2184 - Óteljandi hringtorg

Langathyglisverðasta fréttin sem ég hef lesið á netinu undanfarna daga er um það að nú sé Gúgli karlinn farinn að gleyma. Það sem hann gleymir er þó sérvalið. Ekki er það svo að hann gleymi því sem honum var fyrst trúað fyrir. Nei, hann gleymir bara í samræmi við dómsúrskurði. Kannski kemur að því að einhver dómsúrskurður kemur um það að hann eigi að gleyma öllu. Þá verður illa komið fyrir ansi mörgum. Annars eru víst fleiri leitarvélar til þó ég noti aldrei annað en Gúgla. Þannig held ég að því sé varið með marga.

Til varnar Sókratesi. Eða var það Súartes.

Af hverju í ósköpunum er það verra en allt annað að höggva tönnunum í öxlina á andstæðingi sínum? Það má sparka í hann eftir kúnstarinnar reglum og láta hann finna fyrir því að takkarnir á fótboltaskónum séu beittir og hið hættulegasta vopn ef þeim er beitt rétt. Auðvitað er það svolítið ósívilíserað að bíta fólk, en ekkert síður í sjálfu sér að sparka í það. Jafnvel í hausinn á því. Það má skalla fólk í andlitið og nefbrjóta það og það er bara aðdáunarvert. Kallar í mesta lagi á gult spjald, en tennurnar má alls ekki nota því þá verður allt vitlaust. Og hendurnar má svosem nota í fótboltanum. Bara ekki til þess sem þær henta best til. Nefnilega til að gefa andstæðingnum á kjaftinn með þeim. Já, fótboltinn (ekki krasspynnan) er ofbeldisfull íþrótt og ofbeldinu má bara beita á viðurkenndan hátt. Annars er FÍFA að mæta. Aumingja dómarakvartettinn sem ekki sá þessi ósköp. En hið altsjáandi auga tækninnar missti ekki af þessu. Ónei. Fótboltinn stefnir að því að vera jafntæknivæddur og körfuboltinn. Verst verður sennilega þegar dómararnir sitja í hálftíma yfir græjunum og geta ekki komið sér saman um neitt. Kannski þeir fari bara að slást. Og svo meiddi kallgreyið sig í tönnunum sem eðlilegt var. Sennilega hefur hann lent á beini. Kontrólerað ofbeldi er það sem gerir fótboltann svona eftirtektarverðan. Ef farið er útfyrir kontrolrammann sem FÍFA hefur nokkuð á hreinu er hægt að eyðileggja fólk. Blaðamenn bíða með öndina í hálsinum eftir að fá tækifæri til þess.

„Hvað er óteljandi á Íslandi“?

„Hólarnir í Vatnsdal“.

„Já“.

„Vötnin á Arnarvatnsheiði“.

„Já“.

„Eyjarnar á Breiðafirði“.

„Já“.

„Hringtorgin í Mosó“.

„Ha? Hvað segirðu? Ég held að þau séu nú ekki óteljandi“.

„Ég hef samt aldrei náð að telja þau. Og finnst þau alltof mörg“.

Um daginn var ég viðstaddur tónleika hjá hljómsveitinni Famina Futura í Akranesvita. Ekki komust mjög margir áheyrendur þar fyrir, en tónleikarnir voru athyglisverðir fyrir margra hluta sakin. Í þessum vita er jafnframt málverkasýning konunnar minnar og ljósmyndasýning ljósmyndarafélags Akraness. Í júlí mun síðan Bjarni Þór Bjarnason halda þar málverkasýningu. Listviðburðir af ýmsu tagi hafa og verið þar í sumar og í fyrrasumar og ekki er sjáanlegt neitt lát á þeim. Má mikið vera ef mannvirki þau sem vitar eru nefndir eru ekki vannýtt húsnæði vítt og breitt um landið.

Nú er ég um það bil að komast í skrifstuð aftur eftir að hafa hvílt mig svolítið. Þeir sem fylgst hafa með mínum skrifum verða bara að taka því. Kannski hætti ég að mestu þessu svokallaða sumarfríi. Tíðarfarið getur þó ráðið heilmiklu um það. Skrif af öllu tagi eru auðveldari í rigningu en sólskini.

Er hugsanlegt að margir skoði alla þá dellu sem í boði er á fésbókinni. Ekki trúi ég því. Núorðið læt ég duga, þegar ég skrepp á bókina, að skoða hvort einhverjar nýjar rauðar tölur hafa komið í ljós hægra megin á síðunni og svo skruna ég niðureftir í samræmi við það sem ég nenni. Læt að mestu í friði það sem hneykslað  hefur gjörvallt Internetið því venjulega fylgir einhver böggull skammrifi.

IMG 0648Verið að mála.

IMG 0651Eru þetta brúsar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

En hvað með öll hringtorgin á Völlunum í Hafnarfirði?????  Það er sagt að starfsmenn dekkjaverkstæðanna viti upp á hár hverjir búi á Völlunum.............

Jóhann Elíasson, 28.6.2014 kl. 13:22

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú er bara helv.... góður í dag Sæmundur, takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.6.2014 kl. 13:58

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hringtorgin á Völlunum eru eflaust mörg. Ég á bara svo sjaldan leið þar um. Aftur á móti er ég sífellt að flækjast uppá Akranes og er orðinn hundleiður á hringtorgunum í Mosó.

Sæmundur Bjarnason, 28.6.2014 kl. 22:18

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Segðu þetta er bara orðið óþolandi þessi hringtorg allstaðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.6.2014 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband