Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

1671 - Gunnar Helgi

026Gamla myndin.
Þarna eru menn greinilega þreyttir. Mér virðist mega þekkja þarna Guðmar Magnússon, Pétur Esrason og Árna Reynisson a.m.k.

Fjölmiðlafárið í kringum forsetakosningarnar versnar stöðugt. Veit ekki hvar þetta endar. Áhugi minn á að leggja orð í forsetabelginn minnkar stöðugt. Ætli ég verði ekki að reyna að einbeita mér að öðru.

Í rauninni er hundleiðinlegt að spara. Best er að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Bara passa að þjáningin verði ekki of mikil. Best að losna við hana með því að eyða ótæpilega. En þá kemur árans samviskubitið og áhyggjurnar.

Já, það er erfitt þetta líf. Það endar samt að lokum. Það er kannski það versta. Eða það besta. Það sem mestu máli skiptir er tímabilið frá fæðingu til dauða. Skelfing var þetta spekingslegt hjá mér. Nú held ég að sé best að fara að sofa.

Kannski landsbyggðarmenn hafi ekki allir fattað djókinn þegar ég minntist á þá í gær. Sá svolítið eftir að hafa sagt þetta. Það er jafnvel hægt að hugsa sér að til séu húmorslausari menn en ég. Mér finnst sumir baggalútsbrandararnir a.m.k. meinfyndnir.

Er eiginlega svolítið foj yfir því hvað lítið er kommentað hér. Þó er það svo að eftir Moggabloggsteljaranum að dæma þá er bloggið mitt talsvert lesið. Þeir sem oft koma hingað og er alveg sama þó aðrir viti af því mættu semsagt alveg segja hæ og bæ stöku sinnum. Hef samt heyrt um að sumir bloggarar séu lagðir í hálfgert eineldi af ágengum kommenterurum. Ekki óttast ég slíkt.

Tek eftir því að Pressan talar um fasbók þegar hún meinar fésbók. Aðrir fjölmiðlar og netmiðlar virðast hafa fallið fyrir því síðarnefnda. Einnig ég og það án þess að vera miðill. Stuttar setningar eru mínar ær og kýr. Sjaldan verða þær of stuttar.

Var í gær að skoða gamalt blogg-skjal hjá mér. Þar sá ég bréf frá Gunnari Eysteinssyni. Hér er kafli úr því með leyfi höfundar (eða án):

Ég er búinn að keppast í nokkur ár við að koma vefsíðunni minni á framfæri, sem bíður uppá ókeypis þjónustu... án árangurs. Ég les bloggið þitt reglulega og ég man ekki hvaða færsla það var en þú nefndir það fyrir skömmu að þú vissir ekki hvað þú ættir að skrifa um, eða hvort þú ættir að skrifa blogg. Ég á kannski eftir að sjá eftir þessu, en værir þú til í að skrifa bloggfærslu um vefsíðulistann Topplistinn.is? Ef þú skrifar eitthvað neikvætt þá er það í fína lagi “bad publicity is good publicity”

Fyrir nokkrum árum (mörgum) datt mér í hug að koma á framfæri þjónustu sem væri ókeypis ( Leit.is er með svipaða þjónustu en þar er ársgjaldið 39.200 á ári) – Þetta var bara hugmynd á meðan  íslendingar “héldu” að þeir væru ríkasta þjóð í heimi. En þegar kreppan kom hugsaði ég með mér að núna er tími fyrir mig að bjóða upp á þessa þjónustu, hún er jú ókeypis. EN það er eins og fólk lifi ennþá í þeirri staðreynd að ókeypis sé drasl. 

 Með bestu kveðju,
Gunnar Helgi Eysteinsson
http://www.topplistinn.is

Sennilega hef ég alveg gleymt að sinna þessu þá og satt að segja fer ég ekki oft á þessa síðu og það er mest vegna þess að mér finnst ég hafa lítið að sækja þangað. Nú er ég semsagt búinn að minnast á hana og geri það kannski betur seinna.

IMG 0066

Steinar og haf.


1670 - "Hvað höfum við gert ykkur?"

25cGamla myndin.
Þessir spiluðu bridds hvenær sem tækifæri gafst. Að þessu sinni voru þeir útivið en það var ekki oft. Frá vinstri sýnast mér þetta vera Eyjólfur Þorkelsson, Árni Ragnar Árnason, Svavar Sigurðsson og ég veit ekki hver.

Spurning dagsins, vikunnar, mánaðarins og jafnvel ársins er fólgin í fyrirsögninni. Af gömlum vana skaut ég hér á milli gamalli mynd, en ætla núna að reyna að svara spurningunni sem líklega er ættuð frá útgerðarauðvaldinu.

Nú, það er ýmislegt og stjórnmálalegir andstæðingar ykkar hafa tíundað það af mikilli nákvæmni. Ég vil samt leggja áherslu á að ef samstaða næst um kvótamálið á þingi er engin ástæða til að efna til frekari illinda um það. Auglýsingar þær og auglýsingaeftirlíkingar sem dynja á fólki þessa dagana eru kannski einkum ætlað að hafa til áhrif á stjórnmálalega framvindu málsins. En þó vilji margra standi til þess að halda áfram deilunum um þetta mikilvæga mál er engin ástæða til þess. Nóg er nú samt. 

ÓRG segist vilja hafa kvótakerfið eftir sínu höfði. Þegar nafni hans Ketilsson lét gera rútur eftir sínu höfði (semsagt hæstar að aftan) var það hans mál. En þetta er mál sem mér finnst ekki að forsetinn eigi að ráða.

Hún Bibba á Brávallagötunni gæti komist í feitt með því að lesa DV reglulega. Ekki geri ég það. Nýjustu afurðirnar þar skilst mér að séu um bæjarstjóra sem kemur eins og þruma úr heiðskýru (með upsiloni) lofti til að berjast á banaspjótum um keisarans skegg. Eiður má eiga þetta. Ég nenni bara ekki að elta ólar við hvað sem er.

Auðvitað er leiðinlegt að vera svona illa að sér í íslensku, en þá ættu menn að gera eitthvað annað en að semja fyrirsagnir í dagblöð. Ég treysti mér vel til að slá margan blaðamanninn út í fyrirsagnagerð. Kannski gera þeir þó sumt vel. DV hefur staðið sig blaða best í Hrunfréttum og nú berja þeir á ÓRG eins og þeir best geta. 

Ætli þetta sé sýslufundarhretið sem nú er skollið á? Sólin er samt eitthvað að glenna sig. Og snjórinn fellur víst aðallega á rangláta (þ.e.a.s. landsbyggðarmenn).

IMG 0059Háhýsi.


1669 - Er partýið búið?

25bGamla myndin. Sigurjón Guðbjörnsson.

Finnst óþarfi hjá Illuga Jökulssyni og fleirum (ha! Láru Hönnu - nei það getur ekki verið) að láta svona. Fólkið sem tekur þátt í sægreifaauglýsingunum gerir það áreiðanlega af góðum hug eingöngu. Það má hinsvegar alveg velta fyrir sér hugarfari þeirra sem kosta auglýsingarnar. Mér finnst þær ekki skemmtilegar og er viss um að þegar ímyndarbaráttan er orðin svona hörð vantar lítið uppá að fólk láti hendur skipta. Sérhagsmunagæslan er komin á alvarlegt stig þarna.

Er að velta fyrir mér hvernig Icesave-málið þróaðist allt samna. Finn á mér að ég mun ekki kjósa ÓRG ef ég finn minnsta vott um eiginhagsmunastefnu hjá honum í sambandi við það mál. Flest eða öll atkvæði sem hann kemur til með að fá verða útá frammistöðuna þar. Reyndar blasir alveg við að hann hugsar jafnan um eigin hag á undan öllu öðru.

motorcycleMinntist um daginn á mótorhjól ef ég man rétt. Hef haldið áfram að lesa mótorhjólabókmenntir síðan. Bókin sem myndin hér er af er sú nýjasta sem ég hef lesið af því tagi. Hún heitir: Iceland: A stormy motorcycle adventure og er eftir Sherry McCarthy. Nánari upplýsingar um bókina má fá á: http://www.amazon.com/s/ref=nb_sb_noss?url=search-alias%3Daps&field-keywords=Iceland+a+storymy+motorcycle+adventure Þetta er um margt ágætisbók og lýsir vel ferðalagi þeirra skötuhjúanna um Ísland. Því er ekki að leyna að landið er hjá höfundinum í dálítið rósrauðum bjarma, en þó ekki að öllu leyti. Það sem gerir lesturinn mun skemmtilegri en ella er auðvitað að maður skuli vera sæmilega kunnugur staðháttum. Næsta mótorhjólabók sem ég er að hugsa um að lesa er þessi:

mótorhjól 2Og nánari upplýsingar um hana er að finna á http://www.amazon.com/s/ref=nb_sb_noss?url=search-alias%3Dstripbooks&field-keywords=Old+men+can%B4t+wait .

Sagt er að hið gríðarlega tap J.P. Morgan bankans um daginn gæti verið byrjunin á nýrri heimskreppu. Það athyglisverðasta við það tap er að það var engum að kenna, varð bara sisvona.

IMG 0058Ný bjalla.


1668 - Mistök á lögmannsstofu (bara plat)

025Gamla myndin.
Þarna sýnast mér vera Jón Eðvald Alfreðsson, „Konni“, Sigurður Fjeldsted og Árni Gíslason.

Málþóf er alltaf málþóf hvað sem hver segir. Gallinn við það sem er að gerast á alþingi þessi dægrin er sá að vafasamt er að stjórnarliðar séu nokkuð betri en stjórnarandstaðan í þessum sökum. Þó er ekki hægt að fullyrða um það, því aðferðirnar sem beitt er við málþófið breytast í sífellu. Ragnheiður Elín Árnadóttir sem stjórnar málþófinu núna er að því leyti verri en þeir sem fengist hafa við slíkt áður að hún kann ekki að leyna neinu og málþófið er augljóst.

Af því að stjórnarþingmenn vita ósköp vel að þeir muni nýta sér þessa aðferð ef þeir telja sig þurfa þess þá þora þeir ekkert að gera. Það er samt auðvelt að losa sig við þessi ósköp en þingmennirnir sem fyrir þessu standa hugsa ekki um virðingu neinna. Hvorki sína eigin eða alþingis. Þykjast vera að hugsa um þjóðarhag en eru bara að hugsa um hvernig þeir eigi að eyða peningunum sem þeir fá fyrir þennan asnaskap.

Það er hægt að ergja sig heil ósköp yfir því hvað alþingismenn eru vitlausir og hve hægt gengur að koma þeim til aðstoðar sem fóru illa útúr Hruninu, en spurningin er hvort þetta skiptir nokkru máli. Er ekki alveg eins merkilegt að ergja sig útaf tapi knattspyrnuliðsins síns í síðasta leik? Jú, jú rexið í þingmönnunum skiptir eflaust máli fyrir þróun þjóðfélagsins, fótboltinn kannski líka. Er ekki bara best að slá þessu öllu upp í kæruleysi og reyna að plata náungann sem allra mest og ota sínum tota. Græða bara eins og samviskulaus útrásarvíkingur. Meðan maður gerir það er ágætt að þykjast vera voða góður og styrkja góð málefni hæfilega mikið.

Það er nefnilega ekkert víst að maður eigi annað líf. Kannski er bara best að lifa þessu eins og enginn sé morgundagurinn. Þá þarf maður ekki að sjá eftir neinu þegar maður fer yfir móðuna miklu. Það sem gerist eftir það skiptir mann nákvæmlega engu máli.

Ég er alls ekki nógu góður myndasmiður. Myndirnar sem ég birti á blogginu mínu (þær nýlegu í endann altsvo) eru ekki nærri nógu góðar. Enda teknar á einskonar Instamatic-vél. Stillingarnar á henni eru að mestu sjálfvirkar. Það er langþægilegast að nota þær. Gömlu myndirnar hjá mér eru fæstar nógu skýrar. Það er margt sem þarf til að geta tekið sæmilegar myndir. Eitt af því nauðsynlegasta er að hafa góðar græjur og kunna á þær. Einnig þarf gott myndauga og svo fer það eftir tegundum mynda hvað er mikilvægast. T.d. þarf næstum ótakmarkaða þolinmæði til að taka góðar dýramyndir. Nútildags er líka mikilvægt fyrir ljósmyndara að kunna að fótósjoppa myndir, eða lagfæra þær eins og líka má kalla það. Myndir af fólki eru oft það einfaldasta því þá eru það yfirleitt augnablikið og svipbrigðin sem ráða því hvort myndin er góð eða ekki.

Fyrir einhverja tilviljun horfði ég í gærkvöldi á sjónvarpsstöðina ÍNN og sá þar Gísla nokkurn Gíslason frá Norhern lights energy http://nle.is/ segja frá rafmagnsbílum sem fyrirtækið er að fara að setja á markaðinn. Þá bíla á aðeins að setja í samband við venjulegt rafmagn og gætu þeir vel átt framtíð fyrir sér hér á Íslandi. Nánari upplýsingar má eflaust fá á heimasíðu fyrirtækisins.

IMG 0050Hvar er Búddha?


1667 - Rafbókavæðingin

024Gamla myndin.
Líklega er þessi mynd úr Bauluferðinni eins og sú síðasta. Þarna finnst mér ég þekkja flesta. M.a. Sigurjón Guðbjörnsson, Jón Eðvald Alfreðsson, Kristján Óla Hjaltason, Guðmund Jóhannsson, Hörð Haraldsson, Jóhann Steinsson, Halldór Jóhannesson, Jóhönnu Karlsdóttur, Jónu Þorvarðardóttur og Örn Friðriksson. Bilstjórann þekki ég ekki.

Það er margt í sambandi við tölvuvæðinguna sem ég hef áhuga á. Sérstaklega er þar um rafbækurnar að ræða. Útbreiðsla þeirra er að aukast stórlega um þessar mundir. Íslendingar hafa verið ákaflega lengi að taka við sér á því sviði. Tölvur af öllu taki hafa lengi verið ofmetnar í skólastarfi. Litið hefur verið á færni í tölvunotkun sem sérstakt fag, en svo er alls ekki. Þær eru bara verkfæri. Ef skilningur nemenda er ekki fyrir hendi er ekki hægt að bæta úr því með tækjabúnaði eingöngu, hversu vandaður sem hann er. Hvað skólastarf allt varðar hafa Íslendingar reynt að fylgja hinum Norðurlöndunum eftir. Það hefur verið fremur erfitt. Einkum vegna þess að á stjórnmálasviðinu hefur verið reynt að apa sem mest eftir andstæðingum norræna módelsins. Minnimáttarkennd Íslendinga hefur svo oft leitt til furðulegs sjálfbyrgingsháttar og oflætis. Þannig virðist sú skoðun vera landlæg núna að við þurfum ekkert að sækja til útlendinga og getum sem best verið ein á báti.

Sú skoðun að það sé einkum Dönum að kenna hve aumir við Íslendingar vorum í gegnum aldirnar er talsvert ríkjandi ennþá. Þó eru menn farnir að gera sér grein fyrir því að á margan hátt er um þjóðareinkenni að ræða. Danir gerðu það sem þeir gátu til að láta Íslendinga rakna við sér, en það kom fyrir lítið. Fáeinir stórbændur réðu nánast öllu hér og komu í veg fyrir allar framfarir. Þegar nálgaðist tuttugustu öldina byrjaði samt örlítið að rofa til. Fyrri heimsstyrjöldin og kreppan í kjölfar hennar stöðvaði þó allar framfarir og allt virtist stefna í sama volæðið og fyrr, þegar blessað síðara heimsstríðið kom og Bretar og síðar Bandaríkjamenn tóku okkur undir sinn verndarvæng.

Þá tóku miklar framfarir við og þannig hefur það verið síðan. Kreppan sem hér og víðar reið yfir fyrir nokkrum árum er á undanhaldi núna en heimsmyndin er breytt. Ofurvaldi Bandaríkjanna og Evrópu er að ljúka. Langan tíma munu þær breytingar samt taka og við Íslendingar fáum þar litlu um ráðið. Eigum einkum um þrjá kosti að ræða. Í fyrsta lagi einangrunarstefnu, eins og fyrr á öldum. Í öðru lagi samstarf við Evrópu sem nú virðist einkum felast í inngöngu í ESB og í þriðja lagi að reyna að þóknast Bandaríkjamönnum sem mest og líkja eftir þeim. Það hefur verið gert á stjórnmálasviðinu síðustu áratugina, en efast má um að það sé okkar heppilegasta leið.

Ingimar Karl Helgason veltir mikið fyrir sér eignarhaldi á 365 miðlum og margir eru sömu skoðunar. Margt virðist skrýtið í sambandi við það eignarhald. Auðvitað er best að treysta engum og búast alltaf við því versta af öllum en það er líka hægt að týna sjálfum sér í samsæriskenningum og getsökum. Er Jón Ásgeir yfirmaður Jóhönnu forsætis? Ef Ingibjörg Pálma ákveður nú að skilja við Jón Ásgeir hvert fer þá eignarhaldið á öllum fjandanum? Er baráttunni um sálir Íslendinga stjórnað af Mogganum og 365 miðlum? Er ESB og forsetaembættið bara undirdeildir í þeirri miklu baráttu?

IMG 0048Öryggi – ábyrgð.


1666 - Er Þóra fulltrúi Samfylkingarinnar?

023Gamla myndin.
Sennilega er þessi mynd tekin á toppi Baulu. Ég giska á að talið frá vinstri séu þarna: Gunnar Magnússon, Jón Eðvald Alfreðsson, Árni Ragnar Árnason, óþekktur, Kristján Óli Hjaltason og Jóhann Steinsson.

Undarleg ósköp að deyja orti Hannes Pétursson fyrir margt löngu. Man líka eftir Rauðamyrkrinu hans, en það er önnur saga eins og þar stendur. Þetta með dauðann hefur samt alltaf vakið talsverðan áhuga minn. Hef jafnvel verið svolítið hjátrúarfullur gagnvart honum. Veit samt ósköp vel að ég slepp ekki við hann frekar en aðrir. Framhaldslífið er hjá mér hulið myrkri og móðu. Sé jafnvel ekki framá að það sé neitt.

Einu sinni fyrir nokkrum árum var ég í sambandi við ritstjóra blaðsins „Heima er best“. Hann hafði dálítinn áhuga á því sem ég skrifa og hafði eitthvað lesið bloggið mitt. Birti grein eftir mig um brunann á Bláfelli og vildi gjarnan birta meira eftir mig en einhvern vegin varð ekki neitt úr því. Man að ég sendi honum tvær greinar sem hann vildi ekki birta. Önnur þeirra var um dauðann og ýmislegt sem honum tengist. Hin var um Bjarna-Dísu þá sem frá er sagt í þjóðsögum Jóns Árnasonar og þar talin með draugasögum. Mér finnst hún ekki vera nein draugasaga, en það er önnur saga.

Ég er fastur í blogginu og get ekkert að því gert. Sumir (t.d. Sigurður Þór Guðjónsson) festast í einhverju öðru (t.d. fésbókinni) og auðvitað er ekkert við því að segja. Egill Helgason er fastur í ýmsu t.d. Grikklandi, Kiljunni og Silfrinu. Allir eru fastir í einhverju. Harpa er föst í geðveikinni. Konan mín er föst í að selja myndir eftir sig á ebay o.s.frv.

Ég kann illa við mig ef ég er ekki með svona a.m.k. 10 – 15 bréfskákir í gangi á hverjum tíma. Smátt og smátt er mér næstum orðið sama hvort ég vinn eða tapa. Líka er mér að mestu sama um stigin. Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Einu sinni var metnaðurinn mikill og þá tefldi ég af miklum áhuga á einhverju þýsku vefsetri. Núna tefli ég á chess.com (í gegnum fésbókina) og svo á chesshere.com.

Það er áhugavert að hugsa sér ýmsar pólitískar skýringar á forsetakosningunum. Ef litið er á fyrri kosningar og póltískar áherslur frambjóðendanna og fjölmiðla sem um þá fjalla blasir við að Þóra Arnórsdóttir sé frambjóðandi Samfylkingarinnar og Ólafur greyið sé frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins. Aðrir frambjóðendur virðast einkum eiga að spilla fyrir þeim. Þannig virðast fjölmiðlarnir a.m.k. líta á málið. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki vanur að koma sínum manni að þannig að líklegast er að Ólafur tapi. Annars má búast við að nú fyrst fari átökin um forsetaframboðið að verða illvíg. Jafnvel að Grímsstaðir á Fjöllum falli í skuggann. Þar er þó tekist á um mál sem skiptir hugsanlega máli. 

Ég skrifaði um daginn um Vaðlaheiðarvitleysuna. Vissulega má færa fyrir því rök að samgöngubætur borgi sig ef til langst tíma er litið. Margt annað gerir það líka og kannski stuðla þær að óþarfa-akstri. Að halda því fram að Vaðlaheiðargöngin kosti eiginlega ekki neitt af því að hægt sé að fá lánað fyrir þeim (með ríkisábyrgð) og færa þau útfyrir samgönguáætlun er slík víðáttuheimska að ótrúlegt er að slíkt sé borið á borð nú á þessum síðustu og verstu tímum. Ef Steingrímur sturlaði kemur því í gegn að bora þessi göng er það eingöngu til að reyna að tryggja endurkjör sitt og síns fólks til alþingis. En hann fellur. Kolfellur meira að segja.

IMG 0042Neðanjarðarbílastæði.


1665 - Köttur á stærð við belju

022Gamla myndin.
Líklega er verið að ganga á Baulu þarna. Jón Sigurjón Skúlason er lengst t.v. Í öftustu röðinni virðist mér vera Gunnar Grímsson með son sinn Gauta og Hörður Haraldsson. Hina þekki ég ekki. Í næstu röð finnst mér ég þekkja Jón Eðvald Alfreðsson og Magnús Haraldsson og fremst fer greinilega Védís Elsa Kristjánsdóttir.

Þegar ég var í barnaskóla tók kennarinn eitt sinn uppá því að hrósa mikið ritgerð sem ég hafði gert og teikna línurit yfir hana á töfluna. Mér fannst ritgerðin ekkert séstök og einkum vera stæling á einhverju sem ég hafði heyrt eða lesið annarsstaðar. Um kött á stærð við belju og annað enn ótrúlegra. Samt er það svo að síðan þetta var hefur mér alltaf fundist ég vera nokkurs konar rithöfundur. Kannski beið ég bara of lengi eftir því að springa út og verða frægur. Aðstæður voru aldrei þær réttu. Byrjaði meira að segja seint að blogga. Þó er ég kannski frægastur fyrir það. En auðvitað er ég ekkert frægur samt. Finnst þó sjálfum að ég gæti hæglega skrifað um hvað sem er, ef mér bara dytti það í hug.

Er sniðugt að linka á fréttir til að reyna að fá fleiri til að kíkja á bloggið sitt? Ég held ekki. Fréttir sem ég les eru sjaldnast kveikjan að því sem ég skrifa og við þær kringumstæður er það í mínum augum hálfgert plat að linka. Samt skiptir það mig auðvitað máli hve margir lesa það sem ég skrifa. Mér finnst ég ekkert vera að endurtaka mig mikið hér í blogginu. Öðrum gæti samt fundist það án þess að segja mér frá því.

milli innheimtaVarið ykkur á milli-innheimtubréfunum, þau eru hættuleg. Fara jafnvel milli skinns og hörunds, hvernig sem það er nú hægt.

Mér finnst fésbókin vera orðin óttaleg ruslakista. Því er samt ekki að leyna að innan um allt ruslið eru gullmolar. Sem myndadreifari stendur fésbókin að ýmsu leyti framar blogginu og til að benda fólki á athyglisverðar greinar annarsstaðar er hún ágæt. Að öllu öðru leyti er hún misheppnuð og tímaþjófur hinn mesti.

Einu sinni í háloftunum sá ég þotu ösla áfram í reykskýi. Kannski var hún alltof nálægt. Hún var ekki sérlega langt frá þotunni sem ég var í og kom á móti henni svo ekki gat ég fylgst með henni lengi. Aldrei hef ég séð þotu á flugi nær mér en þetta. Það sem vakti mesta athygli mína var mengunin. Hún var hrikaleg. Kolsvartur reykurinn var eins og gríðarmikið ský í kjölfarinu. Himingeimurinn er vissulega stór en á endanum getur verið að hann fari að finna fyrir þessum ósköpum. Talsvert margar þotur held ég að séu á flögri á hverjum degi. Kannski mengaði þessi þota meira en aðrar. Samt held ég að háloftamengun skipti máli.

Nú er allt að verða vitlaust útaf forsetakosningunum. Mest er að sjálfsögðu spekúlerað í hugsanlegum úrslitum og þýðingu þeirra. Ágætt er að fréttamiðlarnir hafi um eitthvað annað að að skrifa en Hrunið. Ósköp eru vangaveltur þeirra þó oftast ómerkilegar. Samt er það svo að fjölmiðlarnir og netmiðlarnir virðast stjórna að miklu leyti skoðunum fólks um fjölbreytilegustu hluti. Fyrir daga netsins hafði fólk oft ekki annað en fjölmiðlana og kaffiþambið. Nú er þetta breytt því allir með lágmarkskunnáttu og aðgang að tölvum geta látið ljós sitt skína. En er birtan eitthvað meiri með öllum þessum ljósum. Efast má um það.

IMG 0010Sólsetur í Kópavoginum.


1664 - The First Ride

016Gamla myndin
Þetta hlýtur að vera Hildur Kristjánsdóttir.

Ég hef aldrei á mótorhjól komið. Samt sem áður heilla þessi farartæki mig talsvert. Frásagnir af langferðum á slíkum hjólum finnst mér oft gaman að lesa. Nýlega las ég bók sem heitir „Þúsund myndir – milljón minningar“ eftir Þormóð Símonarson (Líklega er hann frá Görðum á Snæfellsnesi og afkomandi Möggu í Dalsmynni – en það er önnur saga.) Þá bók fékk ég lánaða á bókasafninu og myndirnar og fleira er hægt að nálgast á netinu. http://www.1000myndir.info/ 

Fyrir nokkrum árum fylgdist ég af áhuga með frásögn á netinu af tveimur mótorhjólamönnum sem fóru umhverfis jörðina (Norðurlöndin, Rússland, Mongólíu, Japan, USA og Kanada – minnir mig) og nú er ég að lesa í kyndlinum mínum bók sem ég fékk ókeypis (á alltaf erfitt með að standast slík tilboð) á Amazon og heitir „The First Ride“. Bókin fjallar um ferðalag fjögurra manna frá Texas í Bandaríkjunum til Panama í Mið-Ameríku á mótorhjólum.

Nú er ég búinn með mótorhjólabókina og hún er verulega góð. Lýsir ekki einungis ferðalaginu yfir Mexíkó og flest lönd Mið-Ameríku heldur er hún ágætis sálfræðileg stúdía jafnframt. Höfundurinn heitir A.H. Rosenberg og bókin er nýkomin út (2012). Gallinn er bara sá að núna er Amazon-fyrirtækið farið að selja hana. Kindle-útgáfan kostar $ 5,34 og kiljan 11,99.

IMG 8281Selur.


1663 - Listin að skrifa á fésbókina

015Gamla myndin.
Fríður Guðmundsdóttir og Áslaug Gunnarsdóttir hægra megin og gætu verið Hinrika Halldórsdóttir og Hildur Kristjánsdóttir t.v.

Fyrirsögnin skiptir mestu um hve margir skoða bloggið manns. Það er ég alveg búinn að sjá. Auðvitað er þó margt fleira sem skiptir máli. Í síðasta bloggi talaði ég eitthvað um forsetakjörið minnir mig í fyrirsögninni. Það er einmitt það sem fólk hefur mestan áhuga á þessa dagana. Enda var það eins og við mannin mælt, aðsóknartölur hækkuðu verulega. Sennilega væri réttast hjá mér að minnast eitthvað á þær kosningar nú. Eða ekki.

Ef maður hefur nógu margt um að skrifa til að blogga, þó ekki sé nema öðru hvoru, þá hefur maður nóg um að skrifa á fésbókarræfilinn. Það er samt til lítils að vera sískrifandi þar ef enginn nennir að lesa það hjá manni. Undireins og einhver lækar eða sérar hjá manni fær maður samt að vita af því. Þannig verða undarlegustu tröllasamtöl til, þ.e.a.s. ef maður svarar. Einhverra hluta vegna finnst greinilega mörgum viðurhlutameira að skrifa komment á blogg en á fésbók. Ef fá viðbrögð koma við því sem maður skrifar á sinn eigin vegg getur maður sem hægast gert athugasemd hjá einhverjum öðrum. Það er að segja ef maður hefur einhvern áhuga á rauðu tölunum.

Þegar ég byrjaði á fésbók safnaði ég fésbókarvinum og hætti ekki fyrr en ég var kominn í fjögur hundruð eða svo. Þessvegna þjóta þessar séranir og þess háttar framhjá mér núna og ef ég vil skoða eitthvað nánar er eins víst að ég þurfi að samþykkja einhvern fjárann til að fá það. Ég ætla samt ekkert að hætta á fésbók, því hún er góð til síns brúks og ég tefli þar bréfskák alla daga. Það er nú reyndar bara linkur á „chess.com“ sem þar er held ég en það sameinar samt tvennt að kíkja á bókina. Tékka semsagt á skákinni og rauðu tölunum.

 Hér er gróðavænleg viðskiptahugmynd. Hvernig væri að búa til og reyna að selja (t.d. í Elko) Hleðslumiðstöð heimilanna. Vísir að slíku er hér á kommóðunni í tölvuherberginu og þar eru símarnir hlaðnir (a.m.k. minn), myndavélabatteryin, spjaldtölvan og þráðlausu heyrnartækin, ásamt öðru tilfallandi. Eilíft snúruvesen og áhyggjur. Segi bara svona. Tengikassa fyrir tövudót væri líka áreiðanlega hægt að selja einhverjum.

Ég er semsagt að rembast við að skrifa eitthvað sem aðrir vilja lesa. Af hverju er ég að því? Veit það ekki almennilega. Kannski mest útaf tölunum og listunum þó ég vilji helst ekki viðurkenna það. Jú, það er gaman að fá svona hæfilega mörg komment. Þau geta samt hæglega orðið of mörg. Því hef ég brennt mig á. Sumir eru nefnilega einkum á netinu til að kommenta út og suður. Þeir eru samt ekki mjög margir og lítill vandi að losna við þá. Margir fá greinilega útrás með því að skrifa og kommenta sem mest á fésbókinni. Það er ágætt.

IMG 8277Hús.


1662 - Flókið forsetaframboð o.fl.

014Gamla myndin.
Hinrika Halldórsdóttir t.v., gæti verið Hildur Kristjánsdóttir í miðið. Veit ekki hver er t.h.

Salvör Gissurardóttir ræðst á Ástþór forsetaframbjóðanda á fésbókinni og velur honum ekki falleg nöfn. Líka kallar hún hann gjörninga-listamann og hefur margt til síns máls þar. Eitthvað virðist henni hafa sinnast við þá Wikipediu-menn en ég vil ekki blanda mér í þá umræðu. Höfundarréttarmál eru margflókin mál og Salvör hefur mjög afdráttarlausar skoðanir þar og er ágætlega að sér um þau mál.

Það er heilmikil stúdía að reyna að fylgjast með öllum framboðum, nöfnum stjórnmálahreyfinga og þess háttar. Sagt er að átta séu nú búnir að ákveða að bjóða sig fram til forseta. Látum okkur sjá hvort ég get nefnt þá alla: Ólafur Ragnar Grímsson, Þóra Arnórsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Herdís, Ástþór, Jón, Hannes og Andrea. Og stjórnmálasamtök auk fjórflokksins skilst mér að séu: Björt framtíð - Guðmundur Steingrímsson, Jón Gnarr og hugsanlega fleiri. Dögun - Hreyfingarnar og Frjálslyndi flokkurinn eða það sem eftir er af honum. Samstaða - Lilja Mósesdóttir og Siggi stormur sem er víst hættur við. Svona sé ég þetta akkúrat núna. Fremur er þetta óskýrt alltsaman en lagast vonandi þegar nær dregur kosningum.

Það hefur víst verið á sjöunda áratugnum sem ég vann hjá Heildverslun Hannesar Þorsteinssonar. Þar sá ég meðal annars um tollamál. Þá þótti varla taka því að tala um10 til 15 % toll, því það var næstum enginn tollur. Lúxusvarningur var tollaður mjög hátt. Skildi samt aldrei af hverju klósett voru í 80 % tolli. Það var samt ekkert tiltakanlega hár tollur. Fyrir sumu (t.d. þilplötum) þurfti sérstök gjaldeyrisleyfi til að mega flytja inn. Kannski er sú einangrunarstefna sem þá var að syngja sitt síðasta á leiðinni inn aftur núna. Að minnsta kosti á ég ekki von á að auðvelt verði að afnema gjaldeyrishöftin sem nú eru við lýði nema við verðum neydd til þess af öðrum.

Já, það er komið sumar. Það er bara hreint ekkert kalt þó maður vakni snemma. Kannski ég pósti bara á bloggið mitt því sem ég var að dunda við að skrifa áður en ég fór að sofa. Þá er ég laus við það. Það er svosem ekkert aðalatriði í mínum huga að skora hátt á vinsældalista Moggabloggsins. Tek samt eftir því að margir (finnst mér allavega) hafa vanið sig á að lesa það sem ég skrifa. Sjálfum finnst mér ég vera skoðanalaus að mestu, en íslenskan og réttritunin finnst mér vera lítið mál. Pólitíkin loðmulluleg en það er einmitt þannig sem ég sé hana. Ljósmyndirnar ekkert sérstakar. Gömlu myndirnar eldgamlar og eftir því lélegar. Veit ekki eftir hverju fólk er að slægjast. Mér er sama því ég hef bara gaman af þessu.

IMG 8246Portrett.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband