2457 - Forsetar Bandaríkjanna o.fl.

OK. Simmi vildi ganga hart að kröfuhöfum, enda hafði hann komið fjölskylduauðnum vel fyrir í skattaskjóli. Bjarni var tregur, enda allsekki búinn að gera það sem hann átti að gera og sumu, eins og t.d. Borgunarmálinu, hafði hann klúðrað rækilega. Samkomulag tókst þó á endanum. Aðalatriði þess samkomulags var að segja alls ekki hverjir hinir raunverulegu kröfuhafar væru. Auðvelt er samt að giska á það. Það voru allir þeir ræningjar sem höfðu orðið höndum seinni við að koma sínu illa fengna fé í öruggt skjól. Sumir þeirra höfðu hagað sér svo aumingjalega að þeir höfðu jafnvel tapað fjármunum í hruninu.

Það eru svo margir sem gera sér grein fyrir þessu að ríkisstjórnin þyrfi að fara frá sem fyrst. Hún ætlar samt að þrjóskast við því Bjarni á eftir að redda ýmsu sem hann á að gera. Ekkert sérstakt bendir til þess að staðið verði við loforðið um kosningar. Haust er líka svo loðið og teygjanlegt hugtak. Auðvitað er spursmál hvort svokölluð stjórnarandstaða sé nokkuð betri. Allavega var síðastliðin stjórn það tæpast.

Fésbókin já. Frekjan og afskiptasemin í þessu forriti ríður ekki við einteyming. Greinilega er stórhættulegt að gefa því of mikil völd yfir sjálfum sér. Ég hef svosem ekki neitt sérstakt í huga. Notkunin á þessum fjanda er bara komin út yfir allan þjófabálk. Kannski nota ég það heldur ekki eins og flestir aðrir. Sumir held ég að noti það helst ekki.

Nú er reynt eftir mætti að græða á þeim sem áhuga hafa á fótbolta. Ekki ætla ég samt að gerast áskrifandi að EM fyrir 6.900 krónur. Ef hægt er að plata nægilega marga græða áreiðanlega einhverjir. Tíu þúsund sinnum 6.900 eru 69 milljónir. Fyrir þá upphæð, má auk þess að borga fyrir fáeinar auglýsingar, kaupa ýmislegt. Leikir íslenska landsliðsins og úrslitaleikurinn hljóta samt að vera ókeypis. Fleiri leiki hef ég engan áhuga á að sjá í beinni útsendingu. Man vel hve merkilegar beinar sjónvarpsútsendingar þóttu í eina tíð. Nú eru þetta bara farartæki fyrir gróðapunga.

Alveg síðan ég var í svokölluðum kvikmyndaklúbbi á Bifröst um 1960 hef ég haft svolítinn áhuga á bandarískum stjórnmálum. Einkum forsetakosningum. Man eftir að við sýndum kvikmynd um viðureign Kennedys og Nixons og allar götur síðan hef ég fylgst nægilega vel með því sem þar gerist til að geta talið upp þá forseta sem hafa verið síðan. En það eru: Kennedy – Johnson – Nixon – Ford - Carter – Reagan – Bush eldri – Clinton – Bush yngri – Obama. Einnig man ég vel eftir Eisenhower.

Vel getur verið að nú sé það bundið í lög að forsetar Bandaríkjann megi ekki sitja í embætti nema tvö kjörtímabil. Franklín Delano Roosevelt sat þó lengur því hann var fyrst kjörinn að ég held 1932 og var forseti þar til hann lést í styrjaldarlok og það var Truman (varaforseti hans og forveri Eisenhowers) sem tók ákvörðunina um Hiroshima og Nagasaki.

WP 20160217 11 00 13 ProEinhver mynd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband