Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

1997 - Umfangsmesta nefndarskipunaraðgerð í heimi

Nei, ég held ekki. Vil samt ekki vera að fjölyrða mikið um það núna. Kannski kemur eitthvað útúr þessu um síðir. Sigmundur Dvíð má halda það sem hann vill um þetta.

Svanur Gísli skrifar um kattafárið í Kópavogi. Það er eitthvað meira fyrir mig. Er ég þó kattlaus maður eins og er, en Sigurður Þór á eflaust eftir að segja eitthvað um það. Allir kettir sem ég hef kynnst á lífsleiðinni eru mér minnisstæðari en hundarnir. Þessvegna er ég sennilega kattamaður eftir bloggskilgreiningum. Kettir skiptast að mínu viti einkum í inniketti og útiketti. Auðvitað veiða útikettir, það er bara í eðli þeirra. Ég hef bæði séð ketti veiða fugla og mýs. Mýsnar verða svo hræddar ef þær sjá kött að þær verða alveg máttlausar. Útiketti ætti aldrei að reyna að gera að inniköttum. Ef innikettir eru orðnir dálítið stálpaðir þegar þeir eru gerðir að útiköttum má alveg hafa góða stjórn á þeim. Eins og er með öll gæludýr er talsverð fyrirhöfn að hugsa vel um þá og láta þeim líða vel. Vanræktustu kettirnir eru oftast þeir sem fullorðið fólk gefur börnum og ætlast til að þeir sjái um sig sjálfir að mestu. Slíkt gengur ekki í borgum eða bæjum og þannig myndast villikettir sem eru hin mesta plága. Veit þó ekki til að meira sé um þá í Kópavogi en annarsstaðar.

Alla lausagöngu gæludýra ætti skilyrðislaust að banna. Sjaldan ráðast kettir samt á fólk en þeir veiða fugla og skíta í sandkassa og blómabeð og eru almennt til leiðinda fyrir suma að því er virðist, ef þeir eru mikið útivið og ferðast að ráði utan síns heimagarðs. Um hunda fjölyrði ég ekki. Auðvitað eru fuglar í rauninni bara fljúgandi rottur eða mýs, en flestum virðist líka heldur vel við þá.

Konan mín er búin að samþykkja að ég komi mér upp greiðu. Það dugir ekki lengur að nota bara puttana til að reyna að hagræða þessum hárlufsum sem enn eru til staðar. Tala ekki um skeggið. Auðvitað mundi ég renna greiðunni stöku sinnum í gegnum það ef ég ætti slíkt undratæki.

Við skulum róa á selabát
fyrst við eru fjórir.
það eru bæði þú og ég
stýrimaður og stjóri.

Tveir eiga að setjast flötum beinum á gólfið, spyrna saman fótum, taka saman höndum og rugga sér aftur og fram meðan fyrrgreind vísa er höfð yfir. Gjarnan hvað eftir annað. Þennan leik kenndi mamma mér þegar ég var smápatti. Samt er þetta alveg rígfast í minninu. Sama má segja um að rífa ræfil upp af svelli og flá kött (sem var nú frekar erfitt) og kannski margt fleira ef maður mundi einbeita sér slíkri upprifjun.

IMG 3379Hættuleg gönguleið!!


1996 - RUV

Ég hef tekið eftir því að undanförnu þegar ég er að senda blogg upp á Moggabloggið þá uppfærist það ekki alveg strax. Stundum líða svona 3 til 4 mínútur. Hef velt fyrir mér hvort þetta sé einhver næturstilling því oft gengur þetta glimrandi vel og allsekkert stopp er. Þetta gerir mér svosem ekkert til, en ég get þurft að bíða smávegis því ég þori ekki að auglýsa bloggið á fésbókinni fyrr en greinin hefur birst á réttum stað. Þetta er nú eiginlega það eina sem ég get fundið að því að blogga á Moggablogginu. Jú, einhverjir hafa kvartað undan því að sífellt verði erfiðara að finna bloggið á mbl.is síðunni. Vandalaust ætti að vera fyrir þá sem hugsa sér að koma aftur að setja bloggið í bookmark eða eitthvað. Sumir vilja líka líta á það sem einhverskonar pólitískt „statement“ hvar bloggað er. Ekki finnst mér það.

Ríkisstjórnin vill koma böndum yfir Ríkisútvarpið. Menntamálaráðherra hefur flutt um það tillögu á alþingi. Sérstaklega hugsa ég að þeir vilji þagga niður í sjónvarpsfréttamönnunum. Það mál ásamt afslættinum á veiðileyfagjaldinu gæti orðið stjórninni þungt í skauti. Fyrrverandi ríkisstjórn virtist stundum hikandi mjög. T.d. hefði vel verið hægt að stöðva málþóf sem beint var gegn henni. Það mátti samt ekki. Núverandi stjórn er mun líklegri til að beita slíku valdi. Þeim meðölum kann vel að verða beitt, jafnvel á yfirstandandi sumarþingi.

Ég horfi stundum á sjónvarp frá alþingi. Það getur verið fróðlegt en oft er það hundleiðinlegt. Þó ég hafi oftast gaman af að nefna nöfn ætla ég ekki að gera það að þessu sinni. Mér finnst einfaldlega að ef menn eru illa kvefaðir eigi þeir ekki heima í ræðustól alþingis. Óáheyrilegt mjög er að hlusta á sífelldar ræskingar og nefsog meðan fyrirfram samin ræða er lesin með erfiðleikum. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að það sé dónaskapur að sjúga upp í nefið svo aðrir heyri.

Skógarþröstur í sjálfheldu, var fyrirsögn í blaði sem ég las áðan hér á netinu. Nennti ekki að lesa alla fréttina. Á hverjum degi villast tugir eða hundruð smáfugla hér á Íslandi inn í gróðurhús eða önnur hús. Þegar ég var unglingur vann ég í gróðrarstöð. Það kom fyrir næstum daglega að smáfuglar villtust inn í gróðurhús þar og komust ekki út aftur. Að ná þeim var mjög einfalt. Aðeins að elta þá í smástund og þá urðu þeir svo þreyttir að þeir gátu ekki lengur flogið og auðvelt var að handsama þá og hjálpa út aftur.

Úr nærfataverslun. (sennilega á Þorláksmessu). Viðskiptavinur ætlar að kaupa brjóstahaldara á konu sína en veit ekki alveg um rétta skálastærð.

Afgreiðslukona: Já einmitt það. Hvað ætli brjóstin á henni séu stór? Eins og melónur?
Viðskiptavinur: Neei, ætli það.
Afgreiðslukona: Eins og appelsínur þá?
Viðskiptavinur: Neei, varla.
Afgreiðslukona: Eins og epli, Kannski?
Viðskiptavinur: Neei, það held ég ekki?
Afgreiðslukona: Sítróna?
Viðskiptavinur: Nei.
Afgreiðslukona: En egg?
Viðskiptavinur: Já, spælegg.


Eiginlega er þetta Internet hrútleiðinlegt.

Nú, eru hrútar þá leiðinlegir?

Ég sagði það ekki. En hefurðu séð hrútaberjalyng?

Nei, af hverju ættu þeir að berja það?

Erpulsakum?‘

Já, auðvitað er púls á þeim.

IMG 3375Fífill.


1995 - Bannað að pissa á Jónas

Ekkifrétt dagsins er greinilega sú að starfsfólk Húsdýragarðsins éti skjólstæðinga sína. Dýrin fá víst ekkert tækifæri til að hefna sín. Annars er ég alltaf að fá minna og minna álit á DV. Ætli það sé Sigmundi Davíð að kenna?

Jónas Kristjánsson er líka að lækka svolítið í áliti hjá mér. Hann segir að það sé bannað að pissa á Vegamótum á Snæfellsnesi. Einu sinni var ég útibússtjóri þar. Kaupfélag Borgfirðinga átti staðinn þá. Úlfar Jacobsen var að myndast við að hefja einhverjar vikulegar ævintýraferðir með túrhesta um þetta leyti og lét stoppa rétt við Vegamót og gefið var á garðann þar. (Allt hefur sennilega verið innifalið) Túrhestarnir komu síðan trítlandi á klósettið til að skola diskana og þessháttar en keyptu ekki neitt. Ég var ekki hrifinn af þessu og ræddi við fararstjórann og mig minnir að hætt hafi verið að stoppa við Vegamót.

Einhverntíma á Vegamótaárum mínum hækkaði líka verð á sykri uppúr öllu valdi. Varð hann um sinn hlutfallslega miklum mun dýrari en nú er. Þá tókum við á Vegamótum eftir því að stundum eftir komu túrhesta voru öll sykurkör tóm. Eftir nokkrar rannsóknir þóttumst við finna út að það væri einkum eftir heimsóknir þýskra hópa sem slíkt skeði. Þetta er ekki sagt Þjóðverjum til hnjóðs, heldur sýnir þetta sparsemi þeirra betur en margt annað.

Villi í Köben þykist núna eiga heima í Albertslund. Samkvæmt mínum bókum er Albertslund í Kaupmannahöfn. Sjálfsagt er samt hægt að deila um það. 15 kílómetrar eða svo munu vera þangað frá Lækjartorgi þeirra í Kaupmannahöfn og eflaust er það sjálfstætt bæjarfélag.

Þetta verður stutt blogg, en kannski ekkert ómerkilegra fyrir það. Ég er alltaf að reyna að komast í bloggfrí, en á erfitt með að hemja mig.

IMG 3362Eggjaskurn.


1994 - Pólitík, farsímar o.fl.

Mér finnst Villi í Köben vera eins og Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri að því leyti að honum hættir til að taka alltof mikið uppí sig. Að vísu eru þeir á sitt hvorum kantinum í pólitík en nauðalíkir samt að þessu leyti. Báðum hættir til að fullyrða ýmislegt sem áreiðanlegt er að þeir gætu aldrei staðið við. Kannski er ég svona líka. Eins og þeir er ég slæmur með að nefna nöfn. Geri alltof mikið af því. Helst á maður að vera svo loðinn og óskýr að engin leið sé að hanka mann á neinu. Sumir eru þannig. Verst að það er bara svo fjandi leiðinlegt að blogga þannig.

Svo ég haldi mig við pólitíkina þá er það mikil ofætlun að halda að núverandi ríkisstjórn geti gert allt per samstundis sem fyrrverandi stjórn gat ekki á fjórum árum. Auðvitað lugu þeir til að komast að kjötkötlunum, en var bara ekki nauðsynlegt að yfirbjóða aumingjana sem ekkert gátu?

Það er of seint að iðrast eftir dauðann. Ekki er líklegt að núverandi stjórnarandstöðu takist að hrekja núverandi stjórn frá völdum nærri strax. Allt bendir þó til að það sé fremur keppikeflið en fara allt í einu að hugsa um þjóðarhag. Ekki gerir Simmi það. Úðar bara í sig góðum mat og fitnar í sífellu. Pönnsurnar eru víst búnar.

Eygló Harðardóttur finnst áreiðanlega leiðinlegt að geta ekki að fullu staðið við kosningaloforðin, en veruleikinn er bara svona. Henni er kannski ekkert vandara um en öðrum með að svíkja kosningaloforð. Átti það ekki að vera fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að afnema allar skerðingar hjá eldri borgurum og örykjum? Nú er það ekki hægt en samt er mikilvægt að sýna lit. Hún vill vel. Ég er sannfærður um það.

Síminn er greinilega mikilvægasta tæki unglinganna í dag. Mega ekki vera að því að tala við nokkurn mann, heldur hamast á farsímunum lon og don. Man ennþá hvað ég varð hissa við mín fyrstu kynni af handfrjálsum búnaði. Maður einn stóð við vörurekka í verslun og talaði hástöfum. Enginn var hjá honum og þegar ég nálgaðist hann var ég í vafa um hvort ég ætti að svara honum eða bara vorkenna honum geðveikina. Það var svo ekki fyrr en ég var kominn framhjá honum að það rann upp fyrir mér ljós. Gott ef ég sá ekki einhvern óskapnað í eyranu á honum og þráð þaðan. 

Nú hefur virkjanaæði gripið ráðamenn. Menn eins og Ómar Ragnarsson reyna þó að malda í móinn. Sumir virðast bara hafa áhuga á að nota þetta æði í pólitískum tilgangi. Það er slæmt því andstaða sem ekki er sprottin af neinu öðru en hatri á stjórnvöldum er lítils virði þegar til lengdar lætur og kastanna kemur. Nú er ég farinn að tala (eða skrifa) svo hátíðlega að til vandræða horfir. Allir þykjast vera náttúruvinir ef þeir eru spurðir. Ég er svona líka og það á ekkert frekar við um okkur Íslendinga en aðra. Samt er það svo að fyrr eða síðar munum við drukkna í eigin skít. (Þetta var nú ekki hátíðlegt hjá mér).

Rigningin æðir um allt og hlífir engu. Hvernig fara veðurfræðingar að því að þekkja úrkomuský frá öðrum meinlausari? Nei, mig langar annars ekkert að vita það. Það er ágætt að vita sem fæst en þykjast samt hafa vit á öllu. Er það ekki þannig sem besservisserar starfa? Ég er óstöðvandi í blogginu. Er samt að hugsa um að taka mér rigningarfrí núna og reyna að gera eitthvað að gagni.

IMG 3361Trjágrein.


1993 - Kerið í Grímsnesi

Frétt er um það á mbl.is að Kerfélagið hafi nú hafið gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi. Sem betur fer hef ég oft séð Kerið og aldrei borgað fyrir það. Það segir samt ekkert um þessa framkvæmd. Um gjaldtökuna má annars margt segja og verður sjálfsagt fjölyrt mjög um þessa framkvæmd. 350 krónur mun kosta að sjá dýrðina.

Mín skoðun er sú að það verði ekki bæði sleppt og haldið. Ef það á í alvöru að stórfjölga ferðamönnum sem sækja landið heim og græða sem mest á þeim mun eitthvað svona verða mjög algengt. Íslendingar hafa hingað til viljað hafa frelsi til þess að flækjast um landið sitt að vild og skoða það sem þeim sýnist án þess að borga sérstaklega fyrir það. Einu sinni þótti t.d. sjálfsagt að tjalda hvar sem er. Hræddur er ég um að svo sé ekki lengur. 

Aðfinnslur vegna málfars í fjölmiðlum eru algengar, en því miður oftast líka leiðinlegar. A.m.k. er ég hræddur um að þeim sem helst þyrftu á þeim að halda finnist það. Eiður Guðnason er alveg búinn að týna sjálfum sér í Molum sínum þó þeir sem lesa þá séu yfirleitt ánægðir með þá. Svipað er að segja um Orðhengilinn. Þar er velt vöngum yfir mörgu skemmtilegu, en vafasamt er að þeir sem helst þyrftu á leiðbeiningum um rétt málfar að halda séu tíðir gestir þar.

Þá er eftir að minnast á skólakerfið. Vani margra er að kenna því um flest það sem aflaga fer. Auðvitað hefur kennsla í íslensku farið minnkandi og e.t.v. er það ein af ástæðunum fyrir hrakandi málfari. Eldri kynslóðir eru þó nær alltaf mótfallnar málfari yngri kynslóða. Vafasamt er þó að sú íhaldssemi sé réttmæt. Kunnátta í meðferð netsins (Orðabækur og Google) leysir margan vanda, en sú kunnátta er ekki einhlít. Ekkert getur komið í staðinn fyrir æfingu og þjálfun. Nú er ég búinn að blogga nokkuð lengi og get fullyrt að það að setja orð á blað verður sífellt auðveldara. Jafnvel hef ég áhyggjur af því að það sé að verða fullauðvelt. Meiningin getur orðið fyrir barðinu á of mikilli þjálfun.

Mér finnst alveg nóg um hve margir lesa bloggið mitt. Mér hefur sjálfum fundist að ég skrifi aðallega um blogg og fésbók. Skrifa þó oft um eitthvað annað og ánægður varð ég þegar einhver líkti blogginu mínu við spjallþáttinn sem einu sinni var í útvarpinu og nefndist „Um daginn og veginn.“ Ekki get ég gert að því þó ég sé stórhaus einsog Brjánn (Brian Curly) kallar það. Held að ég hafi orðið það á svipuðum tíma og af svipaðri ástæðu og Lára Hanna á sínum tíma. Hún er samt fyrir löngu búin að yfirgefa Moggabloggið og orðin afar vinsæll bloggari. Varð svolítið hissa í gær þegar ég sá að Jóhannes Laxdal Baldvinsson er kominn í 398. sæti á 400 listanum á Moggablogginu. Hann er bæði prýðilega hagmæltur og bloggið hans er yfirleitt mjög skemmtilegt aflestrar fyrir utan að hann á það til að athugasemdast hjá mér. Skýringin er eflaust sú að hann hefur ekkert skrifað síðan í byrjun þessa mánaðar og er sennilega ekki stórhaus eins og ég.

900 ára gamall hundaskítur. Það fer ekki á milli mála að þetta er frétt dagsins. Sjálfur Snowden lávarður bliknar við hliðina á þessum ósköpum. Tala nú ekki um Pútín greyið, hann er eins og hver annar Schwartzenegger og getur ekki komið höndunum nema í námunda við mjaðmirnar fyrir vöðvum.

IMG 3355Lækur.


mbl.is Hefja gjaldtöku við Kerið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1992 - Undirskriftasöfnun um ESB

Til hvers er seinni undirskriftasöfnunin sett af stað? Hún heitir „Klárum dæmið“ og fjallar um viðræðurnar við ESB. Ég er ekki búinn að skrifa undir því ég var að sjá minnst á hana rétt í þessu (á mánudagskvöldi) Kannski er hugsunin bara sú að þreyta fólk. Ellefu þúsund og eitthvað voru búnir að skrifa undir þegar ég sá þetta. Eru undirskriftir á netinu að verða séstök íþróttagrein? Útheimtir ekki mikla krafta. Svo getur alveg verið séstök íþróttagrein að bera saman undirskriftasafnanir og túlka með ýmsum hætti.

Fésbókin er á margan hátt frábær. Allir geta haft gagn af henni. Hún er ekkert séstaklega fyrir þá sem skilja hana út í hörgul. Svo er alltaf verið að breyta henni.

Tímaritið Skoðun (skodun.is) er búið að vera á netinu síðan 1999. Ritstjóri er Sigurður Hólm Gunnarsson. Þar er margt ágætra greina.

Er að lesa þessa dagana í kyndlinum mínum kynningu og upphaf á bók sem heitir: The Emperor of All Maladies: A Biography of Cancer. Þessi bók er eftir Siddhartha Mukherjee og er ákaflega athyglisverð. Hef ekki keypt hana ennþá a.m.k., en er enn að pæla í gegnum kynninguna. Þarna er rakin saga krabbameins allt fram á okkar daga (bókin er gefin út árið 2011) á ákaflega auðskilinn og einfaldan hátt. Þegar ég var að alast upp mátti helst ekki minnast á þennan sjúkdóm. Hann var svo hræðilegur. Engin lækning var til og þeir sem hann fengu voru nánast dauðadæmdir. Nú er öldin önnur. Margir sigrar hafa unnist í baráttunni við þennan sjúkdóm, sem reyndar er margir sjúkdómar en lýsir sér aðallega í því að frumuskipting verður stjórnlaus.

Hvað skyldi vera það erfiðasta við að vera læknir? Sennilega að taka ákvörðun um að gefast upp og hætta allri meðferð annarri en þeirri sem líknandi er. Sennilega er léttast ef sjúklingurinn getur tekið þá ákvörðun sjálfur eða fjölskylda hans, en annars er líklega reynt að hafa marga í samráði um slíkt. Sjálfur hef ég nokkrum sinnum þurft að taka slíkar ákvarðanir varðandi gæludýr og bara það er verulega erfitt.

Bókmenntasmekkur minn er dálítið skrýtinn. Fyrir nokkru las ég bókina „Stiff“ eftir Mary Roach og skrifaði eitthvað um hana í maí síðastliðnum. Nú er það nýjasta bókin eftir hana sem ég þarf endilega að fara að lesa. Hún heitir: Gulp. Adventures on the Alimentary Canal.

Stiff fjallaði um fjölbreytt not af líkum og The Alimentary Canal er ekki bara vélindað heldur öll leiðin frá munni og niður úr. Svo held ég að einhver bók sé til eftir Mary um þyngdarleysi og áhrif þess á mannslíkamann.

Mikið er talað um nauðgunarmál o.þ.h. Hæstiréttur sneri nýlega við héraðsdómi og sýknaði menn, sem áður var búið að dæma til fangelsisvistar. Ég hef ekki lesið dóm hæstaréttar, þó ég ætti vel að geta það. Sú hugmynd sem ég hef fengið um verknaðinn af fréttum er að hæstiréttur sé í sjálfu sér sammála um að hinir ætluðu gerningsmenn séu sekir um hann, en ýmislegt í sambandi við rannsóknina og ytri aðstæður valdi því að ekki sé hægt að staðfesta dóminn.

Þetta er dálítið slæmt, því nauðsynlegt er að sæmileg sátt sé um úrskurði dómstóla. Hér á Íslandi hefur svo verið lengi og nauðsynlegt er að þannig verði það áfram. Skipun manna til dómsstarfa er ekki hafin yfir þjóðarvilja og hugsanlegt er að láta almenning ráða einhverju um þá skipun. Ekki er samt víst að bein kosning sé það rétta og alls ekki í æðstu dómstóla landsins.

IMG 3351Milli húsa.


1991 - Fréttaskýringar Evrópuvaktarinnar

Fréttaskýringar Evrópuvaktarinnar eru greinilega vinsælar hjá Moggablogginu. Þetta segi ég af því að ég var að skoða vinsældalistann þar. Kannski var ég að gera það vegna þess að mín blogg eru óvenju vinsæl núna.

Fólk virðist æsa sig óhemju mikið útaf pólitík þessa dagana. Mest auðvitað útaf undirskriftasöfnuninni og er það engin furða. Verst er að hún er túlkuð út og suður og sennilega túlkar Ólafur Ragnar Grímsson hana eins og honum sýnist réttast, endi málið hjá honum. Kannski er það bara best. A.m.k. er ástæðulaust að amast fyrirfram við túlkun hans.

Mín túlkun á þessari undirskriftasöfnun er einkum sú að „þjóðin“, sem er alveg (eða að mestu) óskilgreint hugtak, vilji hafa áhrif á stjórn landsins í stað þess að vera sífellt sett til hliðar. Ég sé ekki að þetta sé neinn „Lúkas“.

Þjóðin þekkir kannski ekki öll þau blæbrigði sem geta verið á málum, en virðist samt taka nokkurnvegin réttar ákvarðanir, a.m.k. er nauðsynlegt frá mínum bæjardyrum séð að sætta sig við þær. Núverandi ríkisstjórn og stuðingsmönnum hennar þarf ekki að koma neitt á óvart þó vinsældirnar séu ekki miklar.

Sum kvöldin sinni ég fésbókinni afar lítið, önnur kvöld meira eins og gengur. Hef samt áhyggjur af því að hún steli alltof miklum tíma frá manni, sem betur væri varið í eitthvað annað. Það er þetta „eitthvað annað“ sem hefur pólitískan undirtón, sem ég vil þó ekki fara nánar úti að þessu sinni.

Mér er ákaflega illa við að aðrir skuli telja sig geta ákveðið hvað ég þurfi að lesa. Samt virðast fáir hika við að setja orðið „skyldulesning“ við athyglisverðar greinar sem þeir rekast á. Mér finnst allt í lagi að mæla með greinum en þetta orð fælir mig fremur frá en hitt. Þó les ég stundum slíkar greinar. Mér finnst þetta sýna að menn skuli umgangast orð með varúð. Ég reyni að gera það. Hvernig mér tekst upp er annarra að dæma um.

Kannski er Snowden málinu lokið og kannski er það bara rétt að byrja. Mér finnst samlíking Ómars Ragnarssonar á því sem Stasi gerði og því sem Bandríska ríkisstjórnin er að gera núna alls ekki út í hött. Auðvitað eru aðferðirnar háðar því tæknistigi sem yfirvöld ráða yfir. Það er ágætt að segja að þetta auki öryggi manna og eflaust gerir það svo. Samt er þetta „Stóra Bróður legt“. (Þar er ég auðvitað að vísa í bókina frægu 1984) Munum að tjáningarfrelsið ER mikilvægt. Það er ekkert betra þó næstum allir sætti sig við skerðingu á því. 

IMG 3349Hjáleið.


mbl.is Snowden sagður ætla til Venesúela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1990 - Stjórn og stjórnarandstaða

Það er varla hægt að ætlast til að ég bloggi svona oft og mikið eins og ég geri. Mér gengur jafnvel betur að skrifa ef ég hef ekki lesið hugleiðingar annarra um sömu mál. Oft byrja samt þessar hugleiðingar mínar á því að ég rífst við sjónvarpið. Sjónvarpið og netið eru mínir helstu fréttamiðlar. Ef það er ekki á netinu er það varla til í mínum huga. Þar má finna næstum allt ef maður nennir að sökkva sér í það.

Ær og kýr flestra þingmanna virðast vera japl og jaml um einskisverða hluti. Nær væri fyrir þá að einhenda sér í þá hluti sem skipta einhverju máli og hætta þessu sífellda hnútukasti. Undirskriftasöfnun sú hin nýjasta er einkum ákall um breytta forgangsröðun. Þjóðin vill sjálf fá að ráða málum, en ekki að sér sé ávallt haldið frá öllum meiriháttar ákvörðunum. Frændhyglin og spillingin er allt að drepa. Undirheimahagkerfið er til vitnis um ófullkomleika stjórnmálamanna og embættismanna.

Sagt er að Egill Helgason sé að hætta með Silfrið en haldi áfram með bókmenntaþáttinn. Hann hefur að flestu leyti staðið sig vel í Silfrinu. Einkum í því að fá rétta fólkið í þættina. Vona bara að sjónvarpinu takist vel upp í vali á eftirmanni hans. Treysti Páli Magnússyni alveg til þess.

Ótímabær dauðsföll þekkts fólks eru mjög í tísku núna. Vil ekki vera með neina upptalningu á því, en sennilega er sú tilgáta rétt að sumarfríin og los það sem á marga kemur um þetta leyti eigi þarna einhvern hlut að máli. Þessi tilhneiging er ekki bara hér á Íslandi þó við könnumst best við þá Íslendinga sem burtkallaðir eru. Þó hlýtt sé í veðri og sólríkt núna er ekki hægt að kenna neinni hitabylgju um þetta.

Sigurður Ingi landbúnaðar- og skúffumálaráðherra er með óheppnustu mönnum. Nema hann sé svona vitgrannur. Það finnst mér þó ólíklegt. Hann þarf að gæta betur að sér ef hann á ekki að missa starfið fljótlega. Stjórnarandstaðan grípur hvert tækifæri sem býðst til að gera lítið úr honum. Á meðan fá aðrir ráðherrar frið. Eða svo virðist vera.

Þessar tilraunir stjórnarandstöðunnar til að hrekkja ráðherrana eru dæmdar til að mistakast. Það er engan vegin líklegt þó menn æsi sig mikið að stjórnarskipti verði. Þau mál sem hingað til hafa verið til umræðu eru ekki mikilvæg og tekist hefur að finna sæmilegar skýringar. Samt er stjórnin svolítið undir hælnum á stjórarandstöðunni og getur sjálfri sér um kennt. Á síðasta kjörtímabili var megináhersla stjórnarandstöðunnar á að klekkja á stjórninni og minna hugsað um þjóðarhag. Á vissan hátt er eðlilegt að áfram sé haldið á sömu braut.

Auðvitað er óþarfi að vera með þennan æsing. Meirihluti sumarþingsins er samt ansi auglýsingakenndur. Skrumkenndur jafnvel.

Það liggur við að maður vorkenni Árna Johnsen. Það er þó örugglega óþarfi. Í síðustu þingkosningum missti hann þingsæti sitt og getur ekki sungið meira í ræðustól alþingis og svo er búið að taka af honum brekkusönginn núna. Það væri kannski ráð fyrir hann að stefna á Kvíabryggju aftur, þar stóð hann sig vel og átti greinilega heima. Einhverjir kunna að hafa haft áhuga á þjóðhátíðinni í Eyjum vegna Árna, en svo eru líka eflaust einhverjir sem hafa sett fyrir sig að mæta þar hans vegna. Fjölmiðlar tala meira um eftirmann hans en hann sjálfan. Það hlýtur honum að finnast súrt.

IMG 3335Hvert er íþróttaálfurinn að vísa Sollu stirðu?


mbl.is „Gríðarlegar upphæðir“ færu út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1989 - Undirskriftasöfnunin

Veiðigjaldsmálið er að verða svolítið heitt núna. Jú, ég skrifaði undir og sé ekkert eftir því. Þingmönnum og ráðherrum hefur tekist að hægja aðeins á hraðanum í undirskriftasöfnuninni gegn LÍÚ, en vitanlega geta þeir ekki slegið ryki í augu almennings endalaust. LÍÚ og bændamafían (ekki sjómenn og allsekki bændur sjálfir) ráða samt alltof miklu í þessu þjóðfélagi okkar. Almenningur virðist telja ríkisstjórnina nánast handbendi ráðamanna þar, en gegna henni samt. Mikilvægi þessara atvinnugreina (landbúnaðar og sjávarútvegs) hefur hraðminnkað undanfarna áratugi. Ef ekki er reynt að styrkja gamla tímann með þjóðrembutali þá er gjarnan prófað að nota landsbyggðar- og höfuðborgar-taktíkina en hún er enn ein tíkin sem úrelt er.

Vitanlega er það haugalygi hjá ráðherranum að undirskriftirnar sýni að fella eigi veiðigjaldið niður. Hinsvegar má búast við að gengið verði fellt fljótlega því útgerðin heimtar sitt og líklega hefur einhver verið búinn að lofa einhverjum einhverju. Ansi er þetta loðið og illskiljanlegt hjá mér. En pólitíkin er bara svona.

Sólin ekki sinna verka sakna lætur
jörðin undan grímu grætur
grasabani stattu á fætur.

Hef ekki hugmynd um hver samdi þessa vísu en hún á ágætlega við núna. Sólskinið er búið að vera meira í dag (í gær) en undanfarið. Ætli sumarið sé bara ekki loksins komið.

Villi í Köben liggur á því lúalagi að lesa bloggið mitt, eins og ég vanda við að gera honum ekki til hæfis. Ég get víst ekkert við því gert. Nú er hann svo langt leiddur að hann líkir okkur saman. Það kann ég ekki við. Hef ekki enn fyrirgefið honum hvað hann talaði illa um Bobby Fischer heitinn, og svo vildi hann (eða vildi ekki) láta reka mig af Moggablogginu. Eiginlega er það eina ástæðan fyrir því að ég er ekki enn farinn þaðan.

Ég held að það sé engin hætta á því að Snowden komi hingað. Ef ríkisstjórnin gefur svolítið eftir í veiðigjaldsmálinu veslast Snowdenmálið upp og hverfur. Sú er a.m.k. skoðun mín þessa stundina. Snowden sjálfur leitar kannski hælis í einhverju sendiráði í Hong Kong.

Kannski er Sigmundur Davíð farinn að finna það núna að forsætisráðherradómurinn er ekki eintóm sæla. Vorkenni honum samt ekki vitund. Margt bendir til þess að stjórnarandstaðan verði óvenju hatrömm að þessu sinni. Þar að auki hefur stjórnmálaáhugi almennings stóraukist með tilkomu netsins. Stuðningur við umhverfisvernd af öllu tagi hefur einnig aukist mikið og sú ráðstöfun að leggja Umhverfisráðuneytið niður (eða setja það ofan í skúffu hjá öðrum ráðherra) kann að reynast mjög misráðin.

IMG 3320Steinar o.fl.


1988 - LÍÚ og kvótinn

Nútíminn er undarleg blanda af konsjúmerisma og hedonisma. Í stjórnmálum er kapítalisminn að drepast eftir að hafa gengið af kommúnismanum dauðum fyrir svona rúmum tuttugu árum. En hvað tekur þá við? Mér finnst sósíalismi og natúralismi allskonar vera í mikilli sókn um þessar mundir. Sú kreppa sem nú skekur hinn kapítalíska heim á eftir að breyta hugsunarhætti fólks. Þjóðremban er t.d. á undanhaldi eftir að hafa átt blómaskeið sitt uppúr heimsstyrjöldinni síðari.

Magíska talan varðandi undirskriftasöfnunina er sennilega þrjátíu þúsund. Held að ÓRG mundi eiga erfitt með að neita að fara eftir áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu ef undirskriftir verða svo margar. Með hjálp forsætisráðherra kann þó að vera að hann finni undankomuleið.

Ekki skil ég af hverju menn (og konur) eru að lesa bloggið mitt. En það er auðvitað ekki mitt að skilja. Mitt er að skrifa og skrifa sem allra mest og það helst án þess að segja nokkuð. Ef ég segi of mikið móðga ég einhvern. En hvað gerir það til? Ekki móðgast ég þó menn hætti að lesa þetta blogg.

Í dag er (eða í gær var) kvenréttindadagurinn. Reyndar eru það ansi margir dagar sem þær vilja eiga, en sama er mér. Ekki vil ég eiga þá. Af því tilefni vil ég aðallega segja að mér finnst að á minni löngu ævi (ehemm) hafi jafnrétti karla og kvenna talsvert potast áfram hér á okkar Ísa köldu landi. (Launamálin má vel hafa til viðmiðunar, þó að mörgu fleiru sé að hyggja.) Þessvegna finnst mér það afleitt og eiginlega alveg óásættanlegt (einsog í tísku er að segja) að við séum jafnvel að fjarlægjast jafnstöðu í þeim efnum. Mér finnst ósköp skiljanlegt að kvenfólki finnist hægt ganga í launajafnréttinu en karlmönnum aftur á móti furðu hratt, en að fara afturábak er einum of mikið.

Var að enda við að lesa grein eftir Smára McCarty um Brynjar Níelsson og rökvillur hans í kvótamálinu. Lára Hanna benti á þessa grein á fésbókinni. Vissulega er grein Smára sannfærandi og vel má halda því fram að hann tæti Brynjar í sig. Grein Brynjars sem hann einbeitir sér að var líka óvenju léleg. Hann getur gert betur en þetta. Í mínum augum skemmir það nokkuð grein Smára að íslenskan er ekki eins vel rituð og ákjósanlegast hefði verið. A.m.k. finnst mér það ekki. Vel getur verið að sumar villurnar verði leiðréttar fljótlega en jafnvel þó það sem mér finnst vera villur væri dregið frá er greinin mjög góð. Ekki þarf að búast við því að Brynjar svari þessari grein í nokkru, enda er hún svo rökfræðilega rétt að það er ekki hægt.  

Í athugasemdum við greinina útskýrir Daniel Magnússon nokkuð vel hvers vegna Brynjar hafi skrifað grein sína. Sjálfur vil ég helst ekki vera stimplaður „virkur í athugasemdum“ og fjölyrði því frekar um þetta mál hér, þó lesendur yrðu sennilega mun fleiri ef ég bryti þann odd af oflæti mínu að athugasemdast við greinina.

IMG 3322Vinnustofa.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband