Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

1807 - Græðgisvæðingin

Ég er eiginlega hættur að ergja mig útaf fésbókinni. Annað hvort kann ég ekkert á hana (enda er það líklega vísindagrein útaf fyrir sig) eða hún er sífellt að verða skrýtnari og skrýtnari. Aldrei getur hún hagað sér eins og maður heldur að hún eigi að gera. Nenni ekki að fjalla um nýjustu afreksverkin.

Ég er líka alveg hættur að fylgjast með erlendum fréttum dagsins. Þær fjalla bara um stríð og aðrar hörmungar. Afar sjaldan eru Íslenskar fréttir. Þær fjalla þá oftast líka um einhverja óáran. Hvað er þá til ráða? Ekki standa fréttamannagreyin fyrir þessu. Ætli þau láti ekki bara stjórnast af þeim sem hæst hafa. Það er vaninn.

Núna áðan var ég fyrst að koma því í verk að lesa upphaflegu kynslóðagreinina eftir Sighvat Björgvinsson í Fréttablaðinu. Greinina sem ber nafnið „Sjálfhverfa kynslóðin á sviðið.“ A.m.k held ég að þetta sé upphaflega greinin. Ágætt er að hafa svolitla fjarlægð þegar meta skal grein af þessu tagi, sem vakið hefur jafnmikla úlfúð og raun ber vitni.

Margt er rétt hjá Sighvati í greininni. Samt gerir hann alltof mikið úr hlutunum og kennir heilu kynslóðunum um hvernig komið er. Margir sem reynt hafa að svara Sighvati hafa einkum haft það að segja að hann og hans kynslóð séu ekkert betri. Rifrildi milli kynslóða skilar engu. Það er langt síðan ég komst að því. Unga fólkið vill því gamla vel og öfugt.

Það að verðtryggingin sem slík eigi sök á óförum okkar Íslendinga í efnahagsmálum er tóm vitleysa. Verðtryggingin hefur fært valdið til áhrifa í þjóðfélaginu frá alþingi og stjórnvöldum til lífeyrissjóðanna. Stjórn lífeyrissjóðanna er misheppnuð og hefði þurft lagfæringa við í rás tímans. Starfsemi þeirra er einn þáttur í því sem olli Hruninu mikla.

Í Barna- og Miðskóla Hveragerðis, sem ég gekk í á sínum tíma voru svonefnd sparimerki kynnt. Það skeði einmitt um það leyti sem það var að verða algjör vitleysa að spara nokkurn skapaðan hlut. Verðbólgan var nefnilega komin á skrið. Skyldusparnaðurinn var tekinn upp um svipað leyti. Hann var verðtryggður og kom fótunum undir marga. Svo var hann afnuminn og ekkert kom í staðinn. Fjármálalæsi og efnahagsmál hafa aldrei verið kennd að neinu gagni í íslenskum skyldunámsskólum.

Á Bifröst lærðum við bæði rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Bæði fögin þóttu hundleiðinleg en samt kann að vera að þau hafi aukið skilning minn á efnahagsmálum. Sá skilningur, ef einhver er, hefur ekki orðið til þess að ég hafi auðgast þó ég hafi gert mér einhverja grein fyrir hvert stefndi uppúr 1980.

Verkalýðshreyfingin var þjóðfélagsafl áður fyrr. Ég man sérstaklega eftir því þegar Hermann Jónasson sagði af sér forsætisráðherraembættinu eftir að hafa verið neitað um stuðning af hálfu alþýðusambandsþings. Síðan hefur verkalýðshreyfingin orðið gamaldags og óþörf. Í upphafi græðgisvæðingarinnar (um og fyrir 1990) voru flestir hættir að reikna með henni til nokkurs hlutar. Völdin komu svo til hennar aftur að nokkru leyti í gegnum lífeyrissjóðina og kannski er það ástæðan fyrir því að ekki var farið að hugsa í alvöru um stjórn þeirra fyrr en eftir Hrun.

Þessi mál öll eru yfirgripsmeiri en svo að ég fari nálægt því að hafa nóg vit á þeim, en áberandi er hversu sérfræðingum á þessu sviði hefur fjölgað síðustu árin.

Enn hækkar Seðlabankinn (sem einu sinni var bara skúffa í Landsbankanum) vexti. Bráðum verða þeir komnir aftur í hæstu hæðir og verðbólgan á fullan skrið ef svo fer sem horfir. Einkennilegt að reynslan af stöðugum stýrivaxtahækkunum skuli ekki hafa kennt mönnum neitt. Sennilega er bara verið að hjálpa bönkunum til að auka enn gróða sinn. Eiginlega ættu Íslensku bankarnir að laga sig að þjóðfélagsaðstæðum, en ekki öfugt.

IMG 1830Úr Víðistaðakirkju.


1806 - Verðtryggingin

Nú er það svart, maður. Allt orðið hvítt. Svolítið hefur snjóað hér á Kópavogssvæðinu í kvöld (fimmtudag). Ætli það verði ekki farið í fyrramálið.

Þegar ég er andvaka á nóttinn ætti ég ef til vill ekki að vera að fást mikið við bréfskákirnar mínar. Það er að segja eftir að ég er búinn að taka svefntöflu. Ég er bara í svo góðu stuði þá og nenni miklu síður að fara að lesa misasnalegar greinar og fésbókarinnlegg. Verst hvað tafborðin eru hrufótt og þvæld í tölvunni, auk þess sem mennirnir eiga erfitt með að vera grafkyrrir eins og þeir eiga auðvitað að vera þangað til körsorinn kemur þjótandi til þeirra og setur á nýjan reit.

Þetta er svolítið eins og að tefla pínulítið blindfullur, eins og maður gerði stundum „áður fyrr á árunum“. Eins og ég hef oft sagt áður þá er maður þrælgáfaður og vel til þess fallin að gera hvað sem er, t.d. að keyra bíl, þegar maður hefur fengið sér örlítið í tána.  Samt er maður þá e.t.v. ekki besti maðurinn til dæma um það.

Því fer fjarri að ég hafi undan við að lesa þær bækur sem ég fæ ókeypis í kyndilinn minn. Ef farið er á Amazon http://www.fkbooksandtips.com/ eru bókstaflega alltaf einhverjar ókeypisn bækur þar um að ræða. Oftast eru þær bara ókeypis í einn dag eða svo, en það dugar mér alveg. Vildi að ég væri eins fljótur að lesa og sumir eru. Ég er nefnilega seinlesinn með afbrigðum. Þar að auki hef ég svo stutt „attention span“ að ég á erfitt með að lesa nema eina og eina blaðsíðu í einu. Það er að segja á tölvuskjánum. Kyndillinn hentar mér mun betur. Þá get ég legið endilangur í rúminu og lesið af hjartans lyst.

Ég held að bloggin mín séu alltaf að styttast. Sennilega er það bara ágætt. Einkum ef þau eru gagnorðari fyrir vikið. Vonum það.

Tvennt sá ég á netinu í kvöld sem vakti athygli mína. Annað var grein sem Marínó G. Njálsson skrifaði um einelti og komment við hana. Hún var áhrifamikil og vel skrifuð. Hitt var grein sem „verðtryggingarvinur“ skrifaði og kallaði Bullið um verðtrygginguna. Alveg er ég sammála honum. Í öllum fjölmiðlum er þessa dagana étin upp sama vitleysan. Verðtryggingunni er kennt um næstum allt. Hún er samt ekkert annað en eðlileg og sjálfsögð aðferð til að tryggja að sömu verðmæti verði greidd lánveitanda og lántakandi fékk upphaflega í hendur. Aftur á móti er ekkert sérstakt sem bendir til þess að nákvæmlega sú vísitöluviðmiðun sem notuð er sé sú rétta. Satt að segja virðist hún vera vitlaus mjög. Þegar við bætist hátt vaxtastig hér á landi og mikil verðbólga að jafnaði lítur verðtryggingin auðvitað ekkert vel út.

IMG 1817Víðistaðakirkja.


1805 - Lettneski baróninn í Álfafelli

Þann 1. September 1958 vann ég í Álfafelli hjá Gunnari Björnssyni og hef verið 15 ára gamall þá. Ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel er að þennan dag var íslenska fiskveiðilögsagan færð út í 12 mílur, ef ég man rétt. Þann dag var starf mitt m.a. að þvo skyggingu af rúðunum í blokkinni sem var áföst vinnuskúrnum. Í Álfafelli vann konan hans Eyjólfs hennar Svanborgar. Hún var þýsk og oftast kölluð Eyfa mín. Af öðrum sem unnu hjá Gunnari um þetta leyti man ég best eftir Hansi Gústafssyni og Lettneska baróninum. Hann var nú víst bara af barónsættum og talaði svolitla íslensku. Einhverntíma var ég að tala um barónstitilinn við hann og hann gerði heldur lítið úr honum og sagði að íslendingar væru allir af barónsættum. Þetta datt mér í hug þegar ég las um ættrakningu „the King of SÍS“.

Lettneski baróninn í Álfafelli var annars merkilegur karakter. Hann sá um öll vandsömustu verkin ásamt Gunnari og hafði lítið fyrir því. Til dæmis við að grafa laukana. Þeir urðu að vera mátulega djúpt grafnir og var það hann sem sá um það og að setja þá í mátulegan hita og mátulega birtu innivið þegar sá tími var kominn. Þegar þetta var voru útlendingar afar fáir á Íslandi. Helst voru það þýsku konurnar sem komu hingað í stríðslok. Mamma hans Jónasar Ingimundarsonar var ein þeirra og hún átti heim í Hveragerði um tíma. Kannski var það á þessum tíma.

Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var keyptur af Gunnari í Álfafelli. Grár Wolkswagen með teinabremsum og heilum glugga að aftan. Við Vignir bróðir áttum þann bíl saman fyrst í stað.

Í dag settum við (aðallega ég auðvitað) plaströr við rennuna sem tekur við öllu vatninu af þakinu og veittum því (vatninu) vestur fyrir húsgafl. Það gekk bara nokkuð vel og vonandi kemur það að einhverju gagni þangað til það bilar.

Allt er enn hálfvitlaust útaf Eir. Ég er alveg sammála því að í alltof mörgum tilfellum hafi tækifærið sem skapaðist við einkarekstur heilbrigðisþjónustunnar verið notað til að moka peningum eftirlitslaust í mafíuátt. Svo er smámsaman að komast upp um þetta um þessar mundir. Öll kurl komast þó aldrei til grafar.

Flest bendir til að eftir dauðann líði manni hvorki vel né illa, heldur verði maður smámsaman að engu, eða afar litlu. Sú er hringrás lífsins. Kynslóðirnar koma og fara. Kenna hver annarri um allt sem miður fer, hvort sem það er verðtrygging eða eitthvað annað. Samt kemur þeim í rauninni ágætlega saman. Þetta er bara einskonar æfing. Rétt til að halda sér í formi. Ádeilan er einkum á það sem í tísku er að vera á móti hverju sinni. Íslendingar eru hvorki sjálfhverfari en aðrir né heimskari. Hérlendir fjömiðlar eru aftur móti afar snoknir fyrir öllu sem kallað er rannsóknir eða skoðanakannanir. Einkum ef það rímar við fordóma fréttamannanna.

IMG 1804Ber.


1804 - Kosningar næsta vor og breytt fjölmiðlun

Skemmtilegt hefði verið að vita allt sem maður veit núna, þegar maður var ungur. En engu er hægt að ráða um það. Mér fannst landsfeðurnir alltaf fremur gáfaðir. Nú veit ég að svo var alls ekki. Þeir þóttust bara vera það. Gáfurnar voru allt annars staðar. Kannski hvergi.

Ætli þær séu ekki í tölvunum núna? Man að ég heillaðist mjög af tölvum þegar mér hlotnaðist sú gæfa að byrja að skilja þær. Að sjálfsögðu skil ég þær ekki almennilega ennþá en hef samt pínulitla hugmynd um hvernig þær vinna. Langsennilegast er að gáfurnar séu þar. Gáfur eru samt ekkert takmark í sjálfu sér. Sambandið við aðra er það sem öllu máli skiptir. Ef maður getur ekki gert sér neina grein fyrir því hvernig koma á fram við aðra, er allt unnið fyrir gýg.

Fjölmiðlar eru það afl sem hreyfir hlutina. Hvernig er það afl þá upp byggt? Það verður bara til og engin leið er að segja til um það fyrirfram hverslags fjölmiðlun er áhrifaríkust. Um það leyti sem margir (eða jafnvel flestir) gera sér grein fyrir áhrifamætti tiltekinnar fjölmiðlunar er hún orðin úrelt. Þetta er mjög greinilegt með sjónvarpið núna. Fésbókin er miklu betri. Hætt er samt við að hún verði fljótt úrelt. Stóri gallinn við hana er að hún er eign ákveðinna aðila. Fjölmiðlun sem ná á langt þarf að vera mátulega flókin og erfið en umfram allt eign allra.

Bloggið hentar mér sem fjölmiðlun, en er þó líklega ekki það sem koma skal. Einhverskonar hreyfimyndir (ekki þó youtube) er sennilega það sem heimurinn bíður eftir núna. Myndmálið er alþjóðlegt. Virðir engin landamæri. Með nægilegri þjálfun og í framtíðinni má eflaust segja allt með því.

Já, ég býst við að kjósa Píratapartíið í næstu kosningum. Ekki er það bara útaf því að Birgitta er þar framarlega í flokki og heldur ekki vegna þess að vel gæti ég trúað að unga fólkið hópist þangað, heldur er það vegna þess að áherslur þess flokks um upplýsingaskyldu og opna stjórnsýslu hugnast mér bærilega. Björt framtíð kemur einnig til greina en fjórflokkurinn varla. Ef Ólafur Ragnar Grímsson gengur í Bjarta framtíð eða lýsir yfir stuðningi við hana steinhætti ég samt við að kjósa þann flokk.

IMG 1795Hér má fá sér að drekka.


1803 - Þrýstihópar

Það er eðlilegt að stofna áhuga- og þrýstihópa og reyna með því að hafa áhrif á þá sem með völdin fara. Þannig er lýðræðið. Að stofa áhugahópa sem aðeins hafa áhuga á valdinu er nauðgun á lýðræðinu. Þannig eru stjórnmálaflokkarnir. Svo stutt er bilið á milli lýðræðisvina og óvina þess.

Hér á Íslandi hefur mestallt valdið safnast saman hjá fjórflokknun. Þar líður því illa. Flokkarnir fjórir sem að þessum flokki standa reyna síðan eftir mætti að viðhalda hópunum með því að setja þá á framfæri ríkisins. Þeir þykjast þannig vera vinir allra og öldungis ómissandi. Auðvitað eru þeir það alls ekki. Þeir sem láta blekkjast til að kjósa þá fá yfirleitt ekki annað í staðinn en tilfinninguna um að hafa komið í veg fyrir að HINIR hafi komist að kjötkötlunum.

Verðlaun eru engin. Í mesta lagi geta menn reynt að selja atkvæði sitt fyrirfram. Enginn getur samt sagt til um hvort staðið er við það. Reynt er eftir mætti að leyna raunverulegum tilgangi flokka þessara. Líka veita þeir sumum vinnu, jafnvel þokkalega, en einkum þó vinum og vandamönnum mafíunnar.

Spillingin er landlæg og þykir ekki einu sinni merkileg. Landið er líka svo fámennt að erfitt er að komast hjá því að ýta undir skyldmenni sín, jafnvel þó reynt sé.

Það er að sjálfsögðu ofnotuð klisja að ekki eigi að kjósa yfir sig aftur þá sem Hruninu ollu. Sú klisja hefur þó það sér til ágætis að hún er líklega sönn. Þægilegast er að kenna fjórflokknum um allt sem miður hefur farið. Það er líka fátt sem bendir til að það sé rangt. Ef fólk telur óráðlegt að hætta að kjósa fjórflokkinn ætti a.m.k. að reyna að koma hrunvöldunum af alþingi með því að kjósa rétt í prófkjörum þeim sem nú fara í hönd. Margt bendir til að það sé gert. Betur má þó ef duga skal. Einfaldast er að kjósa alls ekki þá sem sátu á alþingi þegar Hrunið skall á. Og forðast að sjálfsögðu eins og heitan eldinn að kjósa þá sem hæstu embættunum gegndu í þeim hildarleik.

IMG 1777Steinar.  


1802 - Prófkjör og ágreiningur um stjórnarskrá

Það gerir þig enginn að aumingja. Þú ákveður það sjálfur. Fötlun og lítið vit þarf ekki að verða að aumingjaskap. Ef þú kannt að umgangast fólk af nægilegri virðinu eru þér allir vegir færir. Pólitískir höfðuðandstæðingar eru oft í raun hjálpsöm góðmenni þó erfitt sé að viðurkenna það. En tölum ekki meir um það.

Ekki veit ég hvernig Villi gamli bjargar sér útúr Eir-málinu ógurlega. Sjálfur kemur hann eflaust standandi niður. Það hlýtur hann að vera búinn að undirbúa. Það verð ég þó að segja að fyrirlitlegra en flest annað finnst mér að stela frá fótfúnum gamalmennum og ærslafullum ungmennum.

Vel getur farið svo að mikilvægasta málið fyrir næstu kosningar verði stjórnarskrármálið. Ef alþingi kemur frá sér sæmilega góðri stjórnarskrá fyrir kosningar verður að samþykkja hana óbreytta á næsta þingi til að hún öðlist gildi. Hugsanlegt er að hún verði jafnframt þingkosningunum borin undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ef þjóðin samþykkir hana þá verður nýkjörnu alþingi varla stætt á öðru en gera það sama. Þar með yrði Ísland komið með nýja stjórnarskrá og valdið til að breyta henni farið frá alþingi.

Fræðimenn gagnrýna mjög nýju stjórnarskrárdrögin. Því miður er það af litlu viti gert og snýr einkum að aukaatriðum varðandi sjálft ferlið en ekki efnislega um stjórnarskrána sjálfa. Kannski er það einkum af öfund yfir að hafa ekki fengið að semja hana í friði fyrir almúganum. Tala mikið um að fram þurfi að fara vönduð umræða um allar greinar stjórnarskrárinnar en eru samt ekki tilbúnir til að hefja hana. Stjórnarandstæðingar gagnrýna einkum ágreining varðandi sum atriði stjórnarskárinnar og staglast á því að ekki megi afgreiða svo mikilvægt mál í ágreiningi. Ágætt samkomulag hefur verið á alþingi hingað til varðandi breytingar á stjórnarskránni enda hafa þær flestar stefnt að því að auka vald alþingis og framkvæmdavaldsins en útiloka almenning sem mest og gera að vinnudýrum.

Ágreiningur er hollur og nauðsynlegur. Ef ágreingur er á alþingi um stjórnarskrárfrumvarpið ber það merki um að eitthvað sé í það varið. Stjórnlagaráð var þó sammála um þau drög sem kosið var um 20. október s.l. Þar voru samt fulltrúar allra flokka og bæði þéttbýlis og dreifbýlis. Kynjaskipting góð og flest önnur skipting í lagi. Helst að þeir menntunarsnauðu og allra yngstu væru fáliðaðir þar.

Segja má að prófkjörin um þessa helgi hafi ekki valdið neinum straumhvörfum. Búast mátti við því að Sigmundur Ernir ætti í erfiðleikum í norðausturkjördæminu. Kjör Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins er fremur lélegt. Afar lélegt munu andstæðingar hans segja. Eins og mál skipuðust hjá Samfylkingunni mátti auðvitað búast við því að annaðhvort Árni Páll eða Katrín sigruðu. Árni Páll eykur líklega lítilsháttar sigurlíkur sínar í formannskjörinu sem væntanlegt er hjá Samfylkingunni með þessum sigri sínum.

IMG 1775Víkingasveppur?


1801 - Hugsað upphátt

Maður á sínar hugsanir og ber engin skylda til að koma þeim í orð. Miðað við fjölda fólks í heiminum er sá fjöldi hugsana sem á sveimi er hverju sinni legíó. Gott ef ekki mörg legíó. Af öllum þessum fjölda kemst aðeins sáralítill hluti nokkurntíma í búning orða. Það gerir ekkert til. Nóg er nú samt.

Margir virðast álíta að þær hugsanir sem komast í orð séu eitthvað merkilegri en aðrar. Svo er ekki. Allar hugsanir eru jafnréttháar. Eignarréttur manns á þeim sem komast í orð er þó ótvíræðari og þær hugsanir hafa oft áhrif á aðra. Engu máli skiptir hvort þær eru skrifaðar niður eða ekki. Niðurskrifaðar hugsanir, hvort sem er í orðum eða á annan hátt, (t.d. í litum eða tónum) er þó auðveldara að sanna eignarrétt sinn á síðar meir og þær geta haft áhrif hvenær sem er.

Áhrifin geta verið af ýmsum toga og alls ekki er víst að upphaflega hugsunin hafi sams konar áhrif á alla. Það er helsti gallinn við niðursoðnar hugsanir að sá sem upphaflega hugsaði þær hefur enga möguleika til að stjórna áhrifum þeirra. Þær eru bara. Skáldsaga er þannig tilraun til að hafa áhrif á hugsun lesandans en ekki er hægt að stjórna því, nema að litlu leyti, hvort honum finnst sagan skemmtileg eða ekki og hve lengi hann heldur áfram að lesa ruglið.

Pólitískar hugsanir eru vafasamar og oftast rangar. Best er að vera hlutlaus í stjórnmálum og slá úr og í ef maður er spurður. Pólitísk hitamál eru varasöm. Best er að hafa enga skoðun á þeim eða a.m.k. opinbera hana ekki. Hvað maður kýs kemur engum við. Ef maður er svo óheppinn að lenda í skoðanakönnun er best að fullyrða sem minnst og frekar í öfuga átt við það sem maður ætlar sér að gera. Verst er að reiknað er með slíku.

Þó þessar pælingar séu skemmtilegar getur vel verið að öðrum finnist það ekki. Þessvegna er ágætt að hætta núna áður en maður missir lesandann og honum finnst þetta stagl hrútleiðinlegt.

Ein tegund niðursoðinna hugsana er blessað bloggið. Þar er hægt að bollaleggja um allt mögulegt og hafi maður áunnið sér fyrirfram tiltrú nægilega margra er hægt að vera nokkuð viss um að einhverjir lesi það. Internetið er einhver merkilegasta uppfinning mannsandans á síðustu öld. Enn er það í mikilli þróun og engin leið að sjá fyrir hver áhrif þess verða. Þau er þegar orðin mikil og eiga bara eftir að aukast.

IMG 1769Öldruð jarðýta.


1800 - Kvenvargar

Nei, ég er ekki hættur að blogga. Það er bara eins og það sé ekkert pláss fyrir mig. Ég er ekki nærri nógu heiftúðugur og hef t.d. lagt mig fram um að vera ekki orðljótari en nauðsynlegt er.

Hef þó ekki komist hjá því að lesa eitt og annað eftir og um kvenvargana Evu Hauksdóttur, Hildi Lilliendal og Hörpu Hreinsdóttur. Þar hefur mér fundist mest fara fyrir umræðum um fésbókina. Facebook þetta og Facebook hitt, er langmikilvægasta umræðuefnið. Mér finnst fésbókin með eindæmum ómerkilegt umræðuefni og bið nefnda kvenvarga velvirðingar á því. En ég vil endilega taka umræðuna útfyrir fésbókarómyndina. Það er líf fyrir utan hana. Það hef ég sannreynt sjálfur, þó Internetið sé vissulega mikilvægt. Næstum því eins mikilvægt og rafurmagnið.

Það mætti kannski minnast á feminismann sjálfan. Verst er að feminismi getur verið hvað sem er. Aðallega jafnrétti þó. Erfitt er að afneita því. Jafnvel er hægt að halda því fram að kvenfólk hafi engan einkarétt á feminisma. Svo eru líka margir maskúlínistar sem sjá rautt þegar minnst er á feminisma og ákalla jafnvel Gilzenegger sjálfan.

Annars virðist mér sem ég hafi brotið mörg lögmál pólitískrar rétthugsunar (sem ég er orðlagður fyrir) með þessu bloggi mínu. Auðvitað er það útúr öllu korti að kalla t.d. Hörpu Hreins kvenvarg og ég held að hún sé ekkert fyrir pólitíska rétthugsun heldur.

Aðalatriðið er að hafa bloggin stutt og hnitmiðuð, ekki löng og ómarkviss, munið það.

IMG 1768Örkin hans Nóa?


1799 - Vinstri Gramir

Einu sinni voru bókabúðir uppáhaldsbúðirnar mínar. Þar gat ég staðið löngum stundum við að skoða bækur, blaða í þeim og  lesa jafnvel nokkur orð. Nú er þetta aftur orðin eftirlætisiðja mín en með nokkrum breytingum þó. Nú ligg ég afturábak í rúminu mínu og skoða í kyndlinum allt það úrval rafbóka sem Amazon hefur uppá að bjóða og ekki er það lítið. Ekki get ég þó blaðað í bókunum á sama hátt og í búðunum forðum og svo er úrvalið talsvert breytt þó yfirgripsmikið sé. Ég get lesið um bækurnar, fengið sýnishorn og skoðað fyrstu kaflana eða svo án endurgjalds. Ákveðið kannski að kaupa og framkvæmt það án þess að reisa mig upp. Bókin kemur svo strax og er aðgengileg til lestrar undireins. Ekki verður neitt tré fyrir barðinu á mér, en lína gæti bæst við í næsta Visareikning. Einhverjir gætu kallað þetta framfarir eða að þetta sé gert til að við gamlingjarnir skríðum síður útum gluggann í leit að spenningi.

Nú flýja menn unnvörpum það sökkvandi skip sem alþingi Íslendinga er orðið. Kannski verður endurnýjunin þar meiri í kosningunum í vor en nokkur gerir sér í hugarlund um þessar mundir þegar prófkjörin virðast ráða öllu. Vonum það a.m.k.

„Hefur sú andlega spektin sem hingað til hefur einkennt vinstri græna nú yfirgefið þá og gert suma þeirra a.m.k. bara vinstri grama?“

„Eigi veit eg það svo ofboðslega gjörla en hitt veit eg að Steingrímur hefur að mestu misst stjórn á þessu liði sínu og tvístrast það nú í allar áttir.“

„Sem minnir mig á það að mig vantar endilega frambjóðanda í Landakotsprestakallið. Hafa sum þeirra ekki svolítinn kjörþokka og svoleiðis?“

„Jú, það held ég.“

Ekki veit ég hvaðan þetta samtal kemur. Ekki er orðlagið líkt neinu nema sjálfu sér. (Og mér – kannski.) Svona verða kjaftasögur til. Einhver sem les þetta gæti haldið að samtalið væri raunverulegt. Þarf ég alltaf að taka fram að ég sé að spinna einhvern fjárann upp. Duga gæsalappirnar ekki? Á ég að setja broskall á eftir? Það er vandlifað, ef maður má ekki búa eitthvað til, þegar maður er í þannig skapi.

Nú er held ég kominn þriðjudagur (Kosningadagur í Bandaríkjunum) og ekki útilokað að ég setji þetta á bloggið mitt fljótlega. Hingað til hafa fjölmiðlar hamast við að fjölyrða um hve tvísýnar forsetakosningarnar þar væru. Þær eru það alls ekki. Obama vinnur þetta auðveldlega og það hefur verið alveg ljóst frá því í sumar. En auðvitað verða fjölmiðlarnir að selja sig og ef skoðanakannanirnar eru nógu margar (sem þær eru í Bandaríkjunum) er alltaf hægt að finna eina og eina sem hægt er að láta stemma við hvað sem er.

IMG 1767Háskólinn í Reykjavík.


1798 - Sýklar og sóttkveikjur

Veröldin er full af ósýnilegum sóttkveikjum, sýklum og bakteríum. Barátta okkar við þennan óvíga her markar líf okkar allt. Við Íslendingar ímyndum okkur að lítið sé af þessum ósköpum hér á landinu okkar kalda og kannski á það við um veturinn. A.m.k. er minna fjör í ísskápunum okkar en víðast annars staðar. Uppeldi okkar miðast mjög við þessa illu gesti sem reyndust forfeðrum okkar svo hættulegir að meðalævin var mun styttri en gerist í dag. Sennilega gerum við okkur ekki grein fyrir því hve mikið við erum uppá það komin að aðrir hafi svipaðar hugmyndir og við um þessa ósýnilegu veröld. Matur allur þarf helst að vera sem nýlegastur þegar hans er neytt. A.m.k. varinn að einhverju leyti fyrir ófögnuði þessum. Sóttkveikjur eru misjafnar mjög. Sumar eru stórhættulegar og geta lifað lengi svífandi um í loftinu. Fuglaflensa eða svartidauði gætu hæglega ráðið niðurlögum okkar á stuttum tíma ef þessum hættulegu sýklum væri ekki haldið í skefjum með öllum mögulegum ráðum. Kannski duga þau samt ekki.

Ég veit ekki betur en ég sé í framboði hjá öllum flokkum alls staðar á landinu. A.m.k. hef ég ekki tilkynnt að ég sé hættur við neitt. Ég bið alla að hugleiða það alvarlega þegar þeir standa frammi fyrir einhverjum sem hefur bara gefið kost á sér í átjánda sæti hjá einhverjum ákeðnum stjórnmálaflokki. Aldrei mundi mér detta það í hug. Auðvitað býð ég mig fram í fyrsta sætið allsstaðar. Það er einstaklega áhættulítið að kjósa mig. Ég kemst örugglega hvergi að og get því ekki svikið neitt. Lofa samt öllu fögru.

Það er eins og við manninn mælt. Alltaf er ég í besta bloggstuðinu þegar ég er nýbúinn að senda frá mér einhverja vitleysu. Nú dettur mér allur fjárinn í hug sem vert hefði verið að minnast á. Prófkjörin eru mér samt ofarlega í huga eins og sést hér að ofan. Munið eftir mér. Smáfuglarnir sjá um sig sjálfir.

IMG 1766Passið að hundarnir sjái þetta ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband