1989 - Undirskriftasöfnunin

Veiðigjaldsmálið er að verða svolítið heitt núna. Jú, ég skrifaði undir og sé ekkert eftir því. Þingmönnum og ráðherrum hefur tekist að hægja aðeins á hraðanum í undirskriftasöfnuninni gegn LÍÚ, en vitanlega geta þeir ekki slegið ryki í augu almennings endalaust. LÍÚ og bændamafían (ekki sjómenn og allsekki bændur sjálfir) ráða samt alltof miklu í þessu þjóðfélagi okkar. Almenningur virðist telja ríkisstjórnina nánast handbendi ráðamanna þar, en gegna henni samt. Mikilvægi þessara atvinnugreina (landbúnaðar og sjávarútvegs) hefur hraðminnkað undanfarna áratugi. Ef ekki er reynt að styrkja gamla tímann með þjóðrembutali þá er gjarnan prófað að nota landsbyggðar- og höfuðborgar-taktíkina en hún er enn ein tíkin sem úrelt er.

Vitanlega er það haugalygi hjá ráðherranum að undirskriftirnar sýni að fella eigi veiðigjaldið niður. Hinsvegar má búast við að gengið verði fellt fljótlega því útgerðin heimtar sitt og líklega hefur einhver verið búinn að lofa einhverjum einhverju. Ansi er þetta loðið og illskiljanlegt hjá mér. En pólitíkin er bara svona.

Sólin ekki sinna verka sakna lætur
jörðin undan grímu grætur
grasabani stattu á fætur.

Hef ekki hugmynd um hver samdi þessa vísu en hún á ágætlega við núna. Sólskinið er búið að vera meira í dag (í gær) en undanfarið. Ætli sumarið sé bara ekki loksins komið.

Villi í Köben liggur á því lúalagi að lesa bloggið mitt, eins og ég vanda við að gera honum ekki til hæfis. Ég get víst ekkert við því gert. Nú er hann svo langt leiddur að hann líkir okkur saman. Það kann ég ekki við. Hef ekki enn fyrirgefið honum hvað hann talaði illa um Bobby Fischer heitinn, og svo vildi hann (eða vildi ekki) láta reka mig af Moggablogginu. Eiginlega er það eina ástæðan fyrir því að ég er ekki enn farinn þaðan.

Ég held að það sé engin hætta á því að Snowden komi hingað. Ef ríkisstjórnin gefur svolítið eftir í veiðigjaldsmálinu veslast Snowdenmálið upp og hverfur. Sú er a.m.k. skoðun mín þessa stundina. Snowden sjálfur leitar kannski hælis í einhverju sendiráði í Hong Kong.

Kannski er Sigmundur Davíð farinn að finna það núna að forsætisráðherradómurinn er ekki eintóm sæla. Vorkenni honum samt ekki vitund. Margt bendir til þess að stjórnarandstaðan verði óvenju hatrömm að þessu sinni. Þar að auki hefur stjórnmálaáhugi almennings stóraukist með tilkomu netsins. Stuðningur við umhverfisvernd af öllu tagi hefur einnig aukist mikið og sú ráðstöfun að leggja Umhverfisráðuneytið niður (eða setja það ofan í skúffu hjá öðrum ráðherra) kann að reynast mjög misráðin.

IMG 3320Steinar o.fl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sólin ekki sinna verka sakna lætur.jörðin undan grímu grætur,

grasabani, komdu á fætur.

Ef þú hefir heiftarhug við heilög stráin.Nú, þar dagsins birtir bráin,

berðu að þeim hvassa ljáinn!

Sigurður Breiðfjörð.

Númarímur?

Haukur Kristinsson 21.6.2013 kl. 04:43

2 identicon

Sólin ekki sinna verka sakna lætur,

jörðin undan grímu grætur,

grasabani, komdu á fætur.

Ef þú hefir heiftarhug við heilög stráin.

Nú, þar dagsins birtir bráin,

berðu að þeim hvassa ljáinn!

Sigurður Breiðfjörð.

 

Haukur Kristinsson 21.6.2013 kl. 04:48

3 identicon

Númarímur.

Tólfta ríma.

17. Dýrin víða vakna fá

varpa hýði nætur

grænar hlíðar glóir á

grösin skríða á fætur.

18. Hreiðrum ganga fuglar frá

flökta um dranga bjarga

sólarvanga syngja hjá

sálma langa og marga.

Snillingurinn okkar, Sigurður Breiðjörð

Haukur Kristinsson 21.6.2013 kl. 05:03

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Haukur. Ég er ekki hissa á því að Sigurður Breiðfjörð hafi ort þetta. Fáir fara betur með gömlu rímnahættina en hann.

Sæmundur Bjarnason, 21.6.2013 kl. 07:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband