Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

1868 - Bankar og banksterar

Já, ég blogga á Moggablogginu. Hef samt aldrei kosið sjálfstæðisflokkinn og mun áreiðanlega aldrei gera. Það mundi ég ekki gera þó hver einasti sjálfstæðismaður hefði frá fæðingu verið nákvæmlega sömu skoðunar og EFTA-dómstóllinn var um daginn. Hins vegar álpaðist ég einu sinni til að kjósa framsóknarflokkinn. Það var þegar ég var nýkominn af Samvinnuskólanum því mér fannst það eiginlega tilheyra. Síðan hef ég kosið aðra og mun halda því áfram. Fjórflokkurinn fær samt líklega alveg frið fyrir mér að þessu sinni.

Ríkisábyrgð á einkabönkum er algjörlega fráleit. Því hefur verið haldið fram (með talsverðum rétti) að þeir eigi að geta farið á hausinn eins og önnur fyrirtæki. Þannig er það samt ekki og hefur aldrei verið. Þá gætu þeir jafnvel ekki (nema með miklum harmkvælum) lánað út margfalt meira en samanlögðum innlánum nemur. Eigendur þeirra mundu jafnvel vanda sig ef þeir ættu á hættu að öll innlánin væru tekin út á stuttum tíma. Bankar ættu því að vera margfalt dýrari en þeir hafa verið hingað til. (A.m.k. hér á Íslandi.)

Fésbókin er ferlegur tímaþjófur ef bara er hugsað um það. Að setja myndirnar sínar (þær sem maður vill að aðrir/allir sjái) þangað eða á bloggið er samt mikil framför frá því sem áður var. Myndasýningar eru með öllu óþarfar. Þeir sem áhuga hafa skoða, en aðrir ekki. Maður þarf heldur ekki að stunda lestur á velktum og útkrotuðum síðum. Áður fyrr var reyndar hægt að henda mislukkuðum myndum/skrifum en nú er það ekki hægt. Allt er þetta geymt og kemur kannski í hausinn á manni eftir fimmtíu ár!! Reyndar verð ég sem betur fer dauður þá.

Setti „grefillinn sjálfur“ (eða kannski bara grefillinn) í leit á Moggablogginu og fékk fullt af linkum á stórskemmtileg blogg. (Nú er um að gera að hugsa sem minnst um Icesave) Flest voru þau eftir sjálfan mig og ég er alveg hissa á hvað ég hef verið fyndinn áður fyrr. Svo er líka hellingur af athugasemdum sem fylgir þeim og satt að segja eru þær stundum langskemmtilegastar. Munið þið ekki eftir Greflinum? Hann var alveg rosalega sniðugur. Kannski ég fari bara að leita að honum aftur. Annars finnst mér Bagglútur oft alveg meinfyndinn.

IMG 2452Bátur.


1867 - Virðing alþingis

Í gær var sérstök umræða á alþingi í tilefni af úrskurði EFTA-dómstólsins. Sú umræða fór nokkuð skipulega og virðulega fram. Það sem á eftir kom var ekki nærri eins virðulegt. Sá það reyndar ekki allt en nógu mikið til að leggja það við það sem ég hef áður orðið var við í útsendingum frá alþingi og fullyrði að engin furða er þó virðing þessarar öldnu stofnunar hafi farið mjög dvínandi undanfarið.

Aldrei gæti ég orðið pólitíkus. A.m.k. ekki á borð við Sigmund Davíð. Mér heyrðist hann hafa ótal tölur á hraðbergi í umræðunum á alþingi í gær. Mér hættir meira að segja til að rugla saman milljónum og milljörðum sem er ógott núna á síðustu og verstu tímum.

Menn fara í ræðustól alþingis með mismunandi hugarfari. Þingmenn gera sér án efa grein fyrir þessu sjálfir. Stundum er farið í ræðustólinn til að segja eitthvað sem hugsanlega skiptir máli. Oft er þó farið í þennan sama stól til þess eins að koma í veg fyrir að aðrir fari þangað og til að eyða þar sem allra stærstum hluta þess tíma sem hægt er. Þetta er ekki aðeins greinilegt í venjulegu málþófi (sem ætti þó alls ekki að vera neitt venjulegt) heldur einnig í svokölluðum „hálftíma hálfvitanna“ og reyndar oftar, en einkum í andsvörum og gagnandsvörum.

Mér virðist sem margir þeirra sem láta í ljós álit sitt á úrskurði EFTA-dómstólsins geri lítinn sem engan greinarmun á honum og Evrópudómstólnum og jafnvel Mannréttindadómstóli Evrópu. Um þetta mætti skrifa langt mál, en sennilega er ég ekki rétti maðurinn til þess.

Margt er það sem fellur í skuggann vegna lykta Icesave-málsins. Eflaust verða nógu margir sem skrifa um það mál. Svo mér ætti svosem að vera óhætt að skrifa um eitthvað annað.

Hef fylgst með bloggi Vilborgar Davíðsdóttur á blogspot.com frá því nokkru fyrir jól. Er sammála flestu sem hún segir um mann sinn og baráttu hans. Þekkti Björgvin þó ekki neitt og hef ekki viljað taka þátt í því vefmiðlastandi sem nú stendur yfir. Óska fjölskyldunni allri samt auðvitað alls hins besta í framtíðinni. Hugsa samt hvað mest um dótturina ungu.

Er allt í einu orðinn spenntur fyrir Steven King sögunni sem ég er að lesa þessa dagana. Hún heitir „Under the dome“. Nú er ég búinn með u.þ.b. fjórðung af henni segir kyndillinn og fram að þessu hefur mér þótt hún heldur sundurlaus og ómarkviss. En höfundurinn er snillingur og hann heldur svo sannarlega öllum þráðum í hendi sér. Hef hingað til alltaf verið svolítið ósáttur við hvað King leggur mikla áherslu á hið yfirnáttúrulega. Hef langmest álit á The Stand og Bachman-bókunum hans en vel getur verið að ég taki hann í sátt ef þessi bók endar ekki í algjörri vitleysu. Hann er stundum langt leiddur af Biblíusýki, en það stafar einkum af því fyrir hverja hann skrifar.

IMG 2450Bolti.


1866 - Icesave

Ókey, ég viðurkenni að hafa haft rangt fyrir mér að mestu leyti í Icesave-málinu. Grunninn að því öllu tel ég vera neyðarlögin svokölluðu. Frá upphafi taldi ég þau ekki standast. Þau gerðu það og eru þar með orðin einhver snjöllusu lög sem Alþingi hefur samþykkt frá upphafi.

Úrslitin í Icesave-málinu auðvelda líklega margt í fjármálum landsins, styrkja kannski málstað okkar í makríl-deilunni og kunna að hafa einhver áhrif á hug fólks til ESB. Ekki er líklegt að áhrifin á ríkisstjórnina verði mikil, en vel kann að vera að áhrifin á kosningarnar í vor verði einhver.

Fyrst og fremst finnst mér þó ástæða til að gleðjast. Sá kostnaður í illindum og ýmsu öðru sem Icesave hefur valdið ætti að gleymast sem fyrst og gerir það sennilega.

Er afar ánægður með að Árni Johnsen og Tryggvi Þór skuli falla út af þingi og sé talsverðar líkur á að þingliðið batni umtalsvert. Um pólitíkina að öðru leyti er lítið hægt að segja.

Þetta blogg verður í styttra lagi enda fer best á því.

IMG 2446Athugið.


1865 - Að rannsaka

Var að lesa greinargerð Jóns Trausta sem er (eða var) annar af ritstjórum DV um Jóns Snorra málið. Þarf vonandi ekki að útskýra það mál fyrir þeim sem þetta kunna e.t.v. að lesa. Í sem allra stystu máli snýst það um mismunandi skilning á sögninni „að rannsaka“. Hvaða skilning lögreglan hefur almennt á því orði og hvort blaðamönnum DV hafi verið sá skilningur kunnur, þegar skifað var um mál Jóns Snorra, fjallar Jón Trausti að sjálfsögðu ekki um.

Dómstólar landsins eru þó samkvæmt greininni farnir að nota lagaflækjur og lagatækni til þöggunar á sama hátt og rússneska sovétið gerði á sínum tíma. Þetta er varhugaverð þróun og er óðum að skipta þjóðinni í tvær fylkingar. Pólitísk áhrif þessarar aðferðar geta orðið mikil. Ef dómstólar landsins njóta ekki trausts almennings er næsta skref blóðug bylting. Fjölmiðlar geta enn í dag haft talsvert mikil skoðanamyndandi áhrif á almenning og sem betur fer eru þeir ekki alltaf sammála. Dómsvaldið þarf samt að kunna sér hóf í sókn sinni að fjölmiðlunum. Almenningsálitið einnig.

Almenningsálitið telja margir að sé orðið mun áþreifanlegra í gegnum netið (les: fésbókina) en áður var. Aðalstarf margra blaðamanna virðist vera í því fólgið að fylgjast sem best með fésbókinni og fá hugmyndir sínar þaðan. Með þessu vilja þeir að sjálfsögðu sölsa undir sig hlutverk dómstólanna.

En jafnvel þó margir skrifi á fésið (eða netmiðla) er það ekki endanlegur dómur. Það sýna kosningar. En eru þær eitthvað endanlegri en netið? Þessi hringekja sem samanstendur af: fjölmiðlum, dómstólum, almenningi, stjórnvöldum, kosningum og netinu er á margan hátt það sem heldur þjóðfélaginu gangandi. Alþingi og forsetinn reyna síðan af veikum mætti að stýra þessu öllu, en gengur illa. Ekki er hægt að hunsa það alltsaman. Það reyna útilegumenn samt að gera. Sú skoðun að það sé hægt er útbreidd meðal hægrimanna í Bandaríkjunum.

IMG 2436Innrás.


1864 - Y2K

Í stórum dráttum má segja að hver taki myndir fyrir sjálfan sig. Áður fyrr var það svo að mjög fáir tóku myndir enda voru myndavélar fremur dýrar en sérstaklega var það vegna þess að þá var alls ekki hægt að sjá nærri strax hvernig myndirnar hefðu tekist. Einu sinni tíðkaðist að slökkva öll ljós og skikka fólk í veislum til að horfa á skuggamyndir. Slíkt er aflagt núna. Samt er það svo að fólk er misjafnlega lagið við að taka myndir og sumir myndavélarsímarnir eru svo flóknir að fólk treystir sér ekki til að læra almennilega á þá.

Tröllasögur tæknigúrúa misstu svotil alveg mátt sinn þegar heimsbyggðin komst klakklaust í gegnum aldamótin. Y2K var einu sinni stærsta ógn mannkynsins. Draugasöguflytjendur og heimsendaspámenn hafa síðan átt í talsverðum erfiðleikum a.m.k. hér á Vesturlöndum. Það eru svo fáir sem trúa þeim. Hnatthlýnunarsögurnar hafa að ósekju farið í svipaða skúffu. Hnatthlýnunin er staðreynd en gert er of mikið úr viðbragðsleysinu. Mannkynið kemur alltaf standandi niður úr hverskyns hörmungum. Svo verður einnig núna.

Oft er gengið dálítið langt í því að svindla á þeim sem talið er auðvelt að svindla á. DV er t.d. uppfullt af því núna að ódýrara sé að kaupa sér farmiða og áfengi í fríhöfninni en að kaupa sama magn af áfengi í ÁTVR. Þetta er sennilega rétt hjá þeim, því auðvelt er talið að svindla á þeim sem þyrstir í ódýrt áfengi og eru slæmir í hugarreikningi. Ekki er samt víst að þeir séu nógu margir til að gróðinn sé verulegur. DV á helst ekki að kjafta frá svona löguðu finnst Íslandseigendum.

Það er nauðsynlegt hverjum pólitískum skríbent að láta andstæðinga sína sem oftast efast um andlega hæfileika sína. Þetta getur gegnið ansi langt og er stundum kallað einelti. Ég ætti kannski ekki að minnast á þetta, því vel getur verið að þetta sé bjúgverpill hinn mesti. Samt er þetta viðkennd bardagaaðferð og er stunduð miklu víðar en í pólitík.

Mér fannst þetta þegar ég sá sagt frá grein sem Hallgrímur Helgason skrifaði um einhverja leikhúsgagnrýni. Hann er semsagt að segja að sá sem þóttist vera voða gáfaður og geta rakkað niður leikhúsverk sé bölvaður asni. Ég ætla svosem ekki að fara í neitt skítkast í tilefni af þessu enda enginn maður til þess. Datt þetta bara svona í hug.

IMG 2430Skipsbrú, eða hvað?


1863 - Ögmundur og klámið

„Það þarf að bæta grunnþjónustuna á Vestfjörðum og víðar þar sem þess er þörf“.  Erum við að borga þingmönnum laun fyrir að fara í ræðustól alþingis og láta sér þvílík málblóm um munn fara? Ég ætlaði að hlusta á sjónvarp frá alþingi en hætti við það þegar ég heyrði þetta. Ef menn skilja ekki hvað ég er að fara má segja að það sé argasta tautológía að segja að það þurfi að gera eitthvað af því að þess sé þörf.  Auðvitað er skiljanlegt að þingmönnum vefjist stundum tunga um höfuð þegar þeir þurfa að segja eitthvað gjörsamlega óundirbúnir. Þeir hafa þó alltaf þann möguleika að þegja bara. Margir gera það líka. Sumir þurfa þó sífellt að láta ljós sitt skína, jafnvel þó týran sé fremur dauf.

Ætli það hafi ekki verið sumarið 2011 (frekar en 2010) sem ég lenti í hópi þýðenda hjá Bandalagi Íslenskra skáta. Þar var Magnea J. Matthíasdóttir einnig til að byrja með. Það var svo núna nýlega sem ég komst að því á fésbókinni að hún hefði samið bókina Hægara pælt en kýlt. Þó skömm sé frá að segja las ég aldrei þá bók, en nafnið er eftirminnilegt og af einhverjum ástæðum hefur það tekið sér bólfestu í minninu hjá mér. Vissi samt ekki að sú bók væri eftir Magneu. Svo komst ég að því í ofanálag að það er ritgerð um þýðingar og ýmislegt annað eftir hana á Skemmunni en hún á víst að vera læst þangað til árið 2014 svo ég get ekki lesið hana.

Ég er svolítið óhress með að geta ekki lesið allt sem ég vildi gjarnan lesa. Eina ráðið er að fækka áhugamálunum. Mér gengur samt illa við það. Get t.d. ómögulega hætt að dánlóda ókeypis bókum sem mig langar að lesa. Veit samt að ég kem aldrei til með að hafa tíma til að lesa þær. (Hvort stýrir dánlóda annars þolfalli eða þágufalli?) Kyndillinn minn er orðinn næstum það eina sem ég les. Svo fer ég náttúrulega á borðtölvuskrímslið hér til að skrifa og flakka um netið. Bækur les ég ekki orðið nema á kyndlinum. Flakka stundum líka svolítið um netið þar. (Það er svo gott að liggja uppí rúmi við það) en finnst það samt ekki eins þægilegt og að vera hér.

Alveg er ég hissa á Ögmundi á hafa dottið þetta í hug með klámið. Það er líka svo ótrúlegt að nokkur hafi spýtt þessu í hann að hann hefur áreiðanlega fundið upp á því sjálfur. Mikilmennskubrjálæðið er næstum aðdáunarvert. Eftir að Bandaríkjamenn fundu uppá þessu með „community standards“ hefur þetta mál ekki verið neitt átakanlega mikið að trufla bandaríska dómstóla. Ögmundur virðist samt halda í einlægni að allur heimurinn muni sitja og standa eins og honum sýnist. Furðuleg heimska. Sennilega er hann nú samt bara að yggla sig framan í hugsanlega barnaperra og heldur að þeir séu hræddir við hann.

IMG 2425Bónus.


1862 - VG

Að skrifa eins og þeir snobbuðu vilja að skrifað sé, er að skrifa sem illskiljanlegast og reyna að slá um sig með nógu sjaldgæfum orðum, helst mörgum til að þeir þurfi að gúgla á núll komma fimm áður en þeir fara í mogunmat. Alsniðugast væri ef hægt væri að ljúga einhverju að Gúglhænunni áður en sá snobbaði kemst í tölvuna. Ég vil heldur vera álitinn einfeldningur en að skrifa eitthvað sem ég skil varla sjálfur. Mér finnst það slæmur ávani hjá bókmenntagagnrýnendum að ímynda sér sífellt að þeir þurfi helst að líta út fyrir að vera gáfaðri en sá sem setti saman það sem þeir eru að gagnrýna. Aftur á móti eiga svokallaðir rithöfundar það til að setja saman gagnrýnisgreinar sem eru betri en hjá flestum gagnrýnendum þó erfitt sé að skilja skáldsögurnar þeirra. Nú er ég að verða lítt eða tor skiljanlegur svo það er best að hætta. Þeir sem ekki skilja þetta mega sleppa því.

Í sem allra stystu máli lít ég þannig á alþjóðastjórnmálin. Bandríkin eru of skuldug til að geta tekið yfir allt sem alþjóðakommúnisminn skildi eftir þegar hann var búinn að stela 70 árum af ævi fólks á þeim slóðum. Kína mun hægt og sígandi taka við hlutverki forysturíkisins og nýtt kalt stríð taka við. Vonandi hitnar það aldrei. Ísland á auðvitað hvergi heima nema í ESB og þar ættu þeir að reyna að koma sér fyrir á milli fyrrum stórveldanna (Frakklands og Þýskalands) og Norðurlandanna og njóta þess að vera á undan Norðmönnum. Suðrið er svolítið aftarlega á merinni eins og er en fólkið þar er duglegt og útsjónarsamt og kemur til með að hafa áhrif á ESB. Erfitt er að spá Bretum nokkurri sérstakri framtíð innan ESB. Ætli þeir verði ekki bara reknir þaðan. Norðmenn koma hinsvegar inn seint og um síðir og verða eitt helsta fyrirmyndarríki ESB.

Því skyldi ég ekki reyna að láta ljós mitt skína í alþjóðastjórnmálum? Ég þykist hvort eð er allt vita. Við besservisserarnir höfum ekki í annað skjól að venda en spádómana. Gúgli er búinn að taka staðreyndirnar frá okkur. Það er bara einhver óljós tilfinning eftir. Tilfinning um að hafa einu sinni í fyrndinni vitað ýmislegt. Jafnvel af hverju himininn er blár.

Stjórnunarfælni er það sem hrjáir VG. Það segir Teitur. http://www.dv.is/blogg/eimreidin/ Ég tek mark á öllum sem ég skil. Þannig var það eitt það versta sem hægt var að gera vinstri grænum að teyma þá í ríkisstjórn. Þeir hafa nefnilega þörf fyrir að vera á móti öllu. Einhversstaðar verður þvílíkt fólk að vera. Steingrímur hefur samt staðið sig nokkuð vel, en það eru bara fleiri í flokknum. Og það er ekki hægt að segja að hann sé stjórntækur.

Ef sjálfstæðismenn og vinstri grænir fara saman í ríkisstjórn eftir næstu kosningar geri ég hiklaust ráð fyrir að fljótlega slitni uppúr því samstarfi. VG lætur ekki teyma sig hvert sem er. Samfylkingin hafði tak á þeim en það er alls ekki víst að sjálfstæðismenn nái slíku taki.

Mér þykir nokkuð langt gengið að líkja pizzum við mat eins og sumir gera. Í besta falli er hægt að bera þær saman við heitar samlokur sem venjulega eru þó miklu betri. Ekki veit ég hvernig sá siður komst á að kalla pizzur mat, en það eru áreiðanlega nokkur ár síðan. Krökkum þykir gott að fá pizzur en það er líklega vegna þess að þau fá sjaldan annað betra.

Textar Ríó-tríósins voru oft fyndnir. Man t.d. eftir þessu:

„Lýsnar og flærnar bíta mig“, segir prestur.

„O, bíttu þær aftur, góurinn minn“, segir prestsins kona (gott ef ekki með rödd Helga Péturssonar.)

Eftirminnilegt er líka:

Verst af öllu er i heimi
einn að búa í Reykjavík.
Kúldrast uppi í kvistherbergi
í kulda og hugsa um pólitík.

IMG 2420Hjól.


1861 - Einhenti kennarinn

Rosalega er ég iðinn við að blogga. Set upp á Moggabloggið eitthvað skrifelsi svotil á hverjum degi og hef gert það heillengi. Merkilegt að ég skuli ekki vera hættur þessu fyrir löngu. Fór áðan út að ganga og hitti m.a. Litháa einn sem endilega vildi tala við mig. Ekki fatta ég af hverju. Hann sagðist vera listamaður og eiga heima að Lundi 3 og vildi endilega æfa sig í að tala íslensku. Gat samt alveg bjargað sér á ensku. Furðugóður samt í íslensku líka. Skil ekki af hverju útlendingar vilja leggja það á sig að læra íslensku. Ekki langar mig að læra grænlensku.

Einu sinni stundaði ég það að heimsækja fornbókasalana í bænum. Þeir voru á þeim tíma a.m.k. svona fjórir til sex. Bestir voru samt þeir í Kolasundinu og á Laufásveginum. Í Kolasundinu keypti ég gjarnan klámblöð sem þar fengust daginn eftir að Gullfoss kom til Reykjavíkur. Á Laufásveginum keypti ég oft úrvalsbókmenntir í vasabroti. Þar sá ég líka eitt sinn Jónas Svafár. Hann var að selja fáeinar bækur þar. Bóksalinn tók honum vel og var greinilega hlýtt til hans. Ég hef alltaf álitið Jónas eitt af okkar allra fremstu og frumlegustu ljóðskáldum (hinir væru þá Steinn Steinarr og Dagur Sigurðarson)

Mikið er nú rætt um einhenta kennarann á Ísafirði. Einu sinni mátti það ekki. Man vel eftir því máli. Vorkenndi Jónasi Kristjánssyni að þurfa að segja af sér sem ritstjóri vegna þess. Þá var til siðs að tala illa (helst mjög illa) um DV og ritstjóraræflana þar. Minnir að það hafi verið Mikael Torfason (Geirmundssonar) sem þurfti að segja af sér sem ritstjóri ásamt Jónasi. Meðferðin sem þeir og blaðið fengu var hræðileg. Samt treysti ég mér ekki til að mæla þeim bót þá. Mundi kannski gera það núna.

Í því sambandi dettur mér í hug Ögmundur með Internetlásinn, sem Steingrímur hengdi á hann. Það ber vott um mikla heimsku að láta sér detta í hug að stjórna því hvað skrifað er á netið. Sennilega eru VG-liðar búnir að vera. Steingrímur Jóhann talaði að mig minnir um netlöggu fyrir síðustu kosningar. Ömmi vill ekki vera minni maður en hann.

Þó ég hafi í mörg ár verið trúr Moggablogginu mundi ég færa mig ef ég gæti sett allar þær reglur sem mér sýnist og fengið fullkomna þjónustu varðandi bloggið mitt. Ég er frekar óhress með það hve litla áherslu mbl.is leggur á bloggið núorðið. Virðist jafnvel reyna að fela það sem mest. Það getur vel verið að ég grípi til þess ráðs að linka í fréttir um leið og ég set upp blogg. Þetta virðast sumir gera. Auðvitað er ekki ætlast til þess, en er eftirlitið svo öruggt að ekki megi prófa?

IMG 2413Stólar.


1860 - Synd

Já, ég viðurkenni að ég syndgaði gegn blogg-guðunum (eða æðstu mönnum bloggsamfélagsins) með því að birta viljandi gamla ljósmynd með síðasta bloggi, en ég var enga mynd búinn að öpplóda. Hjá því varð semsagt ekki komist, því ég var búinn að skrifa eitthvað sem ég taldi mig þurfa að koma frá mér. Nú sé ég að fáeinar myndir eru í myndavélinni og það getur verið að ég noti eitthvað af þeim. Látið ykkur semsagt ekki bregða þó snjómyndir sjáist, því veðurlagið hefur verið svolítið óstöðugt að undanförnu.

Þabba sona. Reglufestan allt að drepa. Svo á ég ekki einu sinni mynd til að setja á þetta blogg. Kannski rætist samt úr því í fyrramálið.

Í dag tókum við tvö málverk af blindrömmunum sem þau voru á. Þau höfðu nefnilega skemmst. Eitt sinn höfðu þau hangið uppi og ég mundi vel eftir þeim.

Í dag byrjaði ég að lesa sýnishorn af bók sem Madeleine Albright (fyrrverandi utnaríkisráðherra Bandaríkjanna) skrifaði og gaf út í fyrra og þó hún fjalli svolítið um Prag á stríðsárunum jafnast hún á engan hátt við bókina sem ég skrifaði um í gær.

Nú er ég að skrifa blogginnlegg númer 1860 sé ég efst á síðunni. Afi minn (í móðurætt) fæddist árið 1855 svo bráðum verður hægt að leggja einhverja merkingu í bloggnúmerin hjá mér, en hingað til hefur það verið erfitt.

Hvernig í ósköpunum kemur fólk sér upp pólitískum skoðunum. Og breytir áróður einhverju þar um. Vildi að hægt væri að sanna að svo sé ekki. Held það nefnilega. Er þá öll kosningabaráttan sem svo er kölluð til einskis? Já, það held ég. Þó margt sé rannsakað hefur þetta atriði fengið að vera í friði. Það er líka tiltölulega auðvelt að leiða hamaganginn hjá sér. Þeir sem beita sér sem mest í þessu öllu virðast þó trúa því að þetta hafi áhrif. Ekki dettur mér í hug að einhverjir þeirra sem leggja í vana sinn að kíkja á bloggið mitt fari að taka upp á þeirri ósvinnu að skipta um pólitíska skoðun við að lesa það.

IMG 2412Gámur.


1859 - Tunglið

Allt þar til nýlega var talin svolítil hætta (kannski ekki nema einn möguleiki á móti milljón – en hætta samt) á því að smástirni eitt sem nefnt er Apophis, sem talið er vera um 325 metrar í þvermál mundi rekast á jörðina árið 2036. Nú hefur smástirni þetta nýlega farið framhjá jörðinni og þá gafst tækifæri til að reikna þetta nákvæmlega og niðurstaðan er sú að þessi hætta er ekki lengur fyrir hendi. Samt er sú hætta alveg jafnmikil og áður að einn góðan veðurdag lendi smástirni á jörðinni og sú hætta er tekin alvarlega af vísindamönnum. Öruggt er að það verður ekki fyrirvaralaust og möguleikar okkar til að koma í veg fyrir slíkan árekstur eru talsvert miklir. Slíkir árekstrar hafa orðið og munu áreiðanlega verða í framtíðinni en óvíst er hvenær.

Tunglið er að detta aftur fyrir sig og lendir líklega einhversstaðar á Kársnesinu eða í sjónum þar úti fyrir. Þannig lítur það a.m.k. út frá mér séð. Varðmaðurinn þar gæti hafa sofnað því klukkan er rúmlega fimm og ég andvaka rétt einu sinni.

Þegar svefntaflan sem ég tók áðan fer að virka þá kemst ég líklega í stuð við að skrifa en verð jafnfram skelfilega syjaður. Hvort skyldi þá vera betra að halda áfram að skrifa eða fara að sofa. Þetta er spurningin sem ég þarf að svara bráðum og ég er ekki í neinum vafa um að ég vel svefninn. Hann er sætari en allt sem sætt er. Svona má reyndar ekki segja því sykur er skylt að hata út af lífinu. Öðru hvoru lendir hann þó í kaffibollanum mínum án þess að ég geti komið í veg fyrir það. Ég held að ég nenni ekki einu sinni að bíða eftir að tunglið detti.

Pólitíska rétthugsunin sem öllu tröllríður núna er verndun einhverrar gígaraðar á Reykjanesi. Til stendur að virkja þá gígaröð kannski einhverntíma seinna, því hún er víst á svæði þar sem slíkt er leyfilegt samkvæmt einhverju plaggi. Meðan rétthugsendur einbeita sér að þeirri verndun á svo að virkja neðri hluta Þjórsár þegandi og hljóðalaust. Þetta er aðferðin sem beitt var við Eyjabakka og rétthugsendur eibeittu sér að á meðan Kárahjúkavirkjum var undirbúin. Merkilegt hvað virkjunarandstæðingum gengur illa að átta sig á þessu. Annars er þetta bara hugmynd sem ég fékk núna rétt áðan og kannski er hún tóm vitleysa. Þetta er varnagli sem ég verð að slá svo ég verði ekki sakaður um öfugan andvirkjunarsinnaáróður. Skil þetta varla sjálfur, en samt er það víst svona.

IMG 2140Þetta er bara mynd sem ég fann og er örugglega búinn að birta áður. Er orðinn uppiskroppa með nýjar myndir, en læt þann vana að hafa mynd aftast í blogginu ráða.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband