Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

1387 - Lára Stefánsdóttir

jakkiGamla myndin.
Hér er búið að pína Bjössa greyið í einhvern alltof stóran jakka. (Ætli hann sé ekki af mér.)

Það er enginn vafi í mínum huga að í meginatriðum hefur uppbyggingin eftir hrunið hér gengið nokkuð vel. Samt hafa þeir hátt sem gagnrýna ríkisstjórnina fyrir ýmislegt. Augljóslega hefði mátt gera margt öðruvísi en gert hefur verið. Samt er það svo að lífið er óðum að færast í eðlilegt horf hér á landi. Stóra málið sem nú er unnið að er stjórnarskrármálið. Fáist það afgreitt og verði lagt fyrir þjóðina er góð von til þess að hlutirnir færist meira og minna í eðlilegt horf. Óvíst er þó hvernig næstu kosningar fara og hvenær þær verða. Áhugi fólks á stjórnmálum hefur aukist mikið og vonandi á siðferði allt eftir að lagast og spilling að minnka.

Gjaldeyrishöftin eru þó af hinu illa. Höft allskonar voru hér lengur við líði en víðast annarsstaðar eftir síðustu heimsstyrjöld og reyndust afar illa. Færa má rök að því að þau hafi spillt þjóðinni og haft lamandi áhrif á siðferði allt. Ef gjaldeyrishöftin verða lengur við líði nú en bráðnauðsynlegt er, má búast við að þau skekki allt verðmætamat almennings og hafi slæm áhrif á flestum sviðum. Frelsi með hæfilegum takmörkunum hefur reynst best hér í heimi. Kall tímans er um aukna samvinnu milli þjóða. Þessvegna er það sem fylgi við ESB fer vaxandi.

Nýlega fékk ég boð um að mæta á fund á Hilton Reykjavík Nordica. Ég velti nafninu ekki mikið fyrir mér fyrr en ég var kominn áleiðis á fundinn eftir Kringlumýrarbrautinni. Fyrst í stað var ég að hugsa um Turninn sem oft er nefndur Grand Hótel en mundi svo eftir Hótel Esju. Fór þangað og það reyndist rétt hjá mér að það hótel er búið að fá nýtt nafn eins og mörg önnur fyrirtæki og þar var fundurinn.

Í hrunkreppunni sem legið hefur eins og mara yfir landinu undanfarin misseri hafa heilmiklar framkvæmdir átt sér stað við það sem einu sinni hét Hótel Loftleiðir. Nú á að opna það fyrirbæri fljótlega og auðvitað á það að fá nýtt nafn. Hotel Natura skilst mér að það eigi að heita.

Hlustaði í morgun á útvarp (sem ég geri ekki mjög oft) og heyrði þar hluta af viðtali við Láru Stefánsdóttur skólastjóra við nýja menntaskólann á Tröllaskaga (sem er í Ólafsfirði). Man vel eftir þegar ég hitti hana fyrst. Þá stjórnaði hún reykjavíkurútibúi íslenska menntanetsins. Ég var þá einn af fáum notendum þess utan skólakerfisins. Man að Gústi (Gústav Gústavsson) fór með mér og ég var alveg hissa á því að stjórnandi menntanetsins hér fyrir sunnan skyldi vera ung og fögur stúlka. Hún hafði gott vit á öllu sem þarna fór fram og leysti með brosi á vör úr öllum spurningum okkar Gústa.

Seinna tók ég svo eins konar viðtal við hana með hjálp tölvutækninnar og birti í Rafritinu. En það er bara hluti af sagnfræði núorðið og að engu hafandi. Þó held ég að Lára muni e.t.v. eftir því.

Mér finnst talið um kanadiska dollarann í stað íslensku krónunnar svo mikill brandari að ég veit ekki hvort ég á að minnast á það hér. Ég hef nánast ekkert vit á æðri hagfræði en þeir sem leggja nafn sitt við svona vitleysu eru hugsanlega verri en ég í þeim málum. Auðvitað er hægt að taka upp hvaða mynt sem er. Hvernig bindingunni verður háttað ræður samt mestu um það hvernig til tekst. Verði hlutum þannig fyrir komið að auðveldlega sé hægt að snúa aftur til krónunnar er ekkert á móti því að prófa. Fáar myntir eru verri en krónan.

Það er oft gaman og fróðlegt að fylgjast með Eyjubloggi Jakobs Bjarnar um fréttir af fésbókinni. Annars er Eyjan að mörgu leyti að vaxa mér yfir höfuð ekki síður en fésbókin. Finn ekki bloggið þar núorðið og skil tölvumál af öllu tagi alltaf verr og verr. Er hugsanlegt að ég sé að eldast?

Fésbókin er flókin mjög,
finnst þar Lilló enginn.
En Hildur Helga er ekki rög
og heldur fast í drenginn.

IMG 5744Með húsið á bakinu.


1386 - Teitur Atlason

atlijoiGamla myndin.
Hér eru þeir Atli Stefánsson og Jóhann Ragnarsson við vörðu á einhverjum fjallstoppi. Hugsanlega er þarna um að ræða Hengilinn.

Flestir þurfa nú um stundir annaðhvort að styðja Geir Haarde eða vera á móti honum. Ég geri hvorugt. Styð þá ákvörðun alþingis að stefna honum fyrir dóm. Að fólki finnist það þurfa að kveð upp sinn dóm nú áður en réttarhöldin hefjast finnst mér fáránlegt. Sumir vilja styðja hann í baráttu sinni og hafa hátt um það. Það finnst mér í lagi en ekki skipta neinu höfuðmáli.

Dómurinn mun fjalla um mál hans og mér finnst engin ástæða til að hann geri það á þann hátt sem sakborningnum sýnist best fyrir sig. Hvort aðrir eru jafnsekir og Geir skiptir nákvæmlega engu máli. Auðvitað er það sárt fyrir Geir að missa allar sínar vegtyllur og vera saksóttur í þokkabót. Ég vorkenni honum þó ekki neitt.

Fyrir nokkrum vikum heyrði ég í útvarpi auglýsingu frá einhverju fyrirtæki þar sem mælt var með því að fólk keypti sólgleraugu hjá þessu fyrirtæki til að gefa sem útskriftar- eða fermingargjöf. Ég er ákaflega gamaldags. Man vel eftir því að eitt sinn voru armbandsúr álitin fínasta fermingargjöf. Fékk slíkt rarítet í fermingargjöf frá foreldrum mínum. En sólgleraugu? Ég held ekki. Jafnvel þó útrásarverð yrði borgað fyrir blessuð gleraugun held ég að þau mundu ekki heilla unglingana og hefðu jafnvel ekki gert það forðum daga.

Var að skoða gömul dagblöð í gærkvöldi á timarit.is og sá þar eftirfarandi klausu sem birtist í Morgunblaðinu þann 15. desember árið 1951. Hef ekki séð þetta fyrr þó vel megi halda því fram að mér komi það við.

Hjartanlegustu þakkir til ykkar allra, sem styrktuð okk-

ur með fégjöfum, fatagjöfum og annari aðhlynningu, þeg-

ar íbúðarhús okkar brann. !

Guð blessi ykkur öll.

Bjarni Sæmundsson og fjölskylda, Hveragerði.

Frétt um brunann birtist á baksíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 11. desember 1951. Þar er pabbi að vísu kallaður Þorleifur en að öðru leyti er fréttin mestmegis rétt.

Samkvæmt fréttum hefur Gunnlaugur M. Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs formanns framsóknarflokksins stefnt Teiti Atlasyni fyrir meiðyrði. Teitur telur Gunnlaug hafa nýtt sér aðstöðu sína til að krækja í hagstæðan samning við varnarliðið og kaupa fyrirtækið Kögun fyrir lítið verð. Þetta hefur lengi verið altalað en ekki verið sannað mér vitanlega. Teitur mun ekki hafa viljað semja um málið og verður væntanlega stefnt fyrir dóm í haust. Frægð mun hann eflaust hljóta í bloggheimum fyrir vikið en hugsanlega verða að gjalda hana dýru verði. Ég man ekki eftir að hafa lesið bloggfærslu Teits um þetta mál, en oft hef ég lesið það sem hann skrifar, því hann skrifar skemmtilega og er ekkert að skafa utanaf hlutunum.

IMG 5723Tilvonandi jólatré?


1385 - Geir Haarde

vignirGamla myndin.
Þessi mynd er af Vigni bróðir. Hann er líklega um 14 ára þarna. Kannski er þetta einhverskonar fermingarmynd.

Geir Haarde heldur því fram að réttarhöldin sem eru að hefjast yfir honum séu pólitísk og Stalínísk. Því er ég ekki sammála. Málatilbúnaðurinn er byggður á rannsóknarskýrslu alþingis sem almennt hefur verið talin vönduð. Landsdómur er þannig skipaður að ekki á að vera hætta á að ríkjandi stjórnvöld hafi úrslitaárhrif á hann. Úrslit mála fyrir Landsdóminum koma þó áreiðanlega til með að hafa stjórnmálaleg áhrif.

Friðrik Þór Guðmundsson hefur fjallað ágætlega um þetta mál allt saman á eyjubloggi sínu á http://blog.eyjan.is/lillo/2011/06/07/politisk-rettarhold-ad-haetti-stalins/ Ég hef litlu við það að bæta. Þetta mál alltsaman getur þó orðið mikið hitamál á næstunni. Það er líka nokkuð óljóst hvernig og hvenær alþingi lýkur. Mér sýnist að ríkisstjórnin sé að linast í kvótamálum en styrkjast í ESB-málum.

Fyrir allmörgum árum eða áratugum fór ég í sólarlandaferð til Mallorka. Þetta hafa fleiri gert og ég ætla ekki að fara að rekja þá ferðasögu. Minnist þess samt að hafa lesið í blaði sem þar var gefið út að undangenginn mánuð hefði ferðamannafjöldi sá sem til Mallorka kom í þeim mánuði í fyrsta skipti farið yfir milljón. Því minnist ég á þetta að nú heyrist mér að Íslensk ferðamálayfirvöld séu farin að gæla við þá hugmynd að ferðamenn sem koma til landsins koma verði á þessu ári yfir 600 þúsund. Ég er ekki að bera þessar tölur saman til að gera lítið úr ferðamannstraumi til Íslands, heldur til að benda á í hvaða samhengi við aðra ferðamennsku íslenskir aðilar starfa.

Gúgli segir (og Jónas líka) að frétt sé á RUV.IS með fyrirsögninni „Glæpsamlegt að loka Ekron.“ Mig langaði að lesa þessa frétt en hún var horfin í kvöld um níuleytið. Vonandi er bara verið að lagfæra hana lítilsháttar, en hvernig á ég að vita það? Á ég bara að trúa því sem Jónas Kristjánsson segir um það? RUV virðist ætlast til þess.

Harpa Hreinsdóttir segir í fésbókarfærslu að ekki megi vitna í lokaðar slíkar færslur (eða þannig skil ég hana). Ég tek mikið mark á Hörpu og hef lært heilmikið af henni (vonandi). Sjálfur vitna ég þó beint í það sem mér sýnist (eini mælikvarðinn sem ég hef er hvort ctrl-c virkar eða ekki) og sé ekki einu sinni á fésbókarfærslum hvort þær eru opnar eða lokaðar. Svo er líka um að ræða beinar eða óbeinar tilvitnanir og þannig má lengi flækja málin.

Borgarnesmyndir mínar frá því í gær hafa vakið nokkra athygli en ekki eins mikla og ég hafði búist við. Við því er ekkert að gera. Ég er viss um að filmurnar sem Borgarblaðinu tilheyrðu og voru hjá mér í nokkurn tíma munu skila sér til Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar og þó ekki þekkist allir á myndunum þegar til þeirra á að taka gerir það lítið til.

IMG 5730Borgarspítalinn. Mér dettur ekki í hug að kalla þessa byggingu Landsspítala – háskólasjúkrahús.


1384 - Borgarnes

Scan386Scan488Scan509Scan574Scan579Scan577Scan592Scan611Scan628Scan649Scan660Gamlar myndir.
Mér gengur ekkert að koma frá mér gömlum myndum. Hér eru einar ellefu Borgarnesmyndir sem ekki eru mjög gamlar. Nánari grein er gerð fyrir þeim í næstu málsgrein.

Fyrir nokkru sendi ég Ásþóri Ragnarssyni í Borgarnesi möppu með filmum sem orðið höfðu innlyksa hjá mér þegar Borgarblaðið lagði upp laupana um 1986. Hann ætlaði að koma filmunum, sem voru þónokkuð margar til Skjalasafns Borgarness og er annaðhvort búinn að því eða gerir það fljótlega. Núna áðan fann ég hjá mér nokkrar Borgarblaðsmyndir sem búið hafði verið að skanna. Ellefu af þeim eru hér fyrir ofan. Vel getur verið að einhverjir sem þetta blogg sjá þekki ýmsa á þessum myndum. Gott væri uppá framtíðina að upplýsingum um það væri annað hvort komið til mín eða Skjalasafnsins í Borgarnesi. Á mörgum myndanna úr filmusafni Borgarblaðsins væri áreiðanlega ástæða til að koma til skila upplýsingum um af hverjum þær eru.

Hafa bloggarar áhrif? Já, þeir hafa áhrif. En fyrst og fremst hafa þeir áhrif á fjölmiðlana með því að gefa þeim sem skrifa fyrir þá hugmyndir til að vinna úr. Fyrir tilstilli þeirra hefur umræða um ýmis málefni orðið opnari og skilvirkari en hún var oftast áður. Sumir bloggarar eru svo vinsælir að þeir hafa bein áhrif, en þeir eru ekki margir. Það er greinilega orðið meðal mikilvægustu starfa hvers blaða- og fréttamanns að skanna helstu blogg og vera fljótur að því.

Það er annars einn helsti ljóður á íslensku fjölmiðlafólki, fyrir utan hvað það er oft illa að sér um suma hluti, hvað það er fljótt að öllu. Kröfurnar eru miklar sem gerðar eru til þess. Stundum rís það ekki undir þeim og fljótfærnin verður að fótakefli.

Í dag er ég á milli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Björns Bjarnasonar á vinsældalista Moggabloggsins og kann ágætlega við það.

100kr 0002Einu sinni var

prestur, sem gaf til baka,

næturvörður, sem vakti,

þegar hann átti að vaka,

og lögregla, sem var til taks,

þegar til átti að taka.

 

Einu sinni var

fagmaður, sem vildi enga eftirvinnu vinna

og sagði, að kaup sitt mætti vera minna.

 

Einu sinni var

stjórnmálamaður, sem sagði satt,

og abstraktmálari, sem fór flatt;

hann kallaði mynd sína: „Maður með hatt",

og myndin var af manni með hatt.

 

Einu sinni var

hundraðkallinn rauður

eignalaus maður snauður,

og dauður maður dauður...

Þetta fann ég á tímarit.is. Benedikt Axelsson hefur einhverntíma sent þetta til Dagblaðsins Vísis og þar hefur það verið birt. Ekki held ég að Benedikt hafi samið þetta, en vísurnar eru góðar og til að minna á þær er mynd fyrir ofan þær af hundraðkalli sem er að vísu blár. Ástæðan er sú að ég man ekki eftir rauðum hundraðkalli, en þeim bláa man ég vel eftir og fimmhundruðkallinum sem var brúnn og jafnstór hundraðkallinum. Aðrir seðlar voru minni, bæði pappírslega og verðmætislega séð.

Á sama hátt og vinstri menn óttast að Hrunið skelli á okkur aftur með endurnýjuðum krafti verði hægri mönnum afhentir stjórnartaumarnir að nýju, óttast hægri menn að verið sé að færa þjóðfélagið smátt og smátt í áttina til algerrar forsjárhyggju. Hvorttveggja er tóm vitleysa. Það er miðjumoðið sem bjargar okkur og er eina von okkar. Öfgastefnur bæði til hægri og vinstri er auðvelt að færa í sannfærandi búning með fögrum orðum og hæfilegum ýkjum, en sannleikurinn er sá að almenningur er betur gefinn en svo að hann gangi slíkum stefnum á hönd.

IMG 5710Grilligrill.


1383 - Pólitík

yfiraGamla myndin.
Hér sýnist mér Atli Stefánsson vera að hjálpa Ingvari Christiansen yfir á (sennilega Varmá) Líklega er myndin tekin árið 1959.

Sjálfstæðismenn spyrja sig hvernig í ósköpunum það megi vera að þeir bæti ekki við sig fylgi þó kjöraðstæður ættu að vera til þess. Svarið er nokkuð einfalt. Þó ríkisstjórnin sé rúin trausti, jafnvel umfram það sem venjulegt er, þá er ekki þar með sagt að fólk fari skyndilega að trúa og treysta Sjálfstæðisflokknum eftir það sem á undan er gengið. Margir bíða eflaust með stuðning sinn í von um að eitthvað annað og betra komi fram. Í síðustu kosningum var það Borgarahreyfingin sem margir bundu vonir sínar við, en mér finnst hún hafa brugðist að miklu leyti.

Framsóknarflokkurinn hefur líka brugðist þó þar sé e.t.v. innanborðs fólk sem hægt væri að treysta til góðra hluta. Vinstri grænir virðast vera sjálfum sér svo sundurþykkir að stuðningur þess flokks við ríkisstjórnina getur brugðist hvenær sem er. Hjá Samfylkingunni virðist kattasmölunin hinsvegar ganga nokkuð vel. Þungt er þó fyrir fæti varðandi ESB stuðninginn og það mál getur allt farið í vaskinn. E.t.v. verður Jóhanna að velja milli ESB og kvótans. Svo er flokkurinn forystulaus eða verður það bráðlega. Imbu dreymir eflaust um að koma aftur en það tekst nú varla. Hún er ímynd Hrunsins ásamt Geir Haarde í hugum margra.

Allir eru nú æfir útí fjármálafyrirtækið Arctica Finanace og er það að vonum. Ef allt er satt sem skrifað er og sagt um það fyrirtæki á það sér ekki viðreisnar von. Mér finnst að ríkisstjórnin þurfi einhvern vegin að bregðast við þeirri gagnrýni sem undanfarið hefur beinst að sérgæðingshætti slitastjórna bankanna.

Þetta blogg virðist vera pólitískara en vaninn er hjá mér. Ég get ekki að því gert en sannleikurinn er sá að margt annað gerist í veröldinni. Sem betur fer. Myndasafni einu miklu og merkilegu er Bjössi bróðir minn búinn að koma upp á netinu (og enn meira á hann heima). Linkur þangað er hér til hliðar á blogginu mínu og kalla ég hann „Myndir frá Bjössa“. Auðvitað get ég líka skrifað linkinn hérna: http://blafell.123.is/ Þar er einkum að finna myndir frá Hveragerði, en líka ýmislegt annað. Hvergerðingar flestir vita að sjálfsögðu af þessum vef og fá myndir frá Hveragerði hjá Bjössa ef þá vantar slíkt.

IMG 5708Lúpína (held ég).


1382 - Ómöguleg vefsíða

badGamla myndin.
Hér er Bjössi í baði. Stóllinn á bak við balann er greinilega hið mesta þing.

Örlítið meira um tóbaksnautnina, en um hana skrifaði ég eitthvað í gær. Bjarni Harðarson kallar það „taumlausan hroka“ að berjast gegn tóbaksnotkun. Séra Baldur Kristjánsson segir á eyjubloggi sínu: „Ef Guð lofar mun tóbak syngja sitt síðasta með Bjarna Harðarsyni og kynslóð hans en gáfaði bóksalinn á Selfossi hefur verið manna iðnastur við að hjúpa þjóðlegri rómantískri hulu yfir eitrið sem drepur Íslendinga í stórum stíl bæði þá sem reykja og þá sem ekki reykja.“

Já, menn verða gjarnan dálítið æstir þegar tóbakið er annarsvegar. Sjálfur vil ég gjarnan standa utan við svona þrætur, enda hættur að reykja. Forsjárhyggja er þetta samt og oftast ber að varast hana.

Nú er það allt í einu orðin hin mesta ósvinna að opna vefsíðu. T.d. skrifaði Eiður Guðnason á sína fésbók að það væri meiriháttar mistök hjá saksóknara alþingis að opna vefsíðu um landsdóminn. Ég vogaði mér að spyrja Eið á fésbókarsíðunni af hverju það væri. Svar hans var þannig: „Ofan á allt annað þá á ekki að reka þetta mál á netinu.“ Semsagt, af því bara.

Það getur vel verið að umdeilanlegt sé að ákæra Geir Haarde einan en ekki félaga hans úr ríkisstjórninni. Hann var samt forsætisráðherra og átti að bera meiri ábyrgð en hinir. Þeir sem eru ósáttir við ákærunan á Geir ættu að hætta að gagnrýna allt sem snertir þetta mál. Það eyðileggur bara fyrir þeim að láta svona.

Það er engin ósvinna að hafa réttarhaldið yfir Geir sem mest opið. Kalli menn það meiriháttar mistök ætti að vera hægt að rökstyðja það eitthvað. Meiriháttar mistök er ekki hægt að kalla það að setja á netið þau skjöl sem allir mega sjá. Fjölmiðlamaðurinn fyrrverandi Eiður Guðnason ætti að geta skilið það. Það eru misheppnaðir fjölmiðlar og óþarfa leyndarhyggja sem bera talsverða sök á því ástandi sem hér skapaðist fyrir Hrunið.

Harpa Hreinsdóttir hefur gagnrýnt ótæpilega Sögu Akraness, sem nýkomin er út að hluta. Bækur þessar eru umfjöllunarefni ýmissa fjölmiðla og m.a. ríkisútvarpsins. Þar er því haldið fram fullum fetum af bæjarstjórnarmanni að gagnrýni Hörpu skipti engu máli. Satt að segja hefur þessi ritun verið gagnrýnd af mörgum. Hefur staðið yfir lengi og kostað mikið fé. Nú er því einnig haldið fram að illa hafi verið að verki staðið við heimildavinnu og þess háttar. Ég sé ekki betur en gagnrýni manna á þetta verk fari bráðum að skipta máli hvað sem fulltrúar bæjarstjórnarinnar segja.

IMG 5707Hallgrímskirkja, Háskólinn í Reykjavík, Nauthólsvík og Perlan.


1381 LÍÚ

bangsiGamla myndin
Hér er Bjössi með gríðarstóran bangsa.

Auðvitað eru allir þrælar sem vinna fyrir aðra. Launin eru mishá og kalla má þá mikla þræla sem lægst hafa launin. Þar sem lífskjör eru hvað best eins og hér á Vesturlöndum gera launin langoftast nokkru betur en að duga fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Það er ekki þar með sagt að við eigum að sætta okkur við hvað sem er.

Við eigum heldur ekki að láta hræða okkur til að samþykkja allt sem sagt er. En það er einmitt það sem LÍÚ-menn eru að reyna að gera. Það er ekki nóg með að þeir telji fjölda manns trú um að íslenska krónan sé úrvalsgjaldmiðill (þá er nefnilega svo auðvelt að lækka launin) heldur hefur þeim einnig tekist að sannfæra suma um að aðrir kunni ekki að græða á útgerð en þeir sem það hafa gert á umliðnum áratugum. Með skelfilegum afleiðingum satt að segja.

Í tóbaksumræðunni vil ég helst vera hlutlaus. Það er verið að ýta tóbakinu út og það á að gera það að sem mestu leyti æsingalaust, en það gerist ekki sjálfkrafa. Einhverjum mun mislíka allt sem gert er. Það er auðvitað tvískinnungur að leyfa (og jafnvel upphefja) sum eiturlyf en banna og berjast með öllum ráðum gegn öðrum. Menning þjóða ræður hvernig þessum málum er hagað og ólíklegt að allir verði sammála.

IMG 5702Járnarusl.


1380 - Turing test

divanGamla myndin.
Hér er Bjössi sitjandi á dívan inni í stofu. Eiginlega er myndin ekki síður einskonar handavinnusýning en mynd af Bjössa.

Kannski eru þeir fáir sem skilja til fulls æðri fjármál. Kannski er ekki æskilegt að þau séu skilin. Þeir sem skilja þau nokkurnvegin eiga kannski erfitt með að útskýra þau fyrir öðrum. Þarna er ég búinn að hrúga þremur kannski-um saman en skil ekki almennilega sjálfur hvað ég er að tala um. Kannski er best að tala um eitthvað annað. Sko, eitt kannski ennþá.

Það er ýmislegt sem ég skil ekki fyllilega. T.d. var Vilhjálmur Þorsteinsson að vísa í einhverja grein um Turing test á fésbókinni í gærkvöldi. Ég las þá grein en skildi hana ekki til fulls. Turing test og AI-box eru þó merkileg fyrirbæri. Minnir að Atli Harðarson hafi skrifað um Turing test í heimspekilega grein sem hann skrifaði eitt sinn í Rafritið. Gervigreind er rannsóknarefni sem ég hef áhuga á.

Linkarnir sem ég hef notað til að fræðast um þessi mál núna eru http://longbets.org/1/ og http://yudkowsky.net/singularity/aibox . (Ég er að gera tilraun til að setja þá inn með nýjum hætti svo kannski virka þeir ekki.)

Davíð segir nú um stundir (finnst mér): „Ég vildi bara vera góður við hann Bush þó Sameinuðu Þjóðirnar hafi lítið viljað með hann hafa. Það er allt annað núna. Sprengjunum rignir yfir Trípóli í nafni NATO og Jóhönnu eftir að búið er að snúa nægilega útúr því sem Rússar og Kínverjar álpuðust til að samþykkja í Öryggisráðinu“.

IMG 5579Hola.


1379 - NATO og Gaddafi

hansGamla myndin.
Hér er það Hans Gústafsson sem er að súpa á einhverju sér til hressingar. Myndin er úr sólbaðsseríunni sem tekin var uppá Reykjum í fyrndinni.

Nú er ég alveg orðinn fastur í því að setja eina gamla mynd og eina nýlega á bloggið mitt á hverjum degi og blogga svo smá líka. Einnig finnst mér kannski ástæða til að skrifa eitthvað um myndirnar. Flest sem ég skrifa finnst mér afar merkilegt. A.m.k. meðan ég er að skrifa það.

Þeir sem lifa og hrærast í pólitík og hafa hátt í opinberri umræðu, eru nú sem óðast að skipta yfir í tóbak og önnur eiturlyf. Nenna semsagt ekki lengur að tala bara um hrunið, og hvað hefði átt að gera ef eitthvað hefði verið svona og svona. Það er hvorki margt né merkilegt sem ég hef til málanna að leggja á eiturlyfjasviðinu. Finnst afstaða almennings til sumra eiturlyfja vera að mildast en afstaða lögreglu og opinberra aðila að harðna. Þessi mál ásamt innflytjendamálum munu taka við af hrunmálum smám saman sem mál málanna. Það eru fjölmiðlarnir og hugur þeirra sem þar starfa sem ræður talsverðu um það hvað hæst ber í umræðunni hverju sinni.

Eitthvað virðist óljóst með stefnu flokkanna hér á Íslandi í hinum ýmsu utanríkismálum. Kannski er stefnan bara að breytast og ég fylgist svona illa með. T.d. veit ég ekki með vissu hverjir styðja Gaddafi og hverjir uppreisnarmenn í Líbýu. Nú eða aðild að NATO ætti ég kannski frekar að segja. Sömuleiðis virðist afstaðan til ESB ekki öllum ljós. Nú er Ásmundur Einar genginn í Framsóknarflokkinn vegna þess að hann er víst forystuflokkurinn gegn aðild að ESB. Mig minnir að Bjarni Harðarson fyrrverandi framsóknarþingmaður hafi skorað á aðra að kjósa vinstri græna í síðustu kosningum því þar væri forystan við andstöðuna gegn ESB.

Enginn vill taka ábyrgð á bönkunum. Hvorki ráðherra né bankasýslan segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins (nýja). Skyldu bankastjórarnir kannski bera einhverja ábyrgð?

Hafi eitthvað verið rangt gert varðandi sölu bankanna til kröfuhafa er það allt fjármálaeftirlitinu að kenna og kemur ríkisstjórninni ekkert við, sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Þetta fannst mér hann meina en kannski hefur það verið eitthvað allt annað. Já, hún er hálfleiðinleg pólitíkin og hvað rekur sig á annars horn.

Skýrt er frá því á mbl.is að 18 ára stúlka hafi kvartað undan því við Persónuvernd að móðir hennar hafi opnað bréf til hennar o.s.frv. Frá mbl.is er linkað í bréf frá Persónuvernd um málið. Mér þótti þetta athyglisvert og las bréfið frá Persónuvernd. Þar vakti það sérstaka athygli mína að í bréfinu er Facebook kölluð fésbók. Er þetta orð þar með búið að sigra?

IMG 5566Illa farið tré.


1378 - Bloggarar

reykirGamla myndin.
Enn ein sólbaðsmyndin. Veit ekki hverjir þetta eru.

Eitt er það sem bloggið hefur fram yfir fésbókina. Mér dettur stundum í hug að leita í gömlum bloggum og geri það jafnvel. (Aðallega mínum eigin samt.) Aldrei hef ég heyrt um neinn sem lætur sér detta í hug að leita í gömlum fésbókarinnleggjum. En þó ég sé duglegur að finna að ýmsu á fésbókinni get ég samt ekki án hennar verið. Hún er m.a. ansi góð til að benda á ýmislegt. En ég get ekki að því gert að mér finnst hún ofnotuð af mörgum.

Eiginlega er mest gaman að blogga um aðra bloggara. Eins og t.d. um hann Gísla Ásgeirsson og kaldhæðnina, kattasönginn og yrkingarnar hjá honum. Jens Guð er líka skemmtilegur. Bloggið hennar Hörpu Hreins les ég næstum alltaf og er yfirleitt mjög sammála henni og hef eflaust lært heilmikið af henni líka. Ómar Ragnarsson er sömuleiðis einn af mínum uppáhaldsbloggurum.

Gallinn við að skrifa of mikið um aðra bloggara er auðvitað að þeir gætu fundið uppá því að skrifa um mig í staðinn og ekki er víst að það yrði mjög fallegt. Svo er líka alltaf sú hætta fyrir hendi að maður gleymi einhverjum sem hefði verið ástæða til að minnast á. Í svipinn man ég t.d. eftir Sigurði Þór Guðjónssyni og reyndar mörgum fleiri. Svosem Svani Gísla Þorkelssyni, Sigurði Hreiðar og Gunnari Th.

Jú og auðvitað má ekki gleyma Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni. Hann er uppáhaldsóvinur minn í bloggheimum og ég les bloggið hans alltof sjaldan. Hann er duglegur við að safna myndum og birta þær. Breytir þeim stundum svolítið eða kannski gera aðrir það. Það er heldur ekki alltaf alveg að marka það sem hann skrifar. Þeir sem lesa hann eiga auðvitað alltaf að gera ráð fyrir að ekki sé allt sannleikanum samkvæmt sem hann segir. Gallinn er bara sá að ekki hugsa allir nógu líkt og hann. Skilja jafnvel ekki hvenær hann er að gera að gamni sínu og hvenær ekki. Upphaflega sinnaðist okkur svolítið útaf Bobby Fischer ef ég man rétt.

Of sterkar pólitískar skoðanir og að geta ekki bloggað um neitt annað en Hrunið og slíkt líkar mér illa. Fyrir mér er bloggið nánast bókmenntagrein. Kannski er ástæðan fyrir þvi hve óvinsælt það er orðið að margir nenna ekki að vanda sig neitt og mega auðvitað ekki vera að því heldur.

Hjá mér er bloggið eins konar samansafn af kommentum. Það er í of mikið lagt að gera hvert og eitt efni að sjálfstæðu bloggi. Stundum hætti ég líka við að hafa það í blogginu sem ég upphaflega ætlaði mér. Lagfæri og breyti líka stundum því sem ég hef áður skrifað. Mér finnst ágætt að hafa umhugsunartíma. Ég hugsa líka orðið svo hægt að bloggið batnar áreiðanlega við þetta.

Auðvitað gæti ég líka haft blogggreinarnar mínar fyrir komment einhversstaðar. En það finnst mér vera sóun. Ef maður er seinn fyrir með greinina (athugasemdina) hefur maður enga hugmynd um hve margir lesa hana fyrir utan bloggeigandann. Ég gef mér að hann lesi oftast athugasemdir. Nei, best er að blogga sjálfur því þá er maður engum háður. Mér finnst ég allavega ekki vera háður Davíð Moggaritstjóra.

IMG 5560Farið í burtu!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband