Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
8.2.2012 | 03:13
1606 - Lilja Mósesar
Gamla myndin.
Þetta er sennilega frá skemmtiatriðum á 17. júní. Myndin er greinilega tekin uppi í Laugaskarði.
Ein af ástæðunum fyrir því að Hrunið haustið 2008 varð eins slæmt og raun ber vitni er að talsverður fjöldi venjulegs fólks treysti bönkum og fjármálastofnunum. Treysti því að fulltrúar þeirra segðu í aðalatriðum satt og rétt frá. Þetta traust er horfið og kemur aldrei aftur. Traustið á stjórnvöldum og stjórnmálamönnum var löngu farið. En hverju er þá unnt að treysta? Er hægt að treysta bara á sjálfan sig og sína nánustu fjöskyldu? Er kannski best að treysta á nýju flokkana? Eru þeir eitthvað skárri en hinir gömlu? Ekki virðast bankarnir hafa batnað við að fara á hausinn. Ólafur Ragnar virðist ætla að koma standandi niður úr ósköpunum. Er þá kannski bara best að treysta á hann? Spurningarnar eru margfalt fleiri en svörin. Einhvers konar svar fæst þó í þeim þingkosningum sem verða á þessu ári eða því næsta. Kannski fæst hluti af svarinu í forsetakosningunum sem áreiðanlega verða næsta vor.
Það er samhengislausa þruglið sem á best við mig. Þá þarf ekki að velta fyrir sér framhaldinu eða neinu þessháttar og því hentar bloggið mér svona vel. Þar er hægt að vaða fyrirvaralaust úr einu í annað og enginn ætlast til nokkurs framhalds eða samhengis. Of mikið má þó af öllu gera og hvað samhengisleysið varðar kemur fésbókin sterkt inn með allt sitt læk, fótósjoppaðar myndir og ógáfulegu athugasemdirnar. Sko mig, þarna tókst mér að koma fésbókinni að og þá er mér óhætt að hætta og fara að hugsa um eitthvað annað.
Í sjónvarpinu áðan var bollalagt um forsetaembættið og Ólaf Ragnar Grímsson; einnig hvort hann muni bjóða sig fram einu sinni enn eða ekki. Síðast þegar ég vissi voru yfir 27 þúsund undirskriftir taldar komnar á listann þar sem skorað er á hann að gera einmitt það. Mér finnst það satt að segja vera hrein ókurteisi hjá honum að upplýsa ekki hvort hann hyggist bjóða sig fram í vor. Hvað sem öðru líður verður hann ekki sjálfkjörinn að þessu sinni. Ef Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona stendur við stóru orðin og býður sig fram kýs ég hana miklu fremur en ÓRG þó ekki væri nema vegna þeirrar óvirðingar sem Ólafur sýnir þjóðinni um þessar mundir.
Já, það eru margir sem hafa áhuga á flokknum hennar Lilju Mósesar. Nafnið er ekki mjög frumlegt, en hvort það er eitthvert félag úti á landi sem heitir sama nafni finnst mér ekki skipta miklu máli. Að Siggi stormur sé eini þjóðþekkti aðilinn sem vill hoppa á vagninnn hjá henni finnst mér í lélegra lagi. Líklega eru núna tveir flokkar komnir sem vilja hjálpa okkur að losna við fjórflokkinn; verra gat það verið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2012 | 11:55
1605 - Hundaskítur
Gamla myndin.
Þessi mynd er af Hótel Hveragerði. (Ljósbrá) Skemmtileg mynd. Ekki veitir af að styðja stigann vel.
Skelfing hefur fólk gaman af að breyta fésbókar-prófæl myndunum sínum. A.m.k. er þetta þannig með mína fésbókarvini. Mér finnst ég alltaf vera að fá tilkynningar um slíkt. Apropos fésbókartilkynningar; þær eru að verða algjör plága því ég asnaðist til að setja nokkra sem skrifa mjög mikið upp sem nána vini. Fésbókin fullyrti að viðkomandi fengju ekkert að vita um það. Svo er ég alltaf að fá beiðnir um leyfi til að gera hitt og þetta, en ég er ekkert snokinn fyrir því. Annars er ég sífellt að fjölyrða (mest neikvætt) um fésbókina og dettur alltaf í hug málshátturinn frægi. Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast. Ósköp hefði ég lítið um að skrifa ef engin væri fésbókin.
Eitt mest notaða blótsyrðið sem við strákarnir notuðum í gamla daga var orðið hundaskítur. Hundaskítur þetta og hundaskítur hitt. Þú veist ekki hundaskít um þetta. Hefur ekki hundaskíts vit á því. O.s.frv. Ef við vildum vera óvenju krassandi og magnaðir gátum við talað um mannaskít. Einstöku sinnum fundum við slíkt (eða héldum það) úti í móa en þorðum varla að koma nálægt slíku ógeði. Flugurnar létu sér það samt vel líka; en tölum ekki meira um það.
Það er fátt sem mér dettur ekki í hug. Sjálfum finnst mér þó að mér detti alltof fátt í hug. Bloggað get ég samt fjandann ráðalausan þó ég hafi raunar ekkert að segja. Hafi líka varla hundaskíts vit á nokkrum hlut.
Nú er stóri bílaplansjökullinn að hverfa. Svolítil ísing eftir en með sama áfrahaldi hverfur hún líka. Skíthræddur samt um að veturinn heimsæki okkur aftur. Á þó ekki von á að það verði neitt desember-janúar-skot en snjór á áreiðanlega eftir að koma hér á StórKópavogssvæðinu. Þó ekki væri nema til þess að nýta eitthvað helvítis iðnaðarsaltið, sem allar geymslur eru fullar af.
Spurning hvort DV er ekki farið að vinna gegn tilgangi sínum. Öfgarnar hjá þeim varðandi hrunið eru slíkar að þær gagnast mest þeim sem vilja þagga allt niður. Samkvæmt DV á að taka alla sem hugsanlega eru á einhvern hátt tengdir Hruninu og velta þeim uppúr tjöru og fiðri ef ekki eitthvað enn verra. Segi bara svona. Ekki fer samt hjá því að umræðan um Hrunið er að breytast. Eðlilegt er að fólk sé orðið þreytt á tuðinu. Fróðlegt verður að sjá úrslitin úr næstu kosningum. Ekki bara fróðlegt, heldur geta úrslit þeirra ráðið miklu um framtíð okkar allra.
Af einhverjum ástæðum fór ég að athuga bloggvini mína á Moggablogginu. (Taldi þá samt ekki) Einu sinni voru þeir alltaf í stafrófsröð og fljótlegt að finna þá ef ég þurfti á að halda.Nú eru þeir það ekki og ég get ómögulega áttað mig á í hvaða röð þeir eru. (Fésbókinni átta ég mig sennilega aldrei á) Kannski hefur þeim fækkað líka; hef bara ekki hugmynd um það. Ekki hef ég breytt stjórnborðinu neitt því ég forðast alltaf að fikta í því. Annars er mikil markleysa að vera að spekúlera í svona löguðu en ég get bara ekki að mér gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2012 | 21:51
1604 - Þorskastríð o.fl.
Enn er ég að birta myndir frá Bjössa. Hér koma nokkrar Hveragerðismyndir. Þessi er af Grýtu (eða Grýlu). Friðastaðir í bakgrunni. Sennilega er fremur kalt í veðri þarna því allir virðast vera inni í bílunum að horfa á þetta miklfenglega gos.
Man vel eftir þorskastríðinu 1958. Það held ég að hafi verið nr. 2; man sömuleiðis eftir löndunarbanninu og Dawson úr fréttum sem líklega hefur verið nokkru fyrr. Þegar þorskastríðið 1958 skall á þann 1. september var ég að vinna í Álfafelli og m.a. að þvo skyggingu af rúðunum í stóru blokkinni sem var tengd vinnuskúrnum. Það stríð (altsvo landhelgisstríðið en ekki stríðið við rúðurnar) stóð nokkuð lengi. Ætli það hafi ekki verið samið við Breta rétt eftir 1960. Þá lofuðu Íslendingar að leggja frekari hugsanlegan ágreining um fiskveiðimörk fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag en sviku það.
1. septembar 1972 færðu Íslendingar landhelgi sína í 50 mílur. Það var sama daginn og Bobby Fischer varð heimsmeistari í skák. Man vel eftir atburðinum sem varð líklega í maí 1973 þegar Ægir skaut á togarann Everton. Man að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þá því hatrið í garð Breta var slíkt að lítill vandi hefði verið að æsa til ófriðar við þá ef við Íslendingar hefðum átt einhver vopn sem munaði um. Lögðum samt ekki undir okkur sendiráð þeirra. Bretar komu fram í þessu stríði sem sjentilmenn (þó ekki karlarnir á togurunum) en við Íslendingar sem vanstilltir unglingar.
Í seinni hluta september 1972 eða sama mánuðinum og landhelgin var færð út var ég ásamt nokkrum öðrum staddur á krá einni í Dublin á Írlandi. Þá kom til okkar Íri sem hafði fylgst með okkur og spurði hvaða mál við töluðum eiginlega. Hann taldi helst að það væri finnska, en þegar við sögðumst vera Íslendingar uppveðraðist hann allur og keypti bjór fyrir okkur öll ásamt félögum sínum og þeir sögðu að við værum miklar hetjur að standa svona uppi í hárinu á helvítis Tjöllunum. Sennilega var það fyrst þá sem ég fór almennilega að skynja að heimurinn er talsvert stærri en Ísland. Víkingatrú mín var svo skotin í kaf daginn eftir en það er önnur saga.
Þegar minnst er á mig opinberlega á jákvæðan hátt uppveðrast ég auðvitað allur enda er það ekki algengt. Salvör Kristjana minntist á mig og Netútgáfuna á fésbókinni nýlega; hér eru klippur af því. Mér finnst að rafbækur skipti alveg máli.
Hlustaði áðan á Silfur Egils. Athyglisverðust þar fannst mér umræðan um lífeyrissjóðina. Íslendingar eru jafnan á eftir öðrum. Man ekki betur en svipuð umræða hafi farið fram og tengst stjórnmálum í Svíþjóð fyrir svona 20 árum. Ofurvald lífeyrissjóðanna hefur farið sívaxandi hér á landi lengi undanfarið. Sú kenning að það sé m.a. orsök vaxandi andúðar almennra félaga í verkalýðsfélögunum á starfsemi þeirra, finnst mér merkileg og vel geta staðist.
Allt á kafi í snjó; eða þannig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2012 | 05:24
1603 - Eiríkur og Ögmundur
Verslunin og Sláturhúsið á Vegamótum.
Namedropping, jesús minn. Eiríkur Jónsson er ekki minna fyrir slíkt en aðrir; þó liggur hann ÓRG á hálsi fyrir að geta um hvaða mektarfólk er með honum á Suðurskautslandinu. Segi ekki meir. Stóri kosturinn við (daglega) bloggið hans (Eiríks) á Eyjunni er hvað það er jafnan stutt. Það er oftast nóg að setja bendilinn yfir fyrirsögnina á blogg-gáttinni til að sjá hvað hann hefur að segja. Annað með mig sem á erfitt með að hætta þó ég bloggi daglega eða því sem næst. Annars er það að verða íþrótt hjá mér að móðga aðra bloggara. Minntist ókurteislega á einhvern Badabing um daginn og hann ætlaði vitlaus að verða. Sniðugast er samt að láta naggið í mér sem vind um eyrun þjóta. Ekkert er eins ergilegt og að enginn nenni að ansa manni. (Þetta kann Stefán Pálsson)
Margir hafa sagt og fleiri tekið undir að það hafi verið mikil niðurlæging fyrir alþingi að greiða atkvæði á þann hátt sem gert var í Landsdómsmálinu. Segjum að það sé rétt eins og Ögmundur heldur fram að eðlilegra hefði verið að ákæra a.m.k. fjóra ráðherra eða engan. Af hverju tók það hann og fleiri svona marga mánuði að komast að þeirri niðurstöðu? Hefðu þeir ekki átt að sjá það strax og bregðast við því. Hugsanlega með frávísunartillögu a la Bjarni Benediktsson. Nei, sennilega var betra að bíða svolítið og sjá hvort það gæti ekki komið ríkisstjórninni verr að flytja tillöguna seinna. Snerist Ögmundur kannski bara svona hægt? Er draumur hans að verða einhvers konar jó-jó ráðherra? Kannski er hann bara að stríða Steingrími og ætlar að hrifsa af honum formennskuna í VG. Er ekki bara upplagt að svæfa málið í nefnd; það er víst vaninn með frumvörp sem flutt eru af vitlausum aðilum.
Skýrslum af einhverju tagi er nú dælt út daglega. Menn hafa varla tíma til að mótmæla og andskotast. Um dagin kom út einhver skýrsla (gott ef hún var ekki um verðtryggingu) og Marínó G. Njálsson og Ólafur Arnarson ásamt fleirum mótmæltu hástöfum. Í dag var að koma einhver skýrsla um lífeyrissjóði og mótmælum snjóar um allt. Eðlilega. Valdastéttin er allsstaðar með klærnar. Nú er búið að plata okkur í áratugi með að við séum með fullkomnasta lífeyrissjóðskerfi í veröldinni en þá er sjóðunum svo illa stjórnað að þeir hrynja í fang útrásarvíkinganna.
Einn af þeim atburðum sem ég man vel eftir er þegar Davíð Oddsson lýsti því yfir að ÓRG væri óhæfur til að úrskurða í fjölmiðlamálinu vegna þess að dóttir hans ynni hjá Baugi. (Þó neitaði hann að lagasetningin beindist að Baugi) Þá var ég að bíða eftir afgreiðslu á matsölustað í Kópavoginum og þar var kveikt á sjónvarpinu. Aldrei hef ég séð stjórnmálamann leggjast eins lágt og Davíð þarna. Þá hafði ég kosið Ólaf og var fylgismaður hans; styð hann jafnvel ennþá bara vegna þess að Davíð Oddsson réðist þarna á hann með ótrúlegu offorsi. Getur svo engu svarað þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri hjólar í hann. Er Davíð aumingi eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.2.2012 | 15:37
1602 - Eftirminnilegt Kastljós
Gamla myndin.
Veitingahúsið að Vegamótum.
Simmi var alveg stumm og það var engin furða; eftirminnilegri frásögn held ég að hafi aldrei verið flutt í Kastljósinu. Geri ráð fyrir að margir hafi setið agndofa og fylgst með frásögn sjómannsins sem komst lífs af úr togaraslysinu við Noreg um daginn. Auðvitað var maðurinn ekki í jafnvægi. Tilfinningarnar voru hvað eftir annað við að bera hann ofurliði. Frásögnin var kannski alltof löng og ítarleg. Hugsanlega var hún líka sundurlaus á köflum. En það skipti engu máli; hún var flutt af slíkum þrótti og þeirri tilfinningu að lengra verður varla komist.
Er Ísland ónýtt? spurði Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar fyrir nokkru á bloggi sínu á Eyjunni. http://blog.eyjan.is/margrett/ Því er ekki að neita að þingmenn þeir sem kosnir voru á vegum Borgarahreyfingarinnar vorið 2009 hafa á margan hátt brugðist. Deilur hafa verið miklar meðal þeirra og þeir hafa hlaupið út og suður. Ekki þarf þó að gera ráð fyrir sérstakri tryggð þeirra við fjórflokkinn svonefnda og kerfi það sem komið hefur verið upp hér á Íslandi síðustu áratugina. Jafnvel er hægt að gera ráð fyrir að þessir þingmenn séu ekki í jafnmiklum mæli við hugann við sitt eigið endurkjör og aðrir þingmenn. Þetta á samt alltsaman eftir að koma betur í ljós í næstu þingkosningum og aðdraganda þeirra.
Verðtrygging húsnæðislána hefur verið gagnrýnd mjög undanfarið og þann 1. október s.l. afhentu forvígismenn Hagsmunasamtaka heimilanna forsætisráðherra undirskriftir meira en 33 þúsund Íslendinga um afnám hennar. Nú eru yfir 26 þúsund búnir að skora á Ólaf Ragnar Grímsson að bjóða sig fram til forseta einu sinni enn. Undirskriftir þeirra sem skoruðu á ÓRG að samþykkja ekki Icesave lögin minnir mig að hafi verið yfir 40 þúsund. Ég skrifa yfirleitt aldrei undir svona áskoranir og finnst þær ekki endilega vera neitt merkilegri en hver önnur skoðanakönnum. Slíkar kannanir gefa oft mjög misvísandi niðurstöður og stundum er lítið að marka þær og stundum mikið. Hversu mikið verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.2.2012 | 22:34
1601 - Eurovision
Einhver sagði í athugasemdum hjá mér um daginn að Eurovision ylli heilaskemmdum. Mér finnst boltavitleysan, pólitíkin og fésbókin gera það líka. Veldur ekki allt sem manni líkar ekki við heilaskemmdum? Mér finnst það. Hvaða heilastarfsemi er fullkomnust? Auðvitað manns eigin. Eigum við að ræða það eitthvað frekar?
Margir tala með myndum; og víst er að með þeim má margt segja. Það eru einkum myndirnar sem festa mig við fésbókina þó ýmsum þeirra sé greinilega breytt í photoshop eða einhverju álíka forriti. Stundum gleymi ég mér alveg við að skoða myndir þar eða á þeim stað sem þær eru sóttar á. Verst hvað maður er oft að skoða sömu myndirnar aftur og aftur. Öll fjölmiðlun er orðin mjög auðveld og einföld nú uppá síðkastið með Internetinu. Þá á ég bæði við útdeilingu og notkun. Fólk er líka orðið mun meðvitaðra um rétt sinn en áður var. Það finnst mér a.m.k.
Þó ég sé farinn að eldast (bráðum sjötugur) finnst mér fremur einfalt að blogga og fylgjast með því sem mér sýnist á fésbókinni og annars staðar á netinu. Allar breytingar og nýjungar taka þó meiri tíma og eru mér um sumt erfiðar. Sennilega er ég seinni að hugsa en ég áður var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)