2151 - Túristi braust inn í ísskáp

Skil ekki sjálfur hvernig ég endist til þess að blogga þetta sí og æ án þess að hafa nokkuð sérstakt að segja. Kannski er þetta einhver skrifþörf, en meðan augljóst er að einhverjir lesa þetta (fáir þó) mun ég halda áfram. Þeir sem leiðir eru orðnir á þessu rausi mínu og vilja fá eitthvað bitastæðara og meira krassandi verða bara að fara eitthvað annað.

Síðasta vika hefur að mestu farið framhjá mér hvað stjórnmál og fréttir áhrærir og þar verð ég að kenna barnabarni mínu um. Þegar maður er kominn á minn aldur og lendir í því að fá barnabarn í heimsókn og gistingu í þónokkra daga þá er ekki um það að ræða að gera margt annað en að sinna þvílíkum orkubolta. Tek það fram að ég er ekki að kvarta.

Túristi braust inn í ísskáp á Siglufirði og svo voru starfsmenn Reykjavíkurborgar að reyna um daginn að brjótast inn í hús (mig minnir í Vesturbænum). Þetta var fullyrt á fésbókinni og þaðan rataði það víst í blöð eða jafnvel dagblöð. Reyndist síðan vera hin mesta vitleysa eins og margt sem á fésbókinni lendir. Þetta segir mér bara að fésbókarræfillinn er að verða of stór hluti í tilveru einhverra. Vonandi samt ekki minni. Ég reyni nefnilega að láta bloggið trompa fésbókina ef ég get. Er þá ekki blessað bloggið að verða alltof stór þáttur í minni tilveru? Jú, kannski og reyndar Internetið allt. Reyni samt að standa upp frá tölvunni öðru hvoru. Og svo eru það barnabörnin sem heimta sitt.

Síðast þegar ég skrapp í Hveragerði (nei, reyndar næstsíðast) ætluðu veðurguðirnir vitlausir að verða. Nú verður maður líklega að reikna með páskahreti fyrst Bjössi býður í súpu á föstudaginn langa. Það held ég endilega að hann geri. Jú, það passar. Ég hringdi í hann áðan og föstudagurinn langi er alveg frátekinn fyrir okkur systkinin.

Það er upplögð leið til mótmæla að gera það bara á laugardögum og helst þarf veðrið að vera sæmilega gott. Það er að vísu svo núna að hægt er að velja um að skreppa að Geysi eða fara niður á Austurvöll. Ég er ekki að grínast neitt og þeir sem standa fyrir þessu eiga heiður skilinn. Hugsanlega getur þetta haft áhrif og að amast við þessu er einfaldlega að setja sig upp á móti Búsáhaldabyltingunni sjálfri. Það er allsekki nóg að kjósa í alþingiskosningum á fjögurra ára fresti og hafa svo einstaka þjóðaratkvæðagreiðslur þess á milli ef yfirvöldum (eða forsetanum) þóknast. Bæjarstjórnarkosningar og forsetakosningar eru bara nokkurs konar skoðanakannanir, dýrar að vísu en afar ófullnægjandi. Fjöldi fólks vill greinilega hafa meira að segja um sín eigin málefni en nú er.

Varðandi Ásgautsstaði vil ég aðeins segja þetta núna. Einsog þeir örfáu sem lesa bloggið mitt reglulega geta hæglega séð hafa viðbrögð (í athugsemdum við bloggið) við áskorun minni til ýmissa aðila varðandi þetta mál lítinn árangur borið. Óskar Helgi Helgason er næstum því sá eini sem sýnt hefur þessu máli einhvern verulegan áhuga. Hann hefur sjálfur haldið úti Moggabloggi og gerir enn. Einnig hefur hann verið útilokaður þaðan, ef ég man rétt. Síðan var hann endurreistur, en ég þekki málið alls ekki út í hörgul. „Svarthamar“ nefnir hann bloggskrifin og þó ég lesi þau ekki oft veit ég að þau eru sérkennileg og málfar hans einnig. Hann virðist þó fylgjast vel með því sem ég skrifa um Ásgautsstaði og hefur að ég held hagsmuna að gæta sem tengjast því máli. En nú er ég semsagt að hugsa um að hætta og fara að sofa.

IMG 0219Köngull. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

Þú átt að geta séð það á innlitstölum (einhversstaðar á stjórnborðinu fyrst að þær sjást ekki á forsíðunni) að lestur á bloggi þínu sé gott. Ég ætla það. Ég lít hér reglulega við - mér til góðrar skemmtunar. Ekki alltaf daglega en fletti upp á því sem borið hefur til tíðinda frá síðasta innliti. Í mínum kunningjahópi eru fleiri sem líta hér við. Og hafa skemmtun af.

Jens Guð, 13.4.2014 kl. 01:56

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Jens.

Það er eitthvað sem heitir vinsældalisti sem ég lít stundum á. Ég get valið um hvort hann sýni 50 efstu (sem ég hef stundum komist á)Moggabloggsskrifarana eða 400. Samkvæmt þeim lista eru furðmargir sem lesa þetta blogg. Meðal annars er það vegna þess að ég er svokallaður "stórhaus" þ.e.a.s. bloggin frá mér fá sérmeðhöndlun frá "Moggabloggsguðunum".

Yfirleitt fer ég lítið á stjórnborðið og er hálfhræddur við það. Ég kann þó að setja inn myndir og get skoðað einhver súlurit en þau eru nokkrum dögum eftirá, sýnist mér.

Sæmundur Bjarnason, 13.4.2014 kl. 10:17

3 Smámynd: Elle_

Sæll Sæmundur, ég les enn pistlana þína þó þú getir ekki vitað það.  Og ætla ekkert að hætta að lesa meðan þú skrifar.  Held mig í burtu úr Andlitinu :/ eins og frá heitum eldi.  Vil ekki vera þar í ranghalanum og öngþveitinu.  Moggabloggið er minna og persónulegra.

Elle_, 13.4.2014 kl. 12:26

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Elle.

Þú tala um að fésbókin sé ranghali og öngþveiti. Það finnst mér líka. Að auki er ég hálfhræddur við hana. Svo er hún alltaf að breytast og mér finnst engin leið að læra nokkuð á hana.

Sæmundur Bjarnason, 13.4.2014 kl. 12:57

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sumt er samt mjög gott við fésbókina. T.d. er auðvelt að breyta eftirá innleggjum. Sé núna að r hefði átt að vera í talar (orð nr. 4) Þó ég kunni sæmilega á Moggabloggið þori ég ekki að eiga of mikið við stjórnborðið. Hef aldrei verið beðinn um að fjarlægja neitt héðan og vil helst ekki kunna það.

Sæmundur Bjarnason, 13.4.2014 kl. 13:02

6 Smámynd: Elle_

Ég tók ekkert eftir að r-ið vantaði, það gerist oft ef maður skrifar mikið að það vantar stafi og stafir víxlast.  Í Moggablogginu getur maður líka fjarlægt eigin comment, ef maður er með of mikinn kjaft sem dæmi, og getur þannig lagað það sem maður skrifaði í eigin síðu.  Og skrifað bara nýtt comment.  Nei, maður getur ekki lagað comment í annarra síðum og er háður náð síðuhafa, eða þannig, um að þeir vilji fjarlægja það fyrir mann.  Og ég er líka, eins og þú, hálf-hrædd við ranghalann.

Elle_, 13.4.2014 kl. 14:22

7 identicon

Sæmundur minn kær.

Líklega skiptir litlu máli fyrir þig, svo og í hinu stóra samhengi, að ég les bloggin þín nánast á hverjum degi.

Þankagangurinn hjá þér og orðfar höfðar vel til mín, þó ekki sé ég með allt á hreinu um mál og menningu heima á Fróni þar sem ég hefi verið í sjálfskipaðri útlegð í yfir tvo áratugi.

Haltu endilega áfram að blogga ef þú nennir og getur, tilveran er ögn skemmtilegri fyrir vikið.

kveðja frás Bangui

Hörður Þór Karlsson 13.4.2014 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband