2156 - Óli Andrésar

Ekki þarf nú mikið til. Fréttirnar, ef fréttir skyldi kalla, nú um páskana hafa einkum snúist um það hvort Guðni ætli eða ætli ekki. Mér finnst heimskulegt að láta framsóknaraumingjana alltaf ráða umræðunni.

„Betra er blátt en ekkert.“ Þetta var málshátturinn í einu páskaegginu sem hér var opnað. Sem betur fer er ég ekki Reykvíkingur. En ef ég ætti einungis um það tvennt að velja að kjósa Íhaldið eða Framsókn, þá mundi ég sennilega breyta þessum málshætti lítilsháttar og segja að blátt væri skárra en grænt.

Óli Andrésar í Borgarnesi (var sannfærður kommúnisti – tók samt veðurskeytin á hverjum morgni og ekki mátti trufla hann við það) sagðist vera að hugsa um að kjósa Sjálfstæðisflokkinn beint í næstu kosningum því alltaf endaði hann í stjórn. Þegar ég var í Borgarnesi voru Óli Andrésar og Maddi æðstu menn í Vatikaninu. Einhverju sinni var Guðni Ágústsson þar á ferð í kosningaundirbúningi að boða framsóknarfræði. Ekki sótti hann gull í greipar þeirra Vatikanmanna.

Margar sögur eru til um Óla. Man eftir einni eða tveim. Einhverju sinni ætluðu þau hjónakornin í berjamó á sunnudegi. Óli tiltók klukkan hvað væri best að leggja af stað. Settist svo útí sinn Bronkójeppa nokkru fyrir þann tíma. Þegar réttur tími var kominn ók hann af stað. Konan hans var þá eitthvað að stússa við nesti eða ílát undir berin og missti því af brottförinni. Sagan er víst ekki lengri.

Svo er sagt að þau hafi einu sinni ætlað að fara „hringinn“ sem kallað var. Þegar komið var til Egilsstaða sá Óli fram á að bensínpeningarnir mundu ekki duga alla leiðina svo hann sneri við.

Páskarnir eru helgislepjutímar. Gleði-sneyðslan er þó alveg óþörf. Óþarfi er líka að amast við trúrækni. Hún er öllum holl. Hvort sem trúað er á Guð, Jesú eða eitthvað annað. Jafnvel ekki neitt. Umfram allt samt ekki yfirstéttina.

Nú er kommúnisminn kominn upp í mér. Ég get bara ekkert að þessu gert. Vorið kemur samt.

Hér að framan minntist ég á yfirstéttina sem mergsogið hefur almenning hér á landi. Þá komu Ásgautsstaðir að sjálfsögðu upp í hugann. Nú er ég búinn að minnast á þá svo hægt væri að senda þetta blogg út í eterinn þess vegna.

IMG 0260Skriðið til skemmtunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var að vinna með þeim báðum. Fannst alltaf besta sagan um Óla Andrésar þegar hann hringdi í Reykjavík til að fá bæklinga senda um bíla. Svo nokkrum dögum seinna kemur sending til hans merkt Ólafur A. A. A. Andrésson. Þeir sem þekktu hann skilja þetta.

Benni 22.4.2014 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband