Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
31.5.2016 | 10:20
2475 - Bingi
Öfgahægrið og fjölmenningarþjóðfélagið eru jarðsprengjusvæði þegar rætt er um þjóðfélagsmál. Kommúnismi og ómengaður kapítalismi eru það líka. Yfirleitt má helst ekki tala um svona lagað. Sanntrúaðir gera það helst ekki. Ef rætt er um grundvallaratriði er oft stutt í umræður um trúarbrögð, múslima og jafnvel Hitler og Gyðinga.
Þegar öfgaflokkar, sem vinstri menn kalla svo, eru um það bil að ná umtalsverðum völdum í þjóðríkjum á borð við Austurríki og Frakkland, er varla rétt að tala um öfgaflokka. Eru það öfgafullar skoðanir sem hugsanlegur meirihluti hefur? Hver á eiginlega að úrskurða um slíkt?
Sumum finnst allt öfgafullt sem frá Bandaríkjunum kemur. Er hægt að segja að Tromparinn sé öfgafullur eftir að hann er kominn í framboð? Hitler náði völdum í Þýskalandi. Hvernig fór hann að því? Vinsælasta skýringin á því nútildags er að kollegar hans hafi vanmetið hann. Eru ekki allir í raun sammála því að ríki heims eigi að vera mismunandi? Á sá mismunur ekki að ná til auðæfa? Eru ekki allir á móti stríðum? Hvers vegna eru þau þá svona algeng?
Ekki vill Björn Ingi Hrafnsson, sem stundum er kallaður Bingi, gefa upp hvernig hann eignaðist nógu mikla peninga til að kaupa næstum alla fjölmiðla sem til sölu eru. Geri samt ekki ráð fyrir að hann verði nokkurntíma nógu ríkur til að kaupa RUV eða 365. Ekki vill Donald Trump heldur sýna skattframtal sitt þó hann gumi mjög af ríkidæmi sínu.
Mikið er óskapast útaf því að Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson fái sér að borða á dýrum veitingahúsum og fljúgi um á þyrlum. Auðvitað viðurkenni ég að dómarnir yfir þeim hafi verið réttlátir og sanngjarnir, en samt hljóta þeir að eiga sinn rétt. Úr því það þjóðskipulag ríkir hér að menn geta verið mismundandi auðugir og mega stofna allskyns félög og klíkur (innan ramma laganna þó) finnst mér ekki hægt að krefjast þess að þeir sem misboðið hafa siðferðisskilningi margra (en þó ekki allra) eigi minni rétt en aðrir. Ekki truflar það mig neitt sérstaklega þó þessir menn flaggi ríkidæmi sínu. Ef þeir gerðu það ekki yrðu sennilega bara einhverjir aðrir til þess. Öfund er af hinu illa.
Það getur vel verið að Panamaskjölin og hasarinn í kringum þau hafi haft talsverð áhrif á stjórnmálin. Þó á ég von á að næstu kosningar leiði það í ljós að flokkavaldið dvíni afar hægt. Stökkbreytingar á því eiga sér varla stað. Þó hygg ég að almenningur (það óljósa hugtak) hafi siðvæðst að undanförnu og meðvirkni hverskonar með spillingu allri hafi talsvert minnkað.
Ný stjórnarskrá held ég að verði ekki að veruleika á næstunni. Ef Píratar ætla að gera það að úrslitaatriði varðandi nýja stjórnarskrá að valdið til að hafna henni eða samþykkja verði tekið af alþingi með illu, held ég að fylgi þeirra verði fljótt að minnka. Hinsvegar er það fásinna að ætla sér að ætíð náist fullkomin samstaða á alþingi um allar stjórnarskrárbreytingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2016 | 00:36
2474 - Enn um Tromparann
Mér finnst ég vera búinn að afgreiða forsetakosningarnar hér á Íslandi. Ég er búinn að skrifa um álit mitt á frambjóðendunum sem einhverja möguleika hafa á sigri og hef engu við það að bæta. Finnst ekki að ég þurfi að skrifa til stuðnings þeim sem ég vil helst sjá á Bessastöðum. Þó lofa ég engu um að skrifa ekki meira um þessar kosningar fljótlega. Til dæmis finnst mér ekki útilokað að Davíð Oddsson hætti fljótlega við framboð sitt.
Hinsvegar er margt um kosningarnar í Bandaríkjunum að segja. Hillary Clinton virðist vera að lenda í meiri vandræðum útaf tölvupóstunum en gera mátti ráð fyrir. Margt virðist benda til þess að kosningar á milli Donalds Trump og Bernies Sanders yrðu athyglisverðar. Einkum fyrir þá sök að báðir eru talsvert á móti því skipulagi á hlutunum sem er í stjórnmálunum í USA. Fram að þessu hef ég verið vantrúaður á að Bandaríkjamenn væru tilbúnir fyrir jafn vinstri sinnaða stefnu og þá sem Sanders hefur boðað. Auðvitað veit ég ósköp vel að hægri og vinstri eru að miklu leyti úrelt hugtök í stjórnmálum, en geta þó dugað varðandi sumt.
Óvinsældir Hillary Clinton eru það miklar að efast má um að fylgjendur Sanders muni yfirleitt kjósa hana framyfir Trump. Hún er álitin af mörgum meiri fulltrúi ráðandi afla en flestir aðrir. Hugsanlega munu Sanders-sinnar bara sitja heima. Vissulega ætti hún auðveldlega að geta sigrað Trump, einkum vegna þess að orðháksháttur hans og sjálfhælni virðist ekki ætla að fara af honum þrátt fyrir að hann sé búinn að tryggja sér útnefningu repúblikanaflokksins. Eiginlega er hann ekkert forsetalegri núna, en hann er búinn að vera í forkosningunum.
Margt bendir til þess að Sanders væri ekkert lakari kostur fyrir demókrataflokkinn en Hillary Clinton. Hann virðist einkum höfða til ungra og róttækra kjósenda og hann er ekkert síður líklegur til að sameina demókrataflokkinn en Hillary. Repúblikanar (a.m.k. margir hverjir) mega ekki til þess hugsa að Hillary Clinton verði forseti. Auðæfi þeirra Clintonhjónanna eru á margan hátt farin að verða þeim fjötur um fót. Aftur á móti eru auðæfi Donalds Trump hugsanlega ekki eins mikil og af er látið. Skattskýrslu sína vill hann þó ekki opinbera.
Þó lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu komi okkur Íslendingum mjög til góða. Jafnvel svomikið til góða að ásamt túrhestunum hafi það gert meira en stjórnvöld í að koma okkur uppúr kreppunni sem varð í kjölfar Hrunsins. Tölum samt ekki meira um það. Sumir hafa farið ansi flatt á þessari olíuverðslækkun. Til dæmis er sagt að farið sé að bera á fæðuskorti í Venesúela. Þegar einn græðir er það nefnilega svo að alltaf hlýtur annar að tapa.
Settum niður kartöflur í dag ásamt fleirum á vegum Kartöflufélagsins Mikla en félagar í því eru Hafdís Rósa og Jói ásamt okkur hjónunum. Þrátt fyrir talsverða rigningu undanfarna daga var moldin ekkert of blaut.
Þetta blogg er í styttra lagi og ekkert við því að gera. Hef bara ekki meira að segja í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.5.2016 | 23:49
2473 - Guðna fyrir forseta
Yfirlýsing. Ég styð Guðna Th. til embættis forseta Íslands. Ekki vegna þess að ég þekki hann neitt. Og ekki vegna Patta eða pabba hans. Svo mikill íþróttaunnandi er ég ekki. Hafði þó á árum áður gaman af íþróttum hverskonar þó ég stundaði þær ekki mikið sjálfur. Ekki heldur vegna þess að hann heitir Thorlacius. Patrekur bróðir hans notar þó ekki ættarnafnið mömmu sinnar. Nei, mér finnst hann nefnilega ólíklegri en aðrir þeir sem mörg atkvæðu munu fá í komandi kosningum til að láta stjórnmálaþras dagsins hafa áhrif á gjörðir sínar og athafnir. Álít þó ekki að ákvarðanir forsetans muni hafa mikil áhrif á þróun þjóðlífs á Íslandi. Hann kann samt að hafa heilmikil áhrif á það hvernig forsetaembættið muni þróast á næstu árum. Mér hugnast ekki að það þróist í átt til frekara forsetaræðis. Guðna treysti ég betur en öðrum til að sjá til þess að það þróist fremur til sameiningartákns en pólitískra valda.
Ég álít að hann muni ekki standa í vegi fyrir lýðræðislegri stjórnarskrá en við höfum nú. Skipulag Alþingis er með þeim hætti að það er til mikilla vandræða. Ný stjórnarskrá er nauðsyn og sömuleiðis nýtt og breytt skipulag Alþingis. Þeirri stjórnarskrá sem svokallað stjórnlagaþing samþykkti einróma er ekki hægt að koma á í heild nema eftir þeim reglum sem gamla stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Annað væri að skemmta skrattanum. Árið 1959 var hægt að hafa tvennar kosningar sama árið. Með sama hætti væri hægt að koma nýrri stjórnarskrá á næstum samstundis vilji meirihluti Alþingis það. Það veldur vonbrigðum að því Alþingi sem nú situr hefur tekist að koma að mestu (og hugsanlega öllu) leyti í veg fyrir allar stjórnarskrárbreytingar. Hugur þjóðarinnar stendur þó til að koma ýmsum breytingum að. Þær breytingar sem til þess sniðin nefnd samþykkti er nokkurn vegin það sem hægt er að koma í gegnum þingið núna og ekki ber að lasta það.
Finnst ekki að fólk eigi að láta stjórnmálaskoðanir hafa áhrif á hver kosinn er í forsetakosningum. Hvorki sínar eigin né þær sem gera má ráð fyrir að frambjóðendurnir hafi. Allir sem um stjórnmál hugsa hafa þó slíkar skoðanir. Að nýta ekki kosningaréttinn finnst mér slæm ákvörðun. Þó hef ég einu sinni gert það í forsetakosningum. Það var árið 1988 þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram á móti Vigdísi Finnbogadóttur. Þá var ég dálítið ósáttur við þá ákvörðun Vigdísar að vilja vera forseti lengur en átta ár. Mér fannst hún nefnilega hafa gefið í skyn fyrir kosningarnar 1980 að sér fyndist hæfilega löng seta á forsetastóli vera 8 ár.
Horfði að mestu leyti á kosningaumræðurnar á Stöð 2 áðan og fannst satt að segja eins og Davíð Oddsson væri í einhverjum allt öðrum þætti. Ef ég ætti að gefa einkunnir fyrir frammistöðuna þar, fengi Davíð þá langlélegustu, en Andri Snær og Halla lítið eitt betri einkunn en Guðni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2016 | 11:40
2472 - Um þyrlur og drauma
Auðvitað er það svo að við sem öldruð erum, erum orðið svo vön því að lífið sé eins og það er að okkur finnst allt mögulegt vera eðlilegt. Samt eru kjör okkar ekkert eðlileg. Ríkið tekur til sín meginhluta þess sem við höfum verið skikkuð til að nurla saman á langri ævi. Þegar ég var í skóla skömmu eftir seinni heimsstyrjöld var reynt að koma því inn hjá okkur að græddur væri geymdur eyrir. Vitanlega var það alls ekki svo. Verðbólgan sem í þann tíma var kölluð dýrtíð grasseraði eins og venjulega og þó atvinna væri næg græddu þeir mest sem ófyrirleitnastir voru.
Tortólaeignir voru þó engar á þeim tíma en þeir sem ríkastir voru fóru með Gullfossi til Evrópu einu sinni eða tvisvar á ári eða flugu með Flugfélagi Íslands eða Loftleiðum ef þeir þorðu. Ríkidæmi þeirra var samt alls ekki eins yfirþyrmandi og útrásarvíkinganna seinna meir. Launamunur var ekki mjög mikill. Kvennakaup var þó við lýði.
Margir halda þrátt fyrir allt trúnaði við gróðapungana og kjósa þá villivekk. Annars vegar vegna þess að þeir halda að þeir (pungarnir) kunni með peninga að fara. Hin ástæðan er sú að þeir halda að þeir sjálfir séu a.m.k. ríkari en sumir aðrir og þessvegna geri þeir rétt í að styðja ríka fólkið.
Hugsanlegt er að Sigurður forsætis snúist í kosningamálinu mikla, úr því að andlegur leiðtogi hans er á annarri skoðun. Erfitt getur samt reynst að bakka útúr þessu með kosningarnar. Held samt að það verði reynt. Bjarni Ben. mundi eflaust feginn vilja losna undan þessari kvöð núna. En ekkert liggur á. Kannski er hægt að fresta ákvörðun um þetta þó stjórnarandstaðan láti illa. Ákvörðun verður ekki tekin fyrr en í síðustu lög.
Einhverntíma var sýndur framhaldsþáttur í sjónvarpi sem hét á ensku Sex in the City. Þarna er greinilega um stuðlun að ræða og sá sem þýddi þetta (sem hugsanlega var ekki sá sami og þýddi þættina) vildi greinilega viðhalda stuðluninni og kallaði þættina Beðmál í borginni og ég man að einhver varð til þess að hrósa þessari þýðingu. Hún er satt að segja ekkert afleit, þó orðið beðmál sé fáum tamt og þýði hreint ekki það sama og sex. Battlað í borginni er ný þáttaröð í sjónvarpi og nafnið greinilega samið undir áhrifum beðmálanna. Battle er vel þekkt í ensku og í götumáli getur það haft ýmsar merkingar. Ég hef ekki séð þessa þætti, en held endilega að sú merking sem þarna er átt við sé komin úr götudansi. (e - Street dance) Annars hef ég ekkert sérstakt á móti slettum af þessu tagi og vel getur þetta orðið íslenska með tímanum.
Nútíminn er gamaldags. Hvenær hættir það frumlega að fara í hringi? Er nokkur ástæða til þess að gamalmenni drepist í hrönnum? Er til orð yfir paradoxa á íslensku? Er ekki alltaf hægt að setja fram allskonar svona vitleysu? Um hvað snýst lífið? Peninga og völd eða kannski eitthvað annað? En hvað er þetta eitthvað annað? Er það kannski hamingja og lífsfylling? Er þá Tortóla bara eftirsókn eftir vindi? Einu sinni dreymdi mig að ég ætti þyrlu. Pantaði hana bara eftir einhverjum verðlista. Kunni samt lítið í flugmennsku. Er ekki ágætt að eiga þyrlu, jafnvel þó það sé í draumi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2016 | 13:14
2471 - Um Sigmund Davíð, Guðna Th. o.fl.
Svo er að sjá sem Sigmundur Davíð ætli sér að koma aftur. Sjálfsagt eru flestir framsóknarmenn sama sinnis og hann og telja mikinn feng að því að fá þvílíkan hæfleikamann aftur í forystuna. Svo er hann víst ríkur í þokkabót. Hvort kjósendur eru almennt sama sinnis á eftir að koma í ljós. Ekki benda skoðanakannanir til þess. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur munu sennilega leita eins og þeir geta að afsökun fyrir því að kjósa ekki strax í haust.
Að forsætisráðherra hrökklist frá völdum á þennan hátt er auðvitað einsdæmi. Þó munu flokkarnir ekki nefna ákveðinn kosningadadag fyrr en ekki verður hjá því komist. Aumingja Sigurður, kannski finnst honum bara gaman að vera forsætis. Nú þarf hann ekki lengur að spyrja Bjarna um allt. Kannski getur hann bara spurt Sigmund um hvernig hann eigi að haga sér. Ekki er víst að Sigmundur kæmist samt upp með að taka embættið af honum. En á hugsanlegu flokksþingi þar sem bara verða trúir og traustir framsókarmenn getur allt gerst og eftir næstu kosningar sem ekki verða seinna en í júní 2017 verður kannski allt breytt og búið að ákveða að aflendingar haldi völdum sínum nema þau séu áberandi illa fengin.
Búast má við að þinghaldið í sumar verði óvenjuskrautlegt. Hvort stjórnarandstaðan muni á einhverjum tímapunkti spyrna við fótum er ekki öruggt. Kannski vilja þau bara láta ríkisstjórnina vaða sem lengst útí það kviksyndi sem hún hefur sjálf útbúið. Sumt að því sem stjórnin hefur stefnt að hefur þó tekist ágætlega. T.d. eru þeir ríku sem gátu komið sínum auðæfum í Tortólur heimsins orðnir talsvert ríkari núna. Einhverjir lepja samt dauðann úr skel og flóttamönnum fjölgar mjög í heiminum og andstaðan við þá gæti fært þeim sem haganlega sækjast eftir slíku talsvert mörg atkvæði.
Meira nenni ég ekki að skrifa um pólitík að þessu sinni enda eru það forsetakosningarnar sem án efa eru mönnum efst í huga um þessar mundir. Guðni Th. kom hingað á Akranes um helgina og af því að sérstaklega var hringt í mig og mér boðið á fundinn, fór ég þangað. Salurinn í Tónlistarskólanum var svotil þéttsetinn svo auljóst er að kosningamaskína hans er komin í gang. Tveir menn held ég að berjist um sigurinn í þessum forsetakosningum. Það eru Guðni Th. og Andri Snær. Guðni held ég að verði afskiptalítill í pólitískum efnum og þessvegna kýs ég hann. Aftur á móti held ég að Andri Snær verði afskiptamikill í sömu efnum því hann er með brennandi pólitíska sýn á lífið og tilveruna. Ekki er líklegt að um hann gæti skapast friður sem forseta. Um Davíð ræði ég ekki. Það er bara gamall, reiður maður og það var ágætt að hann losaði okkur við Ólaf, sem var skíthræddur við hann.
Trausti skrifar um aljöklun og alhitnun. Aljöklun hefur hvað eftir annað dunið á jörðinni. Á mælikvarða okkar mannanna taka breytingar af þessu tagi yfirleitt langan tíma en gerast þó eins og hendi væri veifað. Alhitnum sem sennlega hefur átt sér stað á Venusi er svolítið fjarlægari veruleiki. Og gera má ráð fyrir að sú breyting taki langan tíma. Við þetta sýnist mér með mínum leikmannsaugum að mætti bæta við alþornum eins og við sjáum vel á Mars. Kannski er þó eitthvað þar að finna undir yfirborðinu sem breytir hugmyndum okkar um þá plánetu. Það eru þó ekki nema innan við 100 ár síðan flestallir trúðu því staðfastlega að á Mars byggju allskyns óvættir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2016 | 06:34
2470 - Hneykslismál, kartöflur o.fl.
Já já. Ég blogga alveg óheyrilega mikið. Eitt er það samt sem ég hef alls ekki getað ráðið í (þó ég vilji nú ráða sem flestu). Moggabloggsguðirnir setja stundum mynd af mér með tilkynningu um bloggið mitt og stundum myndina sem ég set með blogginu. Mér hefur alls ekki tekist að ráða í hvað það er sem stjórnar þessu. Kannski er næstum daglega verið að fikta eitthvað í kóðanum sem stjórnar útliti Moggablogganna.
Held að það sé rangt hjá mönnum sem lenda í hneykslismálum að þegja þunnu hljóði. Það reyndi Sigmundur Davíð og ekki fór það vel. Sömu aðferð ætlaði Ólafur Ragnar að nota þegar deilt var á konuna hans. Nú virðist sem Júlíus Vífill Ingvarsson ætli að nota þessa sömu aðferð. Auðvitað er erfitt að standa í þessu ef afsakanir eru engar. Svo virðist sem Júlíus Vífill eigi þær fáar.
Ég hef eiginlega engu við það bæta sem ég hef áður skrifað um forsetakosningarnar hérna. Held að Guðni sigri, Davíð verði annar og Andri Snær þriðji. Auðvitað eru það fjölmiðlarnir sem hafa búið þessa frambjóðendur til. Við því er ekkert að gera. Eitt af því sem allir þurfa að kunna sem í framboð fara, er að láta fjölmiðlana éta úr lófa sínum. Sjónvarpið er áhrifamest og útvarpið svo. T.d. getur enginn orðið frægur á Íslandi nema fyrir tilstuðlan RUV. Jafnvel Stöð 2, svo ég tali nú ekki um Útvarp Sögu, verða bara að sætta sig við það.
Mest virðast þeir skrifa um forsetakosningarnar sem styðja ákveðna frambjóðendur. Mér er engin launung á því að ég styð einkum Guðna. Þó þessar kosningar verði eflaust talsvert spennandi að því leyti að litlu má gera ráð fyrir að muni í atkvæðafjölda hjá þeim efstu þá er því ekki að leyna að þetta eru afskaplega þýðingarlitlar kosningar. Þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi um útgönguna úr ESB sem verður víst um svipað leyti og forsetakosningarnar hér er til dæmis miklu þýðingarmeiri. Og gera má ráð fyrir að úrslitin þar verði mun afdrifaríkari. Spái því reyndar að Bretar verði um kyrrt í ESB. Sú fyrirlitning sem almenningur víða um lönd hefur á aflandseyjastarfsemi hvers konar kann samt sem áður að verða mun afdrifaríkari fyrir Breska fjármálakerfið en úrslitin í ESB-kosningunum. Einkum vegna þess að hlutverki London í peningamálum heimsins er um það bil að ljúka.
Á margan hátt hefur íslensk tunga breyst eftir hrun. Nú þýðir t.d. útrásarvíkingur nánast það sama og þjófur. Aflandsreikningur þýðir skattsvik eða tilraun til slíkra afbrota. Góða fólkið þýðir vinstri sinnað pakk. Hælisleitandi þýðir leynilegur afbrotamaður. Múslimi þýðir maður með sprengjubelti o.s.frv.. Auðvitað er ekki sama hverjir nota sum þessara orða og vara verður sig merkingu margra þeirra. Hún getur verið mismunandi eftir því hvaða hópar sjá þau og hverjir nota þau.
Ásamt með Hafdísi og Jóa erum við hjónakornin búin að taka á leigu 50 fermetra af ræktarlandi sem Akraneskaupstaður úthlutar kartöflusjúku fólki hér á Skaganum og nú um stundir erum við einkum að bollaleggja um aðrar tegundir en kartöflur til ræktunar.
Guðni forsetaframbjóðandi verður víst hérna á Akranesi á morgun (í dag 21. maí) og kannski maður komi við þar á leiðinni út í vita. En þar verður víst opnuð málverkasýning á svipuðum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2016 | 14:10
2469 - Um Júlíus Vífil og ýmislegt fleira
Nú um stundir virðist það vera Hringbraut sem er einkum á milli tannanna á fólki. Gallinn við alla fjölmiðlun er sá að um leið og viðkomandi miðill verður vinsæll (sem skeður) eru peningaöflin komin og farin að krukka í hann. Farsælast er að treysta RUV-inu hvað sem framsóknarmenn segja. Þeir sem þar eru öðlast smám saman þykkan skráp og þó þau séu aðvitað rekin eins og annað fólk, þá tekur oftast lengri tíma að losna við þau.
Ég sagði eitthvað um Hringbraut hérna áðan, en auðvitað er það ennþá frekar Júlíus Vífill Ingvarsson sem er einkum á milli tannanna á fólki einmitt núna. Hringbrautlingar ráku að vísu Björn Þorláksson, sennilega fyrir of harkalega vinstrimennsku, og hann sættir sig illa við það. Annars er það mál í þann veginn að verða of gamalt til að tala um. Mál Hönnu G. Sigurðardóttur, sem ég ræddi reyndar einu sinni við, er orðið alltof gamalt.
Annars er það einn helsti gallinn á þessum fésbókartímum, sem öllum ber saman um að eru óttaleg trunta, hve hraðinn á öllu er orðinn mikill. Maður hefur ekki tíma til að hneykslast á einu þá er komið nýtt hneykslunarefni. Meira að segja Borgunarmálið, sem er ansi stórt, hefði horfið í gleymskunnar dá ef ekki hefði verið fyrir fáeina alþingismenn. Eins slæmir og þeir oftast eru.
Fækkun fæðinga er alvörumál. Sama er að segja um fjölda þeirra sem flytja frá landinu. Eflaust eru margar skýringar á þessum málum. Að ekki sé vitað neitt um eða skýrslur til um þá sem flytja frá landinu er sömuleiðis alvarlegt mál. Fæðingum fækkar áreiðanlega vegna þess að ungu fólki finnst erfiðara að lifa en áður. Fæðingarorlof gæti skipt máli hér. Ef það eru einkum sérfræðingar og vel menntað fólk sem flytur í burtu frá landinu gæti það þýtt að afkoman hér á landi sé ekki eins góð og af er látið. Vitanlega hafði Hrunið og atvinnuleysið í kjölfar þess sitt að segja, en eftir því sem sagt er ætti það ekki að virka lengur.
Einn er sá maður sem hefur ásakað mig um að stinga sig í bakið (í óeiginlegri merkingu þó). Það er hann Villi í Köben. Hann heitir reyndar Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson og vinnur að ég held hjá póstþjónustunni í Kaupmannahöfn. Mér finnst hann orðljótur með afbrigðum og hann sér gyðingahatara í hverju horni. Held hann sé lærður fornleifafræðingur og hann langar greinilega til að vera álitinn merkur sagnfræðingur en sennilega er hann fullfljótfær og síonískur í hugsun til þess. Kvartar stundum við mig undan því að ég minnist á hann án þess að sérstakt tilefni sé til. Hann er Moggabloggari eins og ég og ekki veit ég betur en að það sem hann skrifar sé talsvert lesið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2016 | 00:15
2468 - Er líf eftir forsetakosningarnar?
Er líf eftir forsetakosningarnar? Kannski er bara hægt að fara að undirbúa sig undir þingkosningar næsta haust og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum strax og búið er að ljúka því af að kjósa forseta hér. Satt að segja álít ég að mjótt verði á mununum á milli þeirra þriggja efstu. Eflaust verða það þeir sem hæst ber núna en hætt er við að bilið milli þeirra mjókki stöðugt. Held að það verði Guðni Th., Davíð og Andri Snær sem berjist um sigurinn. Í annarri deild komi síðan Sturla og Halla en aðrir komist varla á blað, nema þá helst Ástþór sem er eiginlega bara í þessu af gömlum vana.
Sumarþingið sem hér á að halda í ágúst og september skilst mér, getur orðið skrítið og afkastalítið í meira lagi. Allt mun það snúast um væntanlegar kosningar og engin leið er að giska á upp á hverju þingmennirnir kunna að taka. Stjónarskrármál munu venju fremur flækjast fyrir þingmönnum og kjósendur að mestu leyti hætta að skilja þá. Hætt er við að múslimahræðsla og þjóðrembingur grasseri sem aldrei fyrr og óvandaðir pólitíkusar notfæri sér það eftir mætti.
Um margt eru þeir Donald Trump og Davíð Oddsson líkir. Báðir kalla þeir á öfgakennd viðbrögð, eru kjaftaskar miklir, þjóðernissinnaðir, lifa og hrærast í fjömiðlum. Þeir sjálfir eða a.m.k. stuðningsmenn þeirra eru mikilvirkir á samfélagsmiðlum og svifast einskis fremur en andstæðingar þeirra. Báðir sækja þeir einkum stuðning sinn til þeirra sem lítt eru menntaðir og vinna fyrir sér með höndunum. Davíð er frægur hér á landi fyrir að hafa verið borgarstjóri, forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Í öllum þessum embættum hefur hann látið mikið fyrir sér fara. Donald Trump er þekktur í Bandaríkjunum fyrir að hafa fyrr gælt við framboð til forseta, verið í aðalhlutverki í vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, og auk þess fyrir sjálfshól og ríkidæmi. Um fyrirferðina geta Bandaríkjamenn sjálfir betur dæmt en ég.
Ástæðan fyrir því að Sigmundur brenndi út að Bessastöðum á sínum tíma gæti ég trúað að hafi verið sú að hann hafi talið sig einan hafa þingrofsvaldið. Kannski hafa Bjarni og hann ekkert rætt það sín á milli hver hefði það. Hingað til held ég að samið hafi verið um það í samsteypustjórnum hvar þingrofsvaldið væri. Áður en ÓRG kom til sögunnar hafa áreiðanlega fáir gert ráð fyrir að forsetinn færi að skipta sér af slíku. Í aðstæðum eins og þeim sem upp komu í kjölfar Panamaskjalanna er augljóst að þetta atriði skipti máli. Sigmundur hefur jafnvel verið búinn að ákveða hvenær kosningar ættu að fara fram. Kosningadagsetningin virðist standa eitthvað í Bjarna og Co.
Mínar pólitísku spekúlasjónir er að gera mig gráhærðan. Jafnvel búnar að því. Sennilega mega þessir örfáu lesendur mínir fara að vara sig. Kannski þarf ég að létta á mér daglega. Eða oft á dag. Ekki má ég láta ritræpuna úr mér verða svo mikla að allir gefist upp á því að lesa bloggin mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2016 | 16:34
2467 - Björgvin Bjarnason
Man að Bjöggi bróðir, sem er fæddur árið 1949 og þessvegna farinn að eldast svolítið, spurði mig einhverju sinni til hvers þetta C væri eiginlega í stafrófinu. Á að nota það ef maður segir að kettinum sé kalt? Man vel að hann notaði einmitt þetta dæmi. Man líka að mér þótti jafnvel merkilegra að hann skyldi sýna þessa umhyggju fyrir kettinum en að hann skyldi vera að velta þessu fyrir sér með c-ið. Ég er einum sjö árum eldri en Björgvin og hef á þessum tíma verið kominn mun lengra í skólanum en hann, sem líklega hefur verið að hefja skólanám þá. Einhver var að velta því fyrir sér á málræktarsíðu á fésbók hvort skrifa ætti ð eingöngu eða eð í setningunni: Hvort eð er. Sennilega hefur það minnt mig á kattasöguna og Björgvin. Já það er margt skrýtið í kýrhausnum.
Satt að segja nota ég ekkert twitter og instagram einfaldlega vegna þess að ég kann ekkert á þau forrit. Facebook nota ég talsvert en tel mér trú um að twitter sé aðallega fyrir þá sem vilja fylgjast mjög vel með því sem er að gerast á hverjum tíma og geti bara tekið við stuttum setningum. Sjálfur er ég fremur langorður þó ég reyni að vera það ekki. Instagram veit ég varla hvað er, en held þó að það sé fyrst og fremst forrit til þess að skiptast á myndum. Svo eru unglingarnir með Snapchat og þessháttar en það hentar mér áreiðanlega ekki.
Í fyrndinni þ.e.a.s. á síðustu öld þá tók ég svolítinn þátt í tölvubyltingunni sem þá var að skella á. Flestir álitu þann áhuga vera til marks um sérvitringshátt en það var ekki svo að öllu leyti. Til dæmis áttu menn erfitt með að trúa því um 1990 að hægt væri að tefla við hvern sem er hvar sem væri í heiminum. Sumir vissu þó að svokallað Internet væri til og hægt væri að skrifa bréf og senda með tölvum hvert sem er. Sniglapóstur var þó ráðandi. Sumir sem áttu tölvur tengdust þó svokölluðum BBS-um gegnum síma. Pétur á Kópaskeri þekkir þó alla þessa sögu mun betur.
Ein af ástæðum þess að bankarhrunið hér var eins alvarlegt og raun bar vitni var að ekki var um neinn aðskilnað að ræða á venjulegri gamaldags bankaþjónustu og fjárfestingarbankastarfsemi. Þetta þýddi að bankar í einkaeigu gátu notað allt sinn innlánsfé í einskonar lottospil. Ef illa færi væru a.m.k. innlán tryggð af ríkisstjórninni. Talað hefur verið um að aðskilja venjulega bankaþjónustu og fjárfestingarbanka, en ekki hefur orðið neitt úr þeim framkvæmdum. Ef og þegar bankarnir verða seldir geta menn því eins og áður reiknað með einskonar ríkisábyrgð á happdrættiseyðslu sinni og háum launum.
Já, já. Við hjónin keyptum okkur flatskjá fyrir hrun en teljum okkur samt ekki bera meiri ábyrgð á Hruninu en hverjir aðrir Íslendingar. A.m.k. minni en þeir sem hömuðust við að koma því skipulagi á sem stuðlaði að Hruninu. Auðvitað er hægt að segja að auðvelt sé að vera vitur eftirá og ekki dugi að eyða allri sinni orku í að finna sökudólga. Traust til stjórnvalda er samt mun betra en ótti. Virðingin fyrir þeim hefur samt hér á landi oftast verið talsvert óttablandin. Ef eitthvað verulega slæmt kæmi uppá eru stjórnvöld, hvort sem er hér á landi eða erlendis, óttalega vanbúin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2016 | 09:58
2466 - Jónas Kristjánsson og Ómar Ragnarsson
Að sumu leyti er ég að hasast upp á þessu sífellda bloggi. Ómar Ragnarsson bloggar eins og enginn sé morgundagurinn og Jónas er líka stórtækur þar. Þó þessir menn hafi ekki komist áfram á öllum sviðum hafa þeir þó gert það ansi víða. Og ekki get ég leynt því að ég tek þá að mörgu leyti mér til fyrirmyndar í blogginu. Ómar er landsþekktur skemmtikraftur, flugmaður, sjónvarpsstjarna, náttúruverndarmaður og umhverfissinni. Sama er að segja um Jónas hvað náttúruverndina og umhverfið varðar. Auk þess er hann þekktur fyrir margt annað. T.d. er hann fyrrverandi ritstjóri, mikill hestamaður, rithöfundur, kennari og margt annað. Báðir eru þeir besservisserar miklir og hafa sannarlega efni á því.
Báðir hafa þeir og reynt fyrir sér í pólitík en ekki náð miklum frama þar. Ómar gekk, að ég held, í Samfylkinguna fyrir allnokkru en hefur ekki fengið neinn sérstakan framgang þar. Hefur kannski ekki kært sig um hann, og kannski sett skilyrði sem einhverjir hafa verið ósáttir við. Var fulltrúi á stjórnlagaþinginu og hafði sennilega talsverð áhrif þar.
Jónas bauð sig fram til stjórnlagaþingsins en var ekki kosinn á það. Sennilega hafa það verið honum talsverð vonbrigði þó ekki hafi hann látið neitt uppi um það mér vitanlega.
Fyrir nokkru man eg eftir að einhver steinsmiðja auglýsti legsteina til sölu. Ekkert athugavert við það. En þeim þótti nauðsynlegt að auglýsa jafnframt að allt væri innifalið. Man að ég velti því fyrir mér, vegna þess að ég er svo skrítinn, hvað átt væri við með þessu allt innifalið þ.e.a.s. hvort þeir legðu til líkið líka. Sennilega hafa þeir samt átt við flutninginn og áletrunina eða eitthvað þessháttar. Hvað veit ég? Ég kaupi nefnilega ekki legsteina reglulega. Nýlega eru samt útfararþjónustur farnar að auglýsa. Það tíðkaðist alls ekki áður fyrr. Læknar mega t.d. ekki auglýsa, enda þurfa þeir þess sennilega ekki.
Kannski er ég ekki alveg hefðbundinn bloggari. Blogga mest um allskyns hluti sem tengjast bloggi en er samt ekki mjög oft bloggað um. Reyni að forðast óþarfa stóryrði sem virkir í athugasemdum hafa samt margir hverjir tamið sér. Nefni jafnvel nöfn þó flestir forðist það. Auðvitað eru stjórnmálalegir forystumenn ekki taldir þar með. Um þá má tala illa eða vel eftir atvikum. Bloggara má helst ekki tala um nema þá í aðfinnslutón miklum.
Málfarslegar aðfinnslur eru mikið í tísku hjá þeim sem aldraðir eru. Sumt af því er óttalegur sparðatíningur finnst mér. Nauðsynlegur er hann samt því meðferð málsins fer á margan hátt hnignandi. Þeir sem einbeita sér að slíku verða fljótt óhemju leiðinlegir og mest lesnir af þeim sem minnst þurfa á slíkum aðfinnslum að halda.
Öll mín bankaviðskipti, sem alls ekki eru mikil, hafa verið við Landsbankann og ég get ekki kvartað yfir þeirri þjónustu sem ég hef fengið þar. Samt sem áður get ég ekki annað en tekið undir með þeim sem vilja reka með skömm æðstu ráðamenn þar. Borgunarmálið hefur valdið bankanum þvílíku orðsporstapi að ekki er með neinu móti hægt að sætta sig við slík afglöp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)