Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

1872 - Einhleypingar og tvíhleypingar

Greinilegt er að kosningarnar í vor eru ofarlega í huga þeirra sem áhuga hafa á stjórnmálum. Sennilega verður á næstu vikum og mánuðum, betur en venjulega fylgst með fréttum, skoðanakönnunum, hrunmálum og öðru sem líklegt er að hafi áhrif á stjórnmálaskoðanir fólks. Netið mun ekki fara varhluta af þessu öllu, en ég ætla að reyna að láta það ekki hafa of mikil áhrif á mig og halda áfram að blogga á líkan hátt og ég hef gert. Stjórnmálin hafa samt áhrif á mig og í rauninni mun á næstunni allt litast af þessum ósköpum.

Flestir hafa svolitlar ranghugmyndir um sjálfan sig. Það er bara eðlilegt því ef þú sérð ekki sjálfur hve frábær þú ert (í einhverju) þá er ekki hægt að ætlast til þess af öðrum. Ég hef löngum huggað mig við það að enginn maður gæti staðið mér framar að öllu leyti. Ég hlyti að geta slegið hann út í einhverju!! Þannig er vel hægt að þumbast í gegnum lífið. Að sjá genin sín svo halda áfram að vera til í einhverjum öðrum er mikil sæla. Kannski sú mesta.

Sigurður Þór Guðjónsson skrifaði um einhleypinga og tvíhleypinga um daginn. (Ekki byssur þó.) Það er alveg rétt hjá honum að öll þjóðfélagsgerðin, skattkerfið og hvað sem er, virðist einkum vera gert fyrir tvíhleypinga. Kannski er það skiljanlegt. Mörgum finnst að sú þjóðfélagsgerð sem við lifum í hljóti að vera sú besta. En er hún það? Um það má vissulega deila, en ákveðið magn af pólitískri rétthugsun, föðurlandsást, trúgirni, íhaldssemi og frjálslyndi er nauðsynlegt til að halda þjóðfélaginu saman. Sundrað þjóðfélag er hættulegt bæði sjálfum sér og öðrum. Einhleypingar hafa lítinn rétt. Allt miðast við að fara sem líkastar leiðir og aðrir. Tvíhleypingarnir gera það.

Sumir sem eru fátækir vilja endilega að þeir ríku verði fátækir líka. Það finnst mér lítilmennska. Jöfnuður á sem flestum sviðum er þó æskilegur. Um skiptingu landsins gæða snúast stjórnmál einkum. Þessvegna eru þau svona einstök og merkileg. Breytingar á þjóðfélaginu gerast hratt. Þessvegna skiptir máli að kjósa rétt. En hvað er það rétta í þessu sambandi? Þar er efinn.

Algjör jöfnuður eða algjört einstaklingsfrelsi er ekki til. Lífið er of flókið til þess. Sé reynt að skapa þennan fullkomleika verður hann fyrr en varir bara í orði en allsekki á borði. Það eina sem er alveg öruggt (að minnsta kosti ennþá) er að allir deyja einhverntíma.

Einhverntíma skrifaði ég smágrein um dauðann. Hef áreiðanlega birt hana á blogginu mínu. (Jafnvel tvisvar) Man að ritstjórinn hjá „Heima er best“ vildi ekki birta hana og heldur ekki að ég skrifaði um Bjarna-Dísu þó ég byðist til þess. Samt fannst honum að bloggið mitt benti til þess að ég væri á svipaðri línu og hann um margt.

Sumir kalla það heimildavinnu þegar þeir flakka um netið. Það er óþarfi. Það er jafnmikil heimildavinna að liggja uppi í rúmi og lesa bók. Það gætu vel verið heimildir í henni.

Þetta blogg er númer 1872 í röðinni af þeim bloggum sem ég hef sent frá mér. 1872 er líka fæðingarár ömmu minnar og kannski er ættin og fjölskyldan það mikilvægasta í lífinu.

IMG 2532Jólarest.


1871 - Spillingin

Þegar ég varð fimmtugur fyrir áratugum síðan fannst mér ég orðinn svolítið gamall. Nú finnst mér það enginn aldur. Það er alveg eins hægt að segja: „Allt er fimmtugum fært“ eins og „allt er fertugum fært“. Það spakmæli sem sýnist eiga einna best við núna er: Allt er þrítugum þraut. Ég segi bara svona af því það stuðlar. Samt er það vitað að það er hvað erfiðast að vera ungur. Tala nú ekki um að vera táningur. Það er erfiðast af öllu, en lagast samt á endanum. Annars væri ágætt að vera gamall, ef maður óttaðist ekki að dauðinn væri að læðast aftan að manni.

Er sjálftaka slitastjórna á enda runnin? Er spurt í grein á Eyjunni. Gott ef það er ekki fyrirsögn. Ég held að svo sé ekki. En eflaust munu þeir sem komast í svona uppgrip fara ögn varlegar í framtíðinni. Það dómsmál sem við horfum nú framá hér á Íslandi getur orðið um margt athyglisvert, og ég vona að fjölmiðlarnir, sem hljóta að hafa efni á því að fylgja einu og einu máli eftir fylgist með þessu fyrir mína hönd.

Áður fyrr, þegar bankar fóru ekki á hausinn og ég var miklu yngri en ég er núna, var eitt besta ráðið til að geta skifað ótakmarkaða reikninga á ríkið og aðra að gerast tannlæknir. Man að það kom fram í einhverri bók sem ég las að Flosa Ólafssyni hefði verið bent á að gerast tannlæknir. Honum þótti bara mun skemmtilegra að gera flest annað.

Lögfræðingar löptu semsagt dauðann úr skel en tannlæknar blöktu. Seinna breyttist þetta og ég tala nú ekki um þegar Kreppan stóra skall yfir að þá sköpuðust mörg afar góð lögfræðingsstörf. Nú eru það tannlæknar sem sjá framá að verða að semja af einhverri skynsemi við ríkið. En lögfræðingarnir eyða tíma sínum í að skrifa himinháa reikninga sem á endanum lenda á almenningi og skattborgurum þessa lands.  

Mér skilst að lögfræðingar tali gjarnan um það eins og hvern annan happdrættisvinning að fá í hendurnar þrotabú og vera skipaðir skiptastjórar. Að komast svo í slitastjórn eða eitthvað þessháttar hjá fjöllnu bönkunum er eins og risastór lottóvinningur.

Hverjir eru það svo sem útdeila þessum vinningum? Jú, það eru einmitt dómstólarnir og þar með er komið á næstum fullkomið spillingarkerfi, því lögfræðingarnir verða að haga sér sæmilega til að dómararnir muni eftir þeim þegar úthlutað er gæðadjobbum. Æðstu menn banka og fjármálastofnana ásamt útrásarvíkingum og öðrum óþjóðalýð hafa svo með harðfylgi komist í þennan spillingarhóp.

Í seinni tíð hefur lærða afætudótið svo þurft að vara sig svolítið á sorpsneplum eins og DV og jafnvel fleirum. Einföldust er þöggunin. Bara láta eins og þetta pakk sé ekki til og þá getur það ekki gert manni mein, er hugsunin hjá mörgum.

Held ég.

Ómar Ragnarsson ræðir um lögheimili þingmanna á bloggi sínu. Umræður um sveitavarga og lattelepjandi Reykvíkinga læt ég mér oftast í léttu rúmi liggja, enda held ég að sú umræða sé oftast heldur grunn. Dettur samt í hug að óvitlaust sé að ræða bara um eitt málefni í hverju bloggi og hengja það í mbl.is-frétt ef maður finnur einhverja hentuga til þess. Nenni samt ekki að leita og finnst ómögulegt að blogga bara um eitt mál í einu.  

KraniIMG 2460.


1870 - Birgitta Bergþórudóttir

Ef álitið er að Icesave dómurinn hafi ráðið miklu varðandi skoðanakannanir þær sem sagt var frá fyrir helgi mætti halda að þar hafi tekist á Steingrímur og Jóhanna (eða ríkisstjórnin öll) annars vegar og Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð hinsvegar. Svo var þó alls ekki. Fyrir kosningar gæti þetta alltsaman breyst tilbaka og svo gætu litlu flokkarnir (eða einhverjir þeirra) átt eftir að bæta sig verulega. T.d. gæti píratapartíið hennar Birgittu skörungs stolið senunni. Bjarta framtíðin hans Guðmundar Steingrímssonar (sem reynt er að stimpla sem útibú frá samfylkingunni – af því að þar er talsvert af stuðningsmönnum ESB-aðildar) gæti líka dalað aftur. Annars býst ég við að margt furðulegt eigi eftir að gerast í íslenskri pólitík á næstu vikum. Sennilega er best að reyna að koma sér í skjól og vera ekki með neina spádóma.

Furðulegt þó hve skoðanakannanir eru misvísandi þó þær séu gerðar (eða a.m.k. birtar) á sama tíma. Þegar á það er litið hve langt er til kosninga, (en stutt samt) er vitað mál að úrslitin verða ekki á  þann veg sem skoðanakannanir benda til. Niðurstöður skoðanakannana sem gerðar eru nú geta samt hæglega haft áhrif á baráttuaðferðir framboðanna og fjölda þeirra. Gerjunin er mikil. Sennilega afla þeir best sem fiska í sem gruggugustu vatni.

Aðalspurningin sem maður stendur frammi fyrir varðandi bækur á kyndlinum er hvort maður eigi að henda þeim bókum í burtu sem maður er búinn að lesa. Hingað til hef ég ekki gert það. Með tímanum gætu þær samt farið að flækjast fyrir. Eftir að ljósmyndun með digital tækninni varð svo einföld og ódýr sem raun ber vitni er það sömuleiðis orðið aðalspurning varðandi þær hverjum á að henda. Spurningarnar og vafamálin breytast sífellt í samræmi við tæknina. Úthverfamenningin varðandi húsnæði er t.d. líka víða á undanhaldi.

Tegundir eineltis geta verið margar. Það er ekki alltaf verið að berja og misþyrma þeim sem fyrir því verða. Jón Gnarr og Vigdís Hauksdóttir segjast haf orðið fyrir einelti. Kannski er það alveg rétt skilgreining hjá þeim. Tíma-Tóti (Þórarinn Þórarinsson) var t.d. alltaf teiknaður með kopp sér við hlið í skrípamyndum. Sennilega er það einhvers konar einelti.

Alltaf er verið að kvarta yfir gjaldeyrishöftunum. Mín vegna mega þau vera næstu hundrað árin. Heyrist formaður Sjálfstæðisflokksins (eða Fjórflokksins – geri ekki mikinn greinarmun þar á) væla einna mest yfir þeim. Einhver hvíslaði að mér að það vanti erlenda fjárfestingu í landið og erlendir fjárfestar vilji ekki senda peningana sína hingað vegna gjaldeyrishaftanna. En eiga ekki lífeyrissjóðirnir nóga peninga? Þeir vilja bara verðtryggingu sem sumir vilja ekki. Efnahagsráðin fara alltaf í hringi og bíta í skottið á sjálfum sér. Væri ekki ráð að hafa bara einræðisherra? Sting uppá Ögmundi Jónassyni og Davíð Oddssyni. Steingrímur Jóhann og Ólafur Ragnar mundu sjálfsagt vilja vera með. Jafnvel fleiri eins og t.d. Árni Páll. Það mætti hafa tvöfalda símakosningu milli þeirra eins og var í Söngvakeppninni.

IMG 2457Bíll.


1869 - Efnahagsspekingarnir afleitu

Oftast nær er umhugsunartíminn í bréfskákunum sem ég tefli þrír dagar. Stundum fell ég samt á tíma og stundum andstæðingar mínir. Ef þeir falla krefst ég alltaf strax vinnings en stundum hanga taptímaskákir mínar lengi inni.

Það er hið skrifaða orð sem hefur mest áhrif á mig. Kvikmyndir og leikrit hafa lítil áhrif. Myndir frekar. En ég sé núna að það er nauðsynlegt að ég skilji orðin og að samhengið í frásögninni sé gott.

Var að skrifa í gær minnir mig hvað baggalútur væri oft meinfyndinn. Skoða stundum líka ýmislegt annað einsog t.d. flickmylife. Tengingarnar þar eru oft fyndnar, en efnið er skelfilega misjafnt og fylgst er ótrúlega vel með fésbókinni, eins og hún er leiðinleg.

Uppvakningar, (zombies) vampírur, draugar, álfar, huldufólk, útilegumenn, tröll (og kannski fleira) allt finnst mér þetta vera sama tóbakið. Ímyndaðar verur sem fólk reynir gjarnan að gera raunverulegar.

Nú er kominn nýr mánuður og ég vaknaði snemma og hef eytt morgninum í að lesa dapurlegar frásagnir. Vilborg systir hans Bjössa í Snerpu skrifar áhrifamikið blogg og birtir myndir þar með. Þær eru áhrifamiklar líka. Eru ekki sofandi börn það fallegasta sem til er? Ég bara spyr.

Efnahagsspekingar leggja til ýmis ráð við allskyns vanda sem við blasir í framtíðinni. Þeir virðast í aðalatriðum hafa rétt fyrir sér þó þeir tali ýmist í austur eða vestur. Hvort sem um er að ræða verðtryggingu, (vísitölu) húsnæðisverð eða eitthvað annað.

Grundvallarvandinn í mínum huga er sá að kerfið hér á Íslandi er alltof lítið. ESB-leiðin er tilraun til að tengjast varanlega stærra kerfi þar sem efnahagsráð duga betur en lítur út fyrir að þau geri í litlum hagkerfum. Sveiflurnar eru altjént minni. Til mjög langs tíma litið hljóta lítil hagkerfi líka að leiða til stöðnunar.

IMG 2456Pallur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband