2495 - Íslandsmet og fleira

Frá því var sagt nýlega að Íslandsmetið í 100 metra hlaupi hafi verið slegið og sá sem það gerði hafi hlaupið vegalengdina á 10,52 sekúndum. Ég man svo langt að Hilmar Þorbjörnsson lögreglumaður, sem ferðaðist til Ástralíu ásamt Vilhjálmi Einarssyni árið 1956 á Ólympíuleikana sem þá voru haldnir þar, hljóp eitt sinn 100 metrana á 10,3 sekúndum. Að vísu var þar um handtímatöku að ræða og ekki tekið tillit til tíma þess sem hljóðið frá byssu ræsisins var að ferðast að endamarkinu. Vel getur verið að rafmagnstímataka sé nákvæmari og rétt sé að 10,52 sekúndur sé nýtt Íslandsmet. Til grundvallar því hljóta að vera til rannsóknir. Mér þótti bara rétt að minnast á þetta.

Sömuleiðis var frá því sagt í fréttum nýlega án athugasemda að boltinn sem notaður var í frægum sigri Íslendinga á Englendinum á nýafstöðnu Evrópumeistaramóti í knattspyrnu muni verða í framtíðinni til sýnis á þjóðminjasafninu. Allflestir vita þó að nútildags eru notaðir margir boltar í hverjum leik. Áður var það ekki svo og oft fengu þátttakendur í leiknum smáfrí ef boltanum var sparkað nógu langt í burtu. Hér á Akranesi hef ég fyrir satt að boltinn hafi stundum farið útá sjó.

Ekki er ég viss um að hryðjuverkum og allskyns hermdarverkum hafi farið fjölgandi síðustu mánuði þó svo sé að skilja á fjölmiðlum flestum. Minni fjölmiðlamanna nær oft skammt. Ekki þar fyrir að hryðjuverk þau sem framin hafa verið að undanförnu eru að sjálfsögðu fordæmanleg og munurinn á þeim og morðárásum á saklausa borgara á átaka- eða stríðssvæðum er oftast sá að þau koma algjörlega á óvart og eru framin af morðóðum vesalingum en ekki hermönnum. Stríðsaðgerðir eru þó í sjálfu sér ekkert réttlætanlegri en hermdarverk þó miklu erfiðara sé oftast að koma í veg fyrir þær.

Stutt blogg eru oftast áhrifameiri en löng. Sú er að minnsta kosti mín skoðun sem kannski stafar af því að ég nenni ekki að hafa bloggin löng. Legg meira uppúr því að hafa þau mörg. Sennilega er ég sá eini sem ævinlega númera bloggin mín. Það hef ég gert allt frá því að ég byrjaði hér á Moggablogginu. Guðirnir sem hér um slóðir stjórna öllu halda því fram að það hafi verið í lok ársins 2006. Vel getur það verðið rétt.

IMG 0138Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sæll. Bæði í bloggpistli í kvöld og í íþróttafréttum Sjónvarpsins rakti ég það að tími Hilmars samsvaraði 10,54 sek á rafrænni tímatöku, svo að Ari Bragi Kárason var í raun að slá 59 ára gamalt Íslandsmet.

Ég sá hann meira að segja setja þetta elsta frjálsíþróttamet Íslands á sínum tima.

Ómar Ragnarsson, 19.7.2016 kl. 22:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ómar. Ég var bara að hugsa um hvernig komist væri að þeirri niðurstöðu að 10,3 samsvöruðu 10,54. Var þá Íslandsmetið hja tugþrautarkappanum (sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir - svona er ellin) ekki raunverulegt Íslandsmet?

Sæmundur Bjarnason, 20.7.2016 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband