2093 - Ásgautsstaðir og ýmislegt fleira

Viðbrögðin sem ég fæ við skrifum mínum um Ásgautsstaðamálið eru svo lítil að ég veit ekki hvort ég endist til að halda áfram að fjalla um það endalaust. Lygi, svik, þjófnaðir, falsanir og allskyns önnur afbrot eru eitthvað sem yfirstéttin þykist geta leyft sér í skjóli frændhyglinnar og spillingarinnar sem er og hefur verið landlæg hér á Íslandi. Enn mun ég þó skirrast við að birta nöfn þeirra manna í Árborg sem harðast hafa gengið fram í ósómanum. Ef skrif mín um þetta mál verða til þess að færri og færri lesi þetta blogg mitt, ja, þá hlýt ég að álykta sem svo að áhrif spilltrar embættismannastéttar séu meiri en ég hafði ætlað. Ennþá hefur samt ekki orðið svo. Ég veit að margir hafa bloggað um mál sem þeim finnst að fleiri ættu að taka alvarlega. Veit ekki með vissu hvað ég er að reyna varðandi þetta mál, en kannski vil ég einmitt að allt sem þetta snertir fái þá athygli sem mér finnst það verðskulda.

Sagt er að jólin séu hátíð barnanna og líklega eru þau það. Fullorðna fólkið og unglingarnir nota þau til að hvíla sig. Lætin og djöfulgangurinn í undirbúningi jólanna bitnar mest á þeim. Eins og segir í eldgömlu mánaðakvæði:

Þó desember sé dimmur
þá dýrleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Þetta með sólina finnst mér merkilegra en jólin. Þegar jólin og áramótin eru afstaðin með öllu sínu áti, bókum, leikföngum og fylleríi er óhætt að byrja að hlakka til vorsins. Dagurinn fer að lengjast smátt og smátt, fuglasöngur að heyrast o.s.frv. Auðvitað getur tíðarfarið brugðist, en vel má vonast eftir því að bleytan, hálkan og krapið fari minnkandi eftir því sem vorið nálgast meira.

Af hverju allir sameinast um skógluggavitleysuna skil ég ekki. Auðvitað halda krakkarnir áfram að setja skóna út í glugga sem lengst. Áður fyrr var þetta alls ekki svona. Byrjaði seint á síðustu öld. Fram að þeim tíma voru jólasveinar samt víða á flækingi um jólaleytið. Einkum voru þeir iðnir við að mæta á jólaböll þar sem litlir krakkar voru hópum saman. Sumir þeirra trúðu kannski að eitthvað væri til í sögunum af þeim en það sama átti við um svo mörg ævintýri. Með gluggavitleysunni færðist þetta svo inn á heimilin og foreldrar voru nauðbeygðir til að taka þátt í þessum fjára.

Biðin eftir jólunum var mörgum börnum erfið og löng. Sjálfur lagði ég af einhverjum ástæðum mest uppúr teljaranum á útsíðuhorni Moggans sem kom á heimilið á hverjum degi nema mánudögum. Auðvitað þurfi að sækja hann uppí Reykjafoss eftir klukkan 10 en það var ekki löng leið. Músastigar úr krep-pappír voru settir í öll herbergi en ekki var að treysta neinu varðandi tímasetningu á því. Teljarinn í Mogganum var viðmiðið.

Líklegt er að tölvubyltingin og veraldarvefurinn komi til með að valda alveg eins mikilli byltingu í öllu menningarlífi heimsins og prentlistin gerði á sínum tíma. Á margan hátt er það fyrst núna sem mönnum er að verða það ljóst hve gagntæk lausleturstækni Gutenbergs var. Það er einmitt sú tækni sem mun yfirtaka þá fyrri sem gerir mönnum þetta ljóst. Hið alþjóðlega myndmál mun yfirtaka ritmálið á þessari öld. Landamæri munu skipta afar litlu máli í framtíðinni. Hraðinn eykst sífellt. Netvæðingin er enn í barnsskónum.  

Í framsóknarflokknum er mikið af úrvalsfólki. Samt er ég sammála Margréti Tryggvadóttur um að útlendingahatur og gamaldags þjóðremba hefur fengið að leika þar um of lausum hala. Þetta er bara mín skoðun og ekki studd neinum dæmum. Ég efast ekkert um heilindi SDG en hans nánustu ráðgjafar, sem hljóta að vera ráðherrar flokksins, aðstoðarmenn þeirra og formenn alþingisnefnda í umboði flokksins eru oft afar ógætnir í ummælum sínum og efast má um skynsemi sumra þeirra. Undir forystu Halldórs Ásgrímssonar er ekki annað hægt að segja en flokkurinn hafi leitað of mikið til hægri.

Var að enda við að lesa ágæta grein eftir Gunnar Smára Egilsson. Hann kallar greinina millistéttaraulinn. Það er alveg rétt hjá honum að við látum yfirstéttina ráðskast með okkur að vild. Alþingismenn skilja ekki helminginn af þeim tölum sem þeir ausa yfir landslýð. Þeir eru líka millistéttaraular. A.m.k. flestir þeirra. Svonefnt lýðræði er kannski ekkert skárra en einræði.

Hér á Vesturlöndum eru lífskjörin að vísu skárri en í þriðja heiminum. Það er bara vegna þess að víð arðrændum íbúana þar meðan við höfðum aðstöðu til. Um leið og þeir lærðu að ljúga og stela sjálfir var búið með það. Misskipting teknanna er jafnmikil hér og í þriðja heiminum. Talnalygi er annarri lygi verri því það er erfitt að hrekja hana nema maður sé sjálfur leikinn í talnalygi.

Nú er ég kominn á hála braut. Framsóknarflokkurinn leitast við að fá einkarétt á útlendingahatri og þjóðrembu. Þó er margt ágætisfólk þar. Held að ég hafi reyndar verið búinn að nefna það fyrr í þessu bloggbulli.

Hinn sanni lífsflótti er fólginn í því að skara framúr. Gefast upp á öllu lífsgæðakjaftæðinu og stjórnmálunum og einbeita sér að einhverri íþrótt sem maður er sæmilega góður í. Verða smám saman bestur í þorpinu, skólanum, landinu o.s.frv. í þeirri íþrótt sem fyrir valinu varð. Verða kannski í fyllingu tímans bestur af öllum í þessari íþrótt og þá koma lífsgæðin af sjálfu sér. Bara um að gera að fá ekki leið á þessari tilteknu íþrótt. Það er kannski það erfiðasta. Stundum segja menn að þeir hafi svo gaman af vinnunni sinni að það sé bara aukabónus að fá kaup fyrir hana. Auðvitað er það hin mesta vitleysa. Leti og ómennska á best við alla. Ekki fá menn borgað fyrir svoleiðis.

„Anecdotal evidence“, sem ég mundi vilja kalla sannferðugar frásagnir á íslensku, eru oftast nær einskis eða a.m.k. lítils virði ef hægt er að benda á alvöru vísindalegar rannsóknir á sambærilegu sviði. Þó ég sé langt frá því að vera einhver sérfræðingur í þessu er mjög þægilegt að benda á bólusetningar í þessu sambandi. Á grundvelli „anecdotal evidence“ eru þær oft gagnrýndar mjög. Bólusetningar eru til gagnvart mörgum sjúkdómum og vísindalegar rannsóknir á þeim geta verið mjög mismunandi. Bóluefnið sömuleiðis.

Hugsum okkur að eitthvert bóluefni komi að gagni í 99% tilvika. (samkvæmt „vísindalegum“ rannsóknum). Í 1% tilvika komi það að engu gagni eða sé beinlínis skaðlegt. Þessar tölur eru eingöngu frá mér komnar en byggjast ekki á neinum rannsóknum.

„Anecdotal evidence“ mundi að sjálfsögðu sýna undireins að þetta bóluefni væri stórhættulegt eða í besta falli vitagangnslaust. Vísindaleg rannsókn mundi hinsvegar sýna hið gagnstæða eða a.m.k. að rétt væri að rannsaka málið nánar.

Í bloggheimum hentar mér best að setja á langar tölur um hin margvíslegustu efni. Þetta eru einginlega bara athugasemdir í öðru veldi. Nú er orðið svolítið umliðið síðan ég setti síðast upp blogg svo sennilega er best að hætta.

IMG 5297Gullþakið fræga í Innsbruck.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband