sinni var mikið talað um svindl og svínarí í sambandi útfarir. Kannski er það svo enn.
Svo spilum við ekki fótbolta og höfum jafnvel ekki mikinn áhuga á honum. En börnum okkar barnabörnunum og afkomendum þeirra höfum við áhuga á og kannski spila þau fótbolta. Þá er eins gott fyrir okkur að hafa smá áhuga á honum eins og aðrir Íslendingar.
Sjálfsmorðsprengingar virðast vera að komast í tísku sem einskonar baráttuaðferð í stríði. Ímynduðu eða raunverulegu. Yndi hverskyns hryðjuverkamanna virðist vera að sprengja sig í loft upp en helst að komast í einhvern mannfjölda fyrst. Þessar sprengingar koma oft meira á óvart en loftárásir á almenna borgara. Líkjast þeim samt að mörgu leyti. Einu sinni voru flugrán í tísku, en nú dugir ekkert minna en að granda flugvélum. Helst þurfa þær náttúrulega að vera smekkfullar. Eru þær það kannski oftast nær? Aðgerðir af þessu tagi ættu að vera fremur auðveldar, en sem betur fer virðist svo ekki vera.
Af hverju kjósa svona margir íhaldið? Skil það ekki. Augljóst er fyrir mér að sérgæskan er hvergi meiri. Eiginlega held ég að allir hljóti að sjá það, sem á annað borð hugsa um stjórnmál. En af hverju skyldi þetta vera? Trúa þessir aumingjar ennþá á brauðmolakenninguna? Kannski halda þeir að þeir tilheyri fína fólkinu. Kannski halda þeir og trúa innst inni að þeir mundu sjálfir fela auðæfi sín á Tortóla ef þeir ættu einhver. Er þetta þá bara einskonar æfing í hráskinnaleik? Eru þeir í alvöru mestir sem tekst að traðka á sem flestum? Vitanlega er ekkert skrítið við það að þeir sem álíta sig fremri öðrum rotti sig saman á þennan hátt. En er einhver dulinn kostur við að eiga peninga umfram þarfir?
Allmargir stjórnarþingmenn virðast ætla að hætta á þingi og er það vel. Hefði þó viljað sjá Gulla Þórðar hætta líka svo og Steingrím Jóhann. Að vísu er hann úr Vinstri grænum en hann er eiginlega búinn að vera alltof lengi á þingi.
Í Bandaríkjunum trúa fáir að lögregluofbeldi sé til staðar, nema það sé sent út beint eða að minnsta kosti til góðar myndir af því. Myndir þær sem lögreglan tekur duga ekki, því þær verstu eru aldrei sýndar. Svipað virðist vera uppá teningnum hér á landi. Ef myndir birtast af lögregluofbeldi verður allt vitlaust, en bara í takmarkaðan tíma. Svo snúa menn sér að öðru. Fjölmiðlar hafa vissulega áhrif á þetta. Ýmist gera þeir hlut lögreglunnar betri eða verri en efni standa til. Hlutlaus frásögn fyrirfinnst varla hér á landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)