Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

1797 - Þjóðremba

Auðvitað getur mikilmennskubrjálæði (eins og t.d. þjóðremba.) stafað af minnimáttarkennd í rauninni. Sjúkdómseinkenni sýnast oft ganga alveg í þveröfuga átt við það sem eðlilegast væri. Gagnvart þessu þarf að vera á verði. Það getur t.d. vel verið að Vala Matt sé að hugsa um eitthvað ægilega sorglegt þegar hún hlær sem mest. Hláturinn hjá Hemma Gunn er mun þvingaðri og kannski er hann alveg að verða búinn með skammtinn sinn.

Satt að segja hef ég svolítið álit á Stefáni Pálssyni sem sagnfræðingi. Veit samt ekki nema hann verði pólitíkinni að bráð á endanum því hann er stöðugt að sniglast í kringum Vinstri græna og friðarsamtök hverskonar. Þingmenn njóta bara ekki trausts þjóðarinnar. Þetta mun koma vel í ljós í næstu þingkosningum. Möntruna um getuleysi fjórflokksins til allra hluta er búið að þylja svo oft að undanförnu að meira að segja sjálfstæðismenn eru farnir að trúa henni og virðast halda að innan flokksins sé hægt að finna nýtilega þingmenn. Í rauninni eru frambjóðendur flokksins flestir hundóánægðir með forystu hans, en virðast ætla að sætta sig við hana. Kannski missir stjórn flokksins allt taumhald á þingmönnunum eins og Steingrímur virðist hafa gert.

Eiginlega er það fullt starf að fylgjast með helstu nýjungum á netinu, enda er ég löngu hættur því. Ég geri ótrúlega oft einhverjar vitleysur þegar ég er að skrá mig á einhvern skollann og þá fer vafrinn eða forritið í fýlu og vill ekki viðurkenna mig og segir bara að ég sé skráður og vill ekki skrá mig aftur. Svo endar þetta náttúrlega með því að ég fer sjálfur í fýlu og forðast allt sem líkist því sem ég var að reyna.

Íslenskar bækur eða bækur um Ísland (á ensku þó flestar) eru orðnar gríðarlega margar á Amazon. Rafbækurnar einar (þ.e. bækur sem bregðast við leitarorðinu Iceland í kyndlinum) eru orðnar a.m.k. vel á þriðja hundraðið og þýðingarlaust að reyna að safna þeim öllum. Vandalaust og ódýrt er líka að gefa út rafbækur fyrir hvern sem er. Bókasöfnun mun sennilega aldrei bera sitt barr aftur eftir tilkomu rafbókanna því það er svo erfitt að sýna þær. Sumar þessara bóka eiga varla skilið að kallast bækur. Eina rakst ég á sem ekki var nema fjórar blaðsíður og kynningin á henni er tæp blaðsíða.

IMG 1753Laufblöð.


1796 - Ruslatunnuveður

„Það er hálfgert ruslatunnuveður núna.“

„Hvað er ruslatunnuveður?“

„Það er þegar ruslatunnurnar fara á kreik og björgunarsveitarmenn hlaupa á eftir þeim. Venjulega fara þær bara á hliðina.“

Í aðra röndina má auðvitað segja að þessi ofurþéttu og miklu bloggskrif mín um daginn og veginn séu einskonar dagbókarskrif. Samt sem áður er ekki hægt að segja að þau séu persónuleg. T.d. get ég þess aldrei hvora löppina ég fer með framúr rúminu á undan. Þeir sem þekkja mig vel geta þó eflaust lesið margt í bloggskrifin sem ekki er beinlínis sagt þar.

Mér finnst langskemmtilegast að skrifa svona bara um hitt og þetta og einskorða mig ekki við neitt ákveðið. Margir gera það þó og ná góðum árangri. Mér finnst samt árangurinn fremur góður hjá mér og mæli hann aðallega í fjölda og lengd bloggskrifa, svo og að sjálfsögðu í gestum og innlitum. Nenni ekki að leggjast í frekari rannsóknir á ip-tölum og þessháttar.

Með því að hafa nokkra tugi bréfskáka í gangi á hverjum tíma get ég betur drepið tímann með því að eyða honum, þegar þess þarf, í ákveðna leiki.

Öll hernaðarafskipti mín snúast um skák. Mér er sagt að nöfn kallanna á borðinu séu komin úr hermáli. Gegn mönnum hef ég snúist á taflborðinu og gert þeim allan þann miska sem ég er fær um. Tilraunarinnar virði er að reyna að færa hernaðarmorðin í lítinn leik. Vinsældir leiksins hafa með tímanum orðið mjög miklar og heita má að hann sé stundaður eftir sömu reglum um allan heim. Það er mikill kostur.

Nú er ekki nema rúmur mánuður þangað til daginn fer að lengja aftur og hægt er láta sig hlakka til vorsins. Þetta eru svokölluð pollýönnu-fræði sem eiga vel við þegar myrkrið er sem svartast. Man að ég horfði lengi á stjörnuhimininn úr heita pottinum uppi í Hvalfirði um daginn. Engin gervitungl sá ég samt og fá stjörnuhröp. Norðurljós (eða stjörnuljós) voru heldur engin.

Varðandi kyndilinn minn vil ég bara segja að ég hef aldrei skilið hvers vegna það er betra að kaupa „ipad mini“ á sextíu þúsund en „kindle fire“ á innan við tvöhundruð dollara. Auðvitað er ég svolítið tornæmur og veit líka að það vantar alveg myndavél í kyndilinn.

IMG 1752Ber.


1795 - Karlar sem míga sitjandi

„Karlar sem míga sitjandi“ er vannýtt bókarheiti á Íslandi. Íslenskir karlmenn ættu samt að hætta að míga standandi nema aðstæður krefjist þess til að fækka misheppnuðum bröndurum kvenþjóðarinnar varðandi framhjámigu. Verst er að vegna langrar tamningar í þá átt hefur karlmannsblaðran eða tenging hennar við umheiminn valdið því að sumum mönnum finnst þeir þurfa að míga standandi. Forhúðarvandi getur síðan valdið því að bunan úr tólinu fari ekki þangað sem henni er ætlað að fara þegar karlmenn athafna sig við postulíns-tilbeiðslustaði þá sem víða eru.

„Af hverju geta fuglar aldrei verið grafkyrrir? Þegar þeir sitja sér til hvíldar t.d. á trjágrein slá þeir sífelldlega niður stélinu. Hvers vegna er það?“ Þetta eru spurningar sem ættu best heima á Vísindavef háskólans. Ég hef reyndar aldrei verið snokinn fyrir að beina spurningum þangað og heldur kosið að komast að rangri niðurstöðu eftir langa umhugsun. Þessar röngu niðurstöður hafa síðan hjálpað mér til að leysa marga gátuna um tilgang hlutanna.

„Amma, af hverju veist þú allt?“ spurði sauðargæran ömmu sína sem var orðlagður besservisser og óforbetranlegur bloggari. „Ég hef bara ekki hugmynd um það,“ sagði amman sem var mikið fyrir paradoxa og leyfði hugmyndinni að grassera í huga ungbarnsins. Þannig varð hugmyndin um óskeikulleika Wikipedíu til. Þar er um samanlagða vitneskju helstu besservissera að ræða eins og margir vita.

Sýnist að misvægi atkvæða lagist ekki endilega við að gera landið allt að einu kjördæmi. E.t.v. er hagstætt að hafa blöndu og suma þingmenn kjörna af landslista. Vel mætti hugsa sér að leiðrétta þyrfti vægi atkvæða við minna en tvöföldun þess. Kosningafyrirkomulag verður alltaf flókið með þeim skóbótum sem stundaðar hafa verið. T.d. er óþarfi að skipta Reykjavík í tvennt og slæmt að láta uppbótarmenn flakka milli kjördæma á þann hátt sem verið hefur.

Það er misskilningur að dómstólar eigi að dæma eftir almæltum sannindum. Ég held t.d. að enginn trúi því í alvöru að Sigurður Einarsson hafi ekki komið nálægt neinu misjöfnu í Al-Thani málinu. Samt finnst mér ekki að dómstólar eigi að dæma hann sekan ef saksóknari getur ekki sannað neitt misjafnt á hann. Þetta er bara mín skoðun prívat og persónulega og hefur ekkert með stjórnmál að gera. Hvað dómstólar álíta svo "sannanir" er þeirra mál og á því geta menn haft mismunandi skoðanir.

IMG 1751Steinar og gras.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband