2154 - Land er ekki hægt að eiga

Mér er vel ljóst að orðið „hægt“ sem þarna er, getur haft tvenns konar merkingu: Auðvelt og mögulegt. Seinni merkingin er nútildags miklu algengari og ég meina þetta þannig.

Einn mest notaði „frasinn“ sem náttúruverndarfólk notar er um það að við „eigum“ ekki landið heldur séum aðeins með það í láni frá afkomendum okkar. Það eru margir áratugir síðan ég heyrði þetta fyrst, en það er vissulega mikill sannleikur í þessu fólginn.

Atburðirnir við Geysi hafa mikla pólitíska þýðingu. Skiptingin vinstri og hægri er að miklu leyti að verða úrelt. Fyrst og fremst má segja að hún snúist um mikil eða lítil afskipti ríkisins af atvinnumálum. Skiptingin er miklu fremur núna eftir eignarréttarhugmyndum, mengun og mannréttindum. Stjórnmál hafa alltaf verið flókin. „Elítan“ hefur ætíð reynt að halda „pöplinum“ sem mest frá þeim. Nú á tímum Internetsins og snjallsímanna er það orðið erfiðara en áður. Óvíst er t.d. að yfirvöldum hér á Íslandi takist endalaust að stela frá almenningi eins og tíðkast hefur.

Land er ekki mögulegt að eiga. Eigarrétturinn að öðru leyti getur heldur ekki verið undantekningalaus. Hægt er að segja að Bandaríki Norður-Ameríku séu heimkynni einka-eignarréttarins. Þar í landi var hart tekist á um réttindi svarta minnihlutans á áratugunum eftir miðja síðustu öld. Viðurkennt var að lokum að „svokallaðir eigendur“ þjónustufyrirtækja gætu ekki neitað viðskiptavinum um þjónustu á grundvelli litarháttar og ríkjum bæri skylda til að leggja niður allan rasisma.

Það er skárra að vera vanmetinn en ofmetinn. Best er auðvitað að vera rétt metinn. Að vísu er ekki alltaf kostur á því og alltaf hætta á að mat annarra á manni hallist í aðra hvora áttina. Mjög vafasamt er að láta mat annarra ráða of miklu. Með því að kunna svolítið á tölvur og gúgl er auðvelt að þykjast miklu gáfaðri en maður er. Allir geta sýnst afburðagáfaðir bara ef þeir kunna að koma fyrir sig orði. Vegna ofurvalds menntunar og orðkyngi breyttust áherslur dálítið og farið var að reyna að skara framúr líkamlega og útlitslega og dýrkunin á líkamanum og útlitinu hófst. Tískusveiflur og íþróttir urðu mál málanna. A.m.k. í huga sumra. Reyndar er orðtakið „fögur sál í fögrum líkama“ haft eftir forn-Grikkjum, ef ég man rétt. Orðskviðir ljúga þó oft.

Oft hefur verið sagt að líf mannsins sé þrotlaus leit að einhverju nýju. Djöfulgangurinn í bíómyndum og fjallgöngum ber þessu glöggt vitni. Útivera tekur þó flestu fram og íslensk útivera er ólík flestri annarri. Þar kemur til hættan (eða hættuleysið), mannfæðin, einangrunin, fjölbreytileikinn og veðrið. Gönguferðir mínar á fimmtugs og sextugsaldri um Laugaveg, Kjöl, Fimmvörðuháls, Hornstrandir og víðar eru mér miklu eftirminnilegri en utanferðir til ýmissa landa um svipað leyti og fyrr. Hræddastur er ég þó um að gönguferðir nútildags séu orðnar miklu útlandalegri en áður var.

Já, og svo á ég Ásgautsstaði alveg eftir. Þann 10. desember s.l minnir mig að ég hafi gert talsverða grein fyrir þessu máli og minnst á það í öllum mínum bloggum síðan. Nenni ómögulega að fara að rekja það alltsaman núna.

IMG 0254Stokkið af tilfinningu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband