2473 - Guðna fyrir forseta

Yfirlýsing. Ég styð Guðna Th. til embættis forseta Íslands. Ekki vegna þess að ég þekki hann neitt. Og ekki vegna Patta eða pabba hans. Svo mikill íþróttaunnandi er ég ekki. Hafði þó á árum áður gaman af íþróttum hverskonar þó ég stundaði þær ekki mikið sjálfur. Ekki heldur vegna þess að hann heitir Thorlacius. Patrekur bróðir hans notar þó ekki ættarnafnið mömmu sinnar. Nei, mér finnst hann nefnilega ólíklegri en aðrir þeir sem mörg atkvæðu munu fá í komandi kosningum til að láta stjórnmálaþras dagsins hafa áhrif á gjörðir sínar og athafnir. Álít þó ekki að ákvarðanir forsetans muni hafa mikil áhrif á þróun þjóðlífs á Íslandi. Hann kann samt að hafa heilmikil áhrif á það hvernig forsetaembættið muni þróast á næstu árum. Mér hugnast ekki að það þróist í átt til frekara forsetaræðis. Guðna treysti ég betur en öðrum til að sjá til þess að það þróist fremur til sameiningartákns en pólitískra valda.

Ég álít að hann muni ekki standa í vegi fyrir lýðræðislegri stjórnarskrá en við höfum nú. Skipulag Alþingis er með þeim hætti að það er til mikilla vandræða. Ný stjórnarskrá er nauðsyn og sömuleiðis nýtt og breytt skipulag Alþingis. Þeirri stjórnarskrá sem svokallað stjórnlagaþing samþykkti einróma er ekki hægt að koma á í heild nema eftir þeim reglum sem gamla stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Annað væri að skemmta skrattanum. Árið 1959 var hægt að hafa tvennar kosningar sama árið. Með sama hætti væri hægt að koma nýrri stjórnarskrá á næstum samstundis vilji meirihluti Alþingis það. Það veldur vonbrigðum að því Alþingi sem nú situr hefur tekist að koma að mestu (og hugsanlega öllu) leyti í veg fyrir allar stjórnarskrárbreytingar. Hugur þjóðarinnar stendur þó til að koma ýmsum breytingum að. Þær breytingar sem til þess sniðin nefnd samþykkti er nokkurn vegin það sem hægt er að koma í gegnum þingið núna og ekki ber að lasta það.

Finnst ekki að fólk eigi að láta stjórnmálaskoðanir hafa áhrif á hver kosinn er í forsetakosningum. Hvorki sínar eigin né þær sem gera má ráð fyrir að frambjóðendurnir hafi. Allir sem um stjórnmál hugsa hafa þó slíkar skoðanir. Að nýta ekki kosningaréttinn finnst mér slæm ákvörðun. Þó hef ég einu sinni gert það í forsetakosningum. Það var árið 1988 þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram á móti Vigdísi Finnbogadóttur. Þá var ég dálítið ósáttur við þá ákvörðun Vigdísar að vilja vera forseti lengur en átta ár. Mér fannst hún nefnilega hafa gefið í skyn fyrir kosningarnar 1980 að sér fyndist hæfilega löng seta á forsetastóli vera 8 ár.

Horfði að mestu leyti á kosningaumræðurnar á Stöð 2 áðan og fannst satt að segja eins og Davíð Oddsson væri í einhverjum allt öðrum þætti. Ef ég ætti að gefa einkunnir fyrir frammistöðuna þar, fengi Davíð þá langlélegustu, en Andri Snær og Halla lítið eitt betri einkunn en Guðni.

IMG 1625Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband